Aftur af stað

Við Margrétum erum á leið í ferðalag á morgun.

Einsog alltaf hafa síðustu dagarnir fyrir frí verið uppfullir af stressi, sem getur oft verið ansi skemmtilegt.

Í dag prófaði ég m.a. tvo nýja mexíkóska staði, sem hafa opnað í Stokkhólmi undafarna viku. Annar með ekta mexíkóskan mat og hinn með tex-mex. Það þýðir að samkeppnin fyrir Serrano er að aukast, en við bjuggumst svosem alltaf við því og teljum okkur alveg geta staðist samanburð við alla staði. Ekta staðurinn var meira spennandi fyrir mig, enda var þar til sölu tacos al pastor, sem ég hef tjáð ást mína á áður. Í minningunni voru þó tacos í Mexíkóborg umtalsvert betri.

* * *

Ég er með pínu móral yfir því að yfirgefa Stokkhólm þegar að borgin lítur svona út. Veðrið er æðislegt og það eru fáar borgir í heiminum, sem eru fallegri en Stokkhólmur í góðu veðri.

En á morgun eigum við allavegana flug til Bangkok frá Stokkhólmi. Við eigum að lenda í Bangkok klukkan 5.50 morgunin eftir. Við eigum svo ekki flug til Jakarta fyrr en 8 um kvöldið þannig að við höfum daginn allan í Bangkok og getum því tekið smá túristarúnt þar. Svo fljúgum við til Jakarta um kvöldið og lendum þar um miðnætti. Þar ætlum við bara að eyða rúmum degi og svo fara í austurátt á Jövu.

Ég mun auðvitað blogga ferðasögur einsog vanalega.

Ég er orðinn spenntur.

Næsta stopp: Indónesía

534390110_1939dca421Það er komið meira en ár síðan að ég kom heim úr Mið-Austurlandaferðinni minni og því ekki seinna vænna en að byrja að huga að næsta ferðalagi.

Það hefur margt breyst á þessu ári síðan ég kom heim frá Tel Aviv. Fyrir það fyrsta þá er ég kominn með bestu kærustu í heimi og það þýðir að ég mun ekki fara í þetta ferðalag einn. Svo bý ég líka í Stokkhólmi, sem gerir manni auðveldara að finna ódýr flug til allra staða.

Við Margrét erum búin að ræða aðeins um það hvert okkur langaði að fara. Við vildum fara á stað þar sem hvorugt okkar hafði komið og við vildum stað þar sem að væri gott að vera í ágúst. Margrét byrjar í skóla í lok ágúst og því þurftum við að skipuleggja ferðalagið í kringum það.

Fyrir valinu varð svo Indónesía.

Ég hef ekki pælt neitt sérstaklega mikið í Indónesíu í gegnum tíðina, en fyrir þessa tímasetningu (bæði dagsetningu og lengd – 4 vikur) og fyrir það sem við vildum í fríinu okkar þá virtist hún vera nánast fullkomin.

Það þekkja eflaust allir frábærar strendur á Bali, en við erum líka ótrúlega spennt fyrir að sjá magnaða hluti á Jövu einsog Borobodur, sem hefur verið ofarlega á listanum mínum lengi, Gunung Bromo og fullt af fleiri stöðum.

Það er dálítið erfitt að gera sér grein fyrir því hvað maður hefur tíma fyrir á Indónesíu þar sem að ferðalög á milli staða eru oft flókin (Indónesía er samansafn af gríðarlegum fjölda eyja og því þarf maður oft að fara með ferjum), en við ætlum okkur allavegana að sjá Jövu, Bali, Lombok og Flores (þar sem við getum vonandi kafað). Ef við höfum einhvern tíma, þá langar okkur að fara líka til Borneo. En þetta eru hlutir sem við munum sennilega ekki ákveða fyrr en við komum á staðinn.

Við erum búin að kaupa beint flug til Bangkok. Það kostaði um 6.000 sænskar krónu hver miði. Þaðan munum við svo taka AirAsia flug til Jakarta sennilega. Þau flug eiga að vera ódýr. Að ferðast um og lifa í Indónesíu í nokkrar vikur á svo að vera mjög ódýrt.

Planið er að leggja af stað 23.júlí. Ef þið hafið einhverjar ábendingar varðandi það hvað við eigum að sjá, þá eru þær vel þegnar.

(mynd fengin [héðan](http://www.flickr.com/photos/maggi_homelinux_org/534390110/))

Sunnudagur, Madríd og Eurovision

Ég er snillingur í að eyða sunnudögum í ekki neitt. Ég ætla að rembast við að breyta því eitthvað í dag. Margrét er að vinna, þannig að ég sit hérna í eldhúsinu og hlusta á Ghost of Tom Joad. Það eru ekki nema rétt rúmar tvær vikur í Springsteen tónleikana og ég er ótrúlega spenntur.

Ég er búinn að vera að rúlla í gegnum allt Springsteen safnið mitt. Ég er m.a.s. farinn að hlusta aftur á Born in the U.S.A., sem ég hafði einhvern veginn útilokað þar sem ég fékk svo mikið ógeð á titillaginu. En mikið afskaplega eru lög einsog No Surrender og Downbound Train frábær. Springsteen er snillingur og ég hef ekki verið svona spenntur fyrir tónleikum síðan ég sá Radiohead í Chicago.

* * *

Ég var í Eurovision grilli og partíi í gær í úthverfi Stokkhólms. Ég held að Íslendingar hafi haft gott af þessu kvöldi. Miðað við umræðuna mætti áætla að ansi margir heima haldi að allir í Evrópu hati okkur, en ég held að það sé ansi fjarri sannleikanum. Vissulega hefur orðspor okkar í viðskiptum farið ansi neðarlega, en almennt held ég að ástandið sé ekki svo slæmt. Mig minnir að ég hafi gefið portúgalska laginu hæstu einkunnina – ég verð sjálfkrafa meira hrifinn af lögum þegar þau eru ekki sungin á ensku.

* * *

Ég og Margrét fórum í helgarferð til Madríd um síðustu helgi. Einn af kostunum við að búa í Stokkhólmi er að héðan er auðvelt að taka bein, ódýr flug til allra mögulega borga. Það er nánast frelsandi að þurfa ekki að treysta á Icelandair og millilendingu á helvítis Heathrow til að komast leiða sinna.

Ég hef einu sinni áður komið til Madríd. Það eru þó um 10 ár síðan og ég man ekki mikið frá þeirri ferð. Ég fór þú á Molotov tónleika, sem var upplifun og svo fékk ég heiftarlega matareitrun af því að borða baguette með beikoni. Það var eiginlega mér að kenna því auðvitað á maður ekki að panta baguette með neinu öðru en skinku í Madríd.

Madríd er skemmtileg borg. Hún er ekki jafn falleg og Barcelona (sem ég hef komið 7-8 sinnum til), en hún er umtalsvert stærri og öðruvísi. Allavegana, við vorum þarna í fjóra daga og skoðuðum helstu túristastaði. Við löbbuðum í kringum Plaza Mayor og Plaza del Oriente þar sem að konungshöllin er. Við skoðuðum Reina Sofia þar sem að Guernica eftir Picasso er til sýnis og svo skoðuðum við Prado safnið, sem er auðvitað ótrúlegt listasafn þar sem að flestöll verk eftir Velazquez og Goya eru geymd.

Við borðuðum líka ótrúlega góðan mat. Ég gjörsamlega elska Jamón Iberico og held að mér hafi tekist að borða það fjórum sinnum í ferðinni. Svo borðuðum við á nokkuð authentic mexíkóskum stað, á frábærum tapas börum og öðrum góðum stöðum. Og við fórum á djammið á klúbbunum í Madríd þar sem Margrét afrekaði það að tala sig fram fyrir röð á tveim stöðum þar með talið einum þar sem við komumst að því að var hommakvöld (við föttuðum ekki að það voru bara strákar í 50 manna röðinni).

Frábær ferð og ég setti inn nokkrar myndir á Flickr.

* * *

Á föstudaginn förum við svo í heimsókn heim til Íslands og verðum þar í 10 daga. Ég er spenntur fyrir því.

Á skíðum

Ég er staddur í litlu fjallaþorpi í Ölpunum með Margréti og góðum vinum.  Hef verið hérna á skíðum síðustu fimm daga í frábæru veðri og færi.  Ég hef ekki farið í svona skíðaferðir síðan ég var lítill strákur, þannig að ég var búinn að vera með verk í maganum fyrir ferðina.

Það er í raun svo langt síðan ég fór á skíði að ég hafði aldrei áður prófað carving skíði, sem allir virðast nota í dag.  En þrátt fyrir að ég hafi sennilega ekki skíðað í 10 ár þá var þetta ekkert mál og ég var tiltölulega fljótur að rifja upp gömlu taktana.

Við fórum í snjóbrettakennslu í gær, sem gekk sæmilega.  Ég datt sirka 50 sinnum, er aumur í höndunum, reif næstum því á mér nárann og sitthvað fleira.  Okkur fannst það þó hálfgerð sóun að eyða tímanum í barnabrekkunum á snjóbretti þegar að við gátum verið að skíða um allt svæðið.  Síðasti dagurinn á skíðum er á morgun og svo förum við aftur til Svíþjóðar á sunnudaginn.

Mið-Austurlandaferð – Eftirmáli 1: Vinstri menn og Mið-Austurlönd

Ferðalagið mitt til Mið-Austurlanda kveikti í mér löngun til að skrifa nokkrar greinar um svæðið útfrá reynslu minni þar. Greinar, sem féllu kannski ekki beint undir ferðasöguna. Allavegana, hérna kemur fyrsta (og miðað við fyrri afköst, hugsanlega eina) greinin. Hún er nokkuð löng og fjallar um afstöðu Íslendinga (og þá aðallega vinstri manna) til Ísraelríkis. Þessi grein birtist í nýjasta tölublaði Herðubreiðar undir heitinu: “Um yndislegt fólk og góðan málstað”.

* * *

Frá því að ég byrjaði að ferðast á eigin vegum hef ég alltaf ferðast til að læra eitthvað nýtt. Ég hef aldrei almennilega skilið ferðalög fólks í kringum mig, sem kýs vikur á sólarströnd umfram fjölmennar borgir og merkilegar fornleifar í framandi löndum. Á þessum ferðalögum er sagan oft ansi lifandi fyrir framan mann, oft skýr og óumdeild. Þegar ég stóð inní S-21 fangelsinu í Kambódíu eða í Helfararsafninu í Washington DC þá var ég ekki í neinum vafa um grimmd Rauðu Khmeranna eða Nasista. Sagan var skýr, enginn vafi var á því hverjir vondu kallarnir voru.

* * *

Á sex vikna ferðalagi mínu í vor um Sýrland, Líbanon, Jórdaníu, Ísrael og Palestínu flæktust hlutirnir umtalsvert. Á þessum slóðum eru sögulegir atburðir að gerast akkúrat núna. Þarna eru engin söfn, sem sögðu mér hvernig hlutirnir gerðust í raun og hver var sekur, heldur þurfti ég sem ferðamaður að meta ástandið sjálfur – tala við innfædda, lesa blöðin og fylgjast með því sem er að gerast fyrir framan augun á mér. Ég reyndi að láta fyrirfram ákveðnar skoðanir ekki hafa of mikil áhrif á mig og umfram allt að sleppa því að láta tilfinngasemi koma í veg fyrir skynsama sýn á stjórnmál og samfélögin í kringum mig.

Hvernig á ég til dæmis að skilgreina Sýrland? Mér er til efs um að ég hafi nokkurn tímann hitt jafn stórkostlegt fólk og Sýrlendinga. Hvergi hef ég fundið jafn vinalegt og skemmtilegt fólk, sem er jafn laust við alla tilgerð og ég hitti daglega á götum Hama, Aleppo og Damaskus. Fólkið bauð mér uppá te, sagði ítrekað hversu vænt þeim þætti um heimsókn mína til þeirra heimalands og bauð mig ítrekað velkominn. Þetta var líka fólk sem hafði vit á því að dæma bandarískar vinkonur mínar út frá því hvernig þær höguðu sér en ekki hvernig bandaríska ríkisstjórnin hagar sér.

Þetta er skynsamleg hegðun hjá Sýrlendingum. Ég lærði nefnilega í þessari ferð enn betur að aðskilja þá einstaklinga, sem ég kynnist, frá því samfélagi sem þessir einstaklingar mynda. Margir kjósa að verja alltaf ákveðna hópa eða þjóðir sökum þess að einstaklingar, sem tilheyra þessum hópum og þeir hafa kynnst, er indælis fólk. Hvernig er til dæmis hægt að gagnrýna Sýrlendinga þegar að þjóðin samanstendur af öllu þessu yndislega fólki? Til þess að geta gert það verða menn einfaldlega að aðskilja álit sitt á einstaklingunum og því samfélagi sem þeir mynda.

Sýrlendingar eru vissulega gott fólk. Það breytir þó ekki því að þeir mynda samfélag, sem að styður hryðjuverkamenn, elur á Gyðingahatri (í einni bókabúð í Damaskus fann ég í gluggaframstillingu bæði “Mein Kampf” og falsritið “Protocols of the Elders of Zion”) og neyðir kvenfólk til að hylja bæði andlit með sjali og líkamsburði með forljótum og þykkum kápum. Ekki er hægt að kenna eingöngu einræðisstjórn Bashar al-Assad um þetta allt, því þetta eru allt hlutir sem eru útbreiddir um mörg Arabalönd og myndu sennilega ekki breytast þótt að hann léti af völdum seinna í dag.

* * *

Í Palestínu kynntist ég líka yndislegu fólki, sem gaf mér te, bauð mér heim til sín og stoppaði mig útá götu til að hjálpa mér eða bara til að spjalla. Ég eyddi tveimur dögum með Tariq, leigubílstjóra frá Jeríkó á ferð um Jeríkó, Nablus, Ramallah og fleiri þorp þar í kring. Fyrir honum var ekki nóg að keyra mig um, heldur stoppuðum við hjá vinum hans í hverjum smábæ. Þar var mér ávallt tekið einsog þjóðhöfðingja. Enginn spurði mig um stjórnmálaskoðanir mínar, heldur bauð fólk mér bara heim til sín í te þar sem við ræddum um ýmsa hluti. Á Austurbakkanum í Jórdaníu eyddi ég svo tveimur heilum kvöldstundum inná skrifstofu Fayez, eiganda lítils hótels í Amman, þar sem hann sagði mér frá raunum sínum og ferðalögum á milli þess sem við drukkum nánast ódrykkjarhæft arabískt kaffi og reyktum nargileh.

Þessi gestrisni breytir því þó ekki að í heimsókn til eins palestínsk manns þurfti að fela allar konurnar þegar að ég fór inní íbúðina til að fara á klósettið. Það breytir því heldur ekki að í Nablus er miðbærinn nánast veggfóðraður með myndum af unglingsstrákum með vélbyssur, sem hafa sennilega unnið sér það eitt til frægðar að hafa reynt eða tekist að myrða saklausa Ísraela.

Í Ísrael átti ég hins vegar mun erfiðara með að kynnast fólki. Ísraelar eru talsvert lokaðri heldur en Arabar, stelpurnar storma framhjá manni með stór sólgleraugu líkt og þær séu þjálfaðar í því að vera eins svalar og þær geta mögulega verið og ég gat staðið lengi útá götu án þess að fá nokkra aðstoð við að finna safnið, sem ég var að leita að. En Ísraelar mynda hins vegar samfélag sem virðir réttindi samkynheigðra, hefur öflugt dómskerfi (forsætisráðherrann þarf þegar þetta er skrifað að verjast ákærum um spillingu, nokkuð sem væri óhugsandi í flestum Arabalöndum), virðir málfrelsi og síðast en ekki síst veitir konum sömu réttindi og körlum.

Þrátt fyrir að vinstri menn styðji í dag flestir lýðræði og kvenréttindi, þá láta flestir einsog að þau mál skipti engu þegar að kemur að því að tala um Ísrael. Bandaríkjamenn, þar á meðal vinstri menn, horfa margir hverjir í gegnum fingur sér þegar talað er um slæmu hlutina, sem að Ísrael gerir í samskiptum sínum við Palestínumenn, eingöngu vegna þess að þeir telja Ísrael vera einu vonina í Mið-Austurlöndum þegar að kemur að lýðræðis-, réttar- og kvenfrelsismálum. Ansi margir evrópskir vinstri menn virðast hins vegar láta það sig litlu varða að í Ísrael sé virkt lýðræði þar sem að vinstri og hægri flokkar hafa skipst á völdum og að þar sé konum frjálst að vinna við það sem þær vilja, klæðast því sem þær vilja og giftast þeim sem þær kjósa.

* * *

Ég hef oft lent í umræðum um ástandið í Mið-Austurlöndum og án efa oftar en einu sinni gerst sekur um að fullyrða um hluti sem ég hafði ekki nógu mikið vit á. Það skrýtna við þær umræður er sú staðreynd að inntak og áherslur ummæla minna breytist oft eftir því hvar ég er staddur eða við hvern ég er að tala.

Þegar að kemur að málefnum Ísraels og Palestínu þá hef ég alltaf talið að mínar skoðanir séu hófsamar. Ég trúi á tveggja ríkja lausn og takmarkaða endurkomu palestínskra flóttamanna. Ég trúi á nauðsyn þess að Gyðingar eigi sitt eigið ríki. Ég trúi því að Jerúsalem eigi að vera skipt og að hún eigi að vera höfuðbrorg tveggja sjálfstæðra ríkja. Ég trúi því að Ísraelsmenn eigi að uppræta landnemabyggðir á Vesturbakkanum, nema rótgrónustu byggðirnar, sem voru undanskildar í Camp David samkomulaginu. Til að vega upp fyrir þær eigi Ísrael að gefa eftir önnur landsvæði. Á móti þurfa Palestínumenn að tryggja það að á Ísrael verði ekki ráðist líkt og gerðist ítrekað þegar að Vesturbakki Jórdan árinnar var undir stjórn Jórdaníu.

Ég trúi því að afstaða Hamas sé óásættanleg, að ekki sé hægt að semja við samtök sem viðurkenna ekki tilvistarrétt Gyðingaríkis í Ísrael. Ég trúi því að ekki eigi að verðlauna hryðjuverk við samningaborðið. Ég trúi því að Ísrael eigi ekki að skila Golan hæðunum nema að tryggt sé að raunverulegur friður komist á og að Sýrlendingar hætti afskiptum af stjórnmálum í Líbanon. Ég trúi því að Ísrael hafi skilyrðislausan rétt til að verjast árásum á landið. Ég trúi því að Ísrael og önnur lönd eigi að gera allt sem þau geta til að Palestína verði sjálfstætt og farsælt land, meðal annars með því að tryggja að samskipti og samgöngur á milli Gaza og Vesturbakkans verði með besta móti (til dæmis með lest eða öruggum og opnum hraðbrautum á milli svæðanna) og á ferðalagi mínu styrktist sú trú mín að Ísraelar og Palestínumenn séu upp til hópa yndislegt fólk, sem vill frið í sínum löndum. Fólk sem hefur flest nokkuð hófsamar skoðanir, sem eru ítrekað kæfðar í umræðunni af öfgamönnum á báðum hliðum.

Auðvitað er það ekki mitt að dæma hversu hófsamar þessar skoðanir mínar eru. En þær hafa verið tiltölulega óbreyttar í gegnum árin og trú mín á þær efldust á ferðalagi mínu um þessi svæði. Ég hef alltaf reynt að sjá málin frá báðum hliðum, sem veldur því að ef þú bæðir vin minn í Bandríkjunum og vin minn á Íslandi að lýsa skoðunum mínum á þessu eilífa deilumáli, þá fengir þú afar ólík svör. Þetta er allt afleiðing af því hversu lituð umræðan um Ísrael og Palestínu er. Þú annaðhvort “heldur með” Ísrael eða Palestínu og skoðanir margra mótast af því. Það að fólk skiptist í svo einstrengislega hópa gerir umræðuna um þetta málefni erfiða og ýtir undir það að öfgafullar skoðanir fái brautargengi.

* * *

Vinur minn í Bandaríkjunum myndi eflaust kalla mig “stuðningsmann Palestínu”. Ég eyddi ótal klukkutímum á háskólaárum mínum í Bandaríkjunum í að hneykslast á oft einstrengislegum skoðunum margra innfæddra á málefnum Ísrael og Palestínu. Ég pirraði mig auðvitað á þeim allra öfgafyllstu, sem birtust á sjónvarpsskjánum reglulega og ekki er hægt að taka mark á ef að friður á að nást. Fólk, sem kýs að kalla Vesturbakkann Júdeu og Samöru og neitar að viðurkenna tilvistarrétt Palestínu. Fólk sem að vitnar í 2.000 ára gamla bók til réttlætingar á þeirri skoðun sinni að Ísraelar eigi aldrei nokkurn tímann að gefa eftir einn einasta hektara af landi til Palestínumanna. Þetta fólk vill ekki frið.

Auk þess mótmælti ég líka á fólki, sem litaði alla Palestínumenn sem hryðjuverkamenn. Fólk sem sá myndirnar frá Palestínu eftir 11.september 2001 og ákvað út frá því að allir Palestínumenn gleddust yfir dauða 3.000 saklausra borgara og heldur að svarthvítur klútur lýsi yfir stuðningi við hryðjuverk. Þessu fólki mótmælti ég hvar sem ég gat.

* * *

Á Íslandi er þessu öðruvísi farið. Þar held ég fram sömu grunn hugmyndunum og ég hélt fram í Bandaríkjunum, en fyrir það hef ég verið kallaður “stuðningsmaður Ísraels” auk þess sem ég hef verið kallaður niðrandi nöfnum fyrir skoðanir mínir, þar á meðal Síonisti (þrátt fyrir að ég trúi því ekki að það sé neikvætt orð, þá var það ekki vel meint) og rasisti (sennilega vegna gagnrýni minnar á múslimska hryðjuverkamenn).

Hérna á Íslandi eru vinir mínir talsvert vinstri-sinnaðri en þeir voru í Bandaríkjunum og þeir sem ég hef kynnst í gegnum störf mín í Samfylkingunni hafa nánast allir skoðanir sem eru afskaplega hliðhollar málstað Palestínumanna og gera lítið úr nauðsyn þess að Ísraelsríki geti varist árásum, sem og þeirri staðreynd að Palestínumenn hafa oftar en einu sinni hafnað sjálfstæðu ríki.

Afstaða vinstri manna á Íslandi til hryðjuverka er líka afar ólík skoðunum sem eru ríkjandi í Bandaríkjunum. Hvort sem það er vegna þess hversu hryðjuverk eru fjarlæg Íslendingum eða vegna einhverra annarra ástæðna skal ósagt látið. Við vinstri menn eigum það kannski sameiginlegt að við reynum að vera eins víðsýn og mögulegt er. Í stað þess að gagnrýna hryðjuverk án athugasemda, þá viljum við oft kryfja málin frekar. Við viljum vita “af hverju” menn grípa til hryðjuverka? Það er vafalaust réttlætanlegt viðhorf. Er ekki í lagi að spyrja hvað í ósköpunum fær fólk til að hlaða sig sprengjuefni, labba inná skemmstistað fullan af ungu og saklausu fólki og sprengja sig í loft upp?

Margir komast að þeirri niðurstöðu að bara örvæntingarfullt fólk geti framkvæmt slík voðaverk. Þegar að ungir Vesturlandabúar ráðast inní skóla alvopnaðir og skjóta unga nemendur, þá fyllist fólk hryllingi og veltir fyrir sér samfélaginu í kringum þá menn. En á endanum þá er bara hægt að kenna samfélaginu um hluta af slíkum voðaverkum. Þegar um múslimska hryðjuverkamenn líkt og þá Palestínumenn, sem sprengja sig í loft upp inní almenningsbifreiðum, er að ræða þá vilja samt margir gera samfélagið og umhverfið að aðalsökudólginum. Þannig að í stað þess að fordæma hryðjuverk Palestínumanna, þá eru eingöngu aðgerðir Ísraela fordæmdar. Menn komast að því að hryðjuverkin séu í raun Ísraelum að kenna. Þeir hafi kallað þau yfir sig.

Þetta vita hryðjuverkamenn í Palestínu. Þeir vita að Ísrael er lýðræðisríki og að óvinsælar ríkisstjórnir eru felldar í kosningum. Því vita þeir að hryðjuverk þeirra munu neyða Ísraela til að bregðast við. Engin ríkisstjórn getur réttlætt það fyrir borgurum sínum að gera ekki neitt í kjölfar sí-endurtekinna hryðjuverkaárása. Þess vegna bregðast Ísraelsmenn við og þurfa að ráðast gegn hryðjuverkamönnum, sem fela sig á meðal óbreyttra borgara. Hvort sem aðgerðirnar eru of stórar eða hófsamar, þá deyja oft saklausir borgarar í aðgerðunum og þeim myndum er hægt að halda á lofti fyrir allan umheiminn til að sýna meinta grimmd Ísraelsmanna. Á endanum eru það því í hugum margra ekki hryðjuverkamennirnir sem eru sekir, heldur landið og fólkið sem þeir ráðast gegn.

* * *

Í Evrópu hefur á undanförnum árum borði meira á áróðri gegn Gyðingum. Margir afsaka það með staðhæfingum um að þetta endurnýjaða Gyðingahatur sé eingöngu hægt að rekja til framgöngu Ísraelsmanna. Það er þó langt frá sannleikanum. Amos Oz, ísraelskur rithöfundur, skrifaði einu sinni:

“Þegar pabbi minn var ungur maður í Vilnius, þá stóð á hverjum vegg, “Gyðingar, farið heim til Palestínu”. Fimmtíu árum seinna þegar hann fór í heimsókn aftur til Evrópu, þá stóð á veggjunum, “Gyðingar, farið útúr Palestínu”.

Það þarf ekki að fjölyrða um það að gagnrýni á Ísraelsríki er fullkomlega réttlætanleg. En til þess að svo sé þarf hún samt sem áður að uppfylla ákveðin skilyrði og þar er einna mikilvægast að hún sé ekki byggð á almennum Gyðingafordómum. Í bókinni “The Case for Peace: How the Arab-Israel conflict can be resolved” leggur Alan Dershowitz til ágætis skilgreininga-atriði um það hvernig aðgreina skuli lögmæta gagnrýni á Ísraelsríki frá gagnrýni sem er byggð á Gyðingafordómum. Meðal þeirra 20 atriða sem hann segir gefa til kynna að gagnrýni á Ísrael sé byggð á Gyðingafordómum nefnir hann:

  • Þegar aðgerðum Ísraela er líkt við Nasista
  • Að vilja refsa Ísraelum einum fyrir hluti sem viðgangast í mörgum löndum og að gera þá kröfu að Gyðingar séu á einhvern hátt betri vegna sögu þeirra sem fórnarlamba.
  • Að halda því fram að Ísraelar séu verstir allra þjóða í einhverju jafnvel þótt það sé fjarri sannleikanum.
  • Að kenna Ísrael um öll vandamál heimsins og ýkja áhrif deilnanna í Ísrael og Palestínu á alþjóðastjórnmál.
  • Þegar ákveðnar steríótípur sem oft eru notaðar af Gyðingahöturum eru notaðar til að lýsa öllum stuðningsmönnum Ísraelsríkis. Svo sem þegar mikið er gert úr völdum Gyðinga um allan heim (t.d. í Bandaríkjunum) eða þeir eru teiknaðir sem grimmir og ljótir gamlir menn með löng nef.

Eflaust má rökræða um sum þeirra 20 atriða, sem að Dershowitz nefnir, en ég tel þó að þessi ofarnefndu atriði bendi oftast til að röksemdafærslan mótist af fordómum.

* * *

Á Íslandi er oft talað á furðulegan hátt um Gyðinga. Þegar að illa er talað um múslima rísa, sem betur fer, margir upp og mótmæla. Þegar að hins vegar er illa talað um Gyðinga og Ísrael, þá er oft einsog allt sé leyfilegt.

Hér sjást oft merki um Gyðingahatur og fordóma, sem ég hef aldrei skilið ræturnar á. Fyrir uppáhalds fótboltaliðið mitt á Englandi spilar ísraelskur landsliðsmaður. Hann er sá eini, sem ég hef heyrt blótað vegna trúarbragða sinna. Þegar hann klúðrar færum hef ég á sportbörum heyrt “helvíts Gyðingurinn” – og sjaldan er kvartað undan slíkum ummælum. Önnur birtingamynd þessa er sú að fæstum virðist þykja mikið til þess koma þegar að ákveðin hegðun fólks er tengd við Gyðingdóm. Þannig þykir mörgum ekkert óeðlilegt við að kalla fólk “Gyðing” vegna þess að það er nískt. Þetta eru þó grófir fordómar, sem byggjast á aldagamalli steríótípu um það hvernig hinn illi, grimmi og níski gyðingur misnotaði aðstöðu sína.

Þessar steríótípur lifa enn vel í Mið-Austurlöndum þar sem það er alls ekki óalgengt að Gyðingar séu teiknaðir í blöðum sem ljótir gamlir kallar með langt nef og langa höku. Í fréttatíma á Stöð 2 fyrir nokkrum mánuðum þótti Katrínu Pálsdóttur af einhverri ástæðu eðlilegt að enda frétt um ferð Barak Obama til Ísraels á þessum orðum:

>”Gyðingar eru áhrifamiklir í Bandaríkjunum og meðal annars eiga þeir og reka flesta fjölmiðla þar í landi.”

Hvaðan Katrín fær þessar upplýsingar eða hvaða máli þær skipta, veit ég ekki. Tilgangurinn getur vart verið annar en sá að ýta undir aldagamlar steríótípur um valdamiklu Gyðingana sem að öllu stjórna á bakvið tjöldin.

Eftir ferð Alþingismanna til Ísrael og Palestínu árið 2005 tók Jónína Bjartmarz í viðtali á vísi.is undir þau orð Magnúsar Þórs Hafsteinssonar að múrinn, sem að Ísraelsmenn höfðu byggt á Vesturbakkanum, minnti helst á gettóin á tímum Nasista!

Eins fráleit og þessi samlíking er fyrir hvern þann sem hefur lesið sögubækur eða heimsótt Vesturbakkann og svo Helfararsafnið á Yad Vashem hæðinni í Jerúsalem, þá þjónar hún þem tilgangi að fríja Evrópubúa undan ábyrgð á Helförinni. Þegar aðgerðum Ísraela er á jafn fráleitan hátt líkt við aðgerðir Nasista þá er undirtónninn alltaf sá sami: “Sjáiði hvað Gyðingarnir gera þegar þeir hafa völdin! Þeir eru alveg jafn slæmir og Nasistarnir sem ofsóttu þá”.

* * *

Á ferðalagi um Vesturbakkann átti ég oft á tíðum erfitt með að gera mér grein fyrir því af hverju svo margir vinstri menn í Evrópu setja baráttuna fyrir Palestínu ofar flestum öðrum baráttumálum. Hvað er það sem gerir raunir Palestínumanna að svona heitu máli? Það var vissulega margt sem mér misbauð á þeim dögum sem að ég eyddi á Vesturbakkanum. Ísraelskar landnemabyggðir (þótt að sumar eigi sér mjög langa sögu) eru margar hverjar nýlegar og umfang þeirra og öryggissvæði í kringum þær gera ferðalög um Vesturbakkann afskaplega erfið. Hvað eftir annað þurftum við að fara framhjá vegatálmum, þar sem við vorum stoppuð á palestínskum bíl á meðan að bílar með ísraelsk númer fengu að keyra áfram. Það er ekki erfitt að ímynda sér hversu niðurlægjandi það er fyrir Palestínumenn. Fyrir Evrópubúa sem heimsækir Ísrael og Palestínu beint frá Evrópu er líka eflaust margt sem að stingur í augað. Ástandið í Palestínu er vissulega umtalsvert verra en í Ísrael, vegirnir eru verri, húsin hrörlegri, búðirnar fátæklegri og svo framvegis.

Hafi maður hins vegar heimsótt önnur Arabalönd, þá lítur ástandið öðru vísi út. Í Líbanon er öryggisgæslan miklu öflugri – þar var ég stöðvaður 10 sinnum á stuttu ferðalagi á milli Baalbek og Beirút og hvað hið almenna ástand varðar, þá er afskaplega erfitt að greina á yfirborðinu mikinn mun á efnahagslegum lífsgæðum í Palestínu og stórum hluta Sýrlands. Sem ferðamaður sér maður auðvitað aðeins hluta sannleikans, en ég tel þó að minn ferðamáti leyfi mér að sjá betur ástand almennra borgara. Miðað við Ísrael er ástandið vissulega slæmt, en sé ástandið í Palestínu miðað við Jórdaníu eða Sýrland, þá virðist munurinn (allavegana á yfirborðinu) ekki vera mikill. Þessi aðstöðumunur og meint kúgun Ísraela skýrir það heldur ekki af hverju Palestínumenn fá samúð evrópskra vinstri manna umfram til dæmis Kúrda í Sýrlandi eða aðrar kúgaðar og landlausar þjóðir um heim allan, sem búa við umtalsvert verri aðstæður en Palestínumenn án þess þó að hafa gripið til hryðjuverka.

* * *

Samfylkingin er, einsog í mörgu öðrum málaflokkum, í erfiðri stöðu þegar að kemur að málefnum Ísrael og Palestínu. Til vinstri við flokkinn eru Vinstri Grænir sem hafa sterk tengsl við málstað Palestínu og samtök einsog Ísland-Palestína. Það er því alveg ljóst að sama hversu hliðholl afstaða Samfylkingarinnar verður Palestínumönnum að þeir allra rótækustu meðal stuðningsmanna málstaðar Palestínumanna munu alltaf geta fundið sig betur innan Vinstri Grænna. Hvernig er annað hægt þegar að Ögmundur Jónasson telur Ismail Haniya, leiðtoga Hamas, vera friðarsinna?!

Meðal þeirra sem styðja málstað Ísraela eru svo meðlimir sértrúarhópa orðnir ansi háværir á Íslandi. Á Omega eru til að mynda sjónvarpsþættir þar sem “vinir Ísraels” koma saman til að ræða um ástandið. Þessir vinir landsins eru þó margir eingöngu vinir landsins á þeim forsendum að Ísrael gefi aldrei eftir land til Palestínu og að með því rætist spádómar úr Biblíunni. Með slíka vini þarf Ísrael varla óvini.

Samfylkingin þarf að hundsa á öfgamenn á báðum hliðum, hvort sem þeir verja kosningu Hamas eða krefjast þess að Vesturbakki Jórdan-ár verði ávallt hluti af Ísrael. Í stað þess þarf flokkurinn að fylgja eftir hófsamri stefnu sem að fordæmir ávallt hryðjuverk og reynir ekki að afsaka hryðjuverkamenn vegna þeirra aðstæðna sem þeir eru í, byggir á tveggja ríkja lausn einsog lögð var til í Camp David og krefst þess að kvenrétti, málfrelsi, lýðræði og réttindi samkynheigðra séu virt – alltaf, alls staðar – alveg sama hver hefðin eða trúarbrögðin eru.

Út

Ég er í alveg ótrúlega góðu skapi í dag.  Er að bíða eftir vini mínum, sem ætlaði að hitta mig í hádegismat, og svo þarf ég að fara heim til að klára að pakka því ég er að fara út til Boston á eftir.

Herbergisfélagi minn úr háskóla, Ryan, er að fara að giftast góðri vinkonu minni, Kate.  Við þrjú bjuggum saman fyrsta árið okkar í háskóla og ég hef alltaf þóst eiga einhvern smá hlut í þeirra sambandi.  Þau búa núna í Boston (eftir að hafa búið síðustu ár í New York) og ætla að gifta sig á laugardaginn í smábæ rétt fyrir utan borgina.

Ég ætla því að njóta lífsins í Boston næstu daga og ætla m.a. að hitta Dan vin minn og fara með honum á Fenway á fimmtudag til að sjá Boston Red Sox spila – erum komin með ágætis miða á þann leik.  Í tengslum við brúðkaupið er svo þriggja daga dagskrá, allt frá kvöldmat á föstudaginn fram að morgunmat á sunnudag.

Ég get ekki beðið.

Myndir frá Líbanon

Jæja, loksins er fyrsti hluti myndanna minna kominn á netið. Þetta hefur tekið lengur en ég átti von á. Fyrir það fyrsta, þá var ég að læra á Aperture, sem ég nota núna í staðinn fyrir iPhoto (ég þarf að blogga sérstakt nördablogg um það), og svo komu líka aðrir skemmtilegir hlutir hérna heima á Íslandi inná milli og myndirnar frá ferðinni gleymdust. Svo voru þetta um 1.300 myndir, sem ég þurfti að grisja úr.

Allavegana, hérna eru komnar inn myndirnar frá Líbanon. Þarna eru myndir frá Beirút, Baalbek, Byblos, Trípolí og Qadisha dalnum. Ég reyndi að grysja vel úr, svo þetta væri sæmilega áhugavert fyrir sem flesta. Fyrri tengillinn er á yfirlitsmyndina í Flickr, þar sem hægt er að kommenta á hverja mynd – og sá seinni er á slide show, þar sem myndirnar eru stærri.

Myndir frá Líbanon
Flickr SlideShow með myndunum frá Líbanon

Myndir frá hinum löndunum þremur koma svo síðar.

Myndin að ofan er frá Baalbek. Þarna er ég fyrir framan Musteri Bakkusar, einn af hápunktum ferðarinnar.

Mið-Austurlandaferð 18: Endalok

Ég er kominn heim.  Kom í gærkvöldi með flugi frá London eftir að hafa eytt einum degi þar í að versla og hitta systur mína.

Er að henda myndunum inná tölvuna mína – þær eru sennilega hátt í þúsund talsins og því mun taka tíma að laga þær og flokka.  Þessa fyrir neðan tók ég í Wadi Rum eyðimörkinni í Jórdaníu.  Þarna er ég að horfa á sólsetur yfir eyðimörkinni, sem var gríðarlega fallegt (myndavélinni var stillt upp á steini – smellið til að sjá stærri útgáfu)

Horft á sólsetur í Wadi Rum

Þetta var frábær ferð. Sennilega besta ferðalag, sem ég hef farið í síðan ég ferðaðist með vinum mínum um Suður-Ameríku fyrir 10 árum. Algjörlega ógleymanlegir staðir, yndislegt fólk, ótrúlegur matur og frábært veður hjálpaði til við að gera ferðina svona vel heppnaða.

Hápunktarnir:

  • Sýrlendingar – Vinalegasta fólk, sem ég hef kynnst
  • Jerúsalem – ótrúleg borg með milljón merkilegum stöðum
  • Stelpur í Tel Aviv
  • Damaskus – yndisleg borg, sem að alltof fáir heimsækja. Umayyad moskan ein og sér nægir sem ástæða fyrir heimsókn, en þegar maður bætir við lífinu, fólkinu og matnum þá er það orðinn frábær pakki.
  • Götumatur í Ísrael – Shawarma laffa var það fyrsta sem ég lærði í hebresku. Ótrúlega góður matur, sama hversu veitingastaðirnir voru shabby.
  • Baalbek í Líbanon – Skemmtilegustu rómversku rústirnar
  • Petra í Jórdaníu – Ótrúlegar fornminjar

Þrátt fyrir að eiginlegri ferðasögu sé hér með lokið, þá á ég eftir að skrifa eitthvað meira um þetta ferðalag á næstu vikum.  Það eru nokkrar sögur ósagðar og svo langar mig líka til að skrifa um pólitík og trúmál tengd þessari ferð – og eins almennar ráðleggingar varðandi ferðalög til þessara landa. Hvort ég hef orku til þess að klára þau skrif veit ég ekki.  En ég mun allavegana setja inn myndir á næstu dögum eða vikum.

Það frábæra við þessi ferðalok er líka að mér líður ótrúlega vel við heimkomu varðandi mitt líf.  Eftir síðustu ferðalög hef ég alltaf komið heim fullur efasemda um það hvert ég er að stefna og hvort ég sé ánægður með mitt líf.  Það að vera úti í svona langan tíma einn gerir það auðvitað að verkum að maður hugsar mikið um sinn gang.  Oft hef ég því komið heim ákveðinn í að breyta öllu í mínu lífi.

En núna við heimkomuna er ég sáttur við hvert ég stefni.  Vinnan virðist hafa tilgang og ég sé hvert ég stefni þar.  Og í einkalífinu finnst mér hlutirnir líka vera á réttri leið.  Þannig að eina áhyggjuefnið við heimkomu er að ná af mér einu eða tveimur aukakílóum, sem fylgdu því að borða shawarma, endalaust af arabísku brauði og öðru góðgæti.  

Ég vona að þið hafið haft gaman af því að lesa þessar ferðasögu. Ég vona allavegana að mér hafi tekist að koma því á einhvern hátt til skila hversu frábært þetta ferðalag, þessir staðir og þetta fólk voru.

Takk.

Skrifað í Vesturbæ Reykjavíkur klukkan 23.14

Mið-Austurlandaferð 17: Tel Aviv er Tel Aviv

Þá er síðasti dagur þessarar Mið-Austurlandaferðar næstum því búinn. Klukkan er að verða fimmhér við Miðjarðarhafið í Tel Aviv. Búinn að eyða deginum á ströndinni, lesandi, horfandi á mannfólkið, drekkandi bjór, borðandi morgunmat og góðan hádegismat á veitingastöðum á ströndinni. Í kvöld ætla ég svo að mæta á einn strandbarinn og horfa á Holland vinna Ítalíu á stórum skjá á ströndinni.

* * *

Það fyrsta sem maður einsog ég hlýt að spyrja mig að eftir nokkra daga í Tel Aviv er: “Af hverju í andskotanum bý ég ekki í Tel Aviv?” Þetta er æðisleg borg!  Frjálslynd, falleg, býður uppá fullkomið veður, strendur, Miðjarðarhafið, fallegar stelpur, gott næturlíf, öflugt menningarlíf, góða veitingastaði og svo framvegis og framvegis. Þetta er einfaldlega frábær borg.

Það er líka erfitt að ímynda sér að Jerúsalem sé álíka nálægt Tel Aviv og Selfoss er nálægt Reykjavík – því borgirnar tvær gætu vart verið ólíkari. Í Jerúsalem þverfótar maður ekki fyrir trúarbrögðum – moskum, bænahúsum, kirkjum, haredi gyðingum á leið að Grátmúrnum, nunnum, rabbíum og svo framvegis og framvegis. Og Jerúsalem er íhaldsöm. Á shabbat lokar hreinlega allt. Veitingastaðir og kaffihús líka.

Ég kom hingað til Tel Aviv á föstudaginn og spurði stelpuna í afgreiðslunni hvort það væri ekki allt lokað á shabbat einsog í Jerúsalem. Hún svaraði einfaldlega “Jerúsalem er trúuð – Tel Aviv er Tel Aviv”. – Og ætli það sé ekki besta lýsingin á Tel Aviv – hún er einfaldlega Tel Aviv. Að vissu leyti minnir hún á svæði í kringum Los Angeles eða Barcelona. Mannlífið mótast að vissu leyti af nálægðinni við ströndina. Á shabbat hópast allir á ströndina og síðan nýtur fólk næturlífsins í miðborginni fram eftir morgni. Hérna virðist oft eingöngu búa ungt fólk – og borgin virðist að vissu leyti gerð fyrir ungt fólk.

* * *

Smá útúrdúr: Ég studdi Hillary Clinton í bandarísku demókrata forkosningunum, en er þó sæmilega sáttur við Barak Obama. Eftir því sem að leið á kosningabaráttuna varð ég þó alltaf spenntari og spenntari fyrir Hillary. En allavegana. Einsog flestir hér í Ísrael var ég spenntur fyrirAIPAC ræðunni hans og hún var að mörgu leyti mjög góð. Obama talaði um tímann sinn hér í Ísrael, heimsóknina á Yad Vashem (hann notaði hebreska orðið Shoa til að nefna Helförina) og hann lýsti yfir stuðningi við Ísrael og sjálfsagðan rétt Íslraelsríkis til sjálfsvarnar. En svo tókst honum að klúðra ræðunni með einum punkti þegar hann sagði að Jerúsalem yrði áfram höfuðborg Ísraels (gott) og að hún yrði óskipt (glórulaust). Með þessum eina punkti um það að Jerúsalem yrði óskipt, sem er fáránlegt að halda – því hún er mikilvæg borg fyrir Araba og að mörgu leyti mjög arabísk á stórum svæðum – missti hann aðdáun ansi margra í Mið-Austurlöndum. Óskiljanleg mistök, sem munu gera lítið til að auka stuðning Gyðinga við hann, en munu auka andúð Múslima.

* * *

Ég kann afskaplega vel við Ísraela, en þeir eru þó að mörgu leyti mjög ólíkir þeim Aröbum, sem ég hef kynnst í nágrannalöndunum og Palestínumönnum. Ég vissi alltaf að ég myndi losna við mína ísraelsku fordóma eftir smá tíma í sjálfu landinu. Einsog margir bakpokaferðalangar hef ég nefnilega ekki haft neitt sérstaklega góða reynslu af Ísraelum á bakpokaferðalögum. Það kann vel að vera vegna tímasetningarinnar á bakpoka-ferðalögum Ísraela, sem flestir fara í strax eftir herþjónustu, sem hlýtur að taka á sálina.

Allavegana, Ísraelar eru mun lokaðri en Arabar. Besta orðið, sem ég hef séð lýsa þeim er brusque. Flestir virka smá þurrir við fyrstu kynni, en það breytist þegar maður hefur kynnst fólkinu betur. Stelpurnar eru uppteknar af því að vera svalar og láta sem þeim sé sama um allt sem er í gangi í kringum þær – og flest ungt fólk virðist vera upptekið af því að líta út eins töff og mögulegt er. Þetta er mjög ólíkt Arabalöndunum þar sem maður hefur á tilfinningunni að allir vilji vera vinir manns. Ætli sú þjóð, sem líkist Ísraelum í viðhorfi einna best sé ekki… Íslendingar?

* * *

Hvað er ég búinn að gera í Tel Aviv gæti einhver spurt? Jú, ég ætlaði að fara á Diaspora safnið í morgun, en það reyndist lokað. Og jú, ég kíkti til Jaffa í smá stund, en ætli besta lýsingin sé ekki einfaldlega sú að ég hef notið lífsins. Gleymt því í smá stund að ég er túristi í ókunnu landi og einfaldlega notið góðrar helgi í Tel Aviv. Ég hef legið á ströndinni, lesið tvær bækur, horft á EM, drukkið bjór, kíkt á djammið – notið lífsins. Ég er búinn að gera nóg af því að túristast síðustu vikurnar. Ég hef séð nóg af rústum, nóg af söfnum og svo framvegis. Ég hafði alltaf ætlað mér að einfaldlega slappa af í Tel Aviv og það hef ég gert.

Hérna skín sólin og hitinn er passlegur. Ég veit að ég hef nánast ekkert talað um veðrið í þessari ferðasögu og ástæðan er einföld. Veðrið hefur verið nánast fullkomið. Og eftirfarandi segi ég án þess að ýkja hið minnasta. Ég hef ALDREI á þessum 6 vikum séð rigningu. ALDREI! Ég heyrði að það hefði rignt eina nóttina í Damaskus en það er allt og sumt. Og annað: Það hefur verið sól ALLA dagana. Hvern einn og einasta dag! Þetta er með ólíkindum magnað.

* * *

Á morgun á ég svo flug til London, þar sem ég ætla að vera í einn dag og á svo flug heim á miðvikudaginn.

Núna sit ég hérna inná netkaffihúsi ótrúlega sáttur við þessa ferð. Ég er enn með sand í eyrunum eftir dag á ströndinni, lykta af After Sun, orðinn ágætlega brúnn og mér líður afskaplega vel. Eina sem ég á eftir að gera er að setjast niður með bjór í kvöld og horfa á fótbolta. Það er ekki slæm leið til að enda tímann minn í Mið-Austurlöndum.

Skrifað í Tel Aviv, Ísrael klukkan 16.30