Ó internet!

Ó, internet! Ó internet, hversu mikið hef ég saknað þín!

Fimm heilir dagar án heima-net-tengingar eru einfaldlega meira en ég get þolað án þess að fara á taugum. Hvernig á ég að geta lifað án þess að skoða tölvupóstinn minn 15 sinnum á dag? Hvernig á ég að hlusta á útvarp? Missti ég ekki af einhverju ótrúlega spennandi á bloggsíðum landsins?

Það tók verulega á að vera netlaus svona lengi, en þökk sé Hive þá er ég núna kominn með nýja og fína net-tengingu, sem hagar sér vonandi betur en gamla Landssímatengingin mín. Því miður er ég búinn að gleyma öllum þeim ódauðlegu bloggpistlum, sem ég var búinn að semja á þessum tíma.

Já, og Jensi segir allt sem segja þarf um þetta [blessaða prófkjör á laugardaginn](http://www.jenssigurdsson.com/2006/11/13/lundarfar-damiens). Hvað var fólk að meina með því að setja Kristrúnu ekki ofar? Hvurslags eiginlega?

>Þessi flokkur gæti verið svo miklu miklu meira. Hvaða rugl er þetta? Hafna framtíðarleiðtoga jafnaðarmanna og einhverjum frambærilegasta stjórnmálamanni sem hefur komið fram vinstra megin við miðju í langan tíma?

>…

>Formenn eru felldir á landsfundum, ekki í prófkjöri rétt fyrir einhverjar mikilvægustu þingkosningar í sögu þjóðarinnar.

>Hættið þessari vitleysu.

>Fylkið nú liði að baki formanni og varaformanni. Hættið þessum innanflokkskítingi og fellið helvítis ríkisstjórnina.

Og hvað er málið með þetta “hun hedder Anna” lag? Er þetta eitthvað djók sem ég er ekki að fatta af því að ég er búinn að vera svona lengi í Asíu?

Prófkjör hjá Samfylkingunni í RVK

Jæja, prófkjörið hjá Samfylkingunni í Reykjavík um helgina og ég ætla auðvitað að kjósa – og hvet alla til að gera það sama.

Hérna er minn listi.

1. Ingibjörg Sólrún
2. Össur
3. Jóhanna Sigurðardóttir
4. Ágúst Ólafur
5. Kristrún Heimisdóttir
6. Helgi Hjörvar
7. Steinunn Valdís
8. Ellert B. Schram

Ég vann með þeim Ellert og Kristrúnu í framtíðarhópi Samfylkingarinnar og hef mikið álit á þeim báðum og tel að þau styrki listann umtalsvert. Auk þeirra tveggja tel ég að Steinunn Valdís sé frábær kostur í stað þeirra þingmanna, sem nú sitja fyrir Samfylkinguna og eru ekki á mínum lista.

Þetta er að mínu mati verulega sterkur listi.

Næsta ríkisstjórn

Samkæmt könnun Fréttablaðsins í morgun, þá myndi þingmannfjöldi flokkanna á Íslandi verða svona ef gengið yrði til kosninga í dag.

Framsókn: 4
Sjálfstæðisflokkur: 25
“Frjálslyndir”: 7
Samfylking: 19
Vinstri-Grænir: 8

Nú hefur Ingibjörg Sólrún sagt að stjórnarandstaðan muni stefna að því að mynda ríkisstjórn ef að stjórnin fellur. Samkvæmt þessari skoðanakönnun er ríkisstjórnin með 29 þingmenn og því fallin. Að mínu mati þarf þó Samfylkingin að tilkynna að forsendur fyrir þessari yfirlýsingu Ingibjarar eru brostnar með þessari stefnubreytingu Frjálslyndra. Samfylkingin á ekkert erindi í ríkisstjórn með Frjálslyndum.

Það er ljóst að vinstri stjórn er ekki lengur möguleiki, ekki einu sinni með þáttöku Framsóknar. Einnig myndi ég telja að Sjálfstæðisflokkur og Vinstri Grænir myndu aldrei mynda stjórn með svona naumum meirihluta.

Það er því að mínu mati aðeins einn ríkisstjórnarmöguleiki, sem kemur til greina – ekki bara fyrir Samfylkinguna, heldur yfir höfuð. Það er ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Sjálfsstæðisflokks. Ég sé ekki nokkurn annan möguleika í stöðunni ef að svona fer.

Kosningar

Ég er að endurheimta [álit mitt á bandarískum kjósendum](http://www.cnn.com/2006/POLITICS/11/08/election.senate/index.html). Að mínu mati hafa þeir ekki gert neitt rétt í 10 ár eða síðan Clinton var endurkjörinn. Vonandi að þetta sé ekki bara tímabundið.

Stephen Colbert [viðurkennir ósigur](http://colbertondemand.com/videos/The_Colbert_Report/Colbert_Calls_it_Quits). Algjör snilld!

Britní

Ja hérna, ég er búinn að missa alla [trú á hjónabönd](http://www.tmz.com/2006/11/07/britney-spears-files-for-divorce/). Ef þau geta ekki látið þetta ganga, hver þá?

Here I am baby!

Er *hægt* að hlusta á [þetta lag](http://www.serrano.is/stuff/SignedSealedandDelivered.mp3) án þess að fara að dansa?

Ég held ekki.

Þetta lag kemur mér allavegana alltaf í stuð og gott skap. Stevie er snillingur!

[Stevie Wonder – Signed, Sealed and delivered](http://www.serrano.is/stuff/SignedSealedandDelivered.mp3) – 2.83 mb mp3

Silfur Egils í dag

Í Silfri Egils töldu stjórnandi og viðmælendur eftirfarandi:

1. Að það væri veikleikamerki á Samfylkingunni að ekki væri næg endurnýjun á framboðslista (ólíkt xD í Reykjavík) og að þingmenn sætu sem fastast á sínum sætum (en vikju ekki einsog t.d. Sólveig Pétursdóttir)
2. Að það væri veikleikamerki á Samfylkingunni að tveir þingmenn hefðu verið felldir í prófkjörum síðustu daga.

Það er erfitt fyrir Samfylkinguna að þóknast andstæðingum sínum.

Sumum viðmælendum þótti það í lagi að minnst sé sérstaklega á það þegar að *innflytjendur* nauðga konum. Það þykir mér ótrúlegt. Þætti sama fólki í lagi að sjá eftifarandi fyrirsagnir?:

1. Sjálfstæðismaður nauðgaði konu í miðbæ Reykjavíkur í gær.
2. Garðbæingur nauðgaði konu í miðbæ Reykjavíkur í gær.

Hvað gera svona fyrirsagnir annað en að sverta orðspor alls hópsins, sem hafði ekkert með glæpinn að gera?

Ég legg til að Frjálslyndi flokkurinn leggi til tillögur um það hvernig skal keyra áfram íslenskt efnahagslíf án þáttöku erlends vinnuafls. Þeir hefðu ágætt af því að starfa sem starfsmannastjóri hjá stóru fyrirtæki í nokkra daga.

Varaformaður Frjálslyndaf flokksins vill ekki fá inn Múslima til Íslands af því að þeir eru svo mikið öðruvísi. *Samt* segist hann ekki vera rasisti. Ég tel að hann sé ekki fær um að dæma það hvort hann sé sjálfur rasisti.

Jens í 4. sætið

Þetta er auðvitað alltof seint sett hérna inn, en ef einhverjir eiga eftir að kjósa í prófkjöri Samfylkingarinnar í Kraganum, þá hvet ég þá til að setja [Jens vin minn í 4. sætið](http://www.jenssigurdsson.com/).

Jens er **snillingur**, hugsjónamaður og eðaljafnaðarmaður. Hann myndi svo sannarlega koma með ferska vinda inná Alþingi.

Við Jens höfum verið vinir í næstum því 10 ár og við engann annan hef ég átt jafnmargar og jafnskemmtilegar umræður um pólitík. Kjósið Jensa í 4. sætið – hann á svo sannarlega erindi á Alþingi.

Suð-Austur Asíuferð 17: Ísland, fagra Ísland


Kominn heim eftir fáránlega langt ferðalag. Flugið frá Bangkok til London tók um 15 tíma og auk þess græddi ég 7 tíma í tímamismun, þannig að ég kom alveg kexruglaður til London á miðvikudag, tékkaði mig inná hótel og datt svo niður á rúm og svaf mestallan daginn. Notaði svo gærdaginn í að kíkja í búðir og kaupa föt. Flaug svo með IceExpress til Keflavíkur í gærkvöldi.

Í Bangkok gerðist svo sem ekki mikið meira en ég var búinn að tala um. Ég hitti íslenskt par, Kidda og Heiðrúnu, sem voru að byrja ferðalag um SuðAustur Asíu. Þau höfðu heyrt af blogginu mínu og voru í sambandi í kjölfarið og við hittumst í smá tíma til að ræða um ferðina. Ég eyddi svo bara tímanum í að ráfa um verslanirnar í Bangkok.

Og núna er ég kominn heim og var að koma inn eftir að hafa unnið í allan dag. Það er auðvitað fáránlega mikið búið að hlaðast upp af verkefnum, en það er líka bara skemmtilegt. Ég þarf að klára mörg mál varðandi vinnu og líka varðandi mitt einkalíf.

Ég mun setja inn einhverjar myndir á næstu dögum eftir að ég er búinn að laga þær til og merkja.

En allavegana, ég vona að fólk hafi haft gaman af þessum ferðasögum mínum. Þessi ferð var algjörlega frábær fyrir mig og ég vona að mér hafi tekist að koma einhverju af því vel til skila til ykkar. Einsog ég hef áður sagt, þá vil ég ekki endilega koma afslappaður heim úr fríi, heldur finnst mér miklu skemmtilegra að koma þreyttur heim, en fullur af æðislegum minningum um skemmtileg ævintýri. Ég er kannski þreyttur, en ég er samt fullur af krafti og tilbúinn í að glíma við ný verkefni.

Takk.

Skrifað í Vesturbæ Reykjavíkur