Dolph!

Þar sem að það búa ekki allir í Svíþjóð (ógó hallærislegt!) og það horfa ekki allir á sænsku undankeppni Eurovision (vá) og það lesa ekki allir Facebook síðuna mína (hva?) þá er hér (via Birkir) stórkostlegt tímamótamyndband frá undankeppninni á laugardaginn. Ég og Margrét horfðum á þetta (seinni hlutann það er) eftir að ég hafði dregið hana labbandi um hálfa Södermalm til þess að uppfylla laugardagsþörf mína fyrir alvöru hamborgara (sem fást á Mississippi Inn fyrir þá sem vilja vita).

Allavegana, hérna er sjálfur Ivan Drago, skúrkurinn úr Rocky IV, mættur uppá svið á þessari sænsku söngvakeppni (sem er rugl vinsæl hérna í Svíaríki) og mæmar lag og dansar og spilar á trommur og brýtur spýtur og ég veit ekki hvað. Þetta er svo lygilega fáránlegt að maður þarf í raun að horfa á þetta þrisvar til að meðtaka alla snilldina (Dolph mætir á sirka 0.56).

Ekki nóg með að Dolph hafi næstum því drepið Rocky, heldur endurskilgreinir hann núna á sextugs aldri hvernig skemmtiatriði í söngvakeppni eiga að vera. Þetta verður allt niðrávið frá þessu mómenti síðasta laugardagskvöld. Því miður.

Sjónvarpsgláp síðustu vikna

Ég sé að það er ansi langt síðan að ég skrifaði um sjónvarpsgláp á þessari síðu. Í stað þess að blogga þá hefur Facebook og Twitter komið í staðinn. Ég hef ekkert fjallað um sjónvarp síðan að ég hvatti alla til að horfa á Office fyrir tæpu ári. Það á auðvitað enn við í dag.

Umræða um sjónvarpsefni er samt dálítið erfið þessa dagana. Allir eru á mismunandi stað í mismunandi seríum og sá tími löngu liðinn að maður geti spjallað um sjónvarpsefni við vini sína. Líkurnar á að fólk sé á sama stað í sömu seríum eru einfaldlega mjög litlar. Mér fannst það t.d. fyndið þegar ég var að hlusta á BS Report með Bill Simmons og hann vildi ekki gefa upp plott-twist sem gerðist í fyrstu seríu af The Wire – þætti sem var sýndur fyrir 7 árum, einfaldlega vegna þess að fullt af fólki er ennþá að uppgötva þá þætti í dag.

Allavegana, hérna er gott efni sem ég hef horft á að undanförnu;

Jershey Shore: Ég er forfallinn aðdáandi raunveruleikasjónvarps, einsog oft hefur komið fram á þessari síðu. Þegar við Margrét vorum að byrja saman fannst henni þetta rosalega hallærislegt og hún lýsti vandlætingu yfir því hverslags rusl sjónvarp ég væri að horfa. 18 mánuðum seinna með mér þá er hún auðvitað orðinn forfallinn aðdáandi svona drasl-sjónvarpsefnis.

Ég fylgist vanalega með Real World og Real World vs Road Rules challenge. Einnig hef ég verið að fylgjast með einhverjum dating þáttum á VH1, en þeir hafa hrapað í gæðum að undanförnu (Ray-J er t.d. ekki nærri því jafn skemmtilegur og Bret Michaels). En ég hef einfaldlega afskaplega gaman af því að sjá hvað fólk gerir í skiptum fyrir tímabundna frægð.

Þegar ég heyrði fyrst um Jersey Shore varð ég sannfærður um að þetta yrði snilld og ég fór strax og keypti þáttinn á iTunes. Þátturinn fjallar um 8 krakka, sem fara í sumarfrí í bæ á Jershey Shore. Öll eru þau svipaðar típur – elska ljósabekki, líkamsræktarsali, sjálft sig, techno tónlist og djamm. Blandan verður stórkostleg. Í mánuð er fylgst með þeim á djamminu, og í húsinu þar sem þau búa. Ef þú hefur minnsta gaman af raunveruleikaþáttum þá er Jersey Shore tær snilld. Ég mæli líka með spjalli um Jersey Shore í þættinum BS Report á milli Bill Simmons og Dave Jacoby, sem er sérstakur sérfræðingur um rauveruleikaþætti. Fáránlega fyndnir þættir (sjá þættina 7.des og 26.jan).

Mad Men: Þetta eru sennilega bestu þættirnir í sjónvarpi í dag. Ég varð ekki alveg hooked á fyrstu þáttunum, en það gerðist smám saman. Núna erum við hálfnuð með síðustu seríuna. Þetta eru drama þættir um starfsfólk á auglýsingastofu í kringum árin 1960-65. Frábært drama.

Dexter: Við kláruðum að horfa á síðustu seríuna í Dexter fyrir nokkrum dögum. Ég fílaði alls ekki síðustu seríu á undan, en þessi sería var frábær. Nýjasta serían fjallar um eltingaleik Dexters við annan fjöldamorðingja. Dexter er líkt og Mad Men keyrt í frekar stuttum seríum (12 þættir) og það passar nokkuð vel fyrir svona seríur þar sem að plottið nær yfir alla seríuna (en ekki sér plott fyrir sérhvern þátt – ég nenni sjaldan að horfa á slíka þætti).

Curb Your Enthusiasm: Við höfum verið að horfa á síðustu seríur í þeim þætti (ég er komin á 5. seríu). Margrét getur aldrei horft á mikið meira en einn þátt þar sem hún fær svo mikinn kjánahroll yfir öllu því fáránlega sem að Larry David kemur sér í. Ég elska þessa þætti. Það er alltof lítið af góðum gamanþáttum í sjónvarpinu.

Auk þessa erum við að horfa á Office og Lost, sem var að byrja að nýju. Ég mun ábyggilega skrifa um þá þætti meira á næstu vikum.

Kvöldverður á Edsbacka Krog

Við Margrét áttum 1,5 árs afmæli í síðasta mánuði.  Af því tilefni borðuðum við á einum albesta veitingastað sem ég hef nokkurn tímann borðað á, Edsbacka Krog í Sollentuna (sjá myndir sem við tókum). Edsbacka Krog er einn af aðeins tveimur veitingastöðum í Svíþjóð sem er með 2 Michelin stjörnur.  Hinn staðurinn er veitingasstaður Mathias Dahlgren í Stokkhólmi (á hinum Norðurlöndunum er einn 2 stjörnu staður í Danmörku, Noregi og Finnlandi.

Ég hef aðeins einu sinni afrekað að fara á 2 stjörnu Michelin stað og það var Bagatelle í Osló.  Oaxen Krog hérna í Svíþjóð þar sem við fórum síðasta sumar og er talinn vera einn af bestu veitingastöðum heims fær ekki Michelin stjörnu þar sem hann er sveitastaður og Michelin fókuserar á borgir.

Nautakjötið

Allavegana, Edsbacka Krog mun loka í febrúar.  Eigendur staðarins voru búin að fá nóg af rekstrinum og vildu gera eitthvað nýtt.  Það er auðvitað gríðarlegt stress fólgið í því að reka Michelin stað og því ákváðu þeir að loka staðnum og gera eitthvað annað.  Ég las um þetta í nóvember og fannst ég ekki geta sleppt því að borða á þessum stað áður en hann lokaði og ákvað að panta borð fyrir janúar.  Mér tókst að fá borð, sem hafa síðan öll verið upppöntuð síðan í byrjun desember.

Við vissum ekki alveg við hverju við ættum að búast á Edsbacka.  Ég er ekki alltaf ánægður á dýrum veitingastöðum – oft er maturinn tilgerðarlegur, uppfullur af dóti sem ég ekki fíla – og ég er alveg eins líklegur til að elska matinn á götustað í Mexíkó einsog á fínum og dýrum stað.

Margrét með konfektmola

En Edsbacka Krog var frábær upplifun.  Maturinn, þjónustan, allt var frábært. Staðurinn býður í dag bara uppá fastan matseðil – annars vegar 9 rétta og hins vegar 5 rétta, sem að við pöntuðum.  Auk þeirra voru svo bornir fram litlir smakk-réttir á milli mála og svo (ótrúlega gott) brauð.  Svona leit þetta út (nota bene, ég hef aldrei heyrt um hluti sem voru bornir fram í rétt 1 og 3 – ekki von að við höfum ekki fattað hvað það var þegar að sænskur þjónninn sagði okkur frá því – ég fann orðin á orðalista Gestgjafans, sem er snilldarsíða.).

  1. Salat með kjúklingi, vætukarsa og gúrku.
  2. Humarsúpa.
  3. Nautakjöt með lauk, nautasoði og svarthreðku.
  4. Mygluostur með ávaxta- og hnetubrauði og beikon ís.
  5. Brioche, kókos sorbet og grænt te.
  6. Himneskt Konfekt.

Þetta var algjörlega frábært, borið fram með tilheyrandi vínum.  Humarsúpan var kannski það hefðbundnasta á seðlinum, annað mjög frumlegt og ótrúlega gott – sérstaklega nautakjötið.  Meira að segja beikon ísinn var góður.  Það eina sem ég gat ekki borðað voru mygluostarnir, Margrét sá um þá.

Bíðandi eftir strætó fyrir utan staðinn í snjónum.

Að fara út að borða á góðum veitingastað er með því skemmtilegasta sem ég geri, en það gerist ekki oft að maður fari á veitingastaði þar sem að upplifunin öll er svona fullkomin. En svona kvöld eru ógleymanleg.

Opnun í Sundbyberg

Við opnuðum Serrano staðinn í Sundbyberg á föstudaginn.  Einsog nánast alltaf var ekki allt 100% klárt á slaginu 10.  Maturinn var ekki enn kominn allur fram í borð og afgreiðslukassinn var í ólagi.  Ég var smá stressaður og eftir að ég hafði hengt upp blöðrur fyrir utan staðinn þá var ég við hurðina tilbúinn að segja fólki að við værum ekki alveg tilbúin og myndum opna eftir smá stund.

Staðurinn að utan á föstudagskvöld

En það kom enginn fyrr en um hálf ellefu þegar að allt var tilbúið.  Stuttu seinna hópaðist svo fólkið inn og ég áttaði mig fljótt á því að ég þyrfti að hjálpa til.  Ég tók mér því stöðu við uppþvottavélina og stóð í uppvaski allt hádegið.  Við notum alvöru diska, hnífapör og glös á staðnum þannig að uppvaskið er ansi tímafrekt.  Einnig þá áttum við mjög fá eintök af sumum hlutum og því þurfti uppvaskið að vera í gangi allt hádegið.

Þetta var rosalega skemmtilegt.  Þetta fyrsta hádegi seldum við 130 manns mat án þess að hafa auglýst neitt.  Við bara tókum niður merkingarnar úr gluggunum og opnuðum hurðina.  Þetta var því frábær byrjun.  Helgin var rólegri, en hádegið í dag var svo aftur rosalega gott.  Á næstu dögum byrjum við svo að auglýsa staðinn, þannig að þetta byrjar allt saman mjög vel.

Opnun á morgun

Serrano í Sundbyberg er að verða tilbúinn og mun opna klukkan 10 í fyrramálið.

Að mörgu leyti er þetta fyrsti alvöru staðurinn okkar í Svíþjóð. Staðurinn í Vällingby er lítill og inná Subway stað og er ekki sá staður sem við viljum að Serrano sé. Sundbyberg er hins vegar stór – 150 fermetrar – með sætum fyrir yfir 40 manns. Hann er í okkar útliti, með okkar tónlist og okkar stemningu. Þetta er alvöru Serrano staður. (ég tók nokkrar myndir í dag af staðnum)

Og við erum gríðarlega stolt af þessu ölli. Emil er búinn að vera hérna úti í gær og í dag og okkur líst gríðarlega vel á staðinn. Það hefur í raun allt verið tilbúið frá því sirka kl 3 í dag. Allir iðanaðarmenn farnir og starfsfólkið hefur aðallega verið í því að þrífa, raða hlutum upp og slíkt. Í dag klukkan 5 keyrðum við svo test á matnum fyrir um 20 manns, sem að Anders rekstrarstjóri og Alex yfirkokkur höfðu boðið. Það gekk mjög vel. Við erum að breyta gríðarlega mörgu í matnum – það má segja að það sé hver einasti liður eitthvað breyttur.

Okkur fannst maturinn hérna í Svíþjóð ekki vera að virka jafn vel og heima og við vissum að við þyrftum að breyta. Þær kannanir sem við höfðum gert sýndu líka fram á það. Og því höfum við unnið með Alex yfirkokki síðustu vikur til að breyta því sem við þurfum að breyta. Í dag tókum við fyrsta alvöru testið á öllum matnum. Við vorum í raun tilbúin að fresta opnun ef það test kæmi ekki vel út en á endanum kom það rosalega vel út og okkur líst ótrúlega vel á matinn.

Á morgun þarf ég að redda nokkrum smá hlutum en annars er allt til fyrir opnun. Við ætlum ekki að byrja með neinum flugeldasýningum eða tilboðum, heldur bara opna staðinn og sjá hvort að fólk mæti ekki örugglega. Svo mun á mánudag byrja auglýsingaferhferð í nágrenni staðarins.

Þetta eru spennandi tímar og núna líður mér allavegana einsog að Serrano í Svíþjóð sé loksins byrjað af alvöru.