Lífið í Stokkhólmi, Oasis tónleikar og fleira

Lífið í Stokkhólmi er gott. Við Margrét erum búin að gera margt skemmtilegt, en ég hef einhvern veginn ekki haft kraft í að skrifa blogg eða email til vina heima.

Vinnan gengur fínt og opnunin í Vallingby hefur heppnast vel. Ég er smám saman að læra á það sem virkar og það sem virkar ekki í sænska viðskiptavini. Þótt að Svíar séu líkir Íslendingum, þá getur maður ekki notað alveg sömu aðferðir og við notuðum heima. En þetta kemur smám saman. Við erum meðal annars að fara í samstarf með stærstu líkamsræktarkeðjunni í Svíþjóð, sem ætti að stimpla okkur inn meðal fólks sem hugsar um heilsuna.

* * *

Við fórum á Oasis tónleika í síðustu vik í Globen íþróttahöllinni. Við keyptum miðana mjög seint og fengum því sæti á ekkert spes stað. Ég sá Oasis fyrir 8 árum í Chicago á mjög góðum tónleikum í Chicago Theatre, sem er um 3.000 manna leikhús sem hentaði frábærlega sem tónleikastaður. Ég var þar á fremsta bekk og þrátt fyrir að Noel hefði sungið nánast öll lögin, þá voru það frábærir tónleikar. Eini gallinn var alltof hröð útgáfa af Wonderwall.

Tónleikarnir í Globen voru ágætir. Ég sagði það eftir tónleikana að Noel væri eiginlega tragísk persóna. Hann samdi efni á tvær stórkostlegar plötur þegar hann var 27 og 28 ára en hefur aldrei náð slíkum hæðum aftur. Meira að segja B-hliðar á smáskífum (Talk Tonight, Masterplan) á þeim tíma voru stórkostleg lög, mun betri en það sem hann hefur samið síðustu ár.

Núna er hann í hljómsveit með bróður sínum, sem virðist engan áhuga hafa á þessu. Þessi sviðsframkoma Liams var sniðug fyrir 15 árum, en varla lengur í dag. Hann var alltaf að fara af sviðinu, virtist ekki leggja mikið á sig og stóð einsog álfur og starði á áhorferndur þess á milli. Auk þess sem hann virtist vera mjög ölvaður eða á öðrum vímugjöfum og ekkert skildist af því sem hann sagði. Það vantaði rosalega mikið aukinn kraft frá honum til að gera lögin betri.

Að því sögðu, þá tóku þeir Wonderwall, Don’t look back in anger, Masterplan, Morning Glory og Champagne Supernova. Og það er nóg fyrir mig. Þetta eru lög sem ég algjörlega dýrkaði sem unglingur og geri enn í dag. Oasis áttu ásamt Blur, Radiohead, Weezer, Sude, Pulp og einhverjum öðrum sveitum þær plötur sem að höfðu mest áhrif á mig á unglingsárunum. Ætli þeir verði því ekki alltaf í miklum metum hjá mér. Wonderwall er sennilega það lag sem ég hef hlustað oftast á, og Don’t Look back in anger er eitthvað besta gítarlag í heimi. Það að sjá þessi lög flutt af Oasis á sviði í annað skiptið á ævinni gerir kvöldið þess virði.

Þeir tóku líka nokkur lög af nýju plötunum og þar fannst mér I’m Outta Time vera hápunkturinn.

* * *

Ég hef svo borðað ofboðslega góðan mat, unnið mikið, séð tvær myndir í bíó (nýjustu Lukas Moodyson myndina Mammut – sem er góð og Benjamin Button, sem er la la) og skoðað óheyrilegt magn af íbúðum. Við höfum bara leiguíbúðina fram til loka apríl, þannig að við höfum flakkað mikið um Vasastan og Södermalm í leit að íbúð. Það er ekki auðvelt verk. Jú, og við djömmuðum með gestum frá Íslandi í kringum Stureplan, sem var mjög skemmtilegt.

Ég elska þessa borg.

Vallingby, Vinsældir, Macworld og áramót

Ég er kominn til Stokkhólms. Hér er kalt. Skítfokkingkalt! En ég vissi það svo sem að þessir mánuðir yrðu kaldir.  Ég  er alveg til í að færa þá fórn til þess að fá almennilega sumarmáuði.

Er búinn að vinna einsog geðsjúklingur og sárvorkenni þeim sem eru í email sambandi við mig þar sem ég er búinn að dæla út verkefnum í allar áttir síðustu tvo daga.  Í dag fór ég til Vallingby þar sem staðurinn okkar er staðsettur og tók þessa mynd af staðnum með “teaser” merkingunum. Allt lítur þokkalega út og við ættum að geta opnað í kringum 21.jan einsog við áætluðum.

* * *

Vinsældir mínar á Blogg Gáttinni hafa hrapað. Í fyrra var ég í 14.sæti, en í ár er ég kominn niður í 58. sæti. Þetta er gríðarlegt áfall fyrir egóið, en ég get varla búst við miklu, þar sem að færslum á þessu bloggi hefur fækkað um rúmlega helming á milli ári, aðallega á seinni hluta ársins. Kreppa segja einhverjir. Ég kenni kærustunni og meiri skemmtilegheitum um bloggleysið.  Mér fannst miklu skemmtilegra að blogga um það hversu lífið var erfitt og stelpur ömurlegar heldur en allt þetta skemmtilega.  Því fækkaði færslunum.  En núna þar sem ég er í öðru landi en nánast allir mínir vinir þá mun bloggunum eflaust fjölga.

Annars er athyglisvert að Liverpool bloggið er bara í 48.sæt á þessum lista þrátt fyrir að vera klárlega meðal 10 mest lesnu blogga á landinu. Það stafar aðallega af því að nánast allir sem lesa þá síðu fara beint inná slóðina, en ekki í gegnum Blogg Gáttina og að þar eru tiltölulega fáar uppfærslur á meðan að umræðan við hverja uppfærslu er.  Vinsælustu síðurnar á Blogg Gáttinni eru allar síður sem eru uppfærðar mjööög oft í viku.

En allavegana, ég axla fulla ábyrgð á þessu vinsældahruni. Hvernig ég axla þá ábyrgð veit ég ekki.

* * *

Annars var MacWorld í gær. Ólíkt Macworld 2006 (þar sem ég var sleeeefandi yfir iPhone) og 2007 (þar sem ég var slefandi yfir Apple TV), þá var eiginlega ekki neitt rosalega spennandi kynnt í gær. Phil Schiller var þarna í stað Steve Jobs og hann kynnti lítið spennó. Jú, nú selur iTunes lög án höfundarréttarvarna (sem mun væntanlega þýða að ég nota iTunes meira) og svo kynnti hann 17 tommu Macbook, sem ég hef nákvæmlega núll áhuga á, enda burðast ég með tölvuna með mér allan daginn og hef ekki áhuga á varanlegri vöðvabólgu í öxlunum.

Hann kynnti þó nýja útgáfu af iWork, sem inniheldur m.a. besta forrit í heimi, Keynote. Ég var að kaupa það og ákvað að uppfæra kynninguna mína fyrir morgundaginn með nýjum effectum, sem eru rosalega smart.  Ef ég fæ ekki einhver “úúú” og “aaaah” þá verð ég svekktur. Svo verður iLife uppfært í lok janúar og þar virkar iPhoto svo spennó að mig langar næstum því að skipta aftur úr Aperture.

* * *

Áramótin mín voru fáránlega skemmtileg. Ég var hjá bróður mínum í mat, skaupi og flugeldum. Eftir miðnætti héldum við félagarnir á Njálsgötunni svo ótrúlega skemmtilegt partí. Þar var ótrúlega mikið af skemmtilegu fólki og það var spilað á gítar, dansað uppá borðum og stólum og drukkið langt fram eftir morgni. Ég rak síðasta fólkið út rétt fyrir átta um morguninn, sem var gríðarlega hressandi. Svona á að byrja nýtt ár.

Áramótaávarp 2008

2008 er búið að vera besta ár ævi minnar.

Þrátt fyrir allt sem hefur gerst í haust á Íslandi þá breytir það því ekki að árið markaðist fyrst og fremst af því skemmtilega fólki, sem ég umgekkst og öllu því skemmtilega sem gerði. Ég er eflaust einn hinna heppnu. Ég seldi íbúðina mína í vor á góðu verði og ég bý núna í leiguíbúð með tveim vinum mínum og skulda því nánast ekki neitt. En maður minnist áranna sennilega ekki vegna efnahagsástands, heldur fyrst og fremst vegna fólksins sem var í kringum mann. Mestu góðærisárin með öllu fylleríinu voru ekki mín bestu ár og ég fékk lítið úr því að eiga fína íbúð og nýjan bíl. En núna þegar ég keyri um á 6 ára gömlum bíl og bý í leiguíbúð með öðrum, en umgengst skemmtilegt fólk og á stórkostlega kærustu, þá líður mér miklu betur en áður.

* * *

Árið hefur gengið vel í vinnunni. Emil, sem á Serrano með mér, byrjaði að vinna við staðinn í fullu starfi í upphafi ársins og það gerði mér kleift að einbeita mér að því að setja Serrano upp í Svíþjóð. Við fengum fjármögnun á það verkefni í mars og síðan þá höfum við verið að vinna með sænsku ráðgjafafyrirtæki til að finna staðsetningu fyrir fyrsta staðinn. Sú staðsetning fannst í sumar og núna er staðan sú að við ætlum að opna fyrsta Serrano staðinn í Svíþjóð 21.janúar næstkomandi.

Ég hef verið mikið í Svíþjóð á árinu til að undirbúa staðinn. Er búinn að semja við birgja, banka og alla þá aðila sem við þurfum að vinna með á staðnum. Erum einnig búin að ráða rekstrarstjóra, sem byrjar næsta vor og í byrjun janúar munum við taka viðtöl við starfsfólk fyrir staðinn. Ég er með ágæta íbúð í Stokkhólmi á leigu, en fljótlega á næsta ári þarf ég að finna nýja íbúð.

Heima hefur Serrano gengið vel og veltan tvöfaldast frá því árið 2007. Við opnuðum tvo staði á árinu, á N1 Bíldshöfða og í Dalshrauni í Hafnarfirði.

* * *

Ég ferðaðist talsvert á árinu, mun meira en í fyrra. Í byrjun ársins fór ég ásamt nokkrum vinum mínum í frábæra ferð til Liverpool þar sem við sáum mína menn vinna Sunderland. Stuttu seinna fór ég ásamt Emil til San Francisco, þar sem við heimsóttum fæðingarstað þeirrar típu af burrito, sem við seljum á Serrano. Þar smökkuðum við mikið af mat og undirbjuggum Svíþjóðar planið.

Í maí og júní ferðaðist ég svo um [Mið-Austurlönd](http://eoe.is/ferdalog/#mid-austur-2008) í algjörlega frábærri ferð. Ég fór til Líbanon, Sýrlands, Jórdaníu, Ísrael og Palestínu og upplifiði hluti sem ég hafði aldrei upplifað áður. Ég sá Petra, Jerúsalem, Damaskus, Palmyra og Beirút. Ég kynntist ótrúlegu fólki, borðaði stórkostlegan mat, upplifði nýja siði og kom aftur breyttur maður og ótrúlega hamingjusamur. Mér fannst ég vera sáttur við lífið og hvert ég stefndi.

Og stuttu seinna byrjaði ég með kærustunni minni, Margréti. Það er rúmt ár síðan við kynntumst í fyrsta skipti og við höfðum hist öðru hvoru í gegnum sameiginlega vini, en við byrjuðum ekki saman fyrr en ég bauð henni útað borða í júlí. Fram að því hafði sumarið verið stórkostlegt með frábærri útilegu í Úthlíð sem hápunkt. Og restin af sumrinu var líka lygilega skemmtileg. Þetta var án nokkurs efa besta og skemmtilegasta sumar ævi minnar. Allar helgar gerði ég eitthvað skemmtilegt. Ég fór á ótrúlega skemmtilega Þjóðhátíð, í skemmtilegar sumarbústaðarferðir og útilegur og svo fór ég í brúðkaup hjá gamla herbergisfélaga mínum úr Northwestern nálægt Boston í lok sumars.

* * *

Seinni part ársins hef ég flakkað mikið á milli Reykjavíkur og Stokkhólms. Í ágúst flutti ég úr íbúðinni minni við Hagamel, sem ég hafði átt í 6 ár. Þar með má segja að ákveðnu tímabili í mínu lífi hafi lokið. Í þessari íbúð var ég búinn að upplifa ansi margt. Ég valdi hana með fyrrverandi kærustu minni, svo hættum við saman áður en ég flutti inn. Á Hagamelnum hef ég búið síðustu 6 ár, haldið öll þessi partí og verið í öllum þessum samböndum, sem ekki hafa gengið upp. Undir það síðasta var mér hætt að þykja vænt um íbúðina, ég var hættur að laga hluti sem biluðu og ég vildi bara komast í burtu. Þegar ég flutti út þá byrjaði ég að leigja með tveim vinum mínum í miðbæ Reykjavíkur. Það hefur verið skemmtilegt, enda frábært að vera nánast alltaf umkringdur fólki eftir að hafa búið svona lengi einn.

Í janúar mun ég svo flytja til Stokkhólms ásamt kærustunni minni. Hún ætlar að leita að vinnu þangað til í haust þegar hún fer í háskóla, en ég ætla að reyna að koma af stað fyrsta Serrano staðnum. Ég hreinlega get ekki beðið. 2008 er búið að vera stórkostlegt ár og ég er gríðarlega bjartsýnn á að næsta ár verði líka gott. Ég veit að þetta blogg hefur ekki verið burðugt fyrir utan kannski ferðasöguna, en ég vona að það batni á næsta ári. Mér líður ótrúlega vel við þessi áramót og bíð spenntur eftir næsta ári.

Gleðilegt ár. Takk fyrir að lesa.

Jól

Í fyrsta skipti í ansi mörg ár er ég spenntur fyrir jólunum.

Þrátt fyrir alla kosti sem fylgja því að vera single, þá er það að vera kærustulaus yfir jólin ekki einn af þeim.  Í fyrsta skipti í mörg ár er ég á föstu um jólin og viti menn, ég er loksins aftur spenntur fyrir jólunum.  Ekki það að mér hafi leiðst jólin, en núna er ég hreinlega orðinn janspenntur og einhver karakter í Helgu Möller lagi. Það er hálf skrítið.

Síðustu dagar hérna á Íslandi eru búnir að vera ótrúlega skemmtilegir.  Hef skemmt mér með vinum mínum, verslað jólagjafir og notið lífsins auk þess sem ég hef unnið slatta.  Ég ætla að klára að skrifa jólakortin í dag og svo klára að pakka inn gjöfunum á morgun.  Þá er þetta mestallt komið.  Allt þetta fjör hefur auðvitað valdið því að þessi bloggsíða hefur mætt afgangi.  Svo verður sennilega áfram.

Framkvæmdir hefjast

Á þessari ágætu mynd, sem var tekin í gær í Vallingby, úthverfi Stokkhólms má sjá byrjunina á framkvæmdum við fyrsta Serrano staðinn hérna í Svíþjóð.

Við erum semsagt að deila stað með Subway. Við erum á lestarstöðinn í Vallingby, sem er við innganginn í [Vallingby City](http://www.vallingbycity.se/), sem er stór verslunarmiðstöð. Á myndinni er verið að smíða vegg á milli staðanna, sem á að vera á meðan að á framkvæmdum við Serrano staðinn stendur. Við erum búin að flytja út heilan gám af dóti frá Íslandi, þar á meðal sérsmíðað afgreiðsluborð, parket og fleira – sem var hagstæðara að kaupa á Íslandi vegna gengismála. Sjá fleiri myndir frá bygingu staðarins hér. Ég mun uppfæra þetta albúm eftir því sem meira gerist.

Ég er búinn að vera hérna í Stokkhólmi síðan á fimmtudaginn og það er búið að vera mikið að gera. Við ákváðum fyrir um tveim vikum að fresta opnuninni aftur til 15.janúar til að gefa okkur betri tíma í að klára marga hluti sem þarf að huga að. Hins vegar eru framkvæmdirnar við staðinn hafnar og þeim á að ljúka um miðjan desember. Eftir það þá höfum við ágætis tíma til að klára mál tengd heilbrigðisyfirvöldum (sem eru talsvert strangari en heima á Íslandi), prufukeyra staðinn og þjálfa starfsfólk.

* * *

Almennt séð eru Svíar mjög jákvæðir gagnvart Serrano. Hvort sem það er í bönkunum, auglýsingastofum eða birgjum þá líst mönnum vel á hugmyndina og fólk hefur trú á þessu. Þá virðist engu máli skipta að hugmyndin sé íslensk. Það verður að teljast jákvætt.

Ég hef það annars bara ansi gott fyrir utan það að kærastan mín er heima á Íslandi. Ég er búinn að koma mér ágætlega fyrir hérna í íbúðinni og mér finnst ég þekkja næsta nágrenni ágætlega. Ég bý í íbúð á Södermalm í mjög skemmtilegu hverfi og er íbúðin umkringd börum og alls kyns veitingastöðum, sem ég mun sennilega seint ná að prófa alla.

Sigur Rós og dauður bíll

Þessi mynd var tekin við Arnarhól síðasta laugardag. Hún sýnir greinilega hvað gerist þegar maður lánar kærustunni sinni bílinn á meðan maður er í útlöndum.

<img src=http://farm4.static.flickr.com/3243/3055937289_c1e50c0a98.jpg class="midja"

Annars er ég búinn að eyða síðustu dögum á Íslandi, en er á leið aftur út til Svíþjóðar á fimmtudaginn. Átti alveg meiriháttar helgi hérna heima. Fór útað borða á föstudaginn, var svo í meiriháttar kalkúna-matarboði heima hjá vinum mínum á laugardaginn og á sunnudaginn fórum ég og Margrét á Sigur Rósar tónleikana.

Ég hef núna séð Sigur Rós 4-5 sinnum á tónleikum, en þetta voru bestu tónleikarnir sem ég hef séð með þeim. Algjörlega frábærir. Lagavalið, sviðsmyndin og brellurnar, sem og hljómsveitin sjálf voru fullkomin. Þetta er með ólíkindum góð tónleikasveit.

Myndir frá Jerúsalem og fleira

Ég er kominn heim til Íslands. Er búinn að eiga fína helgi hérna heima og verð hér fram á miðvikudag þegar ég fer aftur til Stokkhólms.

Fór á 15 fokking ára Garðaskóla reunion, sem var nokkuð skemmtilegt. Fyrir hittumst við sem vorum saman í bekk í Flataskóla og svo fórum við saman á reunionið, sem var á Thorvaldsen. Ég spjallaði við fulltaf góðu fólk og skemmti mér nokkuð vel. Í gær fór ég svo uppí sumarbústað og slappaði af.

Svíþjóðarferðin gekk annars mjög vel. Áttum marga góða fundi og málin þarna ganga almennt séð mjög vel. Það sem skemmir fyrir eru aðstæður hérna heima, en við höfum til að mynda beðið í þrjár vikur eftir millifærslu á peningum til Svíþjóðar. Ef að aðstæður skána ekki eitthvað hérna á næstu tveimur vikum fer það að stofna þessu verkefni í einhverja hættu, en vonandi bjargast það þó.

Allavegana, ég setti loksins inná Flickr myndir frá Ísrael. Ég skipti myndunum frá Ísrael í tvo hluta og í þeim fyrri eru myndir frá Jerúsalem.

Á þessari mynd er ég fyrir framan Dome of the Rock á Musterishæðinni í Jerúsalem. Svo sannarlega einn af hápunktum ferðalaga minna undanfarin ár.

Allavegana, það er best að horfa á myndirnar sem slideshow á Flickr hérna.

Á Södermalm

Ég er kominn inní nýju íbúðina mína á Södermalm í Stokkhólmi. Þessa íbúð er ég að leigja af Svía í 6 mánuði. Hann ætlar að eyða vetrinum í Indónesíu á brimbretti á meðan að ég ætla að reyna að eyða tímanum í að setja upp Serrano stað hérna í borginni.

Mér líður hálf skringilega að vera að reyna að koma mér fyrir hérna. Ég er búinn að heimsækja Stokkhólm það oft undanfarin ár að ég er farinn að þekkja borgina ágætlega, en það breytist ansi mikið þegar maður er kominn með eigin íbúð og þarf að versla í matinn og láta einsog maður eigi heima hérna. Ég er búinn að fylla ísskápinn af eggjum og öðrum matvörum sem mér finnst vera nauðsynlegar og ég er búinn að kaupa mér líkamsræktarkort fyrir næstu mánuðina, þannig að helstu nauðsynjar eru komnar.

Ég ætla að eyða vikunni hérna í Stokkhólmi á ýmsum fundum.  Bæði með hugsanlegum birgjum, sem og auglýsingastofum og aðilum, sem gætu hjálpað okkur að byggja fyrsta staðinn okkar.

Ástandið á Íslandi hefur valdið því að við höfum þurft að hugsa suma hluti öðruvísi.  Við vorum fyrir löngu búnir að fjárfesta það miklum fjárhæðum í þetta verkefni að það hefði verið of dýrt að hætta við, en við höfum þurft að aðlaga okkur.  Eitt af því er að við munum til dæmis láta framleiða afgreiðsluborðið heima og svo flytja það tilbúið út til Svíþjóðar.  Það sparar auðvitað gjaldeyri og skapar vinnu heima fyrir auk þess sem þetta var eiginlega eina leiðin til þess að klára borðið fyrir opnun hérna úti.

* * *

Ég hélt uppá afmælið mitt ásamt meðleigjendunum mínum tveimur á Njálsgötunni á föstudaginn.  Við ákváðum að sameina afmælin okkar og það var svo sannarlega vel heppnað.  Við héldum það í sal útá Seltjarnarnesi og það var meiriháttar stuð þar sem að yfir 100 manns komu.  Við dönsuðum þar til þrjú og kíktum svo í bæinn eftir það.  Á laugardaginn fórum við Margrét svo í innflutningspartí þar sem við vorum ekki alveg jafn hress og kvöldið áður.

Annars er veðrið hérna í Stokkhólmi fínt og mér líst bara nokkuð vel á framhaldið hérna í Svíþjóð.  Bjartsýna áætlunin er núna að opna fyrsta staðinn okkar 1.desember.  Til þess að það takist þarf þó eitthvað að breytast í gjaldeyrismálum heima.  Ef þau mál leysast á næstu tveim vikum ætti það þó vonandi að ganga.

Skrifað í Stokkhólmi, Svíþjóð klukkan 21.03

Síðustu dagar…

Ég er í huganum búinn að byrja á um það bil 10 greinum um þessa kreppu. Einhvern veginn hefur mér alveg fundist vanta sögur frá þeim sem standa í því að reka fyrirtæki í þessu ástandi. Það er slíkt of-framboð af kverúlöntum, sem að besservissa um allt milli himins og jarðar í þessu ástandi, en einhvern veginn hefur mér fundist vanta eitthvað frá þeim, sem eru að reyna að reka sín fyrirtæki áfram í þessu ástandi. Mig langaði líka til að skrifa um það góða, sem gætu orðið til úr þessu ástandi: Fókus á smærri fyrirtæki, að okkar hæfasta fólk vinni ekki allt í bönkum og að neyslugeðsýkin minnki kannski pínu.

Ég hef heyrt afskaplega mikið af sögum um það hvernig fyrirtæki eru að lenda í vandræðum vegna þessa allsherjar klúðurs í gjaldeyrismálum þjóðarinnar, en af einhverjum ástæðum heyri ég það miklu frekar frá vinum og fjölskyldu heldur en úr fjölmiðlum eða á bloggsíðum. Kannski eru þeir sem standa í rekstri einfaldlega of uppteknir við að redda málunum til þess að tjá sig.

Ég skil ekki af hverju Davíð Oddson er enn seðlabankastjóri. Ég bara get hreinlega ekki skilið það. Ég hef aldrei haft neina sérstaka óbeit á honum og þegar ég var fyrst að byrja að spá í pólítík þá var ég Sjálfstæðismaður og hélt uppá Davíð. En hann hefur hins vegar ráðið nánast öllu síðan að ég fermdist og sú stefna sem hann hefur rekið í gegnum einkavæðingu bankanna og þá gjaldeyris- og vaxtastefnu sem hann hefur rekið í Seðlabankanum, hefur beðið svo stórkostlegt skipbrot að það er með hreinustu ólíkindum að hann skuli ekki hafa sagt af sér. Hversu miklu rugli þurfum við að vera í í peningamálum til þess að við skiptum um stjórn þar?  Vissulega var þetta ekki allt honum að kenna, enda hefur enginn haldið því fram. Gaurarnir sem unnu í bönkunum áttu ekkert að hugsa um okkar hag (umfram okkar eignir þar inni), heldur bara sitt rassgat og eigenda bankanna. Þannig virkar kerfið. En Seðlabankinn á að hugsa um mig. Hann á að sjá til þess að eignir okkar, sem eru skráðar í krónum, rýrni ekki stórkostlega. Það hefur honum mistekist. Og vegna þess eiga forystumenn í bankanum að víkja.

Af hverju segir aldrei neinn af sér á þessu landi? Af hverju er fjármálaráðherra dýralæknir, viðskiptaráðherra heimspekingur og Seðlabankastjóri lögfræðingur? Myndi þetta ganga upp einhvers staðar annars staðar?

* * *

Ég er að rembast við að stofna fyrirtæki í Svíþjóð. Ég hef eytt talsverðum tíma í að kynna mig og mitt fyrirtæki þarna úti og haldið uppi reglulegu sambandi við ýmsa aðila. Núna þarf ég sífellt að sannfæra þá um að ástæðan fyrir að ég geti ekki millifært peninga á þá sé ekki vegna peningaskorts heldur vegna þess að ekki sé hægt að millifæra af gjaldeyrisreikningi á Íslandi yfir á reikning í Svíþjóð.

Hverslags ástand er þetta eiginlega?

Annars virðast Svíarnir sýna þessu skilning. Einn aðili sem vinnur fyrir okkur sagði mér að hann hikaði við að skrá tíma á okkur, vegna þess að hann heyrði á hverjum degi hversu hræðilegt ástandið væri á Íslandi. Hann fékk móral yfir því að rukka íslenskt fyrirtæki. Kannski hjálpar það að við höfum kynnt okkur vel og að fólk þarna úti hefur trú á okkur. En það er alveg ljóst að ef við hefðum ekki byrjað á þessu verkefni fyrir einhverjum mánuðum, þá væri mun erfiðara að kynna okkur sem marktækt fyrirtæki þegar það kæmi í ljós að helsta afrek okkar væri það að hafa meikað það á Íslandi.

Ég fór annars á fund hjá Samfylkingunni í gær og þar klappaði ég ekki almennilega fyrr en að Jón Baldvin hélt þrumuræðu yfir ráðherrum flokksins. Jón Baldvin vildi tvennt af þrennu: Hjálp frá IMF, Davíð burt og Ísland í ESB. Ef það næðist ekki fram, þá hefði flokkurinn ekkert erindi í ríkisstjórn. Ég gæti vart verið meira sammála.

* * *

Ég er hins vegar þrátt fyrir kreppuna búinn að eiga frábært sumar og frábært haust.

Ég hætti við að fara út til Bandaríkjanna í skemmtiferð um þarsíðustu helgi en hef þess í stað farið útá land þrjár helgar í röð. Ég fór um síðustu helgi með kærustunni minni á Geysi, þar sem að kærasti vinkonu minnar býr. Núna um helgina var ég svo í partí-i á föstudagskvöld og fór svo uppí sumarbústað með fulltaf skemmtilegu fólki daginn eftir. Við borðuðum góðan mat og skemmtum okkur fyrir svipaðan pening og tveir bjórar hefðu kostað á djamminu í miðbænum. Næsta helgi lítur svo afskaplega vel út. Og í næstu viku fer ég út til Stokkhólms, þar sem að málefni Serrano í Svíþjóð munu vonandi mjakast áfram.

Aðgerð og myndir frá Palestínu

Ég er búinn að vera heima hjá mér í allan dag að reyna að jafna mig eftir nefaðgerð, sem ég fór í í gær.

Það hefur lengi angrað mig að miðnesið í nefinu er svo hræðilega skakkt að það hefur veruleg áhrif á öndun. Ég er lengi búinn að draga það að gera eitthvað í málinu, en í febrúar ákvað ég að fara til læknis til að skoða þetta. Hann bókaði mig strax í aðgerð, en af einhverjum ástæðum komst ég ekki að fyrr en í gær. Ég fór því á Borgarspítalann þar sem ég var svæfður og miðnesið lagað í um klukkutíma langri aðgerð.

Ég vaknaði eftir aðgerðina verulega ruglaður í hausnum og nokkuð kvalinn. Fékk þá morfín í æð, sem er einhver al magnaðasta tilfinning, sem ég hef upplifað. Dofnaði allur upp og verkurinn í hausnum hvarf á fáránlega skömmum tíma – einhverjum sekúndum. Eftir að hafa verið í einhverja tvo tíma í “vöknunarherberginu” var mér svo skutlað niður. Hjúkkan sagði mér að þrífa blóðið aðeins úr andlitinu og fá mér vatn, sem heppnaðist ekki betur en svo að það leið yfir mig við vaskinn. Vaknaði á gólfinu með tvo hjúkrunarfræðinga yfir mér.

Svo var ég þarna að jafna mig alveg þangað til kærastan mín kom að sækja mig.

Það þarf kannski ekki að taka það fram, en mikið ofboðslega er gott starfsfólk á þessu sjúkrahúsi. Það er nokkuð mögnuð tilfinning að láta stjana svona við sig af fleiri fleiri starfsfmönnum á spítalanum. Ég, sem hef verið nokkuð frískur alla ævi, hef ekki lent í því áður.

* * *

Nóttin var vissulega hræðileg, en mér líður talsvert betur núna. Er búinn að hanga í tölvunni, lagandi myndir, skoðandi blogg og slíkt. Hef líka aðeins reynt að fylgjast með því sem er að gerast í vinnunni.

Ég tók mig til og setti inn myndirnar frá Vesturbakkanum. Á þessari mynd er ég í Nablus á Vesturbakkanum.

Það þýðir að ég er næstum því búinn að setja inn allar myndirnar frá Mið-Austurlandaferðinni. Núna er bara Ísrael eftir. Ferðasögurnar frá Palestínu eru hér: [Punktar frá Palestínu](http://eoe.is/gamalt/2008/05/28/19.34.40/) og [Jeríkó](http://eoe.is/gamalt/2008/05/27/16.51.21/).