Aftur af stað!

Vegna ýmissra ástæða í mínu lífi hef ég ekki farið í frí mjög langan tíma. Síðasta ár var ár mikils uppgangs hjá Serrano og ákveðin starfsmannamál þar gerðu mér ómögulegt um að fara í frí. Fyrir utan stuttar ferðir til Liverpool og Edinborgar, þá má segja að ég hafi ekki farið í frí síðan ég fór í ferðina til [Suð-Austur Asíu](http://eoe.is/ferdalog/#sud-a-asia) í september-október 2006.

Sú ferð var bæði góð og slæm. Ég var nýkominn útúr mjög erfiðum sambandsslitum og ég var að reyna að ná mér af þeim mestalla ferðina – og í raun má segja að ferðin hafi verið farin til að komast yfir þau. Það reyndist hins vegar oft erfitt. Ég var jú einn á ferðalagi og ég veiktist nokkrum sinnum illa og því var partur af ferðinni uppfullur af sjálfsvorkunn, ælandi inná einhverjum ódýrum hótelum í Phom Penh og öðrum álíka borgum.

En ferðin var líka æðisleg. Ég sá Bangkok, hið stórkostlega Angkor og Ha Long Bay í Víetnam. Ég borðaði hundakjöt, stakk mér til sunds í Tonkin flóa og lét [apa ráðast á mig](http://www.flickr.com/photos/einarorn/274461853/in/set-72157594326242587/). Ég djammaði í Vientiane, Bangkok, Phnom Penh og Saigon, kynntist fulltaf fólki og fræddist um ótrúlega sögu þessara landa.

En ég var líka ákveðinn í því að fara ekki aftur í svona ferð einn. Allavegana ekki ef að öll mín mál væru jafn óleyst og þau voru þá.

* * *

En núna 18 mánuðum síðar er ég á leið út aftur.

Ég ætla að ferðast einn í 6 vikur en ég tel samt að mín mál séu í miklu betri stöðu núna og ég geti einbeitt mér að því að njóta lífsins í ókunnugu landi án þess að hafa áhyggjur af því sem er að gerast heima á Íslandi.

líbanskar stelpurEftir 10 daga mun ég fljúga til London og þaðan til Beirút í Líbanon. Ég ætla svo að eyða 6 vikum á ferðalagi um Líbanon, Sýrland, Jórdan og Ísrael. Upphaflega planið mitt var að fara til Mið-Ameríku, en fyrir tveimur vikum ákvað ég að mæta niðrí Eymundson með opnum hug og ákveða þar hvert mig langaði að fara. Þegar ég tók upp bókina um Ísrael og Palestínu fékk ég strax fiðring í magann og síðan þá hef ég vart hugsað um annað en þessi lönd.

Ég hef lengi haft gríðarlega mikinn áhuga á stjórnmálum á þessu svæði og þá sérstaklega í Líbanon og Ísrael. En það er ekki bara stjórnmálin, sem gera þessi lönd heillandi því þau eiga sér gríðarlega merkilega sögu og fyrir ferðamenn er ótrúlegur fjöldi merkra staða til að sjá. Nægir þar að nefna Baalbek í Líbanon, Damascus í Sýrlandi, Jerúsalem og Petra í Jórdaníu.

Einsog áður hef ég ekki ákveðið nákvæmlega hvernig ferðin á að vera, en þó er beinagrindin tilbúin. Þá á bara eftir að ákveða hversu lengi ég verð á hverjum stað og hvaða staði utan helstu staðanna ég fer á. Þegar ég er á þessum bakpokaferðalögum mínum vil ég geta breytt áætlunum á staðnum eftir því hvort ég kann vel við staðina eða ekki.

Allavegana, ég ætla að byrja í Beirút. Samkvæmt áætlun ætti ég að lenda í Beirút á föstudagsmorgni 2.maí og get því vonandi kynnt mér hið fræga næturlíf í Beirút. Svo er planið að sjá allavegana Tyre, Tripoli, Byblos og Baalbek í Líbanon. Þaðan yfir til Sýrlands, til Damascus og upp til Aleppo áður en ég fer svo suður til Bosra og þaðan yfir til Jórdaníu. Þar ætla ég að stoppa sutt í Amman og skoða svo Dauða Hafið og svo auðvitað niður til Petra og Wadi Rum. Þaðan svo yfir til Eilat í Ísrael og baða mig í Rauða Hafinu. Svo upp til Jerúsalem, Tel Aviv og Haifa. Svo vil ég líka reyna að ferðast eitthvað um Vesturbakkann, en ég veit ekki almennilega hvernig ástandið er fyrir ferðamenn þar. Það er sennilega eitthvað sem ég mun skoða þegar ég kem til Jerúsalem.

Ég ætla svo sennilega að fljúga til London aftur frá Tel Aviv.

* * *

Einsog áður, þá væri frábært að heyra frá fólki, sem hefur farið á þessa staði og getur mælt með því hvað ég eigi að gera.

Last Fm í síðustu viku

Topp 10 listamenn á Last Fm hjá mér í síðustu viku

1. Miranda Lambert
2. Manic Street Preachers
3. Los Amigos Invisibles
4. Pharoahe Monch
5. Daft Punk
6. Maná
7. Bon Iver
8. The Arcade Fire
9. Madonna
10. LCD Soundsystem.

Hver segir svo að ég sé með einhæfan tónlistarsmekk? Bandarískt kántrí, velskt rokk, venezuelskt popp, bandarískt hip-hop, frönsk dans tónlist, mexíkóskt rokk, bandarískt popp, kanadískt rokk, bandarísktp popp og bandarísk dans tónlist.

Hvar ætlar þú að búa?

Þessi grein eftir mig birtist í gær á Vefritinu

* * *

Kjördæmaskipulagið á Íslandi gerir það að verkum að stjórnmál snúast oft á tíðum um baráttu á milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins. Vegna ranglætis í kjördæmaskipulagi og mismunandi vægis atkvæða þá hefur landsbyggðin ávallt haft sterkari rödd á Alþingi okkar Íslendinga.

Ansi margir af þingmönnum landsbyggðarinnar, sem eru flestir komnir yfir fimmtugt (meðalaldur landsbyggðarþingmann er samkvæmt mínum útreikningum 55 ár), virðast líta á það sem sitt helsta hlutverk að stöðva flótta fólks frá þeirra kjördæmum yfir á höfuðborgarsvæðið.

Aðgerðir þeirra hafa tvenns konar áhrif. Fyrir það fyrsta draga þær meiri pening til landsbyggðarkjördæma til ýmissa verkefna, hvort sem það er til vegaframkvæmda, atvinnuskapandi verkefna, færslna á stofnunum og öðru slíku. Og í öðru lagi felast áhrifin í því að gera höfuðborgarsvæðið meira óaðlaðandi sem kost fyrir fólk til að búa á. Hvort sem að seinni niðurstaðan er ætlunarverk þeirra skal ósagt látið.

Hins vegar hafa aðgerðir síðasta tveggja samgönguráðherra verið nánast fjandsamlegar fyrir Reykjavík. Fyrir það fyrsta þá hafa þessir ráðherrar dregið ótrúlega lengi lagningu Sundabrautar. Þeir virðast engar áhyggjur hafa af þeim gríðarlegu tekjum sem tapast þegar að þúsundir höfuðborgarbúa þurfa að sitja í bílum sínum í mun lengri tíma en væri nauðsynlegur ef að Sundabraut væri staðreynd.

Í öðru lagi hafa þessir tveir ráðherrar gert allt sem í þeirra valdi stendur til að festa flugvöllinn í Vatnsmýrinni í sessi. Byggingarlandið, sem flugvöllurinn liggur á, er verðmætasta byggingarland höfuðborgarinnar. Það sem meira er, þetta land er sennilega okkar besta og hugsanlega síðasta tækifæri til að búa til í Reykjavík heillandi borgarsamfélag og forðast þá niðurstöðu að Reykjavík verði eingöngu samansafn af úthverfum tengd saman með hraðbrautum.

* * *

Ég nefni aldur þingmanna ekki vegna þess að ég hafi eitthvað sérstaklega á móti fólki, sem er komið yfir fimmtugt, heldur eingöngu til að benda á að þingmennirnir upplifðu allt annan raunveruleika á þeirra þrítugsaldri heldur en ungt fólk upplifir í dag. 55 ára gamall þingmaður var 41 árs gamall þegar að EES samkomulagið var gert. Einstaklingur sem var tvítugur árið 1973 stóð frammi fyrir allt öðrum (og færri) möguleikum en tvítugur einstaklingur gerir í dag.

Sennilega var það svo í kringum 1970 að fólk velti því í alvöru fyrir sér hvort það ætti að búa á landsbyggðinni eða í höfuðborginni. Í dag er það hins vegar svo að fæstir þeirra, sem hafa alist upp á höfuðborgarsvæðinu, hugsa til landsbyggðarinnar þegar þeir ákveða hvar þeir skuli búa.

Nei, alþjóðavæðingin og aðild okkar að EES hefur gert það að verkum að ungt fólk í dag horfir til allrar Evrópu þegar að það veltir því fyrir sér hvar það ætli að búa. Vel menntaður ungur Íslendingur getur sótt um vinnu í París, London, Róm, Kaupmannahöfn eða Madrid alveg einsog í Reykjavík. Þessar borgir bjóða uppá hlýrra loftslag, þróaðra borgarsamfélag, betri menntunarstofnanir, öflugra listalíf og svo framvegis og framvegis.

* * *

Því fer fjarri að ég hafi eitthvað á móti landsbyggðinni. Ég er alinn upp í borg og vil einfaldlega búa í borg. Þetta snýst bara um smekk minn. Málið er einfaldlega að þótt landsbyggðarþingmenn haldi enn að valið hjá ungu fólki standi á milli landsbyggðarinnar og Reykjavíkur, þá tel ég að það standi miklu frekar á milli Reykjavíkur og London, Kaupmannahafnar eða annarra evrópskra stórborga.

Þess vegna ættu stjórnmálamenn að hætta að reyna að spyrna gegn framþróun á höfuðborgarsvæðinu. Þeir ættu að greiða götur nauðsynlegra samgöngubóta og þeir ættu að styðja það að flugvöllurinn í Vatnsmýrinni verði fjarlægður hið fyrsta og að þar verði gerð tilraun til að byggja upp borgarsamfélag, sem getur veitt öðrum borgum í Evrópu samkeppni.

* * *

Verkefni nútíma stjórnmálamanna er nefnilega það að auka samkeppnishæfni höfuðborgarinnar við aðrar borgir Evrópu. Þeir Íslendingar sem búa í útlöndum verða að hafa einhverjar ástæður til að flytja heim aðra en þá að margir vina þeirra og fjölskyldumeðlima búi hér. Þetta þýðir að mennta- og velferðarkerfið á Íslandi verður að keppa við það besta sem evrópskar borgir bjóða uppá. Ungt fólk þar að geta gengið að bestu leikskólum og skólum, sem völ er á í Evrópu.

En einnig þá dæmir ungt fólk hvar það mun búa út frá því hvað borgarsamfélagið býður uppá. Flestir Íslendingar virðast sækja í gamlar evrópskar borgir fremur en bandarískar bílaborgir. Hvers vegna reynum við þá að byggja upp bílaborg í Reykavík? Af hverju er ekki meiri áhersla lögð á spennandi miðborgarlíf?

Reykjavík hefur í mínum huga marga kosti sem borg. Ég er alinn upp hér og flestir mínir vina búa hér. Hún býður uppá ótrúlega öflugt menningarlíf miðað við stærð, hvort sem það eru heimsklassa veitingastaðir, leikhúslíf eða tónlistarlíf. Það tekur mig einnig aðeins um hálftíma akstur að vera kominn á gott skíðasvæði, hér eru golfvellir innan borgarmarka, það er stutt í fjallgöngur og ótal aðra útivist sem að íbúa í London tæki marga klukkutíma ferðalag að nálgast.

En hún hefur líka á síðustu árum þróast í átt til bandarískrar bílaborgar, sem er ekki heillandi þróun.

Íslenskir stjórnmálamenn ættu að byrja að hugsa það hvernig þeir geti gert borgina að heillandi stað fyrir unga Íslendinga. Ef þeir gera það ekki, þá munu skæru ljós stórborganna í Evrópu verða sífellt meria heillandi fyrir ungt fólk hér á landi og við eiga það á hættu að missa okkar unga og hæfa fólk til stórborga í öðrum löndum.

Ha?

Ha? Hvað?

* * *

Í gær talaði ég spænsku í fyrsta skipti í sennilega ár þegar að ég hitti gamla vinkonu frá Venezuela á kaffihúsi í miðborginni. Ég gat varla stamað útúr mér fyrstu setningunni, en svo gekk þetta bara ágætlega. Ég er einmitt alvarlega að spá í að fara á spænsku slóðir á næstu vikum. Meira um það síðar. Nógu andskoti langur tími hefur liðið síðan ég fór í frí.

* * *

Ég tók svo að mér að hjálpa til við Vísindaferð hjá stjórnmálafræðinemum, sem komu í heimsókn til Samfylkingarinnar í gær. Ég hélt stutta tölu um UJ og drakk svo bjór með fólki. Þetta var einmitt í fyrsta sinn á ævinni sem ég upplifi vísindaferð. Ég var auðvitað í háskóla erlendis og svo hef ég ekki unnið hjá fyrirtækjum, sem bjóða uppá slíkar móttökur.

* * *

Á þessari yndislega síðu geturðu fundið hvaða lag var númer eitt á Bilboard listanum daginn sem þú fæddist (eða hvaða annan dag, sem þér dettur í hug). Þann 17.ágúst 1977 var það þessi yndislega groovy smellur: Best of my Love með The Emotions. Ég er að fíla þetta!

* * *

Æ, ég verð að drífa mig útúr húsi. Það er ekki hægt að vera heima í svona veðri. Andskotans vesen að snjóbrettafélagi minn skuli ekki vera á svæðinu. Annars hefði þetta verið fullkominn dagur til að eyða í Bláfjöllum. Kíki bara í miðbæinn í staðinn og les Lonely Planet bækur.

Að hoppa?

Ég algjörlega elska þetta atriði úr High Fidelity

Ég hef skrifað áður um bókina High Fidelity, sem er sennilega mín uppáhalds bók. Ég sá myndina fyrst þegar hún kom í bíó og hafði ekkert rosalega gaman af henni. Aðallega fannst mér gaman að tengja við alla staðina í Chicago, sem hún gerðist á.

En nokkrum árum seinna þá var ég talsvert lífsreyndari og las þá bókina og hún höfðaði ótrúlega mikið til mín. Síðan ég las hana hef ég horft á bíómyndina þrisvar. Síðast gerði ég það með vinkonu minni fyrir einhverjum mánuði og ég held að ég hafi aldrei haft jafn gaman af myndinni. Ræðan í upphafi atriðsins hér að ofan er auðvitað frábær þegar að Rob veltir fyrir sér:

>So what am I gonna do now? Just keep jumping from rock to rock for the rest of my life until there aren’t any rocks left?

>Should I bolt every time I get that feeling in my gut when I meet someone new? I’ve been thinking with my gut since I was 14 years old, and frankly speaking, I’ve come to the conclusion that my guts have shit for brains.

Það er ekki furða að mér finnist stundum einsog þessi mynd sé skrifuð um mig.

Hamingja!

Ó, þvílík hamingja!!

Ég er eiginlega alveg uppgefinn.  Þvílíkur tilfinninga-rússíbani.  Ég var við það að gefast upp strax eftir Arsenal markið, svo fékk ég smá von þegar að Hyypia jafnaði.  Svo trylltist ég og stökk uppá sófann á Café Viktor þegar að Torres skoraði. 

Svo hélt ég að heimurinn væri að hrynja þegar að Adebayour jafnaði eftir fáránlegan undirbúning frá Walcott.

Og svo kom Babel og bjargaði deginum.  Fékk vítaspyrnu og þegar Gerrard skoraði úr henni missti ég endanlega röddina útaf öskri á meðan ég hoppaði á sófanum.  Og svo kláraði Babel þetta af stakri snilld. Ég hef ekki verið jafn spenntur yfir fótboltaleik síðan í Istanbúl. Algjörlega magnað.

Þvílíkur stórkostlegur fótboltaleikur.  Ég elska þetta lið!

Föstudagur

Á hverjum föstudegi þegar ég kem heim úr vinnunni þá slökknar vanalega algjörlega á líkamanum, ég verð alveg uppgefinn og enda á því að sofa í 2-3 tíma. Það gerðist í dag og ég er nývaknaður aftur og líður afskaplega einkennilega einsog alltaf þegar að ég sef á daginn.

* * *

Allavegana, ég setti loksins ferðasögurnar frá Rússlandi inná ferðalagasíðuna mína. Rússlands ferðasöguna, sem er frá árinu 2003, má nú nálgast hérna. Vinsælasta myndin mín á Flickr var einmitt tekin í þeirri frábæru ferð.

Þetta blogg hefur gefið mér ansi margt í gegnum árin og eitt af því er að ég á sæmilega frásögn af öllum helstu ferðalögunum mínum. Auðvitað er sú ferðasaga sem birtist hér á þessari síðu ekki endilega sú saga sem ég segi vinum mínum, enda er oft margt ekki birtingarhæft, en ég verð samt að viðurkenna að ég hef farið nokkrum sinnum og lesið yfir þessar ferðasögur og þær kveikja alltaf í mér ferðaáhugann og rifja upp fyrir mér góðar stundir.

* * *

Í dag eru tvær vikur þangað til að við opnum Serrano í Hafnarfirði.  Ég tók nokkrar myndir á miðvikudaginn (afgreiðsla og salur), en ansi margt hefur breyst síðan þá.  Í gær settum við afgreiðsluborðið inná staðinn og það var ansi skrautlegt.  Afgreiðsluborðið, sem er sennilega um 800 kíló og kom í einu lagi, komst ekki í afgreiðsluna þar sem smiðirnir höfðu misreiknað plássið inná staðnum.  Við þurftum því að lyfta því yfir þær innréttingar, sem voru komnar fyrir á staðnum.  Það tókst á einhvern ótrúlegan hátt með hjálp tjakks og 10 manna.

Ég geri þó ráð fyrir því að opnunin ætti að vera á föstudaginn eftir tvær vikur og að stressið verði talsvert minna en það var í Smáralindinni.

* * *

Undanfarnar vikur hef ég verið að hlusta á Either Or með Elliott Smith.  Ég hef lengi ætlað mér að hlusta á tónlistina hans, en einhvern hefur aldrei komið að því þangað til núna.  Þessi plata er algjörlega frábær og nær hápunkti í einstöku lokalagi, Say Yes.  Mæli hiklaust með þessari plötu.  Hérna er hægt að sjá Smith taka Say Yes á síðustu tónleikunum áður en hann framdi sjálfsmorð.