Ferðalag á morgun

belize-12.jpg

Ok, ferðalag á morgun. Er kominn með í magann. Er ekki búinn að pakka ennþá, var í vinnunni til klukkan 7 í kvöld og hef hreinlega ekki haft tíma. Ætla að gera það á eftir.

Planið er flug til Baltimore seinnipartinn á morgun og svo flug til Mexíkóborgar gegnum Miami á fimmtudagsmorgun. Ef allt gengur eftir ætti ég að vera kominn til Mexíkóborgar um 2 leytið á fimmtudaginn.

Annað er ekki planað nema að ég á flug til Baltemore frá Gvatemala borg 1.október. Þannig að ég hef einn mánuð til að koma mér frá Mexíkóborg til Gvatemala borgar. Ég veit ekki alveg hvernig ég geri það og í hversu stórum skrefum. Ég hef bara búið til í hausnum lauslegan lista yfir þá staði, sem mig langar til að sjá. Þeir eru t.d.

* [Tikal í Gvatemala](http://www.rutahsa.com/Tikal-6.jpg)
* [Lago Atitlan í Gvatemala](http://www.smartishpace.com/files/guate/lago_atitlan8.jpg)
* [Caye Culker](http://www.beautifulbelize.com/images/photo_gallery/cayecaulker_thesplit1.jpg) í Belize eða [Bahia eyjar í Hondúras](http://images.google.com/imgres?imgurl=http://www.fthfoundation.org/images/book.jpg&imgrefurl=http://www.fthfoundation.org/bay_islands_of_honduras.htm&h=265&w=300&sz=17&tbnid=yx0JyULRTlcJ:&tbnh=98&tbnw=111&hl=en&start=3&prev=/images%3Fq%3Dbay%2Bislands%26svnum%3D100%26hl%3Den%26lr%3D%26c2coff%3D1%26client%3Dsafari%26rls%3Dis-is%26sa%3DN), þar sem eg ætla að reyna að læra að kafa
* [San Cristobal de las Casas í Chiapas, Mexíkó](http://www.mexonline.com/sccasas.htm)
* Canon del Sumidero í Chiapas, Mexíkó

Ég veit ekki hvort ég kemst á alla staðina né hvað mun bætast við eða hversu lengi ég ætla að vera á hverjum stað. Það kemur bara í ljós.

En ég stefni allavegana á að uppfæra þessa síðu reglulega á meðan á ferðalaginu stendur.

Síðustu dagar (uppfært)

Það er ótrúlega magnað að lesa og skoða myndir af því að það sé [verið að tæma New Orleans](http://edition.cnn.com/2005/WEATHER/08/28/hurricane.katrina/index.html) af mannfólki fyrir morgundaginn. Hræðilegt að þetta skuli þurfa að koma fyrir mest sjarmerandi borg Bandaríkjanna.

Ef að [fellibylurinn](http://www.ssd.noaa.gov/PS/TROP/DATA/RT/gmex-vis-loop.html) verður jafn slæmur og talið er mögulegt, þá gæti vatnið á Bourbon Street orðið allt **að 6 metra hátt** (sjá [hér](http://www.pbs.org/wgbh/nova/sciencenow/3204/02.html) – mæli með vídeóinu). Jafnvel er talið að ekki verði hægt að búa í stórum hluta borgarinnar í margar vikur. Stórir hlutar New Orleans verða eyðilagðir ef allt fer á versta veg.

Það er búið að skylda alla íbúa borgarinnar til að fara burt, en einhverjir verða eftir – sennilega þeir fátækustu, sem eiga erfiðara með að koma sér í burtu. Það hefur verið talið að ef að svona stór fellibylur myndi lenda beint á borginni, þá gætu allt að 50.000 manns dáið og 1 milljón misst heimilin sín.

Það er hægt [að fylgjast með þessu í beinni útsendingu á netinu hér](http://mfile.akamai.com/12912/live/reflector:38202.asx)


Þessi helgi er búin að vera miklu, miklu rólegri en ég átti von á. Fyrir það fyrsta ætlaði ég að fara í Sirkus partýið á fimmtudaginn uppá Árbæjarsafni, en var of latur til þess og fór þess í stað bara í sund með vinum mínum. Á föstudaginn ætlaði frænka mín að halda partý í íbúðinni minni, en við ákváðum á síðustu stundu að hætta við það, þar sem við töldum að það yrði of margt fólk fyrir íbúðina mína. Þannig að ég horfði bara á Liverpool leikinn.

Svo í gær var starfsmannapartý uppá vinnustað og ég var nánast edrú. Drakk nokkur glös af einhverju áfengi, en fann ekkert á mér og nennti eiginlega ekki að drekka meira. Kíkti í bæinn, en aðeins til að fá mér að borða. Í dag var svo fjölskyldumatarboð hjá mömmu, þar sem að frænka mín er að flytja til Danmerkur. Á morgun er svo annað matarboð, þannig að ég slepp alveg við eldamennsku fram að Mexíkóferðinni.

Er ekki ennþá byrjaður að pakka, sem er ekkert sérstaklega gáfulegt. Finnst einsog ég sé að gleyma einhverju rosalegu, en veit bara ekki hvað það er.


Síðustu dagar eru búnir að vera hálf geðveikir í vinnunni. Fyrir einhverjum tveim til þrem vikum, þá nennti ég varla að fara í frí, þar sem allt gekk svo rólega í vinnunni. Fannst ég ekkert þurfa á fríi að halda. En núna er ég alveg að springa. Einhvern veginn virtist það vera samhent átak að allt myndi gerast á sama tímanum, bæði í aðalvinnunni og á Serrano. En vona að mér takist að leysa úr öllu áður en ég fer út.

Þarf að komast burt í góðan tíma. Er að springa úr tilhlökkun.

Deuce BMG

Ég á bágt með að trúa því að ég búi í landi þar sem Rob fokking Schneider – sem var að klára við að gefa út mynd, sem margir gagnrýnendur eru sammála um að sé [versta mynd allra tíma](http://rogerebert.suntimes.com/apps/pbcs.dll/article?AID=/20050811/REVIEWS/50725001/1023), komist á baksíðu stærsta dagblaðsins, á forsíðu þriðja stærsta dagblaðsins og í einkaviðtal í vinsælasta sjónvarpsþáttinn, allt sama daginn.

Mér finnst gott mál að taka vel á móti frægu fólki, en þetta er eiginlega dálítið sorglegt.

Tónar

Nýji síminn minn er algjört æði. Eini gallinn er að hringitónarnir eru allir óþolandi. Þar sem að ég gleymi oft símanum á skrifborðinu inní vinnu, þá vil ég hafa tón, sem gerir starfsfólkið þar ekki geðveikt.

Veit einhver hvar ég get fundið .MP3 hringitóna, sem eru bara einfaldir. Einföld hringing, ekki einhver brjáluð lög með flautum og látum. Ég hef prófað að hafa gott lag sem hringitón, en ég kann best við að hafa bara einfaldan tón. Hins vegar þá finn ég ekkert svo einfalt á netinu.


Einnig, ef þú ert vinur minn og átt heima í símaskránni í símanum mínum. Málið er að gaurarnir hjá Samsung umboðinu eyddu allri símaskránni minni og ég er því í djúpum skít varðandi símanúmer vina og kunningja. Ég man svona 2 númer hjá vinum mínum, en öll önnur númer man ég ekki. Er búinn að finna flest vinnu símanúmerin, en er of latur til að leita upp öll vinanúmer.

Þannig að ef þú ert vinur minn eða kunningi og veist að þú átt að vera í símaskránni minni, sendu mér email á einarorn ( @ ) gmail.com. Mig vantar sem flest gsm og heimanúmer. Vantar til að mynda öll númer hjá stelpunum í mínum vinahóp.

Ferðaplan

Ég fæ engin verðlaun fyrir það að vera skipulagður í ferða undirbúningnum mínum. Er eiginlega búinn að vera of busy í vinnu til þess að klára hlutina og skipuleggja.

Var að raða ofaní minningarkistuna mína þegar ég sá allt í einu bólusteningarskírteinið mitt og fattaði að ég steingleymdu að láta bólusetja mig. Gulu sprautan er orðin 10 ára gömul og eitthvað annað var útrunnið. Hringdi því og grátbað konuna á símanum um að redda mér tíma. Sem hún og gerði. Þvílíkt yndi. Þannig að á morgun ætla ég að láta sprauta mig fullan af einhverjum viðbjóði. Vona bara að ég sé ekki inná malaríu-svæðum, svo ég þurfi ekki að taka hryllings-malaríutöflurnar, sem allir tala svo illa um.

Svo hérna heima eftir Liverpool leikinn, þá fór ég að pæla í flugum frá Washington til Mið-Ameríku. Ég ákvað með Genna að það væri betra að við myndum hittast á heimleiðinni og því ætla ég að reyna að fljúga beint til Mexíkóborgar án stopps í Washington og fljúga svo á bakaleiðinni frá Guatemala borgar til Washington og heimsækja Genna og Söndru í tvo daga.

Ég fór svo að hugsa með mér áðan…. heimsækja Genna og Söndru… hhmmmmm… Washington… hmmmm……. *Hólí sjitt*, þau búa í Bandaríkjunum og ég er með gamalt vegabréf. Þannig að núna þarf ég að redda mér nýju (DAMN you, Osama!) vegabréfi og þarf að fá sérstaka flýtimeðferð, sem þýðir að ég þarf að borga 10.000 kall. Ég er ekki sáttur, því ég elska vegabréfið mitt. Ég fékk það einmitt útí Mexíkó vegna þess að því gamla var rænt af mér á lestarstöð í Mexíkóborg fyrir 8 árum.

En vegabréfið mitt er svo uppfullt af gömlum stimplum (í vegabréfinu eru stimplar frá Guayana, Argentínu (2 stk), Chile, Uruguay, Kúbu, Kólumbíu, Ekvador, Perú, Venezuela, Paragvæ, Tékklandi, Póllandi (2stk), Bandaríkjunum (10 stk), Bólivíu, Tyrklandi og Kanada), sem ég verð aldrei þreyttur á að fletta í gegnum þegar ég er að bíða eftir flugi á leiðinlegum viðskiptaferðalögum. Stimplarnir vekja alltaf upp skemmtilegar minningar. En svona er þetta nú, ég verð víst að fá mér nýtt vegabréf og byrja að safna stimplum uppá nýtt.

Össur í World Class

Mig minnir að ég hafi einhvern tímann skrifað um það að ég óskaði þess að ungir þingmenn myndu tala (og hugsanlega blogga) einsog þeir væru í alvöru ungir, en ekki sextugir karlar í dulargervi. Mig langaði í blogg þar sem einhver þingmaður myndi viðurkenna að hann horfði á O.C. eða fyndist stelpan á hlaupabrettinu í World Class vera sæt.

Þetta er ekki alveg að gerast. Unga fólkið í pólitík heldur áfram að rembast við að vera fullorðið. Hins vegar er Össur Skarphéðinsson orðinn alvöru bloggari. Ekki svona leiðinlegur þingmannabloggari, sem bloggar bara um frumvörp og R-listann, heldur skemmtilegur bloggari sem segir frá þessu litla og skemmtilega í sínu lífi.

Hvaða þingmaður annar en Össur [myndi til dæmis þora að skrifa svona snilld](http://www.ossur.hexia.net/roller/page/ossur/Weblog/celebrity_spotting_i_world_class)?

>Í gær kom svo ég í World Class og sá að menn hópuðust á brettin fyrir aftan vörpulegan mann. Hann hafði valið sér ysta hjólið til að láta bera sem minnst á sér. Loksins- hugsaði ég spenntur. Ég var algjörlega viss um að Clint væri mættur á staðinn.

>Ég kannaðist við vangasvipinn á manninum. Mér fannst ég örugglega þekkja limaburðinn. Hjartað í mér sló hraðar. En það var einhver tilvistarangist sem speglaðist í augum hans – sem maður sá aldrei hjá Clint í gamla daga.

>Þá sá ég að þetta var enginn annar en Geir Haarde. Hann var búinn að missa svona 15 kíló og orðinn að kyntrölli! Angistarsvipurinn á honum var bara einsog svipurinn á sjálfum mér þegar ég er rekinn í strangt aðhald! Geir var ekki með gleraugun svo hann gat látið sem hann sæi mig ekki þegar ég vinkaði kumpánlega – til að liðið í kring sæi að ég þekki líka frægt fólk.

([via](http://strumpurinn.tripod.com/))

Það er einsog Össur hafi frelsast þegar hann tapaði kosningunum í sumar. Bloggið er fullkominn miðill fyrir menn einsog hann. Menn, sem nenna ekki að vera alvarlegir á öllum stundum og þora að segja það sem þeim finnst. Húrra fyrir honum!

Annars, þá sé ég aldrei Clint Eastwood í World Class. En það er sennilega enginn betri staður til að hitta fræga fólkið en í salnum í Laugum.

Prentari

Já, ég veit að ég á ekki að nota þessa síðu fyrir smá-auglýsingar.

En allavegana, mig vantar ódýran prentara. Sjá auglýsinguna [mína hér](http://www.apple.is/umraedur/viewtopic.php?p=60944#60944). Væri ágætt ef þetta væri svart/hvítur laser, en er svo sem opinn fyrir öllu.

10 Bestu lagabútarnir

Á [þessari síðu](http://www.retrocrush.com/archive2004/coolsongs/index.html) er athyglisverður listi. Höfundur tók sig til og gerði lista yfir 50 flottustu lagabútana. Það er: ekki 50 flottustu lögin, heldur 50 flottustu hlutar úr lögum. Flott trommusóló, flott laglína og svo framvegis.

Mér fannst þetta sniðugt og fór aðeins að pæla í þessu og endaði með þennan lista. Semsagt þetta eru mínir uppáhalds lagapartar. Frá flottum gítarsólóum til parta þar sem ég hef fengið gæsahúð, eða tengi einhverju merkilegu í mínu lífi. Kannski finnst öðrum þetta ekkert merkilegir hlutar, ég veit það ekki. En allavegana, talan fyrir aftan lagaheitið merkir það hvenær í laginu viðkomandi bútur byrjar.

  1. **Jeff Buckley – Last Goodbye** – 3:50 – Allt lagið er sungið á algjörlega ólýsanlegan hátt af Buckley. En síðasta versið þegar hann nánast grætur línurnar gefa mér gæsahúð í hvert skipti. Hvernig hann grætur orðið “over” í síðustu línunni sýnir hversu stórkostlegur söngvari Buckley var: *”and the memories offer signs that it’s over”* – Ótrúlegt.
  2. **Bob Dylan – One of Us Must Know** – 3:50 – Dylan syngur með ótrúlegri tilfinningu *”never meant to do you any harm”*, fer svo inní viðlagið og svo í yndislegasta munnhörpusóló allra tíma. Munnharpan er skerandi, en samt svo ótrúlega fullkomin.
  3. **Sigur Rós – Popplagið** – 6:05 – Þegar að andinn í laginu gjörbreytist og lokakaflinn byrjar. Trommurnar og söngurinn. Ómægod!
  4. **I Want You – Elvis Costello** – 5:45 – Í lok lagsins þegar að Elvis er orðinn rólegur aftur og syngur: *Every night when I go off to bed and when I wake up…I want you…
    I’m going to say it once again ’til I instill it…I know I’m going to feel this way until you kill it…I want you*.

    Kannski er það vegna þess að ég hlustaði einu sinni á þetta lag svona 50 sinnum á rípít á meðan að ég hugsaði um stelpu, sem ég var að tapa mér yfir. En allavegana, ég elska þennan kafla. Já, og ég elska þetta lag. Ég man ennþá að ég var útá svölum á hóteli við ströndina á Margarítu þegar að Eunice vinkona mín spilaði þetta lag í fyrsta skipti fyrir mig. Gleymi því aldrei.

  5. **Gerry & the Pacemakers – You’ll Never Walk Alone** 1:15 – Ég þarf víst ekki að segja mikið meira en: *”Walk on…walk on…with hope in your heart…and you’ll never walk alone”*. Við Liverpool menn eigum flottasta stuðningslag í heimi.
  6. **Pink Floyd – Comfortably Numb** – 3:30 – Byrjunin á besta gítarsóló allra tíma. David Gilmour uppá sitt allra, allra besta.
  7. **Beck – Golden Age** – 0:00 – Byrjunin á Sea Change. Beck er greinilega ekkert í alltof góðu skapi og það heyrist í röddinni þegar hann byrjar: *”Put your hands on the wheels… let the golden age begin”*. Hann hefur aldrei sungið jafnvel og þarna.
  8. **Molotov – Gimme tha Power** – 2:05 – Áróðurslag þeirra Molotov manna gegn mexíkóskum stjórnvöldum nær hámarkinu í baráttuslagorðunum í endanum, sem passa svo vel. En af þeim tónleikum, sem ég hef farið á, hefur ekkert jafnast við það að standa í miðri mexíkóa hrúgunni og öskra: *”Si nos pintan como unso huevones….No lo somos…Viva Mexico Cabrones!”*
  9. **The Steet – Empty Cans** – 5:00 – Mike finnur peninginn sinn og allt smellur saman. Og svo byrjar hversdagsleikinn aftur. Stórkostlegur endir.
  10. **Rage against the Machine -Killing in the Name** – 4:10 – Hoppandi og öskrandi *”Fuck you I won’t do what you tell me”* í Kaplakrika, 15 ára gamall. Mikið var það gaman.

Eflaust er ég að gleyma einhverju. En mér finnst þetta samt vera nokkuð góður listi.

28

Eitt ár [liðið](https://www.eoe.is/gamalt/2004/08/19/23.37.02) og merkilega lítið hefur breyst eða gerst.

>Baby this town rips the bones from your back
It’s a death trap, it’s a suicide rap
We gotta get out while we’re young
’cause tramps like us, baby we were born to run

– [BS](http://www.lyricsfreak.com/b/bruce-springsteen/25020.html)