Hugarró

Svona lítur MBL.is hjá flestum (smellið á mynd til að sjá stærri útgáfu):

Svona lítur það út hjá mér eftir smá breytingar. Engar geðsýrðar hreyfiauglýsingar, sem gefa manni flogaköst. Og það sem er mikilvægast: ekkert tuð frá Moggabloggurum við hverja einustu helvítis frétt.

Þökk sé þessu og þessu.

Annars er það alveg ólýsanlega æðislegt að vakna svona snemma á laugardagsmorgni, laus við alla þynnku og allt vesen. Vikan er búin að vera ótrúlega spennandi og skemmtileg, sérstaklega þegar að kemur að vinnu. Fulltaf spennandi hlutum, sem ég get vonandi greint frá fljótlega. Í morgun er búinn að eyða síðustu 3 tímunum í vinnu og því get ég slappað af án samviskubits. Ætla að fara útá svalir í sólina og lesa [nýju bókina mína](http://www.amazon.co.uk/How-Talk-Widower-Jonathan-Tropper/dp/0752885766/ref=pd_bbs_sr_1/203-4349188-7099122?ie=UTF8&s=books&qid=1185624393&sr=8-1)þ

Svo seinna í dag er ég að fara í giftingu til góðs vinar míns. Í lok dagsins verða því aðeins tveir ógiftir strákar úr Verzló vinahópnum. Úff.

En ég er verulega spenntur fyrir brúðkaupinu. Steggjaveislan um síðustu helgi var skemmtileg og UJ útilegan sem ég fór í á eftir veislunni var líka afskaplega skrautleg og skemmtileg.

Þetta er fínt líf.

Þú leggur einsog hálfviti

Þessi síða hér er mesta snilld í heimi: [You Park like an asshole.com](http://www.youparklikeanasshole.com).

Fyrir mann einsog mig, sem þarf að leggja a.m.k. einu sinni á dag í Kringlunni og í miðbænum, þá er auðvelt að sjá þörfina fyrir svona síðu. Hún gengur útá það að ef þú sérð einhvern bíl, sem er lagt af hálfvita, þá geturðu prentað út miða sem vísar á síðuna og lagt hann á rúðuna á bílnum. Þegar viðkomandi hálfviti sér miðann getur hann farið á vefsíðuna og lært hvernig hann á að leggja almennilega í stæði.

Einnig er skemmtilegt myndaalbúm af því [hvernig hálfvitar leggja](http://www.youparklikeanasshole.com/gallery2/gallery2/main.php). Af öllum hlutum í heiminum held ég að það sé ekkert sem fari meira í taugarnar á mér en þegar ég sé fólk leggja bílnum [svona](http://www.youparklikeanasshole.com/gallery2/gallery2/main.php?g2_itemId=156)

(via [DF](http://daringfireball.net/))

Verðlagning Sýnar

Ég þarf nauðsynlega að fara að skrifa e-ð á þessa síðu.  Hef svo sem nóg til að skrifa um.

En þangað til þá bendi ég á þessa [grein og umræðu á Liverpool blogginu um verðlagningu á Sýn 2](https://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2007/07/21/12.55.07/).  Okkur á blogginu tókst að koma af stað mjög góðum umræðum um þessa verðlagningu og varð það m.a. til þess að rætt var um þetta í íþróttaþætti í útvarpinu í hádeginu og einnig verður fjallað um þetta í Íslandi í Dag.

Annars er ég bara hress.

Fokking álfar maður

Í finnskum þætti um Ísland er viðtal við íslenska stelpu, sem heldur því fram að 90% af Íslendingum trúi á álfa.

Af hverju í andskotanum þarf alltaf að ljúga þessu uppá útlendinga?  Það TRÚIR ENGINN Á ÁLFA Á ÍSLANDI!  Erum við ekki nógu skrýtin í augum útlendinga án þess að við þurfum að viðhalda þessari goðsögn um það að allir trúi á álfa?

Áðan var ég í barnaafmæli þar sem við töluðum m.a. um þetta stórhættulega glæpagengi, sem hefur verið að mótmæla stóriðju á Íslandi undanfarna daga.

Fréttin um þetta mál í kvöldfréttatíma sjónvarps á laugardaginn var óborganleg.  Kynningin var eitthvað á þessa leið:

“Mótmæli umhverfisverndarsinna leystust uppí óeirðir”.

Og svo var klippt á fréttakonu, sem var akkúrat staddur í miðjum “óeirðunum”.  Við hliðiná henni voru 5 krakkar í trúðabúningum að ulla á myndavélina.  Þetta er einhver allra magnaðasta notkunin á orðinu “óeirðir”, sem ég hef séð.

Eheheeeeeh…

Góða kvöldið!

  • Ég elska þetta veður!
  • Ég elska að geta gengið um á sandölum og í stuttbuxum.
  • Ég var með tvo frábæra bandaríska stráka á Couchsurfing um helgina.
  • Við fórum á djammið á laugardaginn. Byrjuðum á Vegamótum og vorum þar til 3
  • Hitti fyrrverandi fótboltaþjálfara minn.
  • Hann staðfesti sögu sem ég hef sagt nokkrum sinnum. Málið er að þegar ég var sirka 13 ára þá fór ég með Stjörnunni á knattspyrnumót í Wales. Ég var á yngra ári og spilaði með B-liðinu. Einn af andstæðingunum var Dynamo Kiev. Sá leikur var eftirminnilegur. Fyrir það fyrsta þá spilaði ég frammi og sá um að taka miðjur. Þær urðu alls 15 talsins í leiknum, þar sem við töpuðum 14-0. Dynamo Kiev strákarnir voru miklu stærri og betri en við. Nokkrum árum síðar las ég viðtal við þennan ágæta framherja. Þá komst ég að því að hann var akkúrat einn af þessum strákum, sem spiluðu á móti okkur. Væntanlega var hann framherjinn sem skoraði að mig minnir helming marka Kiev liðsins. Þannig að þrátt fyrir að ferill minn í fótbolta hafi ekki verið glæsilegur þá get ég allavegana alltaf sagt að ég hafi spilað á móti Andriy Shevchenko (þetta er staðfest á Wikipdia síðunni um Shevchenko).
  • Um 3 leytið urðum við þreyttur á Vegamótum og ákváðum að færa okkur um set. Það voru hins vegar biðraðir á öllum stöðum þannig að við ákváðum að hætta okkur niður fyrir Lækjargötu og á Hressó. Það var skrautlegt.
  • Fyrir það fyrsta þá var strákurinn, sem ég var með, laminn þegar hann reyndi að stoppa slagsmál á miðju dansgólfinu.
  • Þegar við komum út sáum við svo slagsmál númer 2.
  • Við hittum svo hinn strákinn og hann sagði að einhver Íslendingur hefði ýtt sér þegar hann var að fara í hraðbanka.
  • Ég skil ekki hvernig fólk nennir að slást á djamminu.
  • Við löbbuðum svo niðrá tjörn. Í tjörninni sá ég glytta í fjallahjól og óð því útí tjörnina og náði það. Hjólið reyndist vera í fínu lagi og ákvað ég því að hjóla aðeins um nágrennið enda veðrið stórkostlegt.
  • Um 7 leytið hittum við hóp af sósíalistum sem voru í einhvers konar picnic við tjörnina. Þar sátu þau, staupuðu Absolut og sungu Internationale-inn. Við ákváðum að setjast hjá þeim og spjalla, enda einn Íslendinganna ákafur í að ræða við Bandaríkjamennina um stjórnmál.

Jammmm…

Kæra veður

Kæra íslenska veður.  Ég tek til baka sumt af því versta sem ég hef sagt um þig.

Þú ert ekki mesta og viðbjóðslegasta drasl í heimi og þú ert ekki orsök alls ills á þessu landi.  Ef þú værir bara oftar einsog þú ert í dag, þá gæti ég hugsanlega tekið þig í einhvers konar sátt.

Kveðja,
Einar Örn

Lonely Planet bókahillan mín

(Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu og til að sjá útskýringar á því af hverju ég keypti viðkomandi bók.)

Ólíkt mörgum bakpokaferðalöngum þá hendi ég aldrei eða sel Lonely Planet bækurnar mínar. Ég geymi þær alltaf og safnið mitt verður því sífellt stærra.

Þetta eru orðnar 27 bækur og þótt 4 séu eiginlega svindl (þar sem ég hef ekki komið til þeirra staða og er ekki með það á dagskránni) þá hafa þær flestar tilfinningalegt gildi fyrir mig. Þær eru ákveðinn hluti af minningunum frá ferðalögunum mínum.

Rifrildi

Á Moggablogginu getur fólk rifist í meira en tvo daga um það hvaða skilaboð táknmyndir á klósettum í Hollandi senda konum.

Og það í miðjum júlí.

* * *

Í gær sá ég [Önnu.is](http://www.anna.is/weblog/) í fyrsta skipti. Ég leit út einsog bjáni, nýkominn heim frá því að hlaupa eftir Ægissíðunni og sagði því ekki hæ. Mér finnst alltaf jafn óþægilegt að segja hæ við fólk sem ég þekki bara af því að lesa bloggið þeirra. Samt finnst mér alltaf jafn yndislega skemmtilegt þegar að fólk kemur upp að mér og segist lesa bloggið mitt. Reyndar gerist það nær án undantekninga á djamminu og ég því hálf sjúskaður, en samt æðislegt.

* * *

Úti í USA sá ég fyndnustu mynd ársins, sem heitir Knocked Up. Ég ætlaði að fara að mæla með henni fyrir alla mína vini, en sá svo að hún er ekki frumsýnd á Íslandi fyrr en 28.september. Þetta er skrýtið land. Allar leiðinlegu stórmyndirnar eru sýndar strax, en svo þarf maður að bíða eftir myndum sem maður er spenntur fyrir. Til dæmis einsog Knocked Up og Sicko. Ég sá þær báðar útí USA. Sicko er líka mjög góð.