Undanfarnar tvær helgar hefur þynnkan hjá mér náð ákveðnu hámarki. Vanalega hefur þynnkan lýst sér í nokkuð slæmum hausverk, sem sæmilega auðvelt er að losna við. Í gær og síðasta sunnudag var þó toppnum náð. Þynnkan var svo slæm að **ég gat ekki horft á leik með Liverpool!**
Fyrir ykkur, sem þekkið mig persónulega þá ættuð þið að vita að það þarf eitthvað ansi magnað til að halda mér frá því að horfa á leik með uppáhaldsliðinu mínu. Ég skipulegg vanalega minn tíma til að þurfa ekki að missa af einum einasta leik. Bæði í gær og síðasta sunnudag stillti ég vekjaraklukkuna mína samviskusamlega rétt fyrir leik og fór fram og kveikti á sjónvarpinu. Yfir Chelsea leiknum entist ég í 60 mínútur, en í gær entist ég bara fyrri hálfleikinn. Í bæði skiptin leið mér einsog ég væri að deyja áður en ég skreið aftur uppí rúm.
Ég komst ekki útúr húsi fyrr en um 6 leytið í gær. Labbaði þá útí Vesturbæjarlaug og sat í heita pottnum í hálftíma (n.b. það vantar fleiri sætar stelpur í Vesturbæjarlaugina! Þetta er lykilatriði!) og labbaði svo niður á Hamborgarabúllu þar sem hamborgari í kvöldmat var fyrsta fasta fæðan mín þann daginn.
Tvær síðustu helgar hef ég byrjað djammið á Barnum. Er ekki alveg að fatta þann stað. Hef líka heimsótt Q-bar, Celtic Cross, Hressó, Hverfisbarinn, Sólon, Sólon aftur, 11 og Vegamót á þessum tveim djömmum. Það sýnir manni væntanlega að ég er ekki að fíla neinn einn stað neitt alltof vel.
Annars hljóta þessar fyrstu vikur eftir að samband endar að vera einhverjar verstu vikur í lífi manns. Þessar síðustu hafa allavegana verið afskaplega slæmar. Maður þarf að venjast því að búa aftur einn, að sofa einn, að hafa ekki alltaf einhvern til að tala við. Ég þarf að venjast þögninni aftur og einhvern er erfitt að finna “silver-lining” á þessu öllu saman.
Æji fokkit, þetta hlýtur að batna með dögunum eða vikunum. Svo er ég líka að fara í frí eftir stuttan tíma. Ég er reyndar búinn að breyta öllu varðandi það frí, svona í ljósi breyttra aðstæðna í mínu einkalífi. Skrifa um það á næstu dögum.
Fyrir einhverjum dögum var ég að kvarta yfir því að mig vantaði nýjan sjónvarpsþátt til að horfa á. Jæja, ég fann hvorki meira né minna en mestu snilld í amerísku sjónvarpi: [Entourage](http://www.hbo.com/entourage/), sem sýndir eru á HBO. Þátturinn fjallar um þrjá stráka, sem eru á sama aldri og ég og bróður eins þeirra. Einn af strákunum er kvikmyndastjarna í Hollywood en hinir þrír “vinna” fyrir hann.
Þetta eru svo lygilega skemmtilegir þættir að ég verð að hemja mig frá því að horfa ekki á marga í röð. Er búinn að horfa á fyrstu 10 af 33.