Húrra fyrir 10-11

Húrra fyrir 10-11. Loksins verslun, sem er opin allan sólarhringinn. Núna gæti ég t.d. farið og keypt mér mjólk eftir vinnu. Mig vantar reyndar ekki mjólk en ég gæti samt keypt mjólk. Það finnst mér gaman.

Ég held þó ekki að það þurfi að breyta nafninu, t.d. heitir 7-eleven, ennþá sama nafni, þótt þær búðir séu opnar allan sólarhringinn.

Enska

Ég sá athyglisverða frétt á Stöð 2 í síðustu viku. Þar var rekstrarstjóri McDonald’s að kvarta yfir því að erfitt væri að fá starfsfólk til vinnu. Þeir þyrftu því að grípa til þess ráðs að ráða enskumælandi starfsfólk á vissar vaktir. Oft væri ástandið meira að segja svo slæmt að aðeins einn íslenskumælandi starfsmaður er á vakt.

Mér finnst það þónokkuð athyglisvert að þeir geti ráðið útlendinga, sem tala ensku á staðinn. Þetta er nokkuð, sem þeim hjá McDonald’s í Bandaríkjunum gengur erfiðlega með. Ég bý á veturna í Chicago, þar sem höfuðstöðvar McDonald’s eru, og ég held að ég hafi aldrei farið á McDonald’s, þar sem ég heyri ensku talaða í eldhúsinu. Á nær öllum stöðum er töluð spænska og eiga starfsmennirnir oft mjög erfitt að skilja það þegar ég bið um lítið majones á Big Extra hamborgarann minn. Kannski ættum við að byrja að flytja út enskumælandi McDonald’s starfsmenn?

Ég horfði á Kastljós í

Ég horfði á Kastljós í gær og var þátturinn mjög áhugaverður. Þar voru Arnþór Helgason og Björgvin G. að þræta um heimsókn Li Peng. Ég hef séð Arnþór halda ræður nokkrum sinnum, aðallega í tengslum við mótmæli á viðskiptabanninu við Írak. Þar hefur hann talað fyrir mannréttindum og á móti harðstjórum. Ég var nokkuð hrifinn af ræðum hans og taldi hann vissulega vera mikinn mannúðarsinna.

Það er skemmst frá því að segja að skoðun mín breyttist í gær. Þá rann upp fyrir mér að hann, eins og alltof margir, eru aðeins mannúðarsinnar þegar viss lönd eiga í hlut. Hann mótmælir þegar menn eru teknir af lífi í Bandaríkjunum en reynir að gera lítið úr því þegar mótmælendur eru teknir af lífi í Kína. Það er augljóst að hann er ekki á móti mannréttindabrotum, heldur er hann einungis á móti Bandaríkjunum og öðrum áhrifamiklum þjóðum í hinum vestræna heimi.

Ég sé þetta því miður alltof oft. Bæði vinstri- og hægrimenn gera sig sekir um þetta. Vinstri menn eru fljótir að mótmæla þegar Bandaríkjamenn ráðast inní önnur lönd, en gleyma svo því þegar þjóðir einsog Kúba og Kína fara illa með þegna sína.

Hægri menn eru lítið skárri. Þeir mótmæla harðlega þegar menn einsog Castro eða Li Peng fremja illvirki en eiga það svo til að fyrirgefa mönnum mannréttindabrot þegar hinir sömu menn aðhyllast markaðsstefnu.

Genni og Aurel

Genni vinur minn er núna að byrja nám við LSU, sem er skólinn sem Shaquille O’Neal var í. Þar komst hann að því hvað heimurinn er ótrúlega lítill. Málið var að hann gisti í nokkra daga hjá rúmenskum hjónum. Þegar hann fór svo að tala við kallinn, þá komst hann að því að hann kenndi við Northwestern, sem er minn skóli.

Genni spurði þá hvort hann þekkti einhvern Íslending, og þá komst hann að því að þetta var Aurel Stan, sem var einmitt stærfræðikennarinn minn. Þessi kennari er einmitt alger snillingur. Hann kallar mig alltaf Mr. Einarsson og er alveg ótrúlega skemmtilegur kennari.

Moby

Jæja, búinn að fá tvo miða á Moby. Hann spilar í Aragon í Chicago 6. október. Ég fór í þennan sal að sjá Smashing Pumpkins og er þetta flottur salur. Ticketmaster reyndist mér ágætlega í þetta skiptið. Ég er búinn að liggja á Refresh takkanum í 5 mínútur og það dugði til að ná miðum. Vei vei!!