Eurovision kostnaður

Egill Helga [bendir á þetta í pistlinum sínum]() og ég tók þetta saman og setti í graf (einsog sönnum hagfræðingi sæmir) og bæti við löndum, sem var auðvelt að gúgla.

Hérna er kostnaður við það að senda inn atkvæði í Evróvisjón kosningunum á laugardaginn. Smellið á myndina til að sjá stækkaða útgáfu

(*geri ráð fyrir að það kosti ekki meira en 1 dk að senda SMS í Danmörku – en það kostaði 1 DK + venjulegan kostnað að kjósa þar skv. Agli*)


Þetta er alveg ótrúlega sniðugt til að skoða mun á því hvernig fólk verðleggur hluti á Íslandi vs. annars staðar. Hérna eru engir tollar eða vörugjöld, sem hægt er að kenna um. Ekkert landbúnaðarkerfi, eða langar flutningsleiðir. Samanburðurinn er magnaður.

xF

Ef ég reyni ofboðslega mikið, þá get ég verið sæmilega víðsýnn á íslenska pólitík. Ég get skilið af hverju fólk kýs Sjálfstæðisflokkinn (*hringi bara í kallinn og redda lóð!*) eða Vinstri Græna (*umhverfismálin*). Ég kýs auðvitað sjálfur Samfylkinginuna og skil því okkur krata afskaplega vel. Ef ég rembist ógeðslega mikið, þá get ég reynt að finna einhverjar skýringar á því af hverju fólk kýs exBé (*ah, man ekki núna*).

En ég get ekki fyir mitt litla líf skilið af hverju fólk kýs Frjálslynda flokkinn. Ef marka má síðustu Gallup könnun, þá eru Frjálslyndir með meira en 10% fylgi í borginni!!! Það þýðir að þeir verða í oddaðstöðu. Hvaða fólk er þetta eiginlega? Ég þekki framsóknarmenn, vinstri græna og sjálfstæðismenn, en ég held að ég hafi aldrei hitt neinn, sem styður Frjálslynda utan þeirra, sem eru í framboði fyrir flokkinn.

Hverjir eru þetta, og af hverju ætla þeir að kjósa Frjálslynda?

Blessuð börnin

Ég er í þeim merka kjósendahóp “*stjórnendur undir 30, sem búa einir í Vesturbænum*”, sem nákvæmlega enginn stjórnmálaflokkur reynir að höfða til í þessum blessuðu kosningum. Þess vegna hef ég takmarkaðan áhuga á kosningunum, nema þá helst skipulagsmálum.

Þrátt fyrir að ég eigi ekki börn, þá trúi ég sem hagfræðingur á kosti þess að fólkið í kringum mig eigi börn. Við þurfum fleira fólk á Íslandi og það er hagkvæmt fyrir hagkerfið. Því tel ég að ríkið eigi að gera það, sem menn geta til að gera það heillandi fyrir ungt fólk að eignast börn.

Eeeeeen, erum við ekki komin útí vitleysu í þessari kosningabaráttu? Ef ég skil rétt þá, ef öll loforð verða uppfyllt, þarf ég á næsta kjörtímabili að borga eftirfarandi undir börn í Reykjavík: Leikskóla nánast frá fæðingu – allan kostnað, skólabúninga og allan matinn þeirra í skólanum.

Og það nýjasta nýtt, sem ég sá í Fréttablaðinu í dag: EXBÉ ætlar að láta mig borga 40.000 *frístundakort* fyrir öll börn í borginni! Þannig að ég á að fara að borga fyrir fiðlutíma hjá krökkum útí bæ. Erum við ekki aaaðeins að tapa okkur í sósíalismanum? Af hverju segir enginn neitt? Finnst öllum þetta eðlilegt? Hvað með krakka, sem hafa skrýtin áhugamál. Mér fannst til dæmis gaman að búa til módel þegar ég var lítill. Mjög gefandi og þroskandi áhugamál. Á að borga undir slík áhugamál?

Nú segi ég stopp.

Svona gerist í kosningabaráttu þar sem enginn hægri flokkur er fyrir hendi, aðeins ömurleg gerviútgáfa af gamla íhaldsflokknum, sem er að breytast í sósíalistaflokk vegna þess að hann hefur ekki lengur trú á sinni eigin stefnu. Jaðarflokkar einsog VG og Sjálfstæðisflokkurinn eru oft nauðsynlegir til að stoppa mestu vitleysuna í umræðunni.


Ég vann á Serrano í kvöld, þar sem Evróvisjónsjúkir starfsmenn höfðu biðlað til mín um frí. Frá 19.15 var Kringlan nánast tóm. Eina fólkið, sem verslaði hjá okkur var starfsfólk Kringlunnar, sem skiptist á sögum við mig um hvað rosalega væri tómt í húsinu. Jú, og nokkrir útlendingar komu líka og spurðu um þessa geðveiki.


Neil Young platan verður betri og betri. Allir saman nú:

>Let’s impeach the president for lyin’
Misleading our country into war
Abusing all the power that we gave him
And shipping all our money out the door

Hvar er allt unga fólkið í tónlistinni? Af hverju þarf sextugan Kanadamann til að syngja um ástandið í heiminum einsog það er? Ó, Neil – hann er snillingur.

>Let’s impeach the president for hijacking
Our religion and using it to get elected
Dividing our country into colors
And still leaving black people neglected

Jammmmmm…

Vitlaus útgáfa

Í fréttaþættinum Kompás á sunnudaginn var umfjöllun um morfínsjúklinga.

Við eitt myndskeiðið var spilað lagið Hurt eftir Trent Reznor í útgáfu Johnny Cash. Ég veit ekki alveg hvort þetta lag var valið vegna þess að það hljómar sorglega, eða vegna vísana í sprautuneyslu í laginu.

>I hurt myself today
To see if I still feel
I focus on the pain
the only thing that’s real
The needle tears a hole
the old familiar sting
try to kill it all away
but I remember everything

Allavegana, þá passaði þessi útgáfa af laginu með Cash alls ekki við tilefnið. Þegar ég fór að spá í þessu nánar áttaði ég mig á því hversu mikið merking lagsins breytist í flutningi Johnny Cash. Lagið fjallar að vissu leyti um eftirsjá og eyturlyfjaneyslan er alls ekki aðalatriðið. En sprautan er samt stór þáttur. Einhvern veginn er sterkasti kaflinn í Hurt í útgáfu Trents fyrsta versið þar sem hann talar um sprautuna og svo þegar Trent spyr sig:

>what have I become?
my sweetest friend

Í Cash útgáfunni þá er þetta í mínum huga mikið breytt. Í stað þess að vera sprautufíkill á þrítugsaldri, þá gerir hinn sjötugi Cash, lagið að sínu og engu líkara en að hann hafi sjálfur samið lagið. Myndbandið gerir það líka svo sterkt, að maður getur ekki ímyndað sér annað en að Cash hafi samið það sjálfur. Lagið fjallar allt í einu um gamlan mann, sem er á að takast á við ellina og dauðann. Og allt í einu verður sterkasta línan í flutningi Cash…

>everyone I know
goes away in the end

…sérstaklega í myndbandinu þegar sýnd er mynd af mömmu Cash og svo myndskeið af June Carter, sem lést stuttu eftir að myndbandið var gert.

Þegar ég hafði hlustað á Hurt með Cash, þá fannst mér hann vera að gera lagið svo miklu betra en Trent. En smám saman hef ég skipt um skoðun og lært að meta betur útgáfu Trents á laginu. Hún er ekki jafn áhrifamikil við fyrstu hlustun, en þegar ég fór að gefa Downward Spiral meiri sjens og byrjaði að hlusta á hana aftur (eftir að hafa fókusað of mikið á Closer í upphafi), þá lærði ég að meta útgáfu Trents betur.

Snilldin í lagasmíðinni hlýtur að vera sú að hægt sé að búa til tvær svona ótrúlega áhrifamiklar og mismunandi útgáfur af sama laginu.

Íbúð

Ég er að leita að íbúð (reyndar ekki fyrir sjálfan mig) til leigu í þrjá mánuði í sumar. Þarf að vera 3 herbergja, í RVK og ekki mjög dýr. Ef þú veist um slíka íbúð, væri frábært ef þú gætir sent mér póst. 🙂

Eyþór og X-D

Ok, atburðarrás gærdagsins:

1. Eyþór Arnalds keyrir fullur á staur. Hann skiptir við kærustuna sína um sæti í bílnum til að koma sér undan. Flýr svo af vettvangi. Semsagt, þarna sé ég a.m.k. fjögur brot:
– Hann keyrir fullur – Eyþór leggur líf sitt og annarra í hættu
– Keyrir á staur – hann er nógu fullur til að keyra á staur í góðum aðstæðum
– Flýr af vettvangi
– Reynir að villla fyrir lögreglu (skiptin við kærustuna)
2. Hann næst af löggunni og viðurkennir brotin.
3. Hann gefur svo út [yfirlýsingu](http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1201479). Í henni kemur efnislega þetta fram:
– Þetta er í fyrsta skipti, sem hann næst þegar hann keyrir fullur. (hann tekur ekki fram hvort þetta hafi verið í fyrsta skipti, sem hann keyrir fullur – bara að þetta sé í fyrsta skipti sem hann næst)
– Honum þykir þetta leitt og ætlar í meðferð.
– Hann ætlar ekki að draga sig útúr pólitík, heldur *einungis að draga sig í hlé á meðan á málinu stendur*. Eftir það ætlar hann væntanlega að taka sæti sitt í bæjarstjórn.
4. Geir Haarde [gefur út yfirlýsingu](http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1201485) þar sem hann segir eftirfarandi: „Ég held að sá manndómur sem hann sýnir í þessu máli og tekur á sig, sem hlýtur að vera honum persónulega mjög þungbært, eigi að sýna að Sjálfstæðisflokkurinn víkur sér ekki undan ábyrgð.

Nú spyr ég: Hvað meinar Geir með þessu? Hvaða ábyrgð er Eyþór að taka? Hann tekur sér frí í nokkra mánuði! Hann segir aldrei að hann muni segja af sér embættinu þegar hann verður kosinn í það.

Enn og aftur þykjast menn geta komist upp með allt í íslenskri póltík.

Sylvía Nótt er [orðin þreytt](http://www.mbl.is/mm/folk/frett.html?nid=1201461). There, I said it.


Um helgina talaði ég við tvær 15 ára stelpur. Þær höfðu **aldrei heyrt** um Bob Dylan!

Nota bene, það var ekki bara að þær könnuðust ekki við tónlistina hans, heldur höfðu þær ekki svo mikið sem heyrt á Dylan minnst. Aldrei! Ég vil fá að vita hvað er í gangi í íslenskum skólum. Hvernig er hægt að hleypa fólki útúr skólunum án þess að það **hafi heyrt um** mesta tónlistarsnilling, sem var uppi á síðustu öld? Hvernig er það hægt? Er ekki tónlistarkennsla í skólum?


Kominn með nýju Neil Young plötuna, [Living With War](http://www.rollingstone.com/reviews/album/_/id/10149965/rid/10191400/) – ádeiluplata á GWBush. Lofar góðu við fyrstu hlustun. Young byrjaði að taka upp plötuna 29.mars á þessu ári. Fyrir þá, sem ekki vita – þá er Neil Young SNILLINGUR!

Hérna er [heimasíða plötunnar](http://www.neilyoung.com/lww/lww.html), þar sem meðal annars er bent á skemmtilega umfjöllun um hana. Og hérna er [Living With War bloggið](http://livingwithwar.blogspot.com/).

Bikarmeistarar!

Ég elska LIVERPOOL!

Og Steven Gerrard er besti miðjumaður í heimi. Svo einfalt er það. Ég er enn hás eftir [leikinn í dag](https://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2006/05/13/17.08.17/). Mikið var þetta æðislega skemmtilegt!