« Frétt ársins | Aðalsíða | Jesus Chriiiiist! »

MSN sem samskiptamiðill

apríl 28, 2004

Ég er með kveikt á MSN (einarorn77 (at) hotmail.com) mestallan daginn. Ég nota forritið ekkert svakalega mikið og kontaktlistinn minn er ekkert gríðarlega stór. Það er þó alltaf kveikt á forritinu og ég kíki mjög oft til að sjá hverjir eru á netinu.

Fyrir utan vini og nokkra kunningja, sem ég hef kynnst í gegnum netið, þá er ég með fyrrverandi kærustur á kontakt listanum mínum. Það er nokkuð skrítið. MSN er nefnilega ólíkt tölvupósti og síma að því leiti að forritið minnir mann sífellt á þá sem maður þekkir. Í hvert sinn sem fyrrverandi kærasta kveikir á tölvunni sinni, þá er ég látinn vita af því með hljóði og stórum skilaboðum. Þetta er dálítið skrítið.

Ég hef ekki talað við þessar stelpur í þónokkuð langan tíma. Ég er þó vinur þeirra og finnst ágætt að hafa þær á listanum. Samt finnst mér stundum dálítið óþægilegt að hafa þær þarna inná MSN. Þegar þær sign-a sig inn þá líður mér oft einsog ég þurfi að segja eitthvað. Oft líður mér einsog ég þurfi að tala við fólk sem er að sign-a sig inn, eða er búið að vera online lengi.

Mér finnst einhvern einsog ég sé dálítið dónalegur að spjalla ekki við fólk lengi á MSN. Ef maður hringir ekki í einhvern aðila í langan tíma, þá getur maður sagt að maður hafi verið busy eða notað einhverja ámóta lélega afsökun. Með MSN þá hefur maður enga slíka afsökun. Viðkomandi sér það greinilega að maður hefur bara verið að hanga á netinu og hefur því enga afsökun fyrir samskiptaleysinu.


Þetta er snúið dæmi. MSN er þó skemmtilegur miðill, því maður talar oft um aðra hluti en maður myndi gera í síma. Einnig virðist fólk vera óhræddara að tala um viðkvæm mál á MSN, mál sem þetta fólk myndi aldrei segja mann í síma. Á vissan hátt er fólk ófeimnara.

Ég hef líka lent í því að tala við stelpu, sem ég er (eða kannski var) skotinn í, á MSN. Þá hef ég mikið spáð í því hvort viðkomandi vilji tala meira við mig. Viðkomandi sign-ar sig kannski inn en spjallar ekkert við mig. Er það vegna þess að hún vill ekki tala við mig, eða er hún bara að kveikja á tölvunni sinni til að skoða mbl.is? Er þetta bara ég, eða finnur fleira fólk fyrir þessu? Stundum er ég með kveikt á MSN vegna þess að ég er að hlusta á tónlist á tölvunni. Finnst kannski einhverjum á kontakt-listanum ég vera leiðinlegur fyrir að tala ekki við sig?

Einar Örn uppfærði kl. 22:37 | 419 Orð | Flokkur: Netið



Ummæli (8)


ég skil þig fullkomlega…. :-) það er fólk á contact listanum sem maður hefur ekki mikið að segja við dags daglega en gaman að geta haldið sambandi við - en samt er svo óþægilegt þegar báðir aðilar eru online - en tala samt ekki saman… undarleg tilfinning :-)

inga lilja sendi inn - 28.04.04 23:38 - (Ummæli #1)

Vá - þetta er nákvæmlega eitthvað sem ég hef pælt mikið í. Aaðallega varðandi svona fyrrverandi kærasta. Áður hætti fólk bara saman og talaði oft ekkert saman aftur. Núna eru flestir komnir á msn listann hjá hvor öðrum, og þegar fólk hættir saman vill það ekkert virka fúlt, svo öll dýrin í skóginum halda áfram að vera vinir.

Eitt brilliant ráð er að delete-a bara kontakt. Þá ertu ekki að blokka hann (hana), svo ef hinn aðilinn vill hafa samband við þig að fyrra bragði þa er það minnsta mál. Hins vegar þarft þú ekki að horfa upp á hvert sinn sem hann kveikir á msn (og ekki að freistast til að starta einhverjum samræðum við manneskju sem var að dömpa þér, bara fyrir kurteisissakir:-) . Þetta hefur amk svínvirkað fyrir mig :-)

Ég finn reyndar alls ekki fyrir þessari þörf fyrir að starta samræðum bara af því að einhver loggar sig inn - en ef einhver skrifar mér finnst mér ég dónaleg ef ég er í vinnunni og segist vera busy. Og ég þoli ekki appelsínuglugga rammann blikkandi endalaust neðst á síðunni :-) En samt er maður alltaf með kveikt á þessu, ef ske kynni að maður myndi missa af einhverju bráðmerkilegu :P

Bara ég sendi inn - 28.04.04 23:59 - (Ummæli #2)

Gaman að sjá að ég er ekki ein í þessum pælingum…..
Mér líður nefninlega NÁKVÆMLEGA eins með þetta MSN. Er reyndar miklu verri - þori stundum ekki að kveikja á því af því ég er hrædd um að þessir fyrrverandi sem eru á listanum mínum eru inni og þá veit ég einmitt ekki hvað ég á að gera!!
Og ennþá glataðra er það að mig langar ekki að taka þá út af því þá er eina “sambandið” sem ég hef við þá farið og maður (ég) vill einhvern veginn alltaf að þeir muni eftir manni (mér), einmitt eins og þú ert að tala um Einar þegar þínar fyrrverandi kveikja á tölvunni sinni þá ertu minntur á þær :-) Hálf skrítið allt saman….

Lísa sendi inn - 29.04.04 02:50 - (Ummæli #3)

ég verð aldrei fúl útí þig:* en ég kannast við þetta með að vera skotinn í einhverjum á listanum og hugsa hmmm akkuru talarann ekki við mig :-)

katrín sendi inn - 29.04.04 08:25 - (Ummæli #4)

jámm það er ekki verra að vita til þess að fleiri hafi einmitt verið að pæla alveg það sama og maður hefur gert í all mörg skipti! En já það er alltaf þessi dilemma að tala eða ekki tala um ekki neitt :-)

Bjarni sendi inn - 29.04.04 09:27 - (Ummæli #5)

Jei, mjög gaman að sjá að aðrir eru að díla við þetta vandamál líka :-)

Þessi lausn hjá “Bara ég” er athyglisverð. Mér fannst einmitt að “blokka” viðkomandi vera frekar brútal lausn, þar sem mér þykir vænt um þessar stelpur. Of mikið samband er hins vegar ekki snjallt.

Ég þakka Guði fyrir að engin fyrrverandi kærasta er með bloggsíðu, því þá myndi ég freistast til að heimsækja þær síður og fara svo alveg í klessu þegar þær væru að tala um hvað allt væri æðislegt í dag :-)

Einar Örn sendi inn - 29.04.04 19:09 - (Ummæli #6)

Hahaha, þetta eru æðislegar pælingar. Þess ber að geta að ég sé ekki fram á að þau hjartasár sem þú hefur valdið mér með því að tala ekki við mig á MSN muni nokkurn tímann gróa.

Ég sá alveg við MSN-guðinum þegar ég var orðin rosalega þreytt á þessari eilífðar MSN-kreppu, sem að vísu sneri sérstaklega að fólki sem talaði alltof mikið á MSN. Nú blokka ég fólk algjörlega miskunnarlaust og enginn kemst nokkurntímann að því, þar sem það sér bara ekki að ég er online og svo er það yfirleitt ekki blokkað nema í stuttan tíma. Hence: það er hreint ekki svo brútal.

Önnur leið er að stilla sig á Appear offline, þannig getur maður fylgst með hreyfingunni án þess að þurfa að hafa samskipti við fólk eða að hafa samviskubit yfir því að hafa ekki samskipti við fólk.

Hildur sendi inn - 29.04.04 20:42 - (Ummæli #7)

Ertu alveg viss um að þessar “fyrrverandi” séu ekki með bloggsiðu sem þú vitir bara ekki af?? Ég hef allavega lent í því að fyrrverandi kærasta sagðist ekki vera með blogg en svo þegar maður fyrir forvitnissakir athugaði það sjálfur þá var það bara lygi…hún vildi bara ekki segja mér frá því :-) Mæli með að þú chekkir á þessu ef þú hefur áhuga…auðvelt að finna upplýsingar um fólk með hjálp netsins.

Viðurkenni samt að það er kannski ekki sniðugt að lesa blogg fyrrverandi…en samt er eitthvað innst inni sem gerir það að verkum að maður er alltaf forvitinn að vita hvað hinn aðilinn er að gera.

Geiri sendi inn - 30.04.04 08:20 - (Ummæli #8)

Ummælum hefur verið lokað fyrir þessa færslu