Ég ætla að troða Múrnum inní þessa grein!

Múrinn er magnað vefrit. Meira að segja þegar þeir eru að tala um málefni, sem koma Bandaríkjunum nákvæmlega ekkert við, þá tekst þeim að tengja landið einhvern veginn við skrif sín.

Í grein um íslenskt heilbrigðiskerfi tekst þeim meira að segja að troða nafni bandarísks forseta í titil greinarinnar. Efni greinarinnar kemur Bandaríkjunum nákvæmlega ekkert við. Magnað!

Liverpool eftir þrjá leiki

Þá eru þrír leikir búnir í enska boltanum og er Liverpool í öðru sæti. Ég er búinn að horfa á alla leikina í sjónvarpinu, nú síðast á Blackburn-Liverpool.

Ég veit ekki alveg við hverju ég á að búast á þessu tímabili. Ég tel ennþá að Liverpool vanti menn á vængina. Reyndar er Danny Murphy að koma inn gríðarlega sterkur á hægri vængnum og Riise er búinn að skora tvö mörg af vinstri vængnum. Hins vegar var það augljóst í leiknum á móti Blackburn að Damien Duff væri hin fullkomna viðbót við leikmannahóp Liverpool. Hvað eftir annað olli hann Xavier vandræðum á vinstri kantinum og hann átti þátt í báðum mörkum Blackburn.

Draumur minn er að sjá hann í Liverpool búning fyrir helgina, en mér finnst það afar ólíklegt. Ég er sáttur við 9 af 11 stöðum í liðinu. Það er erfitt að styrkja vörnina og sóknarmennirnir eru í heimsklassa. Miðjan er líka sterk með Hamann og Gerrard. Það er svo spurning hvort ekki sé hægt að kaupa sókndjarfa vængmenn. Ef það gerðist þá myndi ég verða talsvert bjartsýnnari.

Annars varðandi leikinn í kvöld, þá var ég sæmilega ánægður. Ég hélt að Liverpool myndi stela sigrinum þegar Riise skoraði seinna mark Liverpool en svo kom einhver óþekktur Ítalabjáni og jafnaði. Ég hafði hins vegar búist við því að þetta yrði erfiður leikur, þar sem Blackburn er með mjög sterkt lið. Ef að þeir halda sínum bestu mönnum ómeiddum, þá geta þeir unnið öll liðin í deildinni.

Á mánudaginn er svo annar erfiður leikur, á móti Newcastle á Anfield. Þá er spurning hvort einhverjir nýjir hafi bæst í hópinn, en frestur til leikmannakaupa rennur út um helgina.

Blog MD – flokkun á vefleiðurum

Blog MD er athyglisverð síða, sem ég rakst á í gegnum Movabletype

Síðan er samstarfsverkefni nokkurra manna, sem eru áhugamenn um vefleiðara á netinu. Tilgangur verkefnisins er að ákveða ákveðna staðla yfir það hvernig metadata hverrar síðu skuli vera. Þannig ættu lesendur auðveldlega að geta leitað sér að efni við sitt hæfi á meðal þeirra meira en hálfra milljóna vefleiðara í heiminum.

Metadata eru upplýsingar, sem tæki einsog leitarvélar nota til að flokka niður vefsíður. Metadata inniheldur nafn síðunnar, lýsingu á henni, tungumál og fleira. Annars er fróðlegt fyrir þá, sem skrifa á netið að kynna sér betur tilgang Blog MD

Íhaldssöm ljóska

Ann Coulter er án efa einhver sá svakalegasti íhaldsmaður, sem ég hef nokkurn tíma séð í sjónvarpi. Hún var fastur gestur í talþáttum í Bandaríkjunum síðasta mánuðinn minn þar en hún var að gefa út bókina Slander: Liberal Lies About the American Right, þar sem hún telur upp dæmi um það hvernig vinstri menn í Bandaríkjunum stjórna öllum fjölmiðlum.

Ég hef lesið hluta úr bókinni, sem er hin besta skemmtun enda sakar hún saklausustu fjölmiðlamenn um að vera útsendarar illra vinstrimanna. Til að mynda ásakaði hún Katie Couric um að vera með stanslausan vinstri áróður í sínum þætti.

Coulter afrekaði það meðal annars í einum spjallþætti að ráðast á Bill O’Reilly frá hægri. Það er svona álíka og að ráðast á Guðna Ágústsson fyrir að vera á móti íslensku sauðkindinni. Þegar O’Reilly reyndi svo að spyrja hana erfiðra spurninga reiddist hún mjög og neitaði að tala um neitt nema bókina sína.

Annars hefur Coulter mælt nokkur gullkorn í viðtölum og fyrir það er hún átrúnaðargoð margra íhaldsmanna Í Bandaríkjunum. Í viðtali við New York Observer sagði hún m.a.

My only regret with Timothy McVeigh is he did not go to the New York Times Building

Vegna þessa og fleiri ummæla er Coulter orðin mjög umdeild í Bandaríkjunum og fannst pistlahöfundi Wall Street Journal tími til kominn að taka upp málstað hennar í pistli í dag. (Tenglar í boði Metafilter)

Bæ bæ Bandaríkin

Á síðustu dögunum mínum í Bandaríkjunum tók ég saman lista yfir það, sem ég vissi að ég myndi sakna. Mér tókst aldrei almennilega að klára listann og uppúr þessu, þá held ég að ég muni aldrei nenna því.

Þannig að ég birti hérna bara það, sem ég var kominn með, ef einhver skyldi hafa áhuga.

Ég veit að ég á eftir að sakna:

Vina minna
Skólans míns
Chicago
Evanston
Chicago Cubs
Chicago Bulls
Northwestern Wildcats
Chicago Bears
tailgating
The Daily Show
ESPN
CPK
Olive Mountain
Potbelly
Starbucks
Dunkin’ Donuts
Bud Light

eoe.is

Ég er núna búinn að breyta um hýsingu á síðunni minni. Framvegis verður hægt að komast inná síðuna á www.eoe.is.

Ég er búinn að breyta skráningunni á rss molum (takk Bjarni), þannig að þeir, sem eru með síðuna mína á RSS molum ættu að færast beint inná síðuna.

Hinsvegar er ekki búið að breyta Nagportal skráningunni og því mun ég halda áfram að uppfæra bloggsíðuna mína á Northwestern servernum í einhvern tíma.

James Baker og Írak

Ágúst Flygering minntist aðeins á grein, sem James Baker, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna skrifaði í New York Times um helgina undir heitinu The Right Way to Change a Regime.

Í greininni gagnrýnir Baker þá áætlun GWB að ráðast inní Írak án þess að leita eftir stuðningi fleiri landa. Baker telur nauðsynlegt að fá stuðning Sameinuðu Þjóðanna en ekki bara Ísraels og Bretlands. Hann hvetur Bush til að fá SÞ til að setja Saddam Hussein úrslitakosti. Annað hvort leyfi Saddam vopnaeftirlitsmönnum inní landið án skilyrða eða ráðist verður á Írak. Ef að Saddam leyfir vopnaeftirlit í orði en ekki á borði, þá verði strax gripið til aðgerða.

Þrátt fyrir að þetta sé ekki fullkomið plan hjá Baker, þá er svo sannarlega meira vit í þessu heldur en því að láta Bandaríkjamenn ráðast eina inní landið. Staðreyndin er sú að Bandaríkjamenn hafa nægan hernaðarstyrk til að fara í þessa aðgerð einir en þeir verða að brjóta odd af oflæti sínu og leita eftir stuðningi hjá öðrum þjóðum. Annars munu þeir einangrast enn frekar í alþjóðlegum samskiptum.

Á þessum degi

Ég er búinn að bæta inn nýjum eiginleika á síðuna. Hérna fyrir neðan dagatalið hægra megin er hægt að sjá færslur frá sama degi á fyrri árum. Þar, sem ég er búinn að skrifa á þessa síðu í meira en tvö ár, þá ætti þetta að vera skemmtilegur fídus.

Athugið að ef ég hef ekkert skrifað á ákveðnum mánaðardegi síðustu ár, þá birtist auðvitað ekkert hér hægra megin.

Heræfingar á Múrnum

Þeir á Múrnum þreytast seint á því að skrifa um Bandaríkin. Í dag skrifar KJ grein um hernaðaræfingar Bandaríkjanna.

Það er nokkuð gaman að velta sér uppúr þessum æfingum. Á þessari æfingu þá átti bandaríski herinn að berjast við ófullkominn (tæknilega séð) her í landi, sem líktist Írak. Gömlum bandarískum hershöfðingja, sem stjórnaði óvinahernum, tókst hins vegar oft að snúa á hinn tæknivædda bandaríska her. Það er greinilegt að snjallir hershöfðingjar geta enn ráðið miklu í stríði, jafnvel við hátæknivædda heri. Sem dæmi um þetta þá er sagt frá atviki í grein The Guardian.

He sent orders with motorcycle couriers to evade sophisticated electronic eavesdropping equipment. When the US fleet sailed into the Gulf, he instructed his small boats and planes to move around in apparently aimless circles before launching a surprise attack which sank a substantial part of the US navy. The war game had to be stopped and the American ships “refloated” so that the US forces stood a chance.

Það er ljóst að bandaríkjamenn hafa nú kennt Saddam nokkrar nýjar hugmyndir til að beita gegn þeim.

Annars er myndin tekin úr skemmtilegri grein í The Onion: Gulf War 2: The Vengeance

Sjónvarpsrugl

Ég afrekaði það að horfa á þáttinn Rugl.is í fyrsta skipti fyrr í kvöld. Þvílíkur menningarþáttur, sem það nú er. Ég sá að minnsta kosti 10 stelpur kyssast í þættinum, sem hlýtur að vera einhvers konar met. Ég var alltaf að vonast til að ég þekkti eitthvað af fólki í þessum þætti, svo ég gæti hlegið að því hvað það væri vitlaust. Æi, annars langaði mig að skrifa eitthvað fyndið um þennan þátt en það er ekki alveg að takast.

Ég horfði svo á Ísland Andorra (berist fram Andorrrrrrra) á RÚV. Það var ágætisleikur, sérstaklega fyrri hálfleikurinn. Seinni hálfleikurinn var hálfger tímasóun enda var þetta Andorra lið arfaslakt. Ég held að ég hefði geta smellt mér á kantinn hjá þeim og það hefði enginn séð muninn. Mér tókst nú að sóla Arnar Viðars einu sinni í leikfimitíma en það er meira en nokkrum leikmanni Andorra tókst í leiknum.

Annars er þessi sjónvarpsdagskrá hér á Íslandi alveg stórfengleg. Ég er svo “heppinn” að foreldrar mínir eru áskrifendur að öllum íslensku stöðvunum en það breytir litlu, því það er bókstaflega ekkert í sjónvarpinu. Ég veit ekki hvernig þetta verður þegar ég flyt, því sennilega verð ég bara með RÚV og Skjá Einn. Það eina, sem ég horfi á í dag er Sex and the City en ég var ekki með HBO útí Bandaríkjunum og hef því ekki séð marga þætti úr þeirri góðu þáttaröð.

Að lokum vil ég leggja það til að allir skandinavískir og þýskir þættir verði bannaðir.