36 vikur

Í dag er 17.apríl.  Ef að allt gengur vel munum við Margrét á næstu dögum eða vikum eignast son.

Ég er orðinn 34 ára gamall.  Hérna í Stokkhólmi þykir það ekki hár aldur til að vera barnlaus, en á Íslandi er það svo að flestir jafngamlir vinir mínir eiga að minnsta kosti eitt barn.  Pabbi átti þrjú börn á sama aldri og bróðir minn líka.  Þegar ég skoða fólk sem eru kunningjar mínir frá því í barna- eða framhaldsskóla þá finnst mér stundum einsog það fólk sé 10 árum eldri en ég.  Fjölskyldufólk með börn í skóla, sem sækir krakka í fiðlutíma og á fótboltaæfingar.

Lengi vel þótti mér það líf ekki spennandi.  Ég var jú á lausu þangað til að ég varð 31 árs gamall.  Á stundum dreymdi mig um aðeins meiri stöðugleika í mínu lífi með góðri konu, en ég naut þess líka að vera single.  Ég naut þess að ferðast um heiminn, ég setti af stað fyrirtæki og vann tvær vinnur á löngu tímabili.  Ég gerði það sem mér fannst ég þurfa að gera áður en ég var tilbúinn til þess að róast aðeins.

Svo breytist maður, eldist og allt það og einn daginn finnst manni allt í einu spennandi að eignast börn og stofna fjölskyldu.  Ég hef alltaf vitað að mig langaði að eignast börn, en það var alltaf eitthvað sem ég sá fyrir mér í einhverri óskilgreindri framtíð.  Svo bara smám saman varð þessi framtíð að veruleika.  Og ég var búinn að finna hina fullkomnu stelpu til að giftast og stofna fjölskyldu með.  Þannig að þetta passaði.

* * *

Margrét er núna gengin aðeins yfir 36 vikur og þetta óléttutímabil hefur verið gott.  Einsog ég bjóst við þá er maður sem karlmaður auðvitað í öðru sæti á þessu tímabili.  Það er jú konan sem gengur með þetta barn og það verður engin breyting á mínum líkama.  Þannig að ég hef lítið geta gert nema að reyna að hjálpa eins mikið og ég hef getað.  Elda oftar, þrífa meira og svo framvegis.  Verkefnunum er vanalega nokkuð jafnt skipt á okkar heimili, en ég hef reynt að taka yfir stærri hluta af verkefnunum en ég geri vanalega.  Og maður reynir að vera extra tillitsamur, því verkefninu er jú fáránlega misskipt.  Við ákváðum saman að eignast þetta barn og líf mitt hefur haldið áfram einsog vanalega síðustu mánuði á meðan að Margrét hefur ekki farið í crossfit í 4 mánuði og á tímabili mátti hún ekki fara útúr húsi og lá uppí sófa mestallan daginn.

Því er það besta sem maður getur gert bara að vera til staðar.  Mæta í alla tíma sem maður er boðaður í án þess að spyrja – jafnvel þótt það þýði fæðingarnámskeið á nákvæmlega sama tíma og Liverpool mætir Everton í úrslitum FA bikarsins.  Miðað við þær fórnir sem að maki manns færir þá er það ekki merkilegt.

En það er samt ekki hægt að komast framhjá því að líkt og með öðru í óléttunni, þá erum við karlar bara í áhorfendasæti.  Það er jú gaman að finna fyrir sparkinu á maganum á Margréti, en Margrét er hins vegar að upplifa það að það er einstaklingur inní maganum á henni!!!  Mér finnst það magnað þegar að ég verð svangur og eitthvað loft hreyfist til í maganum á mér.  Mér fannst líka einu sinni magnað að kaupa svona nammi sem að sprakk í munninum á manni.  Hvernig tilfinning er það þá að hafa lífveru inní maganum á sér, sem hreyfir sig allan daginn? Það hlýtur að vera alveg stjarnfræðilega furðulegt og því varla undarlegt að stelpur verðu mun uppteknari af óléttunni og séu á óléttutímanum búnar að bindast barninu sterkari böndum en við karlar.

* * *

Ég hef hugsað mikið um það undanfarna mánuði hvernig ég var alinn upp og hvernig samband mitt við foreldra mína var.  Sumir hlutir breytast bara af því að við erum af annarri kynslóð.  Ég held einhvern veginn að uppeldi okkar Margrétar verði allt öðruvísi en mitt uppeldi var.  Ekki af því að mér finnist foreldrar mínir hafa gert neitt vitlaust, heldur eru bara breyttir tímar.  Og ég hef áttað mig á þeim hlutum sem mér langar að hafa öðruvísi í sambandi mínu við minn son.

Hvernig sem hann verður, þá vonandi tekst okkur vel upp.  Vonandi gerum við ekki of mörg mistök og vonandi verða mistökin okkar ekki of alvarleg svo að við getum ekki bætt úr þeim.

Ég veit allavegana að ég hef aldrei á ævinni verið jafn spenntur fyrir neinu verkefni og þessu.

Veitingastaðir í Stokkhólmi

Ég hef lengi ætlað að setja saman lista um uppáhalds veitingastaðina mína í Stokkhólmi.  Ég og Margrét höfum borðað gríðarlega oft úti eftir að við fluttum hingað.  Við erum bæði miklir áhugamenn um mat og okkur þykir fátt skemmtilegra en að borða á nýjum og spennandi veitingastöðum.  Núna er þessi listi loksins kominn á netið hjá mér – og það er hægt að nálgast þessa síðu sem tengil í hausnum á þessu bloggi.

Stokkhólmur býður uppá ótrúlega mikið af frábærum veitingastöðum.  Það eru margir gallar við framboðið af stöðum (svo sem slæmt úrval af ódýrum stöðum, pizzum og asískum) en á mörgum sviðum er Stokkhólmur alveg frábær veitingastaðaborg.

Ég setti saman listann yfir okkar uppáhalds staði eftir flokkum.  Þarna eru bara staðir, sem ég myndi mæla með fyrir mína vini.  Allt frá ódýrum hádegisstöðum yfir í 2ja stjörnu Michelin staði.

Fyrir fólk, sem er að skipuleggja ferðalag til Stokkhólms þá mæli ég klárlega með að skoða þennan lista og plana fyrirfram á hvaða veitingastöðum er borðað því það þarf að panta borð á öllum bestu stöðunum.  Ef að fólk sleppir því að skipuleggja, þá endar það oftast á einhverjum hroðalegum túristagildrum á Gamla Stan, sem ég myndi ekki mæla með fyrir mína verstu óvini.

Assad áróður í Sýrlandi

Fyrir nærri því fjórum árum ferðaðist ég um Mið-Austurlönd og þar á meðal um Sýrland. Ég elskaði Sýrland. Fólkið var algjörlega frábært, maturinn var himneskur og landið býður uppá ótal marga merkilega túristastaði. Ég eyddi meðal annars tæpri viku í Damaskus, sem mér fannst frábær borg. Labbaði á hverjum degi um markaðinn í borginu og sat og naut veðursins inní Umayaad moskunni mögnuðu.

Sýrlendingar eru líka yndislegt fólk heim að sækja. Það voru afskaplega fáir túristar í landinu þannig að oft var komið upp að manni út á götu og fólk byrjaði að tala við mig að fyrra bragði. Það eina, sem pirraði mig við Sýrlendinga var að Ísraelum var kennt um öllum heimsins vandamálum.

Það var líka nokkuð ljóst að maður mátti ekki tala um stjórnmál við Sýrlendinga. Ef að umræðan var flóknari en “Ísraelar gerðu þetta” eða “Þetta er síónistunum að kenna” þá bökkuð Sýrlendingar útúr umræðunni. Enginn vildi tala um Assad eða stjórnmál. Landið var líka frekar lokað og engar vestrænar vörur voru til þar. Það gerir upplifun ferðamannsins ekki minna spennandi, en ég var þó ansi illa haldinn af kaffiskorti í landinu þar sem ég átti erfitt með að finna Nescafé og kaffið sem var boðið uppá var svo hroðalega vont.

Allavegana, þegar ég var að fara í gegnum iPhoto myndir í morgun þá gat iPhoto ekki greint mun á mér og Bashar Assad þegar að forritið var að bera kennsl á andlit á myndum. Alls staðar í Sýrlandi var að finna áróðursmyndir af Assad. Hérna eru nokkrar þær, sem ég tók árið 2008.

Mynd af Assad

Assad áróður

Assad áróður

Og sennilega besta myndin var af þesu magnaða skilti, sem ég tók mynd af útí miðri eyðimörkinni hjá Palmyra

Bashar al-Assad er vinur þinn

Ef einhverjir hafa áhuga á að lesa um Sýrland sem ferðamannaland og skoða myndir frá landinu, þá get ég bent á ferðabloggið mitt og myndir á Flickr.

Confessions of an Ivy League Frat Boy: Inside Dartmouth’s Hazing Abuses | Culture News | Rolling Stone

Confessions of an Ivy League Frat Boy: Inside Dartmouth’s Hazing Abuses | Culture News | Rolling Stone. – Mögnuð grein í Rolling Stone eftir Janet Reitman um bræðrafélög í Dartmouth háskóla.  Eflaust er þetta einhliða umfjöllun (einsog Dartmouth nemendur, sem kommenta á greinina, benda á) en þetta er samt sem áður fróðleg grein.  Drykkjukúltúrinn er ansi merkilegur og nokkuð mörgum þrepum fyrir ofan það sem ég kynntist á árunum mínum í Northwestern.

Heilablóðfall þrem árum síðar

Einsog eflaust einhverjir lesendur þessa bloggs muna, þá fékk ég heilablóðfall fyrir þremur árum. Það gerðist bara í vinnunni einn daginn og átti sér engan sérstakan fyrirvara. Ég skrifaði um þá lífsreynslu á þessa síðu.

Ég fæ heilablóðfall

Ég fæ oft spurninguna hvernig ég hafi það eftir heilablóðfallið. Svarið er að ég hef það mjög gott. Ég var sirka mánuð að ná mér eftir áfallið. Jafnvægið var ekki uppá það besta og sjónin ekki heldur. Ég fór til sjúkraþjálfara, en hún útskrifaði mig eftir einn tíma.

Í dag finn ég engan mun á sjálfum mér, sem ég rek til heilablóðfallsins. Eina er að ég á það til að rekast á hluti hægra megin við mig. Það hefur þó minnkað með tímanum, enda lærir líkaminn og heilinn að gera ráð fyrir slíkum skekkjum. Það háir mér því ekki í dag.

Fyrir utan það er ég heilbrigður, í besta formi lífs míns og mér líður vel.

Andlega hefur kannski meira breyst. Ég fann að ég notaði áfallið smá sem afsökun í byrjun. Ég gafst fyrr upp á erfiðum reikningsdæmum og slíku, en með tímanum hef ég lært að nota það ekki sem afsökun því að heilablóðfallið mitt var ekki það alvarlegt að það ætti að hafa slæm áhrif á slíka hluti.

Ég hitti lækninn minn fyrir um mánuði í reglulegu tékki og hann spurði mig aðeins útí það hversu mikið ég hugsaði um heilablóðfallið. Ég sagði að ég gerði það nánast aldrei. Ég treysti einfaldlega að það sé ágætlega séð um mig af norrænu heilbrigðiskerfi. Ég er tekinn í reglubundin tékk og þar ætti mestallt að uppgötvast. Annars lifi ég bara heilbrigðu lífi og læt þetta ekki hafa áhrif á mig. Enda svo sem lítið sem ég get gert nema að reyna að lifa sem heilbrigðustu lífi – stunda líkamsrækt og borða ekki of mikið af rusli.

Andlega bregður mér jú þegar ég heyri talað um heilablóðfall, sérstaklega þar sem þau eru nánast alltaf mun alvarlegri en það sem ég lenti í. Mér finnst óþægilegt að horfa á bíómyndir og sjónvarpsefni um heilablóðföll og ég veit að Margréti finnst það enn verra. En læknarnir segja jú að það heilablóðfall sem ég fékk geri mig ekki líklegri til að fá það aftur seinna á ævinni. Í raun er ég ágætlega settur því það er betur fylgst með mér en fólki sem hefur aldrei lent í þessu.

Eftirá að hyggja held ég að heilablóðfallið hafa bara gert mér gott. Ég hugsaði meira um það hvað ég var að gera og hvert ég stefndi. Ég áttaði mig betur á að Margrét, sem núna er eiginkona mín, var það besta sem hefur komið fyrir mig í þessu lífi. Og ég kannski reyni aðeins meira að lifa í nútímanum í stað þess að hugsa alltaf um það sem gerist seinna.

Það er ágætt.