Hvar er rúmið mitt, hvar er þynnkan mín?

Í morgun vaknaði ég á miðju stofugólfi, með engan hausverk. Það er sennilega í fyrsta skipti í langan tíma sem ég vakna hausverkslaus á sunnudegi. Ætli það sé þeirri staðreynd að þakka að ég svaf á stofugólfinu eða því að ég drakk ekki nema 3 bjóra í gær?

Ástæðan fyrir því að ég svaf í stofunni er sú að íbúðin mín er í algjöru rusli akkúrat núna. Ég og Emil erum búnir að parketleggja hálfa íbúðina og erum komnir alveg inní svefnherbergi. Því þurfti ég að rýma það í gær og rúmið endaði á miðju stofugólfinu.

Þannig að þessi helgi reyndist tiltölulega róleg. Parketlagði mikið en djammaði lítið. Kíkti á Vegamót í gærkvöldi og reyndi að átta mig á því af hverju ég ætti að fíla þann stað. Einhvern veginn er alltaf svo mikið af sætum stelpum á myndasíðunni þeirra, þannig að ég er alltaf sannfærður um að ég muni hitta draumadísina þar. En troðningurinn er alveg fáránlegur þarna, svo ég gafst upp eftir mjög stutta dvöl.

Annars var ég ýkt góður á föstudagskvöld og fór í kaffiboð til mömmu, sem átti afmæli. Vá, ég er búinn að vera ýkt góður þessa helgi, nánast ekkert djamm! Ef ég væri svona allar helgar myndi mamma sennilega fyrirgefa mér fyrir það að ég sé ekki í Sjálfstæðisflokknum.


Annars horfði ég með vini mínum á Liverpool-Fulham í dag. Ég get svo svarið það að horfa á þetta Liverpool lið er slæmt fyrir geðheilsu mína. Hefðu þeir ekki unnið leikinn hefði ég sennilega brotið helminginn af húsgögnunum mínum og vinur minn hinn helminginn.

Sigurinn gaf okkur þó orku til að rusla dótinu mínu útúr barnaherberginu (eða tölvuherberginu, víst ég á enga krakka svo ég viti). Þannig að ég sit núna á stofugólfinu fyrir framan Makkann minn. Það er ekki eins þægilegt og það hljómar.

Uppskriftahorn Einars

Þessa dagana getur maður varla verið maður með mönnum meðal veitingastaðaeiganda ef maður gefur ekki út matreiðslubók. Ég hef ekki alveg ímyndunarafl í það en hérna er samt snilldar uppskrift.

1 Findus Oxpytt frystiréttur (kartöflur og kjöt)
1 dós af maískorni
4 eggjahvítur

Oxpyttið og maískornið er sett á pönnu. Eftir smá stund er svo búið til smá pláss á pönnunni og eggjahvítunum hellt þar. Þegar þær eru orðnar hvítar þá er þeim blandað saman við hitt.

Þetta er fullkomið fyrir þær stundir þegar maður nennir varla að elda. Tekur bara 5 mín og maður þarf ekki einu sinni að standa yfir þessu. Hollt og gott!! Og skammturinn dugði mér meira að segja í máltíð í gærkvöldi og aftur í kvöld. Þvílík snilld!!

Ó mér langar að djamma. Lítur þó ekki vel út með kvöldið. Djö!

Útvarpsviðtal

Emil og ég vorum í viðtali í Viðskiptaþætti Útvarps Sögu í gær. Það var bara nokkuð skemmtilegt og gekk bara ágætlega að ég held.

Allavegana, fyrir þá sem misstu af þessu geysiskemmtilega viðtali, þá ætla ég að setja það hérna á netið í einhvern takmarkaðan tíma. Þetta er um 8mb MP3 skrá og viðtalið er um 18 mínútur. (það kemur fyrst smá lag og svo viðtalið við okkur)

Viðskiptaþáttur Útvarps Sögu

Bensínstöðvar og Bakkakenningin Mikla

Ég get ekki lengur farið á bensínstöð á Íslandi án þess að fá samviskubit.
Þetta er orðið frekar slæmt mál. Þannig er að mér finnst óþægilegt að fá afgreiðslu á bensínstöðvunum. Finnst einhver veginn vera hálf aumingjalegt af mér að láta gamlan mann dæla bensín á bílinn minn í stormi á meðan ég les DV inná hlýrri bensínstöðinni.

Hins vegar ef ég dæli sjálfur, þá rek ég alltaf auga á sama afgreiðslumanninn, þar sem hann situr við bensínstöðina og þá hugsa ég með mér að ég sé í raun að eyðileggja starfið hans, sem hann hefur unnið við í mörg ár.


Kannski örlítið svipað þessu er “bakkakenningin mín”.

Þetta er hagfræðikenning, sem ég setti fyrst fram á einhverjum bar í Argentínu fyrir nokkrum árum. Efa ég það ekki að ég verði frægur einhvern daginn fyrir þessa merku kenningu.

Ég fann nefnilega upp aðferð til að stjórna þenslu og samdrætti í þjóðfélaginu og jafna út neikvæð öfgaáhrif þessara stiga. Aðferðin er einföld.

Allir, sem hafa borðað á McDonald’s eða ámóta stöðum vita að þeir fá alltaf bakka undir matinn. Til að spara pening, þá eru slíkir staðir með ruslafötu, þar sem gefið er í skyn að viðskiptavinurinn eigi sjálfur að henda ruslinu. Margir gera það, en þó eru sumir sem sleppa því alltaf og því þarf staðurinn að hafa fólk í vinnu við að henda bökkum fólks. Starfsmannafjöldi á staðnum fer því að hluta eftir því hversu duglegir viðskiptavinirnir eru við að henda bökkunum sínum.

Kenning mín felst sem sagt í því að hægt er að koma í veg fyrir þenslu og samdrátt í þjóðfélaginu bara með því að hugsa aðeins áður en maður hendir bakkanum sínum í ruslið.

Ef það er mikill samdráttur og atvinnuleysi í þjóðfélaginu, þá er réttast að henda bakkanum ekki. Þá þarf McDonald’s að ráða fleiri starfsfólk, þannig að samdráttur og atvinnuleysi minnkar. Ef það er hins vegar þensla í þjóðfélaginu þá er réttast að henda bakkanum sjálfur, vegna þess að ef McDonald’s þyrftu að ráða fleira fólk þá þyrftu þeir að hækka verðin hjá sér vegna hækkandi launa. Það myndi svo auka enn frekar þensluna í hagkerfinu.

Ég hef notast við þessa kenningu á skyndibitastöðum um allan heim. Til dæmis í Suður-Ameríku þá henti ég aldrei bakkanum mínum og helst reyndi ég að rusla sem mest til á borðinu. Hellti út tómatsósu og missti óvart gosið í gólfið. Með því hef ég án efa skapað einhver störf fyrir krakka, sem væru annars á götunni.

Hins vegar þegar ég var í námi í Bandaríkjunum rétt áður en að .com bólan sprakk þá passaði ég mig alltaf á að henda öllum matnum mínum samviskusamlega í ruslið. Ef ég var í stuði, þá þreif ég líka eftir vini mína, bara til þess að bandaríska hagkerfið héldist í jafnvægi.


En semsagt, þá er þessi kenning mín semsagt orðin opinber og mun hún vonandi gagnast til að halda efnahagslífi heimsins í góðu og stöðugu jafnvægi næstu árin.

Nóbelsverðlaun í hagfræði eru kannski ekki svo fjarlægur draumur.

© Einar Örn Einarsson – 1999

Vampírur á Þakkagjörðarhátíð

Ég veit að maður á ekki að sparka í liggjandi mann. Eeeeen, mbl.is er bara svo mikil snilld: Blóðbanki býður bjór fyrir blóð

Blóðbanki í Coloradoríki í Bandaríkjunum hefur gripið til óvenjulegrar aðferðar til þess að freista fólks til blóðgjafar. Fyrir hvern blóðpott fær viðkomandi pott af bjór að launum.

Fjögur brugghús standa að baki herferð blóðbankans, United Blood Services í borginni Durango í Colorado. Er herferðin um leið keppni þeirra í millum en fyrstu verðlaun fær sú bjórgerð sem framleiðir það öl sem vinsælast reynist meðal blóðgjafa.

Í tilefni þess að nú fer þakkargjörðarhátíð í hönd í Bandaríkjunum hafa starfsmenn bankans skrýðst alls kyns furðufötum, m.a. sem vampírur.

Er það bara ég, eða er ekki hefðin að setjast niður með fjölskyldunni og borða kalkún á Þakkagjörðarhátíðinni í stað þess að klæða sig upp sem vampírur?

Ég verð bara svo fokkd upp af rommi

Djamm tvo daga í röð er búið og ég er furðu hress klukkan 2 á sunnudegi. Fór á Sólon á föstudag og Hverfisbarinn í gær. Djammið á Hverfisbarnum var mun skemmtilegra.

Ég var reyndar kallaður hommi af einhverri stelpu á Hverfisbarnum. Og hvað gerði ég til að verðskulda þann titil? Jú, ég söng með Justin Timberlake lagi! Hún sagði að það væri ýkt hommalegt að ég stæði við barinn og tæki undir með Senorita. Ég varð náttúrulega fúll og hélt langan pistil um það hversu góður diskur Justified væri. Hún talaði eitthvað um Pearl Jam og hvað það væri góð hljómsveit og bla bla bla… En, ok, just for the record: Þá er ég ekki hommi, þrátt fyrir að ég fíli Queer as Folk og Justin Timberlake!

Annars þá var kvöldið náttúrulega snilld af því að á Hverfisbarnum var mesti snillingur á Íslandi: Jón Baldvin! (Sjáðu, PR, það borgar sig að halda áfram að djamma í stað þess að fara heim á miðnætti :-)) Allavegana, ég var að spjalla við Jón Baldvin á barnum og hann bauð mér uppá vindil og allt. Maðurinn er náttúrulega snillingur og ég var eitthvað að reyna að segja honum hversu mikil áhrif hann hefði haft á stjórnmálaskoðanir mínar.

Annars var sami playlistinn og síðast í gangi á Hverfisbarnum: Mess it Up, Justin og Beyonce. Og fullt af sætum stelpum, en samt reyndi ég ekki við neina.


Já, og boltinn með Guðna Bergs er mesti snilldarþáttur í heimi! Það er ekki til betra þynnkumeðal en að horfa á þann þátt á sunnudögum.

Jammm, og Florida urðu Baseball meistarar í Bandaríkjunum í gær. Þeir unnu Yankees. Þannig að tvö lið í Öxulveldi hins illa: Yankees og Man United töpuðu um helgina. Það er gott!

Kill Bill Trailer lag

Þrátt fyrir að ég hafi ekki verið sáttur við Kill Bill, þá er lagið í trailernum helvíti flott. Það lag er hægt að nálgast hér. Nokkuð flott!

Aðalástæðan fyrir því hversu óánægður ég var, var sú að myndinni var skipt í tvennt. Að mínu mati hefði mátt stytta þessar bardagasenur (sérstaklega þá síðustu) um meira en helming og koma þessu efni auðveldlega í eina mynd. Ég hugsa að ég bíði þangað til að allur pakkinn komi á DVD og þá horfi ég á þetta allt í einu, einsog það ætti að vera.

Ég var nokkuð ánægður með myndina og skemmti mér vel alveg þangað til að síðasta senan var hálfnuð. Þá varð ég órólegur og það breyttist í pirring þegar myndin endaði allt í einu. En lagið er flott, sérstaklega byrjunin.

Breytingar og komment

Í gærkvöldi var ég í product myndatöku fyrir Serrano. Þar voru ég og Hans rekstrarstjóri að búa til matinn okkar án tillits til bragðgæða, heldur hugsuðum við aðeins um að maturinn liti sem best út. Þetta getur oft verið talsvert flókið mál, sérstaklega þegar matnum er haldið saman af tannstönglum og slíku.

Það er núna ár síðan ég fór fyrst með matinn í myndatöku. Þá var ég ein taugahrúga og kunni ekki almennilega að brjóta saman burrito. Þess vegna er burritoinn okkar flatur á matseðilssmyndum. Það hefur valdið víðtækum misskilningi, sem mun vonandi hverfa þegar við breytum um útlit á staðnum.

Í myndatökunni í fyrra var ég með magaverk úr stressi því ég fékk það á tilfinninguna að ég væri að fara útí einhverja djöfulsins vitleysu. Fannst ég ekki vita eða kunna neitt um mat og fattaði ekki alveg hvernig mér datt í hug að opna veitingastað.

En þetta reddaðist svo sem. Núna á laugardaginn eftir viku eigum við semsagt 1. árs afmæli. Þá munum við breyta aðeins um útlit á staðnum. Í myndatökunni vorum við líka að taka myndir af nýjungum, sem við ætlum að kynna smám saman á næstu mánuðum.


Annars, þá er komment númer 1000 komið á þessari síðu. Það var þetta komment hjá Matta. Hann fær engin blóm, því miður 🙂

Þess má geta að færslurnar eru komnar uppí 950 stykki. Með þessu áframhaldi ætti ég að komast yfir 1000 fyrir lok þessa árs. Í gærkvöldi hrundi svo MySQL gagnagrunnurinn, sem gaf mér létt sjokk. Allar færslurnar og öll komment hurfu í nokkra klukkutíma. En (eftir 4 taugaáföll) tókst mér að redda því aftur.

London

Ok, ég fór sem sagt í smá ferðalag í síðustu viku. Var fyrst í nokkra daga á vörusýningu í Köln. Þar gerðist nú ekki margt spennandi. Skoðaði jú dómkirkjuna í borginni, sem er eina byggingin sem stóð eftir árásir bandamanna í Seinni Heimsstyrjöldinni.

Svo fór ég yfir til London, sem er bara fín borg. Það er náttúrulega erfitt að skrifa eitthvað spennandi um borg, sem allir hafa komið til. En ég gerði allt hefðbundna túristadótið: Fór í Westminster Abbey, Tower of London, að Trafalgar torgi, Piccadilly Circus, Camden og svo framvegis.

Ég gist hjá stystur minni, sem býr í Newington Green. Við fórum bara einu sinni á djammið, á laugardagskvöldinu. Vegna mismunandi kynhneigðar okkar; hún er sam-, ég er gagn- þá fórum við á gay klúbb: Heaven (sem er að eigin sögn frægasti gay klúbbur í heimi). Þar lofaði systir mín mér að væri “mixed” kvöld, það er bæði gagn- og samkynhneigðir væru á staðnum.

Eitthvað hefur þetta “mixed” concept farið á milli hluta því á staðnum voru svona 90% hommar, 5% lesbíur og 5% gagnkynhneigðar stelpur. Þannig að líkurnar á að finna sæta straight stelpu á lausu á þessum klúbb voru álíka góðar og að finna sæta straight stelpu á lausu á Hverfisbarnum 🙂

Allavegana, þá hef ég aldrei fengið jafnmikla athygli frá karlmönnum og þetta kvöld. Það er ágætis mælikvarði á djamm að ef að maður fær meiri athygli frá strákum en stelpum, þá sé það ekkert alltof gott kvöld. En svona var þetta allavegana. Við skemmtum okkur þó mjög vel. 🙂


Á fimmtudaginn kíkti ég á David Blaine, sem hékk þá í búri við Tower Bridge hjá Thames ánni. Þar hafði hann verið í 44 daga án matar.

Að mínu mati ætti þessi Blaine að láta skoða á sér hausinn vandlega. Hann fékk jú peninga fyrir þetta en hann var milljarðamæringur fyrir, svo ég sé ekki alveg tilganginn.

Einnig voru Bretar ekkert alltof skemmtilegir við Blaine, því fólk kepptist við að kasta eggjum og slá golfboltum í búrið. Einhver flaug meira að segja módelþyrlu að búrinu með mat til að freista hans. Einnig hélt fólk grillveislur fyrir neðan búrið og einhverjir voru með trommuslátt á nóttinni til að hann gæti ekki sofið. Sennilega var þetta ekkert alltof skemmtilegur tími hjá Blaine.

Allavegana, þetta var svo sem ekki merkileg sjón. Blaine lá allan tímann þegar ég var þarna og veifaði nokkrum sinnum til hópsins. Hann virtist nú frekar máttlaus greyið.


Annars verð ég nú að segja að stelpurnar í London voru alls ekki jafn slæmar og ég hafði gert mér hugmyndir um. Vissulega voru þær ekkert einsog í Moskvu (reyndar afar langt frá því) en samt þá var samt alveg fullt af sætum stelpum þarna. 🙂