Hagfræði er sko langbesta fagið

Athygilsverðar pælingar á netinu um gildi háskólanáms og mun á ýmsum fögum, aðallega verkfræði og heimspeki.

Bestu innleggin í þessa umræðu er sennilega að finna hér og hér.

Björgvin tekur einmitt svipað á málunum einsog bandarískir háskólar. Flestir betri háskólar hér í landi leggja nefnilega áherslu á að háskólanám (undergraduate) sé í raun aðeins undirbúningur fyrir frekara framhaldsnám. Ég er t.a.m. að læra hagfræði en samt dettur mér ekki í hug að stökkva uppí flugvél og fljúga til New Jersey og fara að stinga ofan í Paul Krugman eftir mitt fjögurra ára nám.

Allt frá því fólk byrjar nám við háskóla í Bandaríkjunum er það hvatt til að taka sér tíma í að velja sér fag. T.a.m. fyrsta árið í mínum skóla þurfa allir að taka tvö fög úr sex hópum. Þannig þurfti ég að taka tvo bókmenntatíma, tvo raungreinatíma, tvo heimspekitíma o.s.frv. Þetta er allt gert til þess að fólk kynnist öllum hliðum námsins og sé betur undirbúið að taka ákvörðun um það hvað það vilji læra. Ég held að þessi aðferð sé nokkuð sniðugri en íslenska aðferðin, þar sem fólk þarf flest að ákveða í byrjun náms hvað það vilji gera.

Ég tel að öllum sé hollt að læra greinar, sem það hefur kannski ekki brennandi áhuga á. Ég tel að það víkki sjóndeildarhringinn og það kemur einnig (að nokkru leyti) í veg fyrir meting á milli fræðigreina. Ég fékk til að mynda á þessu fræðigreinaflakki mínu að lesa Suður-Amerískar bókmenntir, fræðast um sögu Rússlands, lesa um tengsl trúar og þýskra bókmennta, lesa Nietzche og Plato, lauk þess sem ég lærði stærðfræði og hagfræði.

Ég tel það nauðsynlegt að það ríki viss virðing á milli háskólanema. Allur metingur er, að mínu mati, neikvæður. Það er slæmt að gera lítið úr fólki, sem stundar nám við háskóla, sem eru kannski að einhverra mati lægra skrifaðir. Ég reyni einnig að gera ekki lítið úr þeim vinum mínum, sem eru að læra kvikmyndagerð við skólann (þó ég öfundi þá svolítið af heimavinnunni).

Ég komst að því að það er fjandi erfitt að fá A í rússneskum bókmenntum. Jafnvel erfiðara en að fá A í verstu hagfræðitímunum. Þeir, sem eru að læra bókmenntir við skólann minn eiga kannski ekki jafn auðvelt með að finna vinnu eftir nám og þeir, sem eru í hagfræði- eða verkfræðideildinni, en þeir eru svo sannlarlega ekki búnir að sóa tímanum sínum hér. Málið snýst nefnilega ekki bara um að læra eitthvað, sem kemur þér beint að gagni á vinnumarkaðnum, heldur margt fleira. Mörg fög kenna manni að hugsa gagnrýnið. Stærðfræði kennir manni að leysa vandamál. Ég efast t.a.m. um að ég muni nokkurn tímann nota þekkingu mína á Black-Scholes formúlinni og hvernig á að sanna hana frá sjónarhorni stærðfræðinnar, en ég tel samt að ég hafi lært margt.

Háskólanám er nefnilega ekki bara leið til að fá betri vinnu.

Hagfræði eða Pat Buchanan

Ég er búinn að vera að læra hagfræði hér á bókasafninu í allan dag.

Klukkan átta er hins vegar fyrirlestur á campus með spekingnum Pat Buchanan. Ég er ekki alveg búinn að gera upp við mig hvort ég eigi að fara yfir hagfræðina einu sinni enn, eða kíkja á Buchanan.

Létt geðveiki

Nú er ég búinn með tvö fyrstu miðsvetrarprófin, var í hagfræði í gær og svo stjórnmálafræði í dag. Þessi stjórnmálafræðitími er létt geðveiki. Ég var búinn að lesa allt efnið og vaknaði klukkan 6 í morgun, fimm tímum fyrir próf til að lesa það, sem ég hafði merkt með yfirstrikunarpenna í námsefninu. Við erum búin að lesa eitthvað fáránlegt magn og það endaði með því að fimm tímar voru ekki nóg fyrir mig til að lesa yfir glósurnar mínar. Þrátt fyrir að ég lesi mjög hratt. Og það besta er að við erum bara búin að vera í þessum tíma í fjórar vikur.

Annars var prófið svona létt Northwestern geðveiki. Prófin hérna eru nefnilega alltaf þannig gerð að maður hefur engan tíma. Ég var frægur fyrir það að vera fljótur að klára próf í framhaldsskóla og var oftast fyrstur út. Hins vegar hérna þá er maður að skrifa þangað til að kennarinn rífur blaðið frá manni. Þrátt fyrir að ég skrifi mjög hratt og MJÖG illa.

En núna er fyrsta lotan sem sagt búin og næstu próf eru ekki fyrr en eftir 5 daga.

Skólinn

Ég er að komast inní skólann aftur eftir sumarfríið. Ég er búinn að vera í skólanum í nær tvær vikur og er bara ágætlega sáttur. Ég er í fjórum tímum.

Hagfræði – Industrial economics. Hagfræðitími, sem fjallar um verðlagningu og hagkvæmni í rekstri. Einnig mikil áhersla á “game theory” (íslenska:??) og hvernig fyrirtæki nota “game theory” í ákvarðanatöku.

Stærðfræði/hagfræði – Mathematical methods in finance. Mér sýnist þetta vera erfiðasti tíminn, allavegana hefur fyrsta vikan verið ansi strembin. Fjallar um útreikninga í fjármálum og sannanir á hinum ýmsu fjármálaútreikningum.

Félagsfræði – Sociology of complex organizations. Fyrsti félagsfræðitíminn, sem ég hef tekið og líkar mér nokkuð vel. Fjallar um það hvernig stærri fyrirtæki virka og hvernig vinnuumhverfið hefur áhrif á starfsfólk og viðskiptavini.

Stjórnmálafræði – Politics and markets. Fjallar um samskipti markaðarins og stjórnmála, sérstaklega hvernig markaðurinn hefur áhrif á lýðræði.

Ég veit að þetta hljómar svaka spennandi. Ég hef bara ekkert annað til að skrifa um þessa stundina. Jú, veðrið er fínt, 27 stiga hiti.

Bestu Háskólar í Bandaríkjunum

Í gær var ég eitthvað að skrifa um háskóla og hvernig USNews raðaði þeim niður á listanum yfir bestu háskólana. Skemmtileg tilviljun að akkúrat í dag var gefinn út 2002 listinn, þannig að það, sem ég var að tala um í gær, er úrelt í dag.

Það eru svo sem litlar breytingar frá því síðast, Princeton í efsta sæti, Harvard númer tvö, svo Yale og Caltech.

Það ánægjulega fyrir mig og mína skólafélaga er þó að minn skóli (Northwestern University) færist upp um eitt sæti, í það tólfta. Skólinn minn klifraði yfir Cornell, sem dettur niður í fjórtánda sæti.

Það skemmtilega við þetta er að nú er skólinn minn kominn fyrir ofan tvo “ivy league” skóla, það er Cornell, sem er númer 14 og Brown, sem er númer 16.

Annars lítur listinn svona út:

  1. Princeton University (NJ)
  2. Harvard University (MA)
  3. Yale University (CT)
  4. California Institute of Technology
  5. Massachusetts Inst. of Technology
  6. Stanford University (CA)
  7. University of Pennsylvania
  8. Duke University (NC)
  9. Columbia University (NY)
  10. Dartmouth College (NH)
  11. University of Chicago
  12. Northwestern University (IL)
  13. Rice University (TX)
  14. Cornell University (NY)
  15. Washington University in St. Louis
  16. Brown University (RI)
  17. Johns Hopkins University (MD)
  18. Emory University (GA)
  19. University of Notre Dame (IN)
  20. University of California – Berkeley

Hægt er að nálgast allan listann hérna

Caltech

Ég verð nú að segja einsog er að CV hjá þessari stelpu er mjög flott. Hún er einu ári yngri en ég, en er samt að byrja í Ph.D námi við Caltech. Það er ekkert smá flott. Caltech var einmitt valinn besti háskólinn í Bandaríkjunum af USNews árið 2000 (að mig minnir, hann er víst í 4. sæti núna. Minn er í 13. sæti.

Þessi stelpa var einmitt skiptinemi sama ár og ég var í skiptinemi í Venezuela. Síðan þá hefur hún greinilega verið aðeins duglegari í náminu en ég, því hún er að byrja í Ph.D námi, en ég á ennþá eftir að klára síðasta árið fyrir BS gráðu. Gott hjá henni.

Skólinn

Skólinn gekk ágætlega, þrátt fyrir að ég hafi haft nokkuð mikið að gera utanskóla þessa önnina. Einnig var próftaflan hjá mér mjög óþægileg, því ég tók 3 próf á seinustu tveimur prófdögunum. Hvað um það, ég fékk 3.75 í einkunn, sem er sama og ég hef fengið báðar hinar annirnar á þessum vetri. Sem er í raun smá skrítið.

Allavegana, þá fékk ég A- í þýskum bókmenntum (Faust), B+ í hagfræði (hlutabréfamarkaðurinn), A í stærðfræði (diffurjöfnur) og A í hagfræði (alþjóðaviðskipti). Skiptingin kom mér nokkuð á óvart, því ég fékk slæma einkunn á fyrri ritgerðinni í þýsku. Það er greinilegt að kennaranum líkaði við seinni ritgerðina, sem fjallaði um samanburð á Faust eftir Goethe og Mephisto eftir Klaus Mann.

Einnig kom fyrri hagfræði einkunin mér á óvart. Ég var með hæstu á miðsvetrarprófum, og fékk svo líka gott á lokaprófinu. Það, sem dró mig niður voru skilaverkefni, sem giltu mjög mikið og svo notaði kennarinn mjög skrítna formúlu til að reikna út einkunnina, þannig að ég kom verr út úr þeim útreikningi en flestir aðrir. En samt, þá er B+ ekki slæmt. Ég er svo náttúrulega sáttur við hina tímana.

Hlutabréf

Ég er búinn að eyða deginum hérna heima að læra undir hagfræðipróf. Ég kláraði þýskuritgerð um Faust í gær og skilaðin henni í morgun og tók stutt þýskupróf.Dagurinn í dag hefur sem sagt farið í undirbúning undir fyrra hagfræðiprófið, sem er á fimmtudag. Það próf fjallar um hlutabréfamarkaðinn.

Eftir að hafa lesið um markaðinn í nokkra tíma tók ég mér langþráð kaffihlé áðan. Í hlénu fékk ég mér einn bolla af kaffi og las Wall Street Journal. Sumir myndu segja að ég ætti ekkert líf.