Biðraða-kjaftæði

Ok, nú er nóg komið. Þessari geðveiki verður að linna!

Ég fór ásamt vini mínum og kærustu hans á [Vegamót](http://www.vegamot.is) í gær. Ég og vinur minn vorum bara rólegir, höfðum hangið heima hjá mér um kvöldið og vorum mættir á Vegamót um 1.30.

Þar var biðröð, einsog við var að búast enda er nánast alltaf biðröð fyrir utan Vegamót. Fyrir utan Vegamót, líkt og t.d. [Hverfisbarinn](http://www.hverfisbarinn.is/) eru tvær biðraðir. Önnur vanalega löng, hin stutt. Á Hverfis er þetta kallað “VIP” röð, og ég geri ráð fyrir að svo sé líka á Vegamótum. VIP á ensku stendur fyrir “Very Important Person”. Ég hef ýmislegt á móti þessum “VIP” biðröðum, en fyrst að sögunni.

Allavegana, við förum í biðröðina. Við vorum öll frekar róleg og smám saman færðumst við nær staðnum. Þegar við erum komin uppað hurðinni stoppar biðröðin hins vegar enda staðurinn fullur. Við bíðum í smá tíma. Í hina biðröðina (“VIP” röðina) kemur hins vegar hópur af stelpum. Sennilega ekki mikið eldri en 16 ára (á Vegamótum er 22 ára aldurstakmark). Þær voru 10 saman.

Þær byrja strax að væla í dyravörðunum. Vildu fá að komast inn á staðinn án þess að þurfa að bíða í biðröð. Þær halda áfram að röfla og reyna að daðra við dyravörðinn. Ekkert gengur, en allt í einu opnast hliðið á VIP röðinni og þeim er öllum hleypt inn.

Þannig að eftir 5 mínútna röfl var þeim hleypt inn, *aðeins af því að þær fóru í VIP röðina*. Þær þekktu ENGAN, þær voru ekki frægar, og voru ólíklegar til að eyða einni krónu inná þessum skemmtistað.

Nú skal ég játa það að ein af ástæðum þess að ég sæki Vegamót er sú að þar er alveg með ólíkindum mikið af sætum stelpum. Í hópnum voru vissulega sætar stelpur. En í biðröðinni fyrir aftan okkur var líka heill haugur af sætum stelpum. Þær stelpur ákváðu hins vegar að fara í rétta röð og taka lífininu rólega. Fyrir það var þeim verðlaunað með að þær fengu að hanga 20 mínútum lengur en stelpurnar, sem röfluðu í “VIP” röðinni.

**Er eitthvað vit í þessu?**

Við komumst á endanum inn, um 10 mínútum á eftir gelgjunum. Inná staðnum var mjög fínt. Ótrúlega sætar stelpur einsog vanalega og frábær tónlist. Sá stelpu, sem ég er pínu skotinn í (VÁ hvað hún var sæt!) en þorði ekki að segja neitt. Þetta græðir maður á því að fara nánast bláedrú á djammið. 🙂
Continue reading Biðraða-kjaftæði

Á hvað ertað hlusta?

Fyrir [nokkrum vikum](https://www.eoe.is/gamalt/2004/07/13/00.18.49/#2857) var mér bent á [Audioscrobbler](http://www.audioscrobbler.com) í kommenti við færslu á þessari síðu.

Þegar síðan opnaði aftur eftir breytingar dreif ég mig og skráði mig. Þetta virkar þannig að maður setur lítið plug-in fyrir iTunes eða annað tónlistarforrit á tölvuna sína. Svo þegar maður spilar tónlist í iTunes, þá uppfærist það sjálfkrafa í [prófíl](http://www.audioscrobbler.com/user/einarorn/) á Audioscrobbler. Þannig heldur síðan utanum hvaða tónlist maður hlustar á og með einföldum hætti er hægt að sjá hvaða fólk er að hlusta á sömu tónlist. Þannig er með einföldum hætti hægt að sjá hvaða nýju bönd þetta fólk er að hlusta á.

[Minn prófíll er hér](http://www.audioscrobbler.com/user/einarorn/).

Ég hef bara verið skráður í nokkra daga, þannig að það eru fá lög skráð, en smám saman verður þetta athyglisverðara.

Það er gríðarlega margt skemmtilegt í þessu. Til dæmis ef maður smellir á [Beck](http://www.audioscrobbler.com/music/Beck), þá sér maður hvaða lög eru vinsælust með Beck hjá notendum Audioscrobbler. Þar kemur í ljós að Loser (æji!) er vinsælast. Ég komst líka að því að ég hafði aldrei heyrt af laginu í öðru sæti, Everybody’s Gotta Learn Sometimes. Komst að því að það lag var í [Eternal Sunshine of the Spotless Mind](http://imdb.com/title/tt0338013/), sem ég hef ekki séð. Ég náði mér í lagið og það er gargandi snilld. Ég hefði sennilega ekki uppgötvað það á næstunni ef ekki væri fyrir [Audioscrobbler](http://www.audioscrobbler.com).

Það má segja að eini gallinn enn sem komið er við þessa síðu, sé sá að hún tekur ekki upplýsingar um lagaspilun úr iPod-inum mínum. En ég hvet alla til að skrá sig á [Audioscrobbler](http://www.audioscrobbler.com), þetta er alger snilld. Sniðug hugmynd og frábærlega einföld og skemmtileg hönnun á vefsíðu.


Enn meiri snilld er samt [Last.fm](http://www.last.fm/), sem tengist gögnunum í Audioscrobbler. [Last.fm](http://www.last.fm/) virkar þannig að þegar þú hefur hlustað á nóg af tónlist með Audioscrobbler í gangi (a.m.k. 300 lög), þá reynir Last.fm að meta tónlistarsmekk þinn eftir því hvað þú hlustaðir á.

Last.fm býr síðan til þína eigin útvarpsstöð, sem þú getur hlustað á á netinu. Þannig að ef þú hlustar mikið á Jay-Z og Eminem, þá býr forritið til útvarpsstöð með mikið af hip-hop efni og svo framvegis. Þetta er því FRÁBÆR leið til að heyra nýja tónlist.

Þetta er svo mikil snilld að ég á varla til orð!

Frekara lesefni: [Wired: Last.fm: Music to Listeners’ Ears](http://www.wired.com/news/culture/0,1284,59522,00.html)

**Uppfært**: Ég var búinn að bæta þessu við í kommentunum, en ekki allir lesa þau. Allavegana, þá stofnaði ég [hóp fyrir Ísland](http://www.audioscrobbler.com/group/Iceland). Þannig að það væri gaman ef þeir, sem eru skráðir þarna myndu ganga í hópinn. Ég veit reyndar ekki af hverju það er mynd af mér á hóp-síðunni. Þetta er ekki eitthvað egó í mér, heldur fatta ég einfaldlega ekki hvernig á að breyta um mynd á hóp-síðum.

Fahrenheit umræða

Fahrenheit 9/11 verður frumsýnd um helgina á Íslandi og því er hafin umræða um myndina hér á landi.

Ég sá myndina fyrir nokkrum vikum og skrifaði um hana hér: [Fahrenheit 9/11](https://www.eoe.is/gamalt/2004/07/03/17.01.27/)

Í Kastljósi í kvöld var riddari sannleikans frá því í fjölmiðlamálinu, Ólafur Teitur að þræta við [Sverri Jakobsson](http://kaninka.net/sverrirj/010514.html) og kvikmyndagagnrýnanda (Ólaf Torfason) um myndina.

Ólafur Teitur er löngu hættur að reyna að fela stjórnmálaskoðanir sínar, þrátt fyrir að hann sé blaðamaður. Hann, líkt og ansi margir hægrimenn í Bandaríkjunum kýs að einbeita sér að meintum staðreyndavillum í myndinni, svosem að Michael Moore hafi ekki getið þess rétt hvað bókin, sem Bush las í 7 mínútur í skólastofu á Florida á meðan ráðist var á Bandaríkin, hét. (Ok, Ólafur tiltók líka aðrar merkilegri meintar staðreyndavillur. Flestar þeirra eru ræddar [hér](http://www.michaelmoore.com/warroom/f911notes/)).

Einsog ég [skrifaði um áður](https://www.eoe.is/gamalt/2004/07/03/17.01.27/), þá eru samsæriskenningarnar án efa veikasti hluti myndarinnar. Ekki vegna þess að þær séu endilega ósannar, heldur draga þær úr áhrifum bestu hluta myndarinnar, sem sýna áhrif efnahagsástandsins og stríðsins í Íraks á venjulegt fólk. Vegna galla á samsæriskenningunum geta menn gert lítið úr bestu atriðunum með því að benda á óskyldar meintar staðreyndavillur í öðrum atriðum og þannig dregið á ósanngjarnan hátt úr trúverðugleika myndarinnar.

Besti hluti Fahrenheit 9/11 er nefnilega að hún gefur atburðum síðustu ára andlit. Í stað þess að heyra um tölfræði, þá sjáum við fólkið, sem stríðið og stefna Bush snertir. Auk þess gagnrýnir myndin á skemmtilegan hátt alla geðveikina í kringum Bush stjórnina, allt frá appelsínugulum hryðjuverkavörnum til skerðingar á borgaralegum réttindum Bandaríkjamanna.

Hversu margar meintar staðreyndavillur, sem Ólafur Teitur og félagar finna, þá nær það ekki að grafa undan þeim meginboðskap myndarinnar að Bush stjórnin hefur grafið undan réttindum borgara sinna, öryggi þeirra, sem og orðspori Bandaríkjanna á alþjóða vettvangi.

Verið hrædd! (framhald)

Ég var að reyna að rifja upp eitthvað kvót úr 1984, því mér finnst þetta hryðjuverka-viðvaranakerfi orðið svo fáránlega líkt einhverju atriði úr 1984.

Jæja, einn [notandi á MeFi fann rétta kvótið](http://www.metafilter.com/mefi/34734#712366):

>It does not matter whether the war is actually happening, and, since no decisive victory is possible, it does not matter whether the war is going well or badly. All that is needed is that a state of war should exist.

[Kvót úr 9. kafla af 1984](http://www.readprint.com/chapter-7616/George-Orwell)

Verið hrædd! Verulega hrædd!

Þetta er alveg hreint ótrúlega magnað: [US terror plot intelligence ‘old’](http://news.bbc.co.uk/2/hi/americas/3530358.stm).

Fyrir þá, sem nenna ekki að lesa þetta, þá voru allar þær viðvaranir, sem gefnar voru út í Bandaríkjunum um helgina (um að hryðjuverkamenn ætluðu að ráðast á fjármálafyrirtæki) byggðar á upplýsingum, sem voru **fjögurra ára gamlar**!

Þetta passar svo vel eitt af meginþemum Fahrenheit 9/11 að það er ekki fyndið. Það er, að það hentar stjórnvöldum afar vel að halda almenningi alltaf hræddum.

Það er líka ekki fræðilegur möguleiki að tímasetningin á þessum viðvörunum sé tilviljun, svona rétt eftir landsþing Demókrata. Það hafði jú [lekið frá Hvíta Húsinu](http://www.tnr.com/doc.mhtml?i=20040719&s=aaj071904) að æskilegt væri t.a.m. að ná Osama Bin Laden í Júlí, helst þegar á ráðstefnu Demókrata stæði.

Ég veit að ég hef varið Bandaríkin og stefnu þess lands ansi lengi. En það er bara ekki hægt að verja þessa brjálæðinga. Það er með ólíkindum að það skuli enn vera 50% af bandarísku þjóðinni, sem er ekki enn búin að fatta að stjórnvöld eru að leika sér að þeim.

Nooomah!

a_nomar_frt.jpg

Ja hérna. Ég kem heim úr góðri þriggja daga útilegu, kíki á netið og hvað sé ég?

[Nooooomar er kominn til Chicago Cubs](http://chicagosports.chicagotribune.com/sports/baseball/cubs/cs-040731cubsdeadline,1,5151176.story?coll=cs-cubs-headlines)!!

Ég veit að það eru sirka einn Íslendingur (ég), sem er spenntur yfir þessu, en ég bara varð að deila þessu með ykkur. Þið vitið ekki hversu svakalega glaður ég er. Þetta er ekki hægt. Þetta væri einsog að Liverpool myndu kaupa Beckham fyrir hundrað þúsund kall. Chicago fékk Nomar Garciaparra fyrir einhverja aukvissa!!! [Menn](http://chicagosports.chicagotribune.com/sports/baseball/cubs/cs-040801morrissey,1,595841.column?coll=cs-cubs-utility) [trúa](http://chicagosports.chicagotribune.com/sports/baseball/cubs/cs-040731rogers,1,1354653.column?coll=cs-cubs-headlines) [þessu ekki](http://chicagosports.chicagotribune.com/sports/columnists/cs-040731downey,1,1416747.column?coll=cs-cubs-utility)!

[Nomar Garciaparra](http://chicago.cubs.mlb.com/NASApp/mlb/team/player.jsp?player_id=114596) er einn allra besti leikmaðurinn í hafnaboltaheiminum. Hann er átrúnaðargoð allra Boston búa, þrátt fyrir að hann hafi verið slappur þetta árið.

Dan vinur minn (sem er Boston og Chicago aðdáandi) dýrkaði hann og hefði sennilega þurft hjartahnoð ef að Nooomah hefði farið til annars liðs en Chicago. Jei, ég er svooo ánægður. Svo stefnir allt í að ég farið til USA í ágúst og þá hef ég ábyggilega tækifæri til að sjá Nomar spila fyrir Chicago Cubs.

Hæ hó jibbí jei!

Haldið norður

Verslunarmannahelgi og ég er á leiðinni norður á land með vinum. Vonandi verður það jafn skemmtilegt og margar fyrri ferðir mínar til höfuðstaðar Norðurlands og nágrennis.

Því verður þessi síða ekki uppfærð næstu daga en Kristján mun halda [Liverpool blogginu](https://www.eoe.is/liverpool/) líflegu næstu daga.