Fashion dos and don'ts

*Jæja, þá er komið að nýjum lið hérna á síðunni: Tískuhorn Einars.*

*Hérna er ein ráðlegging til íslenskra karlmanna.*

Það virðist vera svo að Capri buxur séu að verða vinsælli meðal íslenskra karlmanna. Þetta hefur verið að gerast smám saman síðustu ár, en núna í sumar virðist þetta vera voðalega vinsælt.

Allavegana, gott og vel að karlmenn skuli ganga í Capri buxum. En ef þeir ætla að gera slíkt, þá má EKKI, ég endurtek EKKI, ég endurtek aftur EKKI ganga líka í strigaskóm og háum sokkum! Til dæmis svona

Neibbs, ef menn ætla að ganga í svona buxum þá eiga þeir annaðhvort að sleppa sokkunum eða vera í sandölum. [Like so](https://www.eoe.is/myndir/SanFran-NY-Vegas/Pages/IMG_3143.html).

Takk fyrir.


Annars getiði hérna lært að [rífa í sundur símaskrá](http://www.sandowplus.co.uk/Competition/Coulter/Stunts/stunts1.htm#1). Þetta gæti komið að gagni seinna. Ég er að spá í að æfa mig í þessu og svo næst þegar ég fer á stefnumót ætla ég að vera með símaskrá í bílnum. Ef allt er að fara til fjandans tek ég upp símaskrána, öskra, ber mér á brjóst, ríf svo símaskrána í sundur og heilla þar með stelpuna uppúr skónum.

Ég get svo svarið það, ég ætti að stofna ráðgjafaþjónustu.

Vinnupartý og útilegur

Mér finnst vanalega alveg óstjórnlega leiðinlegt að keyra. Ég keyri fram og aftur úr vinnu nánast í einhverju móki, alveg hugsanalaust. Gleymi mér oft þegar ég ætla að fara uppá Serrano á leiðinni heim og er kominn hálfa leið í Vesturbæinn þegar ég átta mig á hlutunum. Er svo vanur að fara sömu leið alveg án þess að hugsa, að öll tilbreyting veldur nánast uppnámi.

En einstaka sinnum er gaman að keyra. Einsog t.d. í kvöld. Var að keyra frá Hellu og í bæinn. Einn í bíl, með iPod-inn minn í eyrunum í æðislegu veðri með sólina í andlitið. Fannst einhvern veginn allt svo fallegt í kringum mig. Sami vegur og ég hef keyrt svo oft áður, en stundum er einfaldlega gaman að vera í bíl á 100 90 kílómetra hraða.


Þetta er búin að vera góð helgi. Ég var með starfsmannapartý hérna á fimmtudagskvöld og það var frábært, einsog vanalega. Ég veit að auðvitað er maður að halda starfsmannapartý *fyrir* starfsfólkið, en ég hef bara svo ótrúlega gaman af þeim líka. Maður lærir líka svo margt. Flestar stelpurnar eru of feimnar til að segja manni merkilega hluti í vinnunni, en í partýjunum þá losna þær við feimnina.

Ég fór svo í bæinn. Labbaði með tveim stelpum á meðan að flestar fóru á bílum. Fór með þeim á Gauk á Stöng. Þar sem ég er *orðinn tvítugur* var ég ekki alveg að fíla mig þarna inni. Spilaði púl við eina stelpuna, en svo ákváðum við að fara á aðra staði. Fórum og borðuðum á Purple Onion, löbbuðum svo uppá Café Oliver þar sem við vorum til lokunnar. Enduðum svo á Hverfisbarnum.

Á leiðinni heim um klukkan hálf sjö var komin glampandi sól og yndislegt veður í bænum. Þegar ég labbaði framhjá tjörninni hitti ég nokkra Ástrala, sem voru þar samankomnir og voru að reyna að sannfæra hvort annan um að fá sér sundsprett í tjörninni. Eftir smá umræður ákváðu þeir allir að stökkva í ískalda tjörnina. Eftir smá umhugsun ákvað ég að fylgja ekki á eftir.


Í dag fór ég svo í útilegu með hinni vinnunni minni. Þetta var fjölskyldu útilega, svo ég ákvað að gista ekki, en fór þess í stað í morgun og er búinn að vera þarna í allan dag. Var að koma heim áðan og er einsog karfi í framan. Veðrið var æði og ég borðaði yfir mig af grillmat. Maður getur ekki beðið um meira.

Í kvöld ætla ég svo að taka því rólega, klára að lesa Angels & Demons og njóta þess að sofa út á morgun. Vonandi verður morgundagurinn góður.

Hmm…

Klukkuna vantar tuttugu mínútur í sjö.

Ég hef núna séð Ástrala syndandi í tjörninni.

Takk fyrir og góða nótt.

Góður dagur

Sko, í fyrsta lagi þá trúi ég því ekki enn að enginn hafi kommentað á [Los Pericos færsluna mína](https://www.eoe.is/gamalt/2005/06/15/18.17.22/index.php). Ég hélt að það myndi allt flæða yfir af tölvupóstum og kommentum, þar sem mér væri þakkað fyrir að benda fólki á þessa snilld. Er fólk kannski ekki að fíla þetta? Nei, það getur ekki verið.

Allavegana, ég var búinn í vinnunni í dag klukkan *hálf þrjú*. Ég ákveð reyndar minn eigin vinnutíma, sem þýðir vanaleg að ég vinn lengi, en í dag var ég sáttur við að hafa klárað ákveðið verkefni og ákvað að gefa mér frí. Fór í Kringluna, keypti mér föt, borðaði Serrano og kom svo heim. Er að fara í körfubolta með vinum mínum á eftir og svo er ég með starfsmannapartý fyrir Serrano fólk í kvöld og fer svo væntanlega í bæinn á eftir. Ég verð bara einn með partýið, þar sem Emil, hinn eigandinn, er úti. Það verður fróðlegt.

Svo ætla ég í útilegu um helgina. Það er sko eins gott að það verði sól um helgina. Annars afsala ég mér ríkisborgaréttinum og sæki um pólitískt hæli í Ástralíu.

Hver verður númer 200.000 á þessari síðu? Spennan er nánast óbærileg.

Ó, reggí

pericos1.jpgÞað virðist vera svo að allir, og mömmur þeirra séu að tapa sér yfir þessari íslensku reggíhljómsveit. Furðulegasta fólk virðist hafa keypt diskinn frá þeirri grúppu. Ég tilheyri þeim hópi ekki enn, en hlýt þó að fara að nálgast það, þar sem fólk virðist vera voðalega hrifið.

Allavegana, í tilfeni þessarar múgsefjunar, þá ætla ég að bjóða æstum lýðnum uppá mitt uppáhalds reggí lag. Það er einmitt með minni uppáhalds reggíhljómsveit, sem er hin argentíska *Los Pericos*. Algjört snilldarband, sem ég hlustaði *mjög* mikið á þegar ég bjó í Suður-Ameríku.

Þetta er mitt uppáhaldslag með þeim:

[Runaway (mp3 – 6,46mb)](https://www.eoe.is/stuff/Runaway.mp3)

Njótið.

Það er ekki hægt að forðast sumarskapið þegar maður hlustar á þetta lag, sama hvað þið rembist.

Allavegana, ég er farinn að fá mér te. Ætla ekki að eyða þessu kvöldi geispandi einsog fábjáni.

Talandi um te, þá er alveg fáránlegt að lesa [lista yfir það, sem grænt te](http://www.whfoods.com/genpage.php?tname=foodspice&dbid=146) á að gera manni gott. Það vekur mann ekki bara, heldur forðar manni frá allskonar krabbameinum, hjartasjúkdómum og bætir húðina. Enda finn ég það að ég verð fallegri með hverjum deginum, sem ég drekk græna teið mitt.

Ég verð að eignast nýjan síma!

Fokk, mig er farið að langa í nýjan síma!

Ég hef með ágætu móti getað bælt þessa stanslausu löngun mína í ný tæki í smá tíma. Keypti mér [svona síma](http://www.mobile-review.com/review/samsung-e700-en.shtml) fyrir 16 mánuðum af því mér fannst hann svo ógeðslega flottur á þeim tíma. Með einhverjum ráðum hefur mér tekist að eiga þennan síma í 16 mánuði, sem er sko stórkostlegt nýtt met því ég er vanur að týna eða eyðileggja síma á svona 6 mánuða fresti.

Allavegana, ég hef verið nokkurn veginn í rónni þangað til að ég sá auglýsingu fyrir [MotoRazr](http://direct.motorola.com/ens/web_producthome.asp?Country=USA&language=ENS&productid=29302). Hólí fokk, hvað það er flottur sími. Finn hjá mér alveg óstjórnandi þörf fyrir því að eignast svona síma núna strax. Er fullviss um að líf mitt verði innihaldsríkara bara ef ég kaupi mér svona síma.

Ég var reyndar búinn að sjá þetta fyrir. Fyrir svona tveim vikum (áður en ég sá auglýsinguna, nota bene), þá missti ég símann minn í gólfið inní vinnu. Hann smallaðist í nokkra bita, en mér tókst að setja hann saman aftur. Það virkaði ágætlega fyrstu vikuna, en núna er einsog síminn minn sé með fokking holdsveiki. Hinir ýmsu hlutir detta af honum í tíma og ótíma. Í dag datt tildæmis volume takkinn af og núna get ég ekki stjórnað því hversu hátt fólk talar í símann við mig, heldur verð ég actually að biðja fólk um að tala hærra eða lægra. Sem er ekki gott.

En það myndi allt lagast með þessum [nýja síma](http://direct.motorola.com/ens/web_producthome.asp?Country=USA&language=ENS&productid=29302). Hann er svo flottur að ég verð beinlínis að fá fólk til að hringja í mig með reglulegu millibili á laugardagskvöldum, svo ég get tekið hann upp og talað í hann á Oliver, Hverfis eða hvaða stað sem ég verð á. Ég er viss um að stelpurnar eiga eftir að fríka út þegar þær sjá mig tala í þennan síma. Þar sem ég keyri um á þriggja ára gamalli Almeru, þá get ég ekki sjarmerað stelpur með flottum bíl. En ég á þá allavegana flottan síma.

Jamm, líf mitt verður skemmtilegra, fjölbreyttara og meira spennandi ef ég kaupi þennan síma.

Eða hvað? Er þetta kannski drasl sími? Talar einhver af reynslu?

Mynd frá Istanbúl

Hérna er ljómandi skemmtileg mynd frá Istanbúl af mér, Nonna herbergisfélaga mínum í ferðinni (til hægri) og Pete Sampara, sem er með þekktari Liverpool stuðningsmönnunum.

Fokk hvað það var gaman í Istanbúl!

Var ég búinn að minnast á það að Liverpool eru EVRÓPUMEISTARAR!!!

Vinna

Ég er kominn heim úr vinnunni klukkan korter í fimm!!

Kraftaverkin gerast enn.

Ég ætla að leggjast útá svalir. Er orðinn vel undirbúinn fyrir heimsókn frá [Chupa Chups](http://www.chupachupsgroup.com/) á morgun, svo ég er ekki með vott samviskubit yfir því að vera ekki að gera neitt merkilegra en að liggja í sólinni og hlusta á De La Soul.

Stórfrétt(ir)!!!

Fyrsta frétt á Stöð 2 í kvöld:

**Veggjatítlur finnast í húsi í Þingholtunum.**

Önnur frétt á Stöð 2 í kvöld:

**Flugi frestað í Keflavík!!!**

Eru menn ekki að grínast?

Ef ég væri fréttamaður, þá hefðu [þessi yndislegu tíðindi](http://news.bbc.co.uk/1/hi/entertainment/music/4085484.stm) verið fyrsta frétt.

Þynnkumeðal

Ég ætla að forðast það að vera með miklar yfirlýsingar um að mér hafi tekist að finna lausn við þynnkavandamálum mínum. Einu sinni hélt ég m.a.s. að ég væri ónæmur fyrir þynnku. Fyrstu árin, sem ég drakk áfengi, þá varð ég aldrei þunnur.

En síðustu ár fæ ég alltaf verulega slæman hausverk daginn eftir drykkju. Hausverkurinn er vanalega svo slæmur að verkjalyf duga ekki á hann og því eyði ég öllum deginum í eymd og volæði.

Allavegana, ég er komin með ágætis lausn á þessu vandamáli, sem hefur virkað nokkuð vel síðustu skipti. Trixið er að still vekjaraklukkuna mjög snemma. Nógu snemma til þess að ég sé alver öruggur um að ég muni sofna aftur. Ég miða því vanalega við svona 5 tímum eftir að ég sofna. Ég vakna þá, fer fram og fæ mér tvær verkjatöflur og fer svo aftur að sofa. Þegar ég vakna svo aftur nokkrum tímum seinna er verkurinn mjög nálægt því að vera farinn. Þetta hefur allavegana virkað nokkrum sinnum.


Þetta virkaði í morgun. Ég var í útskriftarveislu í gær og drakk kannski pínku ponsu of mikið, enda var mikið af áfengi í veislunni og ég blandaði saman bjór, hvítvíni og gini. Það er ekki sniðugt.

En veislan var skemmtileg og ég fór svo með vinum mínum niðrí miðbæ. Fórum á Café Oliver, sem mér líst ágætlega á. Reyndar hafði loftið á staðnum þau áhrif á mig að ég varð verulega slappur. Ég leit sennilega hræðilega út og ég var í einhverjum erfiðleikum með að tjá mig almennilega.

Þannig að ég ákvað að fara heim. Ég var í jakkafötum og óþægilegum spariskóm, þannig að það var ekkert voðalega þægilegt að labba heim. Kíkti á Purple Onion og fékk mér shawarma, sem ég borðaði á leiðinni heim.


Já, og [Lifehacker](http://www.lifehacker.com) er snilldarsíða!