Nýtt frá Beastie Boys

Ein uppáhaldshljómsveitin mín, Beastie Boys, var að gefa út nýja plötu: Hot Sauce Committe Part 2. Þeir félagar eru orðnir 45 ára gamlir, en við fyrstu hlustun virkar þetta mjög vel á mig. Þeir kunna þetta.

Þetta er svo stuttmynd full af alls konar snillingum (Seth Rogen, Will Ferrell, Jack Black, Rainn Wilson o.fl.) þar sem meðal annars fyrsta lagið af plötunni, Make Som Noise, heyrist.

Ég mæli með þessu.

Snabba Cash

Snabba Cash – Ég og Margrét lásum bæði bókina Snabba Cash á Indlandi og svo horfðum við á myndina eftir að við komum heim. Okkur fannst báðum bókin verulega skemmtileg, en myndin er slöpp. Þannig að ef þú hefur séð/lesið hvorugt þá mælum við klárlega með bókinni.

Íbúðaskipti Stokkhólmur – Reykjavík í sumar

Við Margrét erum að leita að fólki, sem er tilbúið í íbúðaskipti við okkur í sumar.

Tímabilið sem um ræðir er 12. júlí til 2. ágúst.

Það sem við erum að leita eftir er íbúð miðsvæðis í Reykjavík og helst bíl með.

Á móti færð þú mjög fallega íbúð á besta stað á eyjunni Södermalm í Stokkhólmi. Sirka 50 metrum frá Medborgarplatsen, sem er torg sem iðar af mannlífi á sumrin í Stokkhólmi. Íbúðin er 50 metrum frá neðanjarðarlestastöð og hérna í nágrenninu er gríðarlegt magn af börum, veitingastöðum og öðru skemmtilegu. Þetta er einn allra besti staðurinn að búa á í þessari frábæru borg.

Kötturinn Suarez býr hérna og viðkomandi þurfa að hugsa um hann. Áhugasamir vinsamlegast sendið póst á margretrossig@gmail.com sem fyrst.

Indlandsferð 17: Ferðalok

Hjá Taj Mahal

Hjá Taj Mahal

Þá er þessi Indlandsferð búin. Tveir mánuðir í þessu brjálaða og yndislega landi. Ég hefði alls ekki viljað hafa ferðina styttri því dagsrkáin var mjög þétt nánast allan tímann, en eftir tvo mánuði er maður líka búinn að fá sinn skammt af Indlandi.

Því Indland getur verið lygilega frústrerandi á tíðum. Það er ekki erfitt að verða ástfanginn af Indlandi og Indverjum, en það er ekki heldur erfitt að verða brjálaður útí landið og fólkið. Það er hluti af því sem gerir þetta land svo magnað.

Ég verð líka að játa að eftir að ég fékk magapestina hef ég átt einstaklega erfitt með að borða ekta indverskan mat. Ég ældi tandoori kjúklingi og eftir það langaði mig ekki í tandoori. Því var ég alveg einstaklega varkár í mataræði síðustu vikurnar og maturinn, sem hafði verið stórkostlegur í Rajastan, varð frekar óspennandi síðustu vikurnar – steikt hrísgrjón og slíkt.

* * *

Síðasta vikuna í ferðinni vorum við á Havelock eyju. Við kláruðum Advanced Open Water kúrsinn, sem gerir okkur kleift að kafa á fleiri stöðum í framtíðinni. Það er gott að hafa lokið því af því að kafanirnar í kúrsinum eru ekki alveg jafn skemmtilegar og þær kafanir þar sem maður hefur frelsi til að gera það sem maður vill gera. Auk næturköfunarinnar (sem var algjört highlight) þá tókum við síðasta daginn á námskeiðinu myndavélaköfun og svo köfun þar sem við áttum að greina fiska.

Síðasta daginn á Havelock vöknuðum við svo snemma og keyrðum yfir á hina yndislegu strönd 7 þar sem planið var að kafa með fílnum Rajan. Þessi fíll er nokkuð frægur eftir að hann lék í myndinni The Fall þar sem hann kafar (sjá ótrúlegt myndband á Youtube). Fíllinn, sem er orðinn rúmlega sextugur, kafar enn þann dag í dag með fólki. Við mættum því á ströndina ásamt 6 öðrum köfurum og vonuðumst til að hann myndi kafa með okkur. Við urðum þó fyrir vonbrigðum þar sem öldurnar voru það háar að greyið fíllinn þorði ekki útí. Þannig að við fengum bara aðeins að synda í vatninu meðan hann labbaði aðeins um. Sem var jú ótrúlega skemmtilegt þótt að það væri ekki jafn spennandi og köfun með honum.

Seinna um daginn tókum við svo ferju til Port Blair, sem er aðalborgin á Andaman eyjum og á fimmtudaginn tókum við þaðan fyrsta af fimm flugum á leið okkar til Stokkhólms. Port Blair => Chennai => Hyderabad => Mumbai => Zurich => Stokkhólmur.

Við komum svo hingað til Stokkhólms seinnipartinn á föstudaginn eftir 34 tíma ferðalag, sem var með því lengra, sem ég hef lagt í (á leiðinni svaf ég heila 3 tíma). Eftir heimkomuna höfum við notið Stokkhólms. Farið í CrossFit, borðað á Serrano og kíktum svo útá lífið með vinum í gær. Það er yndislegt að vera kominn aftur heim til þessarar frábæru borgar.

Frábært ferð og ég vona að þið hafið notið þess að lesa þessa ferðasögu. Ég mun á næstu dögum skrifa smá praktíska punkta um ferðalög til Indlands.

Skrifað á eyjunni Södermalm í Stokkhólmi klukkan 19.36

Indlandsferð 16: Paradís?

Andaman eyjur eru 1.000 kílómetra austan við meginland Indlands og maður þarf oft að minna sig á að maður er (formlega allavegana) enn staddur á inversku landi.

20110413-064032.jpg

Ég á strönd 7 á Havelock eyju.

Andaman og Nicobar eyjur (túristar fá ekki að koma á Nicobar) eru eyjaklasar sem innihalda hundruðir lítilla eyja. Hérna búa enn innfæddir ættbálkar, sem eru þó sumir í útrýmingarhættu og mikill meirihluti íbúanna kemur frá meginlandi Indlands, þar á meðal stór hópur, sem flúði uppskipti Bengal héraðs (í Indland og Austur-Pakistan/Bangladesh). Af 62 tegundum spendýra, sem búa á eyjunum eru 32 þeirra bara til hér.

Eyjurnar eru eins nálægt túristabæklinga-paradís og hægt er að komast. Ég skrifa þetta fyrir utan litla bungalow-ið okkar á eyjunni Havelock og 100 metra frá mér sé ég ströndina og Andaman hafið. Nánast allar eyjurnar (Havelock meðtalin) eru þaktar hitabeltisskógi frá hæstu punktum og alveg að hvítum ströndum. Strandirnar eru fullkomnar með algjörlega hvítum sandi og blágrænum sjó. Og jafnvel Havelock eyja er ótrúlega lítið þróuð þegar að kemur að túrisma. Hérna er ódýrt að vera – stutt frá okkar bungalow er hægt að leigja sér gistingu fyrir um 250 isk á nóttu og okkar bunglaow kostar undir 2.000 krónum á mann á dag (miklu dýrara en á meginlandinu, en fyrir svona paradís, helvíti ódýrt). Einu gallarnir, sem ég get fundið, er að hérna er erfitt að kaupa áfengi og að hitinn á nóttunni er svo mikill að það er smá erfitt að sofa í okkar ó-loftkælda húsi).

* * *

Og hérna eru líka rétt fyrir utan eyjuna stórkostleg kóralrif með mögnuðu dýralífi, sem býður uppá frábæra köfunarmöguleika.

Strönd númer 7, sem er hinummegin á eyjunni og við heimsóttum á laugardaginn, var í einhverju Time blaði valin besta strönd í Asíu og það er auðvelt að sjá af hverju. Hún er gríðarlega löng, með fullkomnum hvítum sandi, fallegum skógi í bakgrunni, 28 gráðu heitum sjó og nánast engu fólki. Við erum hérna utan mesta túristatímabilsins, en samt kom það mér á óvart hversu fáir eru hérna. Það hjálpar sennilega að til Port Blair eru bara bein flug frá Kolkata og Chennai og til að komast á Havelock eyju þarf að taka 3 tíma ferju frá Port Blair.

Við komum hingað til að njóta sólarinnar og kafa. Við höfum ekki gert svo mikið af því að njóta sólarinnar, því að asninn ég brann illa á bátnum í fyrstu köfuninni og hef því forðast sólina. En þess í stað höfum við kafað slatta og það hefur verið frábært.

Við ákváðum að bæta aðeins við köfunarnámið okkar sem að ég byrjaði á í Hondúras fyrir 6 árum og taka Advanced kúrsinn. Það gefur okkur m.a. leyfi til þess að kafa dýpra (30 metra í staðinn fyrir 18) og í myrkri. Til þess að fá það leyfi höfum við því farið í nokkuð sérstakar kafanir. Við höfum farið í djúpköfun og köfun þar sem við áttum að komast leiðar okkar með hjálp kompás. En hápunkturinn var án ef að kafa í fyrsta skipti í myrkri.

Hitinn hérna á kvöldin er gríðarlega mikill og því er það yndislegt að kafa hérna á kvöldin. Hitastigið í vatninu er það sama og að sjá hlutina með vasaljósi í algjöru myrkri er einfaldlega stórkostlegt. Við köfuðum 4 saman í hóp með lítil vasaljós og skoðuðum fiskana, sem að kunna betur við sig í myrkri. Þetta var mögnuð lífsreynsla og magnaðast af öllu var í lok köfunarinnar þegar við slökktum á öllum ljósunum (við héldum þá í línu úr bátnum) og á um 5 metra dýpi lékum við okkur að því að snerta svif, sem að lýstu í myrkrinu þegar við snertum þau. Það er einhver almagnaðasta sjón, sem ég hef séð því svifin eru útum allt og í hvert skipti sem maður hreyfði hendur eða fætur þá lýstust upp hundruðir svifa.

* * *

Það eru ekki nema nokkrir dagar eftir af þessari ferð og bara nokkrar kafanir hérna á Andaman eyjum eftir. Á miðvikudaginn byrjum við að þoka okkur nær Stokkhólmi.

Ég hef ekki farið á netið í fimm daga og því er ég að skrifa þetta blogg á símann minn og mun reyna að birta það þegar ég kemst nær netsambandi á ný.

Skrifað á Havelock eyju í Andaman eyjaklasanum á Indlandi klukkan 17.14 mánudaginn 11.apríl.