Bleeeeh!

Þessi síða er að drabbast niður í algjöra meðalmennsku og skortur á nýju efni fer að verða vandræðalegur. Af einhverjum ástæðum get ég ekki fengið mig til að skrifa eitthvað. Ég er of önnum kafinn í vinnunni til að blogga um eitthvað af viti og svo utan vinnu hef ég ekki nennt að setjast niður.

Kannski er þetta bara sumarið?


Ég fór í útskrift hjá frænku minni um helgina. Fór svo með vinum hennar í annað partý, þar sem ég hitti gamlan félaga úr handboltanum. Hann var búinn að tala við mig í um 10 mínútur þegar hann fattaði að hann var að tala við *mig* en ekki 19 ára gamlan frænda minn. Mér finnst það pínkuponsu skrítið að fólk skuli ruglast á mér og frænda mínum.

Beið í biðröð á Hverfis seinna það kvöld. Ég er með VIP kort þar, sem virðist hafa tapað áhrifamætti sínum. Eftir að allir dyraverðirnir voru reknir virðast vera komnar þrjár biðraðir. Það er venjulega röðin, VIP röðin og svo einhver miðjuröð, þar sem allt freka fólkið fer. Auðvitað er svo freka-fólks röðin sú eina, sem gengur. Ég nenni ekki svona lengur. Hverfis er kominn í bann fo’sure.

Annars er ég í fínu skapi í dag. Það er gott.


En það er hins vegar ekki gott að þessi síða skuli bara vera einhver upptalning á djammi. Þarf að gera betur.

Annars, þá er nýja Oasis platan góð. Sú besta í mörg ár. Mér er alveg slétt sama þótt allir og mömmur þeirra segi að Oasis séu léleg hljómsveit, mér hefur alltaf fundist hún góð. Slide Away, Live Forever, Whatever, Wonderwall, Champagne Supernova, Masterplan og fleiri lög eru öll á meðal minna uppáhaldslaga. Síðustu plötur hafa verið drasl, en þessi nýja er góð.

Nýja Gorillaz platan er líka góð. Reyndar mjög góð. Já

Kominn heim frá Istanbúl

Ferðin til Istanbúl var *stórkostleg*.

Ætla að reyna að setja inn ferðasögu hérna, en þangað til það gerist þá er hér [stutt myndband af Liverpool stuðningsmönnum syngjandi You’ll never walk alone](https://www.eoe.is/stuff/never-walk-ataturk.avi) í lok leiksins. Ógleymanleg stund. Röddin mín var algjörlega ónýt á þessum punkti, þannig að ég fæ sennilega engin verðlaun fyrir söng þegar ég kem inní lagið. En mikið var þetta yndislegt 🙂

Hef nánast ekkert sofið undanfarna daga. Dagurinn í vinnunni í dag var því alveg hræðilegur. Gat aðeins lagt mig eftir vinnu, þannig að ég er smám saman að ná heilsunni aftur.

Síma blogg

Ég setti upp smá upp smá GSM blogg [hér](http://einaro.gsmblogg.is). Ætla að reyna að senda einhverjar myndir frá Istanbúl. Veit þó ekki hvort þetta muni virka úti, en vonandi get ég sent eitthvað skemmtilegt.

Helgin

Mikið er þetta búin að vera góð helgi.

Þetta byrjaði á því að ég fór með hópi frá vinnunni á Ungfrú Ísland á föstudagskvöld. Við vorum þarna 8 saman auk stelpunnar, sem var Oroblu stelpan í fyrra. Ég var þarna í matnum og alveg til enda. Fín skemmtun og aldrei þessu vant var ég sæmilega sáttur við úrslitin. Hefði reyndar viljað að [þessi stelpa](http://www.ungfruisland.is/fullungfru.php?lang=is&id=27) hefði unnið, en ég meina hey.

Við fórum svo saman niðrí bæ. Byrjuðum á Vegamótum og fórum svo á Hverfis. Ég skemmti mér frábærlega, en ég er núna kominn á það stig að ég þarf að finna mér nýja staði til að fara á. Þarf einhverja tilbreytingu. Einhverjar tillögur? Þarf góða tónlist, dansgólf, skemmtilegt fólk og sætar stelpur, helst á aldrinum 20-26 ára.


Allavegana,

Á laugardaginn fór ég á landsfund Samfylkingarinnar. Var þar stóran part dagsins. Ég var gríðarlega ánægður með bæði úrslitin í formanns- og varaformannskjörinu, sérstaklega auðvitað með varaformanninn. Held að Ágúst verði góður í því embætti.

Í gærkvöldi fór ég svo í matarboð til vina, þar sem ég var til klukkan 2. Deginum í dag hef ég svo eytt útá svölum, hlustandi á Dylan og lesandi [Fear and Loathing in Las Vegas](http://www.amazon.co.uk/exec/obidos/ASIN/0007204493/qid=1116799447/sr=8-1/ref=pd_ka_0/202-2944781-6415055), sem er snilld og [No Logo](http://www.amazon.co.uk/exec/obidos/ASIN/0006530400/qid=1116799472/sr=1-1/ref=sr_1_2_1/202-2944781-6415055).

Jamm, góð helgi, leiðinleg færsla. C’est la vie.

Tyrkland eftir tvo daga. Gott. Mjög gott.

Evró

Mikið er ég ánægður með að hafa keypt auglýsingatíma fyrir Lion Bar á undan Star Wars myndinni í bíóum í stað þess að kaupa auglýsingatíma fyrir Evróvisjón á laugardaginn. 🙂

Ég horfði á fyrstu fimm mínúturnar, svo íslenska lagið og svo þessa talningu. Ég veit því ekki hvernig hin lögin voru, en það er frekar súrt að tapa fyrir Moldavíu, Makedóníu og co. Sama í hverju er keppt.

Annars ættu þessir kynnar að fá einhvers konar verðlaun fyrir mest pirrandu ensku hreim allra tíma. Ef ekki þau verðlaun, þá allavegana einhvers konar verðlaun fyrir leiðindi.


Annars vil ég segja að mér finnst auglýsingarnar fyrir svarta kortið vera hrein snilld. Mig langar allavegana alltaf til útlanda þegar ég sé þær.

Ný heimasíða

Jæja, þá er ég loksins búinn að klára heimasíðuverkefnið, sem ég tók að mér fyrir nokkrum mánuðum. Síðan er fyrir [fyrirtækið](http://www.danol.is/), sem ég vinn hjá dags daglega.

Útlitið er reyndar ekki hannað af mér, heldur af spekingunum í Vatíkaninu, sem er auglýsingastofan, sem ég vinn langmest með í vinnunni. Ég fékk útlitið í hendurnar fyrir ansi mörgum vikum, en hef dregið það lengi að klára síðuna. Aðallega vegna þess að ég er í fullri vinnu, á auk þess veitingastað og reyni að eiga líf fyrir utan þessa tvo hluti, þannig að það var ekki auðvelt að smella heimasíðugerð þar á milli. En allavegana, þið getið skoðað [síðuna](http://www.danol.is). Þar er m.a. þessi [ljómandi skemmtilega](http://www.danol.is/starfsfolk/004286.php) mynd af mér. Ég þarf að reyna að brosa oftar á myndum. Hef verið alltof alvarlegur hingað til. Glotti í mesta lagi. Jamm


Samkvæmt [Audioscrobbler](http://www.audioscrobbler.com/user/einarorn/), þá hlustaði ég 277 sinnum á Eels í síðustu viku. Það tel ég vera prýðis árangur. Það var kominn tími til að einhver færi að gefa Dylan smá samkeppni. Eels og Neil Young koma þar sterkir inn.

Istanbúl

Jæja, núna er það orðið nokkurn veginn pottþétt að ég er að fara til Istanbúl í næstu viku. Mun þar horfa á mitt lið, Liverpool, mæta AC Milan í úrslitum Meistaradeildarinnar.

Ég einfaldlega gat ekki látið þetta tækifæri framhjá mér fara. Ég var 6 ára gamall síðast þegar Liverpool spilaði úrslitaleik í Evrópukeppni Meistaraliða, þannig að þetta gerist ekki á hverjum degi. Ég fer út næsta þriðjudag og verð í þrjá daga. Held að ég hafi aðeins einn dag í Istanbúl, þannig að ég mun ekki geta gert margt merkilegt þarna… nema fara á stærsta leik ævi minnar.

Mig hefur alltaf dreymt um að komast til Tyrklands og ég hlakka til að sjá Istanbúl, þrátt fyrir að það verði eflaust aðeins í mýflugumynd. Það er aðeins vika í ferðina. Ég hef ekki hlakkað svona mikið til utanlandsferðar í laaaangan tíma.

En allavegana, þá er ég búinn að monta mig af þessu bæði hér, [sem og á Liverpool blogginu](https://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2005/05/16/21.19.05/) 🙂

Dagur í lífi

Miðað við að ég vaknaði með þynnkuhausverk klukkan 8 í morgun, þá hefur þetta verið ansi indæll dagur. Þegar ég vaknaði hafði ég rænu á því að fara fram úr og fram á klósett, þar sem ég fékk mér tvær exedrin og fór aftur að sofa.

Vaknaði svo um 11 leytið, án hausverks. Fór í föt, setti iPod-inn í vasann og fór útí göngutúr. Vesturbærinn er æðislegur á svona sunnudagsmorgnum, þegar veðrið er jafn frábært og það hefur verið í dag. Labbaði um hverfið mitt og svo niður á höfn, þar sem ég fékk mér hamborgara á búllunni. Rölti svo niður í miðbæ í góða veðrinu.


Gærdagurinn var góður. Eyddi stærstum parti dagsins að hjálpa vini mínum að flytja. Hann er að flytja úr Reykjavík í Kópavog. Hann og kærastan hans búa núna nánast uppá Vatnsenda. Það er alveg ferlegt (fyrir mig), þar sem það er löööng keyrsla þangað úr Vesturbænum, en það reddast þó. Við kláruðum flutningana á skömmum tíma og fengum okkur svo pizzu og bjór.

Í gærkvöldi fór ég svo með vinum mínum á Maru. Það er ágætis staður fyrir utan það að réttirnir eru alveg hreint með ólíkindum litlir. Eftir súpu og aðalrétt var allur hópurinn enn sársvangur, svo við gripum á það ráð að fara á Apótekið í desert. Eftir það fórum við á Kaffibrennsluna. Eftir að hafa setið þar inni til miðnættis fóru óléttir einstaklingar í hópnum heim, en við sem eftir sátum vorum allir orðnir svangir aftur. Þannig að við röltum yfir á Purple Onion, nýjan stað, sem ég vildi endilega prófa. Reyni að gefa öllum veitingastöðum allavegana einn sjens.

Allavegana, staðurinn er þar sem Nonnabiti var einu sinni. Að sögn gaursins, sem var að afgreiða þá eru eigendurnir tveir. Það er gaurinn, sem var að afgreiða, sem er frá Jórdan og svo annar frá Litháen. Það er einmitt ástæða þess að á matseðlinum er helmingurinn af matnum frá Mið-Austurlöndum en hinn helmingurinn er rússneskur. Yndislega skrítin blanda. Allavegana, prófuðum Shawarma, sem var ágætt. Hef fengið 10 sinnum betri Shawarma, en ég er bara svo ánægður að fá svona stað að ég var jákvæður. Mæli með að fólk gefi þessum stað sjens. Mér finnst það allavegana frábært að strákur frá Jórdan reki veitingastað í Hafnarstræti.


En allavegana, fórum svo uppá Vegamót, þar sem við vorum næstu klukkutíma. Þar var ágætt. Reyndar er einsog íslenskir karlmenn hafi bara gefist upp og séu búnir að gefa eftir íslenskt næturlíf til útlendinga. Svona 60% karlmannana þarna inni voru útlendingar, stór hluti greinilega partur af einhverjum hóp.

Við vinirnir vorum þarna inni til klukkan 3 þegar við ákváðum að fara heim. Þegar ég rölti heim hugsaði ég til þess hversu gáfulegra það væri að byrja fyrr á djamminu og vera búinn að klára sinn skammt klukkan 3 í stað þess að vera þá að mæta í bæinn. Þessi breyting á opnunartíma skemmtistaða, sem ég hélt einu sinni að væri alger snilld, er hræðileg hugmynd. Í stað þess að maður geti farið á djammið og gert eitthvað daginn eftir, þá keyrir fólk sig algerlega út til klukkan hálf sjö inná skemmtistöðum og eyðir svo næsta degi í eymd og volæði langt fram eftir degi. Væri ekki nær að byrja frekar fyrr og vera búinn að klára skammtinn sinn klukkan tvö?