« Hversu ríkur ertu? | Aðalsíða | Moskva »

Íslenskir karlmenn og hommar frá Pittsburgh

september 08, 2003

Í Mogganum í gær var viðtal við sjónvarpsstjóra Skjás Eins og talaði hann þar um fyrirhugaða dagskrá S1 og nýju stöðvarinnar, S2. Ég var ekki hrifinn.

Í fyrsta lagi ætla þeir að taka flesta af bestu þáttunum af S1 og setja þá yfir á S2, sem maður þarf að borga fyrir. Þarna eru t.d. Everybody Loves Raymond, Will & Grace og CSI. Samt reynir maðurinn að halda því fram að dagskrá S1 veikist ekki!

Einnig ætla þeir að bjóða í enska boltann, sem ég er ekki að fíla enda sinnir Sýn enska boltanum frábærlega og þeir eru auk þess með Meistaradeildina. Ef S2 fengju enska boltann þá þyrfti maður bæði að vera með S2 og Sýn til að sjá enska boltann og Meistaradeildina.


Það versta í þessu er þó án efa hræðilegasta hugmynd að sjónvarpsþætti, ever. Þeir á S2 ætla nefnilega að gera íslenska útgáfu af Bachelor. En í raun er hún bara íslensk að hluta, því þeir ætla að senda 6 "fallegar og vel gefnar íslenskar stúlkur" til Las Vegas til að giftast einhverjum bandarískum milljónamæring.

Bíddu nú aðeins! Hugmyndin er nógu slæm útaf fyrir sig, en af hverju í ósköpunum er ekki hægt að bjóða þessum stelpum uppá íslenskan karlmann? Erum við virkilega svona slappir?

Þetta spilar allt inní þessa ímynd, sem alltaf er verið að draga upp í þessu þjóðfélagi. Það er, að íslenskar stelpur séu fullkomnar, fallegasta kvenfólk í heimi og allt það, en að íslenskir karlmenn séu ókurteisir, hallærislegir og ómögulegir. Þetta fer ekkert smá í taugarnar á mér. Það er alltaf verið að tönglast á því að við eigum ekki skilið svona æðislegar stelpur og bla bla bla... Þetta er bara bull! Og þetta fer alveg óheyrilega í taugarnar á mér.


En það eina góða við þetta allt er að S2 ætla að byrja að sýna einn af mínum uppáhalds-sjónvarpsþáttum, Queer as Folk. Þessir þættir eru æði!

Þessir frábæru þættir, sem fjalla um 5 homma í Pittsburg eru hins vegar alls ekki fyrir viðkvæma eða fólk með einhverja hommafóbíu. Það þarf ekki nema að framkvæma "Queer as Folk myndaleit á Google" til að sjá hversu grófir þættirnir geta orðið.

Þættirnir fjalla sem sagt um 5 ólíka homma. Á skemmtilegan hátt er fjallað um fjölmörg sambönd þeirra, fordóma og annað. Ég geri mér ekki grein fyrir því hversu raunveruleg lýsing á lífum homma þetta er (sumt er sennilega mjög ýkt) en allavegana er þetta frábær skemmtun. Hver fyrir sig er viss steríótípa en samt er ekki hægt annað en að heillast að öllum persónunum í þáttunum. Brian Kinney er til dæmis einn mest töff karakter sjónvarpssögunnar. Á því leikur enginn vafi.

Þættirnir eru hins vegar mjög grófir. Mun grófari en allt annað sjónvarpsefni, sem ég hef séð. Í fyrsta lagi bregður manni náttúrulega mun meira að sjá karlmenn kyssast og svo eru ástarsenurnar þeirra á milli oft mjög heitar. Ég veit að það þola ekki allir að horfa á þessa þætti. Ég er þó sannfærðir um að allir, sem byrja að horfa á þættina með opnum hug verða heillaðir. Ég veit allavegana að allir, sem ég hef sýnt þættina, hafa heillast.

Ég er þó alveg hundrað prósent viss á því að þessir þættir eiga eftir að valda uppnámi þegar þeir byrja hérna á Íslandi.

Annars er hérna listi, sem ég veit að minnsta kosti ein stelpa, sem ég þekki, hefur áhuga á að sjá (og ég veit að fleiri munu vilja lesa þegar þættirnir byrja). Hér er listað hvaða leikarar í þáttunum eru samkynhneigðir. Það er dálítið magnað að gagnkynhneigðir leikarar treysti sér til að leika í svona heitum samkynheigðum ástarsenum.

Gale Harold (Brian) - straight
Randy Harrison (Justin) - gay
Hal Sparks (Michael) - straight
Peter Paige (Emmett) - gay
Scott Lowell (Ted) - straight
Michelle Clunie (Melanie) - straight
Thea Gill (Lindsay) - straight

Einar Örn uppfærði kl. 22:09 | 634 Orð | Flokkur: Sjónvarp



Ummæli (5)


Ég held að það séu tvö ár síðan Skjár 1 lofaði að þessi þættir væru væntanlegir “með haustinu”. Felix Bergsson var fenginn til að dásama þessa þætti og sýnd dagskrárbrot.

Klikkaði hinsvegar einsog svo sem fleiri þættir (Conan! :-) )

Ég er mjög spenntur að sjá þessa þætti, verst að ég er búinn að ákveða að borga ekki fyrir Skjá 2 prinsipsins vegna. Fer í flokk með Vanillu-Kókinu og fleiri VONDUM hugmyndum.

Arg! Nú er ég pissed. Will & Grace voru líka einir af fáum þáttum sem eftir voru á Skjá(ei)num sem ég fylgdist eitthvað með. Malcolm reyndar líka. Titus er hættur, Practice orðið hræðilegir. Hvað er eftir? Jú, Drew Carrey á góða spretti.

Hvers á maður að gjalda, ekkert gay-tv :-)

B.t.w. er það ekki endurgerð á breskri seríu? Gott ef hún gerðist ekki í Manchester einsog svo margir breskir þættir. Allavega man ég að vinur minn í Verzló var að horfa á þá þætti - og dásamaði mikið. Sérstaklega fannst honum “gróðleikinn” kostur og þekkjandi hann (og Breta) þá hlýtur að vera að þeir bresku gangi enn lengra en Pittsburg-hommarnir.

Svo er það heil umræða um það hvað hommar eru enn mikið taboo - þ.e.a.s. eitthvað umfram yfirborðskenndar steríótýpur á borð við Jack í Will & Grace (svona sem dæmi). Ég man t.d. eftir að hafa séð einu sinni bíómynd í sjónvarpinu (á Stöð 2) sem talist gæti gay.

M.v. hve stór “markaðurinn” er, er það alveg ótrúlegt út frá markaðsfræðilegu sjónarmiði. Svo ekki sé talað um þetta út frá samfélagslegu sjónarmiði.

Ágúst sendi inn - 09.09.03 00:05 - (Ummæli #1)

Jamm, þetta er endurgerð á breskri seríu. Held reyndar að sú sería hafi bara enst eitt season. Ég held að bandaríska serían sé núna á seasoni 3 (ég er að horfa á númer 2 á DVD). - Ég verð reyndar að viðurkenna að ég veit ekki hvort að S2 ætla að sýna GB eða USA útgáfuna.

Ef sú breska er grófari en sú bandaríska, þá er hún all svakaleg. Þessi bandaríska er gerð fyrir Showtime, sem er stöð, sem maður þarf að borga fyrir líkt og HBO og því geta þeir leyft sér ansi margt. Ekki halda að þetta sé eitthvað fyrir börn einsog annað efni frá USA. :-)

Annars er þetta fyndið með gay markaðinn, að í einum þáttanna þá nær Brian (sem vinnur að markaðsmálum) að umturna vörumerki með því að beina því bara að gay markaðinum. Sá markaður er alveg nógu stór til að geta grætt fullt með einhvers konar “niche” vöru.

Einar Örn sendi inn - 09.09.03 00:26 - (Ummæli #2)

Jamm. Bjútíið við gay (homma) markaðinn er líka sá að þar eru t.d. hlutfallslega flest hátekjupör víðast hvar.

Fyrir utan staðreyndina að líklegra er að tveir karlar afli meiri peninga en karl+kona eða tvær konur, þá eyða fæst hommapör peningi í börn, sem eru mjög peningafrek í rekstri og þar að auki yfir allt að 20+ ára tímabil!

Elliheimili fyrir homma í Flórída er t.d. orðinn mjög arðbær bissniss, miklu betri en the regular one.

Einhleypir hommar eru líka yndislegur target hópur. Yfirleitt ágætt cash flow hjá þeim, eyða einsog brjálæðingar og er oftast opnari, nýjungagjarnari og meira fun-loving markhópur en nokkur annar.

Og talandi um “niche marketing”, þá græddi t.d. einn banki í Bretlandi vel á því um árið þegar hann fór að bjóða klæðaskiptingum upp á tvær útgáfur af kreditkortum. Eitt með mynd af viðkomandi í “borgaralegum klæðnaði”, hitt með mynd af viðkomandi í dragi.

Eina vandamálið við svona hérna heima er smægðin. Þrátt fyrir allt, þá njótum við þess ekki t.d. í Reykjavík einsog margar borgir úti að samkynhneigðir velji sér búsetu eftir því hversu gay-friendly samfélagið er. Þannig býr oft mun hærra hlutfall homma í nokkrum hverfum borganna en væri á landsvísu.

Kannski það vanti hérna, almennilega gay hverfi :-)

Ágúst sendi inn - 09.09.03 01:26 - (Ummæli #3)

Það voru alla vega framleiddar tvær seríur af bresku útgáfunni. Sem betur fer ættu þessir þættir að þola flutning til Bandaríkjanna betur en Fawlty Towers…

Finnbogi sendi inn - 09.09.03 08:27 - (Ummæli #4)

Jamm, vandamálið við Ísland er náttúrulega að maður verður ekki ríkur á að markaðssetja einhverja “niche” vöru. Ekki nema að maður væri með 100 mismunandi “niche” vörur.

Þessi argument þín varðandi homma eru náttúrulega mjög góð. Brian notaði einmitt svipuð rök í þáttunum (þá var hann að reyna að selja hommahatara þetta campaign). Fyrirtæki eru bara oft svo ofboðslega hrædd við að fæla aðra viðskiptavini sína ef þeir markaðssetja til samkynhneigðra. Þess vegna vilja menn oft ekki markaðssetja beint til samkynhneigðra ef að varan er nú þegar sterk hjá gagnkynhneigðum.

Það er alltof mikið af fólki, sem þolir ekki neitt. Samanber þetta.

Einar Örn sendi inn - 09.09.03 09:54 - (Ummæli #5)

Ummælum hefur verið lokað fyrir þessa færslu