Rússlandsferð 6: Lestarferð frá helvíti og brjálaður einræðisherra í vaxi

Ég er kominn til Moskvu og er að reyna að drepa tímann þangað til að ég á flug héðan í kvöld. Moskva ætlar að kveðja á viðeigandi hátt með ausandi rigningu og því nenni ég ekki út.


Lestin frá St. Pétursborg var hreinasta helvíti. Í fyrsta lagi komst ég að því að ég hafði keypt miða á vitlausu farrými, þannig að nú var ég í vagni, sem var opinn með um 50 kojum í stórum sal. Það var svo sem ekkert svo hrikalegt og ég dreif mig uppí koju og fór að lesa. Þá hófust ósköpin.

Til að byrja með ákvað gaurinn í kojunni við hliðiná mér að þrátt fyrir að klukkan væri 1 að nóttu, þá væri tilvalið að hlusta á rússneska þjóðlagatónlist. Ég veit hvað þið haldið: “Rússnesk þjóðlagatónlist hlýtur að vera ýkt skemmtileg!” Jæja, ykkur skjátlast, hún er hörmung, sérstaklega þegar hún er spiluð í ónýtu kassettutæki. Þegar ég var um það bil kominn á það stig að ég ætlaði að henda kasettutækinu útum gluggann og láta gaurinn éta spóluna ákvað hann þó að slökkva á tækinu.

Stuttu seinna voru ljósin slökkt og ég lagðist til svefns. Vandamálið er að þrátt fyrir öll meint afrek kommúnismans í Sovétríkjunum, þá var sú iðja að þétta glugga ekki hátt skrifuð. Þannig var að glugginn, sem ég svaf við var alltaf að opnast. Í raun alltaf þegar lest kom framhjá okkar lest, þá opnaðist glugginn. Útivið var svona 5 stiga frost og þegar lestin er á 90km ferð, þá líður manni einsog frostið sé sirka 80 gráður.

Þannig að alltaf þegar önnur lest keyrði framhjá (sem var á um 10 mínútna fresti), þá opnaðist glugginn, þvílíkur hávaði barst af lestinni og hausinn á mér fraus úr kulda. Þá þurfti ég að snúa mér, berja tvisvar í gluggann og reyna svo að sofna aftur. Svona gekk þetta þangað til klukkan 9 í morgun. Ég hef átt skemmtilegri nætur, en núna er ég samt í fínu skapi, þökk sé tveim espressoum.


Þegar ég kom til Moskvu í morgun dreif ég mig yfir á Rauða Torgið og beið í biðröð til að komast inní grafhýsi Leníns. Af einhverjun annarlegum ástæðum er þessi maður, sem á allstóran hluta í því að bera mestu hörmungar allra tíma yfir rússnesku þjóðina, enn hafður til sýnis á Rauða Torginu þrátt fyrir fall kommúnismans.

Grafhýsið er skrítin sjón. Þess er gætt af vörðum, sem eru mjög alvarlegir og benda manni hvert maður skuli ganga (og sjá auðvitað til þess að enginn getur tekið myndir). Maður labbar inní stórt herbergi og þar í miðju herbergi liggur Lenín í jakkafötum. Honum er viðhaldið með því að smyrja hann með einhverju efni vikulega. Þetta er ótrúlega skrítin lífsreynsla að sjá hann þarna, nokkurn veginn heilan, nær 80 árum eftir að hann dó.

Fyrir utan grafhýsið á Kremlarmúrum eru minnismerki um önnur góðmenni, svo sem Stalín (sem var áður inni í grafhýsinu með Lenín, en einhver kona sagði Khruschev að henni hefði dreymt að Lenín hefði sagt henni að hann vildi ekki vera við hliðiná Stalín og því var Stalín fluttur út) og Dzerzhinsky (sem stofnaði KGB). Það magnaða við þetta allt er að við styttur af þessum mönnum, sérstaklega þessum tveimur var fullt af nýjum blómum, sem fólk hafði lagt við stytturnar! Ég verð víst að sætta mig við að sumt fólk mun ég aldrei skilja.


Annars er ég ekkert búinn að sjá neinar sætar stelpur í dag. Hvað er í gangi? Kannski eru þær allar í skóla eða vinnu, enda klukkan ekki orðin tvö.

(Skrifað í Moskvu kl. 13.30)

Rússlandsferð 5: Sætar stelpur, flugur, söfn og orðljótur Lithái

Þá á ég aðeins nokkra tíma eftir hérna í St. Pétursborg. Klukkan er að verða fjögur en ég á pantað í lestinni á miðnætti til Moskvu. Þar ætla ég að eyða hluta af morgundeginum og svo á ég flug til Parísar annað kvöld.

Það er svo sem ekkert stórkostlega merkilegt búið að gerast undanfarna daga. Ég ætla þó að bíða aðeins meira með djammsöguna frá því á laugardaginn. Annars, þá fór ég í gær á Hermitage safnið. Það er alveg fáránlega stórt enda þekur það alla Vetrarhöllina auk bygginga, sem keisararnir byggðu sérstaklega fyrir safnið. Þarna er allt, sem hægt er að láta sér detta í hug, frá Picasso til rússneskra forminja.

Ég eyddi sæmilegum tíma á safninu, en þó ekkert alltof miklum. Höfundur Lonely Planet um Rússland lætur einsog maður gæti eytt heilli viku á safninu, en svo mikið dálæti á söfnum hef ég ekki. Ég lét mér nægja nokkra klukkutíma og var alveg búinn eftir það.


Ótrúlegt en satt þá er líka sól í dag og því ákvað ég að endurtaka sumar túristamyndirnar mínar. Fór uppað Vetrarhöll, og svo framvegis og tók myndir í þessu yndislega sólskini.

Sólskinið þýðir líka að þrátt fyrir kulda þá eru allar sætu stelpurnar komnar í pilsin aftur, sem er snilld af því að ég elska pils (ég gat hreinilega ekki sleppt því að tala um rússneskar stelpur í heilli færslu) 🙂


Annars þá er herbergið mitt á gistiheimilinu búið að vera einsog stoppistöð. Ég er í herbergi með 4 rúmum og hafa nýjir einstaklingar bæst í hópinn stöðugt. Einna fyndnastur var Lithái, sem kunni lítið í ensku, en bætti það upp með óhugnalegri þekkingu á enskum blótsyrðum. Hver setning innihélt að minnsta kosti þrjú blótsyrði. “Fuck man, I just went to the fucking bank today and met this stupid bitch” var nokkuð dæmigerð setning frá þessum ágæta manni.

Herbergið hefur verið hreinasta martröð undanfarnar nætur. Ekki er það vegna hrjótandi Þjóðverja (einsog oft vill verða á gistiheimilum, sem ég lendi á) heldur hefur hópur af flugum lagt mig í einelti. Ég vaknaði í gær með 20 bit, þar af voru 7 í andlitinu og á hálsinum. Ég hef aldrei lent í öðru eins. Bitin sjást, sem betur fer, ekki mjög greinilega. Í morgun hugsaði ég hversu óskaplega mikið ég saknaði þess að sofa í sama herbergi og Borgþór. (Ok, þegar við vorum í S-Ameríku, þá vorum við Friðrik og Emil aldrei bitnir, en flugurnar réðust grimmilega á Borgþór allar nætur, sama í hversu mörgum lögum af fötum hann svaf og sama hversu mikið af eitri hann sprautaði á sig).


Jæja, held að þetta sé komið ágætt af blaðri í bili. Það sem eftir lifir dags ætla ég að setjast inná kaffihús og klára Fávitann e. Dostojevski en lestur minn á þeirri bók tafðist vegna þess að ég las mjög skemmtilega sögubók: The Russian Century. Meira um hana síðar. Svo ætla ég líka að kíkja í búðir. Ætla að reyna að finna mér einhver föt.


Ef ég fæ ekki matareitrun af þessum rússneska kjúkling, sem ég borðaði áðan, þá er ég illa svikinn.

(Skrifað í St. Pétursborg klukkan 16.20)

Rússlandsferð 4: St. Pétursborg, annar hluti

Djammið á laugardaginn var skrautlegt, svo ekki sé meira sagt. Ég ætla hins vegar að bíða með þá sögu aðeins.

Af einhverju ótrúlegum ástæðum er búið að vera sólskin hér í St. Pétursborg í allan dag. Þar með fellur kenning mín um að það rigni að minnsta kosti þrisvar á dag, alla daga ársins, í Rússlandi. Það er hins vegar orðið frekar kalt hérna og ég var orðinn mjög þreyttur á labbi, svo ég ákvað að kíkja inná þetta netkaffihús, sem virðist vera vinsælasti staður bæjarins fyrir sætar stelpur. Allavegana, eru sæti á miðju kaffihúsinu, þar sem sætar og single stelpur koma saman. Magnað!

Allavegana, þá hefur dagurinn í dag farið í frekara sight-seeing. Fór í virki Péturs og Páls, sem Pétur Mikli lét reisa þegar hann byggði St. Pétursborg. Virkið er einna helst merkilegt fyrir þá staðreynd að þar eru grafnir nær allir keisarar Rússlands, þar á meðal síðasti keisarinn, Nikulás annar, kona og börn hans, sem voru grimmilega myrt af bolsjevikum. Einnig var þar fangelsi, þar sem meðal annars Dostojevsky þurfti að gista.

Ég labbaði svo yfir ána og skoðaði eitthvað vaxmyndasafn í einhverju djóki, en það reyndist vera mun áhugaverðarar en ég bjóst við, þar sem ég fékk indæliskonu, sem gæd og leiddi hún mig í gegnum sögu keisarana í Rússlandi og svo forseta Rússlands og Sovétríkjanna. Á leiðinni á safnið hafði ég svo hitt strákana tvo frá Íslandi, sem ég hitti á djamminu á laugardaginn. Annar þeirra var meira að segja með mér í Verzló.


Það var nokkuð skrítið að hitta þá þarna, sérstaklega vegna þess að ég var að tala um það við David (gaurinn, sem ég fór að djamma með á föstudag) hvað það væri gaman að djamma í borg, þar sem maður þekkti ekki neinn einasta mann og hann minntist á það að það væru náttúrulega hverfandi líkur á að maður myndi hitta Íslending á bar í Rússlandi. Jæja, það gerðist allavegana. Þetta var þó ekki jafn skrítið og þegar við Emil hittum tvo Íslendinga á þriðjudagskvöldi á bar í La Paz í Bólivíu. Það verður ekki toppað nema að ég hitti íslenska stelpu, sem var með mér á fæðingardeildinni á Landspítalanum, á fótboltaleik í afskekktu fjallaþorpi í Mongolíu.

Það er ótrúlega gaman að djamma án þess að hafa áhyggjur af því að maður sé að gera einhvern skandal. Heima er ég alltaf að hafa áhyggjur af því hvaða stelpur ég hitti á djamminu, hvort ég sé búinn að drekka of mikið og hvort að ef ég reyni við þessa stelpu, þá klúðrist eitthvað og bla bla bla. Hérna getur maður bara skemmt sér eins vel og maður vill, reynt við þær stelpur, sem maður vill, og svo þarf maður ekki að hafa neina áhgyggjur eða vera á neinum bömmer, því maður á líklega aldrei eftir að hitta þetta fólk aftur.


Ég er líka búinn að túristast fullt um St. Pétursborg síðustu daga. Fór í gær yfir í dómkirkju heilags Ísaks, sem er mögnuð bygging. Kirkjan er gríðarlega stór, enda tók um 40 ár að byggja hana. Ég fór bæði inní kirkjuna og uppá þak, þar sem er frábært útsýni yfir St. Pétursborg.

Ég rölti svo yfir að “Church on Spilled Blood”, sem ég veit ekkert hvernig ég á að þýða, en kirkjan fékk þetta fallega nafn, vegna þess að hún er byggð á þeim stað, þar sem Alexander Annar var myrtur. Kirkjunni svipar til St. Basil kirkjunnar á Rauða Torginu og er næstum því jafn mögnuð.


En núna er ég búinn að sjá nóg af kirkjum og er svona um það bil að fá nóg af söfnum líka. Ætla þó að eyða morgundeginum á Hermitage. Á miðvikudag ætla ég svo að fara með lest aftur til Moskvu og þaðan heim.


Já og Derek Jeter er ekki fokking “ruðningsleikmaður“!! Þetta minnir mig á að þegar ég verð orðinn forsætisráðherra þá ætla ég að banna öllum að vera í fötum merktum New York Yankees, nema þeir geti sagt hver spili “shortstop” fyrir liðið!

(Skrifað í St. Pétursborg klukkan 17.02)

Rússlandsferð 3: heimur, ég er þunnur.

Dagur 2 í Sánkti Pétursborg hefur verið tíðindalítill. Sú staðreynd er bein afleiðing af djammi gærkvöldsins.

Ég og gaur frá Seattle, sem ég kynntist á gistiheimilinu, fórum á bar rétt hjá hótelinu. Þar drukkum við heimalagaðan bjór og einhver vodka staup. Stelpurnar á barnum, sem voru afar glæsilegar, höfðu hins vegar meiri áhuga á sextugum bissnes köllum en okkur, og því gáfumst við fljótlega upp. Við héldum því á klúbb, sem heitir Griboedov. Sá staður er í gömlu sprengjubyrgi oní jörðinni. Alger snilld.

Ég og félagi minn drukkum nokkur vodka staup og vorum nokkuð hressir. Inná staðnum var líka heill haugur af fallegum stelpum. Vá hvað það er mikið af fallegum stelpum hérna (var ég búinn að minnast á það?). Mamma lifir í skelfingu (eftir að hafa lesið færsluna mína frá Moskvu) um að ég fari að koma heim með rússneska kærustu. Allavegana, ég kynntist fullt af skemmtilegu fólki, dansaði fullt og skemmti mér frábærlega.

Klúbburinn lokaði skyndilega klukkan 7 um morguninn og var ég þá búinn að tína Kananum, svo ég þurfti að taka taxa einn. Vandinn var bara sá að ég var ekki með eina rúblu á mér. Ég ætlaði því að labba heim en fattaði skyndilega að ég hafði ekki minnstu hugmynd um hvar ég væri staddur. Ég tók því taxa og sannfærði bílstjórann um að ég myndi borga honum eftir ferðina.


Í dag er ég búinn að rölta aðeins meira um borgina. Labbaði uppað Dvortsovaya Ploschad torginu og skoðaði Vetrarhöllina aðeins að utan (inní henni er núna partur af Hermitage safninu, sem ég ætla að skoða síðar). Höllin er ótrúlega glæsilegt mannvirk. Það er í raun alveg magnað hvað það er mikið af fallegum byggingum í þessari borg. Ég rölti svo aðeins um nágrenni hallarinnar og skoðaði sumar þeirra.


Annars þá kíkti ég bara á netið til að sjá úrslitin hjá Liverpool og Cubs. Bæði liðin unnu. Það gerir mig glaðan. Í raun svo glaðan að ég held að ég verði að fagna því að fara útað skemmta mér í kvöld.

Í kvöld er ég að spá í að fara á Par.spb klúbbinn. Ætla að sjá hvort ég sé nógu sætur til að komast þar inn, en að sögn þá velja dyraverðirnir þá, sem komast inn. Það verður fróðlegt.

(Skrifað í St. Pétursborg klukkan 20.40)

Rússlandsferð 2: St. Pétursborg

Ok, kominn til Leningrad (eða einsog kapítalistasvínin vilja kalla borgina: St. Pétursborg). Kom hingað kl. 8 í morgun með lest frá Moskvu. Lestin fór af stað á miðnætti frá Leningrad stöðinni í Moskvu. Lestin var snilld. Ég var í klefa með einhverjum Rússa, sem gaf mér bjór þrátt fyrir að ég gæti ekkert talað við hann. Hann kinkaði bara kolli og brosti þegar ég fékk mér sopa. Rússar eru snillingar!

Allavegana, kom hérna í morgun og er ennþá að bíða eftir því að komast inná hótel, en ég fæ ekki herbergi fyrr en klukkan 12 (sem er eftir nokkrar mínútur). Ég er því búinn að eyða morgninum inná kaffihúsum við Nevsky Prospekt, drekkandi Espresso og lesandi Fávitann eftir Dostojevsky. Hvað er meiri snilld en að lesa Dostojevski inná kaffihúsi á Nevsky Prospekt í St. Pétursborg? Ég veit ekki!

En ég var alveg að sofna við lesturinn og dugðu þrír Espresso bollar skammt. Því ákvað ég að labba aðeins um Nevsky Prospekt og endaði inná þessu netkaffihúsi. Ég þarf NAUÐSYNLEGA að komast í sturtu.


Í gær fór ég í smá túr um Gullna Hringinn, sem er safn af minni bæjum og borgum í nágrenni Moskvu, oft kallað hjarta Rússlands. Fór til Suzdal-Vladimir, sem var áður fyrr höfuðborg Rússlands. Þar sá ég fleiri Rússneskar réttrúnaðarkirkjur en ég kæri mig um og fékk ég í lok dags það sem Lonely Planet kallar ORCO eða “Old Russian Church Overload”.

Það er nokkuð ljóst að Krutzhev tókst ekki áætlunarverk sitt að útrýma trúnni úr huga Rússa. Það er í raun magnað hversu trúaðir Rússar eru eftir öll þessi ár undir kommúnismanum. Allavegana, þá var ég í þessum túr með gæd. Ég reyni að forðast það einsog heitan eldinn að ferðast með gædum, en ég varð að láta undan í þetta skipti, þar sem erfitt var að komast á þessa staði nema á bíl (sem í þetta skiptið var glæsileg 15 ára gömul Lada, sem byrjaði að titra þegar hún fór yfir 80 km hraða).

Gædinn minn var indæl kona, sem stórlega ofmat áhuga minn á rússneskum kirkjum. Áhuginn minn er þannig að fyrstu 10 kirkjurnar, sem ég sé vekja áhuga minn og aðdáun en næstu 30 gera mig frekar leiðan. En allavegana, þá var túrinn mjög skemmtilegur og sérstaklega gaman að sjá Suzdal, þar sem mörg húsin eru gríðarlega gömul og lífið líkist að mörgu leyti því lífi, sem fólk lifði fyrir byltinguna.


Ég ætla sem sagt að vera hérna í St. Pétursborg fram á miðvikudag. Ætla að taka mér góðan tíma í að skoða Hermitage, rölta um göturnar, skoða minnismerki um umsátrið um Leningrad og svo líka slappa af á kaffihúsum borgarinnar. Já, og djamma.

Annars leið mér ótrúlega skringilega á lestarstöðinni í Moskvu. Ég fann fyrir einhverju ofboðslegu frelsi. Tilfinning, sem ég hef ekki fundið fyrir síðan við vinirnir ferðuðumst um Suður-Ameríku. Frelsistilfinning, sem stafar af því að maður er einhvers staðar, þar sem enginn veit af manni, enginn þekkir mann og manni líður einsog maður geti gert hvað sem maður vill, farið hvert sem er og gert hvað sem er. Þetta hefur bara komið fyrir mig á “bakpoka-ferðalögum”. Yndisleg tilfinning.


Annars þá kvaddi ég í gær babúshkuna, sem hefur geymt lykilinn fyrir mig á hótelinu síðustu daga. Ég hef notað hana til að gera tilraunir á rússnesku kunnáttu minni. Ég hef alltaf reynt að segja “zdrastvuyte” (sem er Halló á rússnesku) við hana en hún svarar alltaf með einhverjum orðaflaumi, sem ég skil aldrei hvort að þýði “æji, hæ sjálfur, dúllan mín” eða “lærðu almennilega rússnesku, auminginn þinn”. Babúshkur virðast sannfærðar um að ef maður skilji þær ekki, þá sé nóg fyrir þær að hrópa setninguna aftur, þá hljóti maður að skilja þær. Það er hins vegar misskilningur, allavegana í mínu tilfelli.

Vá, ég held að öll espressoin séu loksins farin að virka.


Og já, þess má til gamans geta að Crazy In Love er líka vinsælt í Rússlandi. Ég tippa nú á Afganistan og Myanmar sem einu löndin í heiminum, þar sem það lag er ekki vinsælt.

(Skrifað í St. Pétursborg klukkan 12.19)

Rússlandsferð 1: Moskva

Núna er ég búinn að vera hérna í Moskvu í fjóra daga og á varla orð til að lýsa þessari mögnuðu borg. Ég er staddur á netkaffihúsi í verslunarmiðstöð um 200 metra frá Rauða Torginu og Kreml.

Ég dýrka þessa borg. Hún er svo ólík öllu, sem ég hef séð áður. Allar sögur, sem ég hef heyrt um drykkfeldni Rússa, eru sannar. Eina málið er að þeir drekka ekki vodka, heldur bjór (nú skil ég vel hvernig Björgúlfsfeðgum tókst að verða svona ríkir). Hérna virðast ekki gilda neinar reglur um drykkju á almannafari og því sést varla neinn maður úti á götu nema með bjórflösku í hendinni. Þvílík snilld!

Ég er búinn að skoða helstu ferðamannastaði í Moskvu. Eyddi megninu af deginum í dag innan Kremlarmúra, þar sem ég skoðaði gamlar kirkjur og gersemar, sem Keisarafjölskyldurar söfnuðu að sér. Í gær labbaði ég um borgina, fór á Rauða Torgið og skoðaði hina stórkostlegu dómkirkju St.Basel, rölti svo yfir í almenningsgarð þar sem allar stytturnar af kommúnistaleiðtogum eru samankomnar.


Djammaði á laugardagskvöldið. Ég villtist á leiðinni á staðinn en hitti þá bandaríska landsliðið í Karate (hvorki meira né minna!) og gátu þeir með aðstoð túlksins síns komið mér á réttan stað. Djammið var geðveikt. Ég hélt að Rússinn við hliðiná mér á barnum gæti drukkið endalaust af vodka þangað til að hann varð allt í einu eitthvað pirraður og endaði á því að vera dreginn útaf staðnum. Ég hitti svo aftur bandaríska karateliðið á staðnum. Túlkurinn þeirra kenndi mér að segja “Gott Kvöld” og notaði ég þá línu á nokkurn veginn allar stelpurnar á klúbbnum. Svei mér þá ef þetta er ekki bara snilldar pikkup lína. Stelpunum fannst þetta allavegana mjög fyndið hjá mér.

En allavegana, hérna í Moskvu er fullt af sætum stelpum. Einn gaurinn í karateliðinu gekk svo langt að segja að hér væri meira af sætum stelpum en í Venezuela en það er nú fullmikið sagt. Það er samt frábært við rússneskar stelpur að þær virðast ganga í pilsum sama hversu andskoti leiðinlegt veðrið hefur verið hérna í Moskvu. Þetta er eitthvað, sem stelpur á Íslandi mættu taka sér til fyrimyndar. Það er mun sniðugara en að eiga 20 pör af svörtum buxum.


Það er líka greinilegt að kapítalisminn er kominn til að vera hérna í Rússlandi. Á leiðinni frá flugvellinum innað hóteli keyrðum við framhjá 5 (FIMM!) McDonald’s stöðum. Auk þess sá ég svona 20 Nescafé og Pepsi skilti, Audi bílasölu og fleira í þeim dúr.

Einnig er það pottþétt að hér er fulltaf fólki, sem á fulltaf pening. Bara í svona kílómeters radíus frá Rauða Torginu eru þrjár Benetton búðir, tvær Boss búðir og tvær Diesel búðir. Þessar búðir eru alltaf fullar af rússneskum stelpum með fullt af pokum. Einhvern veginn hefur maður á tilfinningunni að það sé horft niður á mann af nýríkum rússum í jakkafötum, þegar maður kemur inní Diesel búðirnar í gallabuxum og strigaskóm.

En það er eitthvað yndislega heillandi við alla þessa geðveiki. Allar gömlu sovésku byggingarnar í sambland við ljósaskilti, sem myndi sóma sér vel í New York. Að dást að Kremlarmúrum og fáránlegri stærð Rauða Torgsins á milli þess sem maður fær sér Big Mac og rússneskan bjór.


Neðjanjarðarlestin hérna er líka sú allra magnaðasta, sem ég hef komið í. Það fara víst fleiri farþegar um þetta kerfi heldur en lestakerfið í New York og London til samans. Og sú tölfræði kemur mér EKKI neitt á óvart. Ein af snilldarhugmyndum Stalíns var að byggja lestirnar nógu langt ofaní jörðina, svo þær gætu líka þjónað tilgangi sem sprengibyrgi (þangað til að einhver áttaði sig á að það væri nokk sama hversu langt menn myndu grafa, það myndi ekki breyta miklu þegar að bandarískum kjarnorkusprengjum myndi rigna á borgina). Lestarstöðvarnar eru hins vegar hreinasta listaverk, uppfullar af myndum af sigrum Rússa og Sovétmanna.

Ég ætla mér að vera hérna í Moskvu í einn dag í viðbót. Á fimmtudag ætla ég í ferð til Vladimir og svo tek ég lest til St. Pétursborgar á fimmtudagskvöld.

(Skrifað í Moskvu klukkan 20.16)

Fujimori

Þrátt fyrir að ég sé alltaf að gagnrýna Múrinn á þessari síðu þá hef ég alltaf lúmskt gaman af því að fylgjast með þeim félögum. Einna skemmtilegast er að þeim er annt um stjórnmál í löndum, sem fá litla sem enga umfjöllun hér á Íslandi.

Síðast voru þeir að fjalla um Alberto Fujimori, fyrrverandi forseta Perú. Nú hefur Perústjórn gefið út ósk um að hann verði framseldur. Japanir virðast hins vegar ekki ætla að verða við því. Fujimori er afkomandi japanskra innflytjenda í Perú og hann býr nú í Japan.

Fujimori er ansi merkilegur karakter og ég hef löngum haft mikinn áhuga á honum. Allt byrjaði þetta þegar ég var skiptinemi Í Venezuela árin 1995-1996. Þar bjó ég hjá perúskri fjölskyldu. Þau höfðu flutt frá Perú vegna stöðugs ófriðar þar í landi, sem var aðallega tilkominn vegna hryðjuverkasamtakanna Sendero Luminoso. Fjölskyldan mín ákvað að fara til Venezuela til að komast í friðsælla umhverfi. Snillingurinn Hugo Chavez hefur reyndar séð til þess að sá draumur hefur orðið að martröð síðustu ár.

Allavegana, þá var fósturpabbi minn í Venezuela gríðarlegur aðdáandi Fujimori. Hann dýrkaði hann fyrir það afrek að hafa tekist að uppræta samtök hins Skínandi Stígs. Fujimori tókst með því að gera Perú talsvert öruggara land. Síðla árs 1995 kom Fujimori svo í opinbera heimsókn til Venezuela. Þar sem við vinirnir vorum hættir að mæta í skóla á þeim tíma ákváðum ég og Erik frá Noregi að hitta Fujimori og spjalla aðeins við hann. Við redduðum mynd af honum og ætluðum að fá hann til að gefa okkur eiginhandaráritun enda taldi ég, eftir allar lofræðurnar frá fósturpabba, að Fujimori væri mikill öðlingur.

Leitin að Fujimori

Við Erik röltum því uppað forsetahöllinni í Caracas, þar sem við spurðum verði hvort við mættum ekki heilsa uppá Fujimori. Þeir sögðu okkur að við mættum ekki fara inn fyrir hliðið en bentu okkur á að Alberto myndi fara seinna um daginn í perúska sendiráðið. Við fórum þangað en þar var ekkert í gangi, svo við fórum aftur uppað höllinni og spjölluðum við hina vingjarnlegu verði. Meðan einn þeirra var að tala við okkur kom annar yfirmaður og sagði okkur að drífa okkur inní varðarkofann því að Caldera (forseti Venezuela) væri að koma í bílalest að höllinni. Við drifum okkur því inn og héldum áfram að spjalla við verðina.

Einn þeirra sagði okkur svo að við ættum að bíða hinum megin við götuna eftir Fujimori. Við fórum því yfir og þegar við vorum komnir þangað ákvað ég að smella einni mynd af forsetahöllinni. Þá varð alltíeinu allt brjálað og einhver hermaður kom hrópandi að okkur. Hann hrifsaði myndavélina af mér og sagði okkur að koma inn í einhvern skúr. Þar ásökuðu þeir okkur um njósnir og sögðu að við værum handteknir. Þeir leituðu svo í skólatöskunum okkar. Þeir spurðu okkur fulltaf spurningum og skoðuðu vegabréfin okkar. Eftir smá yfirheyrslu kom yfirmaður þeirra inn en hann ákvað að sleppa okkur eftir smá yfirheyrslu. Þeir báðu okkur þó vinsamlega um að koma aldrei aftur nálægt forsetahöllinni.

Við tókum því lest að einhverjum útimarkaði, þar sem Fujimori átti að vera. Við vorum með perúska fánann og vorum voða spenntir. Svo þegar Fujimori keyrði framhjá okkur veifuðum við perúska fánanum einsog óðir menn, og viti menn, Fujimori veifaði vingjarnlega tilbaka. Þá vorum við sko glaðir.

Reyndar komst ég síðar að því að Fujimori er ekki alveg eins góður kall og ég hélt. En þetta var samt skemmtilegur dagur.

SAT próf í Perú

Ágúst Fl. segir af TOEFL raunum sínum. Ég lenti sjálfur í nokkuð mögnuðu ævintýri þegar ég ætlaði að taka SAT prófið, sem er nauðsynlegt til að komast inní bandaríska háskóla.

Þetta gerðist allt í desember 1998. Þá var ég á ferðalagi með þrem vinum mínum um Suður-Ameríku. Ég var búinn að senda inn allar háskólaumsóknirnar mínar og það eina, sem ég átti eftir að gera, var að mæta í SAT prófið. Ég var búinn að bóka mig í próf í Lima, höfuðborg Perú.

Prófið var á laugardagsmorgni í skóla í úthverfi Lima. Á fimmtudeginum fórum við félagarnir frá Arequipa í Perú með lest upp til Puno, sem er bær við Titicaca vatn. Titicaca er hæsta stöðuvatn í heimi og (að mínu mati) einn af fallegustu stöðum í Suður-Ameríku. Við fórum í bátsferð um vatnið og gistum svo á einni af eyjunum, sem heitir Amantani. Við gistum þar eina nótt og svo á föstudeginum áttum við að fara aftur að Puno, en ég átti pantað flug til Lima klukkan hálf sex. Bátsferðinni seinkaði hins vegar og því vorum við ekki komnir til Puno fyrr en klukkan 4. Þar stökk ég úr bátnum, kvaddi vini mína og fann mér leigubíl. Ég sagði bílstjóranum að keyra eins hratt og hann gæti til Juliaca, sem var dágóðan spöl frá Puno.

Leigubílstjórinn tók mig á orðinu og keyrði einsog argentískur leigubílstjóri alla leið til Juliaca. Þegar ég kom á flugvöllinn var ekki nema um korter í brottför og fyrir framan AeroPeru borðið var heljarinnar biðröð. Mér var sagt að þetta væru stand-by farþegar, sem myndu bara fá miða ef einhver mætti ekki. Ég fór því og talaði við öryggisvörð. Hann sagði mér að ég hefði mætt of seint og því væri miðinn minn ógildur. Ég ætlaði ekki að trúa þessu og hélt áfram að röfla í honum en hann gaf sig ekki. Hann gafst á endanum uppá mér og fór eitthvað í burt. Ég nýtti þá tækifærið og stökk undir afgreiðsluborðið og inná einhverja skrifstfou. Þar voru einhverjar konur, sem sögðust ekkert geta gert.

Ég ákvað því að miðla til vorkunnsemi þeirra og sagði þeim mína sögu. Þannig var að ef ég mætti ekki í SAT prófið, þá kæmist ég ekki inní háskóla (þetta var síðasti sjens að taka SAT). Ég sagði þeim svo átakanlega sögu um það hvernig öll mín framtíðarplön hefðu snúist um það að fara í háskóla í Bandaríkjunum og að ég þráði ekkert heitar. Þegar ég var langt kominn með söguna kom hins vegar öryggisvörðurinn og vísaði mér út. Þá hélt ég að öll von væri úti og settist því niður. Fimm mínútum síðar kom ein kona til að dreifa út miðum og viti menn, hún gekk upp að mér, brosti, og afhenti mér síðasta farmiðann.

Ég held að ég hafi sjaldan verið eins feginn og þegar ég settist uppí flugvél. Prófið í Lima gekk bara ágætlega og ég komst inní þann skóla, sem ég vildi.