Fótboltaslúður og hárið mitt

Ég hef sjaldan verið jafnspenntur á fréttasíðum á netinu og í dag. Enda sést það af afköstum okkar Kristjáns á [Liverpool blogginu í dag](https://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2005/07/04/). Úff, þvílíkur rússíbani sem þessi dagur er búinn að vera varðandi Liverpool mál. 4 nýjir leikmenn og fyrirliðinn með svaka vesen. Ég hef ekki taugar í svona lagað.

Þrátt fyrir það tókst mér að afkasta alveg lygilega miklu í dag. Undirbjó fund fyrir morgundaginn, fór í ræktina, fór og sótti mann útá flugvöll, heimsótti fullt af búðum (vinnutengt) og fór svo að borða á Argentínu í kvöld. Er enn dálítið uppveðraður af espresso kaffinu, sem ég drakk.


Hárið mitt hefur ekki verið jafn sítt síðan ég var 18 ára. Það er alveg á mörkunum að ég fari í klippingu, er eiginlega alveg að springa. Einn daginn finnst mér allt vera æði, næsta dag langar mér að ráðast á það með skærum. Þetta er eiginlega orðin ein allsherjar úthaldskeppni. Er að prófa hvað ég þoli þetta lengi. Ætli ég haldi þetta ekki út þangað til einhver stelpan á Serrano kemur uppað mér og skipar mér að fara í klippingu. Þannig gerist þetta vanalega.

Annars var ég í partýi fyrir einhverjum dögum, þar sem stelpa hélt því fram að ég væri “ógeðslega típískur verzlingur, þar sem ég væri

a) með krullur í hárinu (hárið að aftan krullast upp. Ég hef ekki nokkra einustu stjórn á því!!!)
b) ég var í póló bol (sem er nokkuð óvenjulegt)
c) ég var með tvö hálsmen
d) allt í íbúðinni minni er víst verzló-legt.

Ljómandi skemmtilegt alveg hreint…

Kanye, golf og markaðsmál

Ef ég byggi í Bandaríkjunum, þá myndi þetta sennilega hljóma einsog ég hefði verið að uppgötva Coldplay í fyrsta skipti, en allavegana, ég var að uppgötva Kanye West. Hef náttúrulega hlustað á plötur, sem hann hefur pródúserað, en undanfarna daga hef ég verið að hlusta á [College Dropout](http://www.amazon.com/exec/obidos/tg/detail/-/B0001AP12G/qid=1120257776/sr=8-1/ref=pd_bbs_ur_1/002-5442069-0116005?v=glance&s=music&n=507846), þar sem hann rappar sjálfur. Allavegana, platan er æði! Mæli með henni, líka fyrir ykkur sem segist ekki fíla hip-hop. *Never Let Me Down* og *We Don’t Care* hafa verið á repeat.


Áðan spilaði ég golf í fyrsta skipti í heilt ár. Vinnan mín var með smá golfmót uppá Bakkakotsvelli. *Hólí Móses* hvað ég var lélegur. Ég þurfti að útskýra fyrir þeim, sem ég spilaði með, að ég hefði actually spilað golf áður á ævinni. En það er ár síðan ég spilaði síðast og ég var búinn að gleyma öllu. Ég á eftir að vera með harðsperrur á morgun eftir öll vindhöggin. Ég meina VÁ hvað ég var lélegur. VÁááá!!!


Mér finnst það voða skemmtilegt að núna eru í gangi fjórar markaðsherferðir, sem ég hef yfirumsjón með. Held að ég hafi aldrei verið jafn aktívur.

Í fyrsta lagi er það Vivana ís, sem er í gangi í sjónvarpi og á fullu í búðum. Fituminni ís frá Nestlé, sem ég mæli hiklaust með. Ég vann auglýsinguna frá grunni með auglýsingastofunni og var það nokkuð skemmtileg vinna. Er líka nokkuð sáttur við auglýsingarnar og hef fengið mjög jákvætt feedback.

Ég er líka með Lion Bar á fullu í sjónvarpi og bíóum. Notum þar franska auglýsingu, sem virkar að mínu mati vel. Súkkulaðið hefur líka breyst og er miklu betra en það var áður. Enda hefur herferðin líka gengið þvílíkt vel.

Svo er það Nescafé Colombie, sem er herferð unnin eftir minni hugmynd. Allar auglýsingarnar í þeirri herferð eru íslenskar, teiknaðar af strákum hjá Vatíkaninu.

Síðast er það svo Nescafé Latte, sem er reyndar einungis dagblaðaherferð.

Í viðbót við þetta hef ég verið með birtingar á Baci súkkulaði, sem og auglýsingar fyrir nýjar tegundir af Yorkie. Þetta er ábyggilega nýtt met.


Umfjöllun mín um [DV og Hér og Nú](https://www.eoe.is/gamalt/2005/06/30/09.56.22/) rataði alla leið í dagblöðin. Hvaða dagblað? Nú, DV auðvitað. Síða 31 í dag. Ekki virðist það hafa aukið traffíkina á þessa síðu, en flettingar eru 533 í dag (innlit 234), miðað við svona 750-800 vanalega (um 350-400 innlit)

Iceland Express og DV

Hvaða bjánaskapur er þetta eiginlega?: [Iceland Express hættir sölu á DV og Hér & nú](http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1146365)

Ég nenni ekki að blaðra um þetta Hér og Nú mál. [Stefán Pálsson](http://kaninka.net/stefan/012779.html) og [Badabing](http://www.badabing.is/arc/002755.html#002755) fjalla skemmtilega um það mál. En mikið afskaplega finnst mér þetta nú hallærislegt hjá Iceland Express.

Hvaða tilgangi þjónar þessi ritskoðun Iceland Express? Þeir eru að takmarka úrval í flugvélunum sínum en ákveða samt að auglýsa það upp í Morgunblaðinu. Hver er tilgangurinn með því? Eru þeir að reyna að skora stig hjá almenningi með því að vera flugfélag, sem er á hærra siðferðislegu plani en flestar matvöru- og bókabúðir í landinu?

Talsmaður IE segir:

>Birgir segir að Iceland Express selji vel yfir tvö þúsund eintök af DV á mánuði. “Farþegar okkar hafa enga valkosti um hvort þeir sjá forsíðuna eða ekki þar sem gengið er með blaðið um gangana. Við viljum þá frekar selja vöru sem fólki líkar betur og er þar af leiðandi betri fyrir okkur,

“viljum þá frekar selja vörur sem fólki líkar betur”!!! Tvö þúsund manns keyptu DV af Iceland Express af fúsum og frjálsum vilja, en nei nei, núna vilja IE bara selja fólki blöð, sem fólkinu sjálfu “líkar betur” við. Hvað voru þessir 2000 einstaklingar, sem keyptu DV, eiginlega að spá? Var þetta fólk að kaupa blað, sem því líkar illa við? Þetta er einhver allra mesta vitleysa, sem ég hef lesið.

Með þessu fordæmi er Iceland Express að fara inná afar vafasama braut ritskoðunnar, með því að selja einungis efni, sem að eigendunum líkar við, ekki efni sem fólkið vill kaupa. Þekkt dæmi um svipað athæfi frá útlöndum er til dæmis sú ritskoðun, sem [Wal-Mart stendur fyrir á geisladiskum og annarri vöru í sínum búðum](http://www.pbs.org/itvs/storewars/stores3_2.html#censor). Sú ritskoðun fer fram með nákvæmlega sömu formerkjum, það er að Wal-Mart þykist vera að gera það, sem að viðskiptavinirnir vilja. Sem er náttúrulega tómt bull. Eflaust er einhver hópur viðskiptavina, sem fer í fýlu yfir því að sumir hlutir séu til sölu, en það er ekki hægt að réttlæta ritskoðun með því. Ég vil til að mynda helst ekki að Man U bolir séu til sölu í búðum, en það myndi engum verslunum detta í hug að hætta að selja þær treyjur bara vegna þess að ég fæ sviða í augun þegar ég sé þær treyjur inni í versluninni.

Iceland Express er ekki að gera þetta til hagsbóta fyrir sína viðskiptavini. Svo einfalt er það. Ég vona að fólk sjái þetta bara fyrir það, sem það er í raun. Flugfélag ritskoðar það, sem það selur, og reynir svo að nýta sér ritskoðunina sér til hagsbóta með því að þykjast vera einhverjir sérstakir siðferðispostular.

Fo' Shizzle!

Ok, ég er að fara á Snoop í Egilshöll ásamt tveim vinum mínum. Þetta var auðvitað of gott tækifæri til að láta framhjá sér fara.

Allavegana, ég hef verið að leita að set-lista fyrir þennan túr, sem Snopp er á, en hef ekkert fundið. Veit einhver hvaða lög Snoop er að taka á þessum túr, eða veit einhver um set-lista frá einhverjum tónleikum af þessum síðasta túr?

Merkasti Bandaríkjamaðurinn!

Eru menn ekki að fokking grínast í mér?

[Reagan voted ‘greatest American’](http://news.bbc.co.uk/2/hi/americas/4631421.stm)

Mikið geta þessir Repúblikanar í Bandaríkjunum verið miklir bjánar. Að velja Reagan framyfir FDR, Lincoln, MLK. Já, og Oprah lendir líka ofar en FDR.

Annars bendi ég áhugafólki um bandaríska pólitík á þessa grein: [If Watergate happened now](http://www.msnbc.msn.com/id/8101512/site/newsweek/). Sorglegt, en ekki svo fjarri sannleikanum.

iTunes og Podcast

[iTunes 4,9](http://www.apple.com/itunes) kom út í gær. Það merkilegasta við þessa útgáfu er að iTunes styður núna [Podcast](http://www.apple.com/podcasting/), sem er einmitt algjör snilld!

Beisiklí, þá eru Podcasts bara Mp3 skrár með ýmsu efni. Oftast gengur þetta þannig fyrir sig að maður finnur ákveðið efni í iTunes, einsog til dæmis bandaríska útvarpsþætti og gerist áskrifandi að þáttunum. Til dæmis gerðist ég í morgun áskrifandi að “The Al Franken Show”, sem er snilldarþáttur. Um leið og ég hef gerst áskrifandi, þá nær iTunes sjálfkrafa í nýjustu þættina á hverjum degi og setur þá líka á iPod-inn minn.

Þannig að á hverjum degi fæ ég fullt af skemmtilegu nýju efni inná iPod-inn minn, án nokkurrar fyrirhafnar (nema að þetta er erlent niðurhal). Í dag er hægt að velja á milli um 3000 Podcasts með alls konar efni, frá íþróttum til pólitískra spjallþátta og fræðsluþátta.

Þetta er snilld. Snilld, segi ég og skrifa!

Án titils

Veit einhver hvar ég fæ [svona tæki](http://www.trulythefinest.com/prodDetail.cfm/11591) á Íslandi?


Ég gerði fullt gagnlegt og skemmtilegt um helgina, þrátt fyrir vandræði mín. Tók til heima (núna er aftur allt í drasli), kláraði smá vefsíðudót (by the way, veit einhver hvernig ég get fengið scrollbar á sprettigluggana á [svona síðum](http://www.danol.is/vorur/is/index.php)?), horfði á Alfie (sem mér fannst bara fín, mun betri en ég átti von á, fór í mat til mömmu og pabba, fór á Batman Begins í bíó (sem er góð!), grillaði nautasteik, þvoði föt, horfði á Seinfeld, horfði á Mexíkó tapa í Álfukeppninni (fokk!), horfði á Chicago Cubs vinna (Yes!), borðaði ís, las bækur og pantaði mér svo fullt af dóti á Amazon.

Fín helgi!


Annars, þá elska ég [Ask Metafilter](http://ask.metafilter.com/). Það er snilldarsíða. Þarna getur maður lagt fram spurningar um allt milli himins og jarðar og fengið fullt af svörum frá kláru og skemmtilegu fólki. Ég setti til dæmis inn [eina spurningu í gær](http://ask.metafilter.com/mefi/20387) og fékk strax fullt af sniðugum svörum. Ákvað að panta mér strax nokkrar bækurnar, sem mælt var með.

Jæja, hvað á ég *svo* að gera?

Þetta er skrítin helgi.

Í fyrsta skipti í margar, margar vikur er nákvæmlega ekkert skipulagt hjá mér yfir heila helgi. Ég þarf svo sem ekkert að vinna, vinir eru flestir að gera eitthvað annað og því varð það úr að ég hafði nákvæmlega ekkert planað þessa helgi.

Því eyddi ég gærkvöldinu hérna heima, horfandi á sjónvarpið. Horfði meðal annars á nýja kvöldþáttinn á Sirkus, sem er sæmilegur. Ég vil ekki vera neikvæðari nema eftir nokkra þætti. Það væri fáránlegt að dæma þáttinn algjörlega út frá fyrstu tilraun. Þetta getur alveg orðið gott.


Í morgun saf ég svo út en dreif mig síðan inní World Class. Kannski er það vonda veðrið, en World Class var fullt af sætum stelpum á réttum aldri. Ég, sem er þarna alltaf í hádeginu, er ekki vanur slíku. Allavegana, lyfti og hljóp svo 7 kílómetra. Eldri systir mín hljóp maraþon hlaup um daginn og við þær fréttir fannst mér að ég þyrfti að fara að hlaupa meira, svo þetta er skref í áttina.

Fór svo uppá Serrano og hélt áfram að prófa mig áfram með nýja rétti á staðnum. Það er allt að koma.


Og þá er ég búinn. Búinn að fara í líkamsrækt og uppá Serrano, þannig að samviskubitið getur ekki mögulega nagað mig þessa helgi. Því hef ég næstu 36 tímana gjörsamlega óplanaða. Það er eiginlega alveg skuggalegt að hugsa til þess. Veðrið er ömurlegt, þannig að ég fer ekki út. Horfi auðvitað á [baráttuna um Chi-town klukkan átta](http://chicago.cubs.mlb.com/NASApp/mlb/news/article.jsp?ymd=20050624&content_id=1102522&vkey=news_chc&fext=.jsp&c_id=chc) en veit ekki um annað. Ætli ég kveiki ekki bara á Xbox tölvunni minni í fyrsta skipti í tvo mánuði.

Eða kannski ætti ég að gera eitthvað aðeins menningarlegra. Ég veit ekki. Það er alltof erfitt að eiga svona mikinn lausan tíma.

Hinn íslenski bachelor

Ok, semsagt þá er það orðið opinbert að þessi íslenski Bachelor þáttur er að [hefja göngu sína](https://www.eoe.is/gamalt/2005/02/19/15.59.12). Almenningur spyr sig því sennilega: “Hvað segir Einar Örn um þetta mál?” Jæja, ég verð að svara því.

Ég átti smá umræður um þetta mál við frænku mína í dag og við vorum sammála um að þátturinn hljóti að lenda í ákveðnum erfiðleikum.

Í sjálfu sér lýst mér alveg ljómandi vel á hugmyndina og ég held að þetta verði stórkostlegt sjónvarpsefni, sem mun valda því að kjánahrollurinn hjá manni mun ná nýjum hæðum, sem ekki einu sinni verulega slæmur þáttur af Djúpu Lauginni getur valdið.

Ég sé þó fyrir talsvert af vandamálum varðandi þáttinn. Ég finn ekki Mogga umfjöllunina á netinu, þannig að ég verð bara að vitna í prentútgáfuna (ekki spyrja mig af hverju ég er áskrifandi af Mogganum, ég ber við varanlegu stundarbrjálæði).

Planið hjá Skjá Einum er semsagt að fara í Idol túr um landið, þar sem þeir ætla að taka viðtöl við stráka og stelpur, sem hafa áhuga á að vera í þættinum. Eflaust munu svo S1 menn leita til einhverra aðila, sem sækja ekki um. Ég efast nefnilega um að fólkið, sem S1 vilja sjá í þættinum sé sama fólkið, sem myndi bíða í biðröð fyrir utan eitthvað hótel til að komast í viðtal.

Viðtölin verða haldin á Akureyri, *Selfossi*, Egilsstöðum, Ísafirði, Akranesi, Sauðárkróki og í Reykjavík. S1 munu svo nýta sér þessi viðtöl sem efni í fyrstu þættina. Þannig að ef þú sækir um og kemst ekki í þáttinn, þá gætirðu samt lent í sjónvarpinu, sem einn af lúserunum í fyrstu þáttunum. Þetta er öðruvísi en bandaríska útgáfan.

Allavegana, ætlunin er að velja einn piparsvein og **25 einhleypar íslenskar stelpur** í þáttinn. Samkvæmt S1 þarf piparsveinninn þarf að vera:

>fallegur jafnt að utan sem innan og þarf að vera virkilegt eiginmannsefni sem allar konur vilja. Hann þarf að vera á aldrinum 21 til 35 og einhleypur. Hann má gjarnan vera í góðri stöðu og hafa góð og heilbrigð markmið og líffskoðanir.

Glöggir menn sjá eflaust að þessi lýsing passar alveg ískyggilega vel við mig (mætti kannski bæta við hógvær). Svo er það tekið fram að stelpurnar eigi að uppfylla svipuð skilyrði.

Ok, fyrsta spurning: Hvar ætla þeir að finna 25 myndarlegar og klárar konur á þessum aldri, sem eru í góðri stöðu og *á lausu*? Gleymum því ekki að þetta *er* Ísland. Í öðru lagi, hvernig ætla þeir að finna 25 slíkar konur, sem *vilja koma fram í sjónvarpinu* í svona þætti? Þetta verður skrautlegt.

Sko, meira að segja í bandaríska þættinum þá er slatti af stelpum, sem eru ekkert alltof myndarlegar (án professional förðunar) og eru hálf skrítnar. Í þeim þætti er hins vegar verið að velja fólk úr 280 milljón manna þjóð og framkoma í þættinum getur þýtt gríðarleg tækifæri. Hérna er hins vegar verið að velja fólk úr 280.000 manna þjóð og framkoma í þættinum mun sennilega þýða opnuviðtal í Séð & Heyrt og fullt af fullum vitleysingum að bögga þig á djamminu. Ég sé bara ekki hvernig þetta gengur upp.

Ég þekki nokkrar álitlegar stelpur, sem eru á lausu. Ég þori hins vegar að veðja að þær vilja ALLS, ALLS ekki láta líta út fyrir sem svo að þær séu nógu desperate til að fara í þáttinn. Þær vilja allar láta líta út sem svo að þær þurfi ekki karlmenn og að ef þær lendi með karlmönnum, þá sé það bara tilviljun en ekki vegna þess að þær séu að reyna eitthvað.

Ef þær færu hins vegar í hinn íslenska Bachelor, þá væru þær að viðurkenna að þær séu tilbúnar til að gera ansi margt til að ná sér í karlmann. Þar sem þær munu taka þessa ákvörðun ódrukknar, þá efast ég um að margar myndarlegar og klárar stelpur muni taka þátt í þættinum. Langar stelpum að vera “stelpan, sem var rekin í burt af íslenska bachelornum” og þola það að allir horfi á sig á Hverfisbarnum og komi svo með mis-sniðug komment? Ég held ekki.

Ætli þetta verði ekki aðallega sterkt útá landi? Og þetta segi ég án nokkurar óvirðingar við landsbyggðina. Það virðist bara vera svo sem að til dæmis Djúpa Laugin sé miklu vinsælli meðal landsbyggðarfólks heldur en fólks af höfuðborgarsvæðinu. En kannski er ég bara svona neikvæður og öllum finnnst þetta vera voðalega sniðugt.

En hvernig sem gengur, þá mun ég horfa á hvern einasta þátt. Ef að það kemur í ljós að það er fullt af einhleypum, myndarlegum og klárum stelpum, sem keppast um að komast í sjónvarpið, þá mun það gleðja mig mjög.

Þetta verður allavegana fróðlegt.

Tom Cruise hjá Opruh

Ég veit ekki hvort það sé bara ég, en mér finnst þetta ferlega fyndið:

[Tom Cruise drepur Opruh](http://waxy.org/random/view.php?type=video&filename=Tom_Cruise_Kills_Oprah.mov) (myndband – 4mb útlönd)


Einnig mæli ég með þessu broti úr the Daily Show, sem [Palli H hýsir](http://kaninka.net/pallih/012704.shtml)