Breytingar

Ég er kominn með leið á útliti þessarar síðu og er búinn að hanna nýtt útlit, sem ég ætla að setja inn þegar ég er búinn í prófunum, sem eru eftir tvær vikur.

Annars er ég búinn að taka þá ákvörðun að hætta að nota Blogger. Ég er orðinn þreyttur á Blogger og eilífu veseni í kringum það forrit. Ég hef því ákveðið að skipta yfir í Moveable Type, sem er ólíkt Blogger að því leyti að ég mun sjálfur sjá um að host-a kerfið. Þess vegna þarf ég ekki að treysta á að Blogger serverinn sé í lagi.

Einnig býður Moveable Type uppá fullt af skemmtilegum möguleikum, einsog það að flokka færslur, RSS, sem maður þarf ekki að borga fyrir og fleira skemmtilegt.

Múrinn??

Múrinn er vanalega afskaplega vel skrifað vefrit. Ég hef oft verið ósammála þeirra greinum, aðallega vegna þess að þeir telja slæma hluti bara geta gerst ef Bandaríkjamenn hafa eitthvað með málin að gera.

Allavegana, þá er í dag grein eftir Katrínu Jakobsdóttur, þar sem hún reynir að sannfæra lesendur um hinn illa kapitalíska markað. Ég vona að hún verði ekki reið þó ég vitni aðeins í greinina hennar.

“Vinur minn einn sem við skulum nefna Gunnar drekkur ekki bjór. Það er val hans í lífinu því að honum finnst bjór vondur. Eftir að bjór var leyfður hér á landi hefur hann öðlast gríðarlegar vinsældir og nú er svo komið að yfirleitt er boðið upp á bjór í öllum boðum – og oft ekkert annað. Gestgjafar vita að flestir drekka bjór og bjóða því ekki upp á neitt val. Gunnar neyðist til að vera edrú; ekki vegna þess að hann vilji vera edrú heldur vegna þess að hann er hindraður í því að vera fullur.

Annar vinur minn sem við skulum nefna Njál hefur ákveðið að nýta reiðufé fremur en plastkort. Þetta er afar þægilegt fyrir hann og tryggir að hann eyði aldrei meiru en hann á. Um daginn ætlaði Njáll að kaupa svokallað Miðborgargjafarkort vegna þess að hann var að fara í afmæli hjá Gunnari. Þá var honum tjáð að það væri aðeins hægt að greiða fyrir slíkt kort með plastkorti. Þegar Njáll spurði hvort peningar hefðu verið lagðir niður sem gjaldmiðill fékk hann engin svör en honum fannst eins og hann heyrði í fjarska óm af hlátri. Hann var einhvern veginn svona: „Mouahahahahaha.“

Ég þykist vita að hláturinn hljómi kunnuglega fyrir lesendur. Þetta er holur hlátur markaðsins sem horfir með ánægju á alla steypta í sama mót.

Verið er að þvinga Gunnar og Njál, í nafni frelsisins, til að gera eins og hinir, þó að það sé þeim á móti skapi. Er þetta frelsi? Eða eru þetta boð og bönn markaðsins sem dulbýr sig sem frelsara? Svari nú hver fyrir sig”

Katrínu vantar greinilega öll rök fyrir því að taka upp hennar draumaútgáfu af sósíalisma, þannig að hún ætlar að sannfæra okkur um það að þegar gestgjafi í boði býður bara uppá bjór, en ekki allar tegundir af áfengi, þá sé það einhvern veginn hinum frjálsa markaði að kenna. Ja hérna!

Damn Yankees!

Jammm, við Hildur erum að fara ásamt Dan á Chicago White SoxNew York Yankees, sem verður á Comiskey Park í kvöld.

Ég þoli ekki White Sox af því að ég er Cubs aðdáandi og ég þoli ekki Yankees af því að þeir eru leiðinlegir og eru auk þess í einhverju markaðssamstarfi við lið djöfulsins. Ég held samt að ég haldi frekar með White Sox.

Dan er frá Boston og hann hatar Yankees meira en hagfræðiverkefni, þannig að hann verður sennilega heitur í kvöld. Hann ætlar líka að mæta í Giambi Sucks!! bolnum sínum. Það verður fjör!

Síðustu dagur, annar hluti

Af einhverjum yfirnáttúrulegum ástæðum, þá fékk ég í fyrsta skipti frí í skóla í gær en þá var Memorial Day, þar sem bandaríkjamenn minnast fallinna hermanna. Þetta er einmitt í fyrsta skipti í þau þrjú ár, sem ég hef stundað nám hér, að ég fæ frí.

Það var svo sem ágætt að fá einn auka frídag, þar sem ég er að klára viðskiptaplan fyrir einn tíma, sem ég á að skila á morgun.

Annars var Dillo Day á laugardaginn, en það er aðal partídagur Northwestern nemenda. Þá reyna nemendur að gleyma því að þeir eru flestallir nördar og reyna að skemmta sér einsog fólk í stóru ríksskólunum hér í kring. Allavegana, þá byrjaði dagurinn um klukkan 11 er við Hildur fórum heim til Dan vinar míns. Íbúðin hans var í rúst eftir partí, sem herbergisfélagi hans hafði haldið daginn áður, þannig að hann var feginn að komast út. Við skelltum okkur því heim til Eddy, vinar Dan. Þar var boðið uppá bjór og kleinuhringi, sem er uppáhaldsfæða Homer Simpson. Við áttum hins vegar erfitt með að þola tónlistina, sem var full há og leiðinleg fyrir okkar smekk.

Við kusum því að fara eftir smá stund. Við fórum því heim til þriggja vinkvenna okkar, þar sem við fengum okkur nokkra bjóra. Eftir það löbbuðum við uppí Patten íþróttahúsið, þar sem voru tónleikar í gangi. Þegar við komum var hljómsveitin Dismemberment Plan að spila. Þetta var alveg hreint afbragðsgóð hljómsveit, sem kom mér skemmtilega á óvart. Hörku rokk!

Eftir að ég var búinn að tapa heyrn á vinstra eyra ákváðum við að koma okkur. Við hittum fyrir utan Ryan vin okkar og fórum við með honum, Kate, Elizabeth, Kristinu og Dan í eitthvað partí, sem var rétthjá campus. Þar entumst við hins vegar ekki lengi, þar sem við Dan vildum fara að horfa á körfubolta, því Boston Celtics voru í sjónvarpinu. Leikurinn leit reyndar hræðilega út, þar sem Boston voru strax 20 stigum undir, þannig að ég ákvað að skella mér heim og leggja mig.

Hildur vakti mig um klukkan 8 en þá var Katie í símanum og vildi hún endilega fá mig aftur á tónleikana. Hildur var á leiðinni í partí með vinum úr sínum skóla, þannig að ég fór einn og hitti Katie, Kristinu og Elizabeth og við röltum uppí Patten. Þar voru Béla Fleck and the Flecktones að spila. Þeir félagar eru sennilega þekktastir á Íslandi fyrir Sinister Minister, sem var aðallagið í morgunþætti Eiríks Jónssonar, sem var einu sinni á Bylgjunni. Allavegana, þetta er mikið djamm band og var góð stemning.

Eftir tónleikana fór ég heim til stelpnanna, þar sem við vorum að skemmta okkur ásamt fullt af fólki fram eftir morgni.

Síðustu dagar, fyrsti hluti – Quarashi, Tenacious D

Þrátt fyrir mikla verkefnavinnu þá hefur ég gert sitthvað skemmtilegt undanfarið.

Um þarsíðustu helgi fórum við Hildur á Q101 Jamboree með þrem vinkonum okkar. Við vorum rétt mætt á staðinn þegar við heyrðum að Quarashi voru byrjaðir að spila á litla sviðinu og því hljópum við í þá átt. Quarashi voru helvíti góðir. Þeir tóku lög af bandarísku plötunni þeirra plús Switchstance. Þeir tóku meira að segja Tarfinn á íslensku, sem var nokkuð gaman að heyra.

Ég hef það á tilfinningunni að við Hildur höfum verið þau elstu í áhorfendahópnum. Þessi hópur var einsog nýkominn af Limp Bizkit tónleikum. Ég er miklu hrifnari af rólegri lögunum einsog Malone Lives og Xeneizes, frekar en rokk-rapp lögunum einsog Copycat. En þar sem fyrsta smáskífan þeirra hérna er Stick ‘Em Up, þá er kannski ekki nema von að þeir höfði helst til Limp Bizkit fan klúbbsins. Ég er þó viss um að það á eftir að breytast þegar næsta smáskífa kemur út, það er ef það er ekki Copycat. Allavegana, þá voru tónleikarnir frábærir enda eru Quarashi snillingar.

Á eftir þeim ætluðum við Hildur að fá okkur bjór og burrito en komumst að því að Miller Lite kostaði 8 dollara og Burrito 10 dollara. Ég veit ekki á hvaða plánetu þetta fólk býr en það að borga 8 dollara fyrir lítinn bjór er einfaldlega of mikið fyrir mig. Þannig að við skelltum okkur bara að stóra sviðinu, þar sem við hittum vinkonur okkar. Við sátum á grasinu fyrir aftan sætin. Það fyrsta, sem við sáum á sviðinu voru The Strokes, sem voru nokkuð góðir, þrátt fyrir að ég sé sammála því, sem Dr. Gunni sagði um The Strokes, það er að manni finnst einsog öll lögin renni í eitt eftir smá tíma.

Á eftir þeim kom einhver hljómsveit, sem ég nennti ekki að horfa á en síðan komu Tenacious D. Það var einsog fullt af fólki hefði bara komið til að sjá þá, því allt fylltist þegar þeir komu á svið. Þeir voru nokkurn veginn einsog ég bjóst við. Jack Black var nokkuð fyndinn og þeir tóku þau tvö lög, sem mér finnst skemmtilegust, það er Wonderboy og Tribute. Svo tóku þeir líka Fuck her Gently og nokkur önnur lög, sem ég þekkti ekki jafnvel.

Á eftir þeim kom svo Zwan, nýja Billy Corgan hljómsveitin. Sú sveit er alger snilld. Ég hafði ekki heyrt neitt með þeim en ég var rosalega hrifinn. Þetta er miklu betra en Corgan var að gera síðustu árin með Smashing Pumpkins. Ég get ekki beðið eftir fyrstu plötunni frá þeim. Lofar mjög góðu.

Á eftir Zwan var Kid Rock, þannig að við ákváðum að fara. Við keyrðum alveg frá Tinley Park, sem er í suðurhluta Chicago uppí Arlington Heights, sem er úthverfi fyrir norðan Chicago. Þar fórum við í ágætt partí til vinkonu Hildar og þar vorum við eitthvað fram á nótt.

Fyrsta HM færslan

Fréttir af HM undanfarna daga hafa ekki verið mjög skemmtilegar, þar sem bæði Danny Murphy og Steven Gerrard eru meiddir og spila ekkert með. Því verða bara fimm Liverpool leikmenn á HM, Owen, Heskey, Dudek, Hamann og Xavier. Það er alltof lítið

Hins vegar gat ég glaðst yfir þessari frétt. Roy Keane er sá allra leiðinlegasti knattspyrnumaður, sem ég veit um. Þegar Liverpool spilar við Man U er hann án efa sá, sem fer mest í taugarnar á mér. Hann er grófur og leiðinlegur og vælir alveg óheyrilega mikið í dómurunum.

Ég mun ekki sakna hans á HM.

Sá hlær best…

Pedro Carmone, sem verður að teljast einn allra vitlausasti valdaránstilrauna-kall í mannkynssögunni er búinn að biðja um pólítískt hæli í Kólumbíu eftir að hafa flúið úr stofufangelsi.

Carmona þessi reyndi að steypa vini mínum Hugo Chavez af stóli fyrir nokkrum vikum en honum tókst að klúðra flestu, sem hægt er að klúðra í valdaránstilraunum. Hann hefur sennilega verið of góður gæji, enda bara einhver leiðtogi í atvinnulífinu en ekki morðóður herforingi einsog alvöru valdaránskallar.

Annars var Hugo Chavez í viðtali í 60 Minutes fyrir rúmri viku og virtist hann bara hress. Það er kannski ekki nema von enda var sagt frá því að hann drykki 20 bolla af kaffi á dag og svæfi aðeins fjóra tíma á dag. Ef ég drykki 20 bolla af kaffi á dag væri ég ALLTAF hress, sama hve margir væru að reyna að steypa mér af stóli.

Félagi Hugo var spurður að því hvort honum væri illa við Bandaríkjamenn. Hann neitaði því og sagðist elska pulsur, baseball og Yankee stadium.

Ég elska pulsur, baseball og Wrigley Field. Við Hugo erum greinilega bara nokkuð líkir.

Kredit kort fyrir alla

Þetta lesendabréf birtist í síðasta tölublaði The Economist. Mér fannst það nokkuð fyndið.

Felix qui nihil debet

SIR – You mention that banks issue credit cards to people with no job or bank account (“Debtors’ bail”, May 4th). In my experience, they even issue pre-approved cards to people who do not exist. I subscribe to publications using different first names, to track who sells their list to whom. My subscription for The Economist comes to “Felix” Pelletier, who sounds good and smart. “Ingemar” Pelletier gets ski mags, “Bud” Pelletier visits beer-related websites, etc. They have no jobs or bank accounts as they do not exist. Yet in Felix’s post bag every year are several pre-approved credit-card applications, with $50,000 being the highest credit offered thus far. So if Felix takes up the offer of the card, he could buy Ingemar some new snowboards and Bud a pint or two.

The Economist skrifaði um það fyrir nokkru að nánast öllum hér í Bandaríkjunum séu boðin kredit kort, sem séu “pre-approved”, það er, maður þarf í raun ekki að hafa neinar tekjur né eignir til að fá kredit kort. Það kemur svo náttúrulega uppúr að The Economist selur áskrifendalistann sinn til kredit korta fyrirtækja og þau senda svo kredit kort til allra áskrifendanna.

Ég fæ sennilega svona 10-15 tilboð um kredit kort í hverri viku. Þar, sem ég er þegar með þrjú kredit kort og eitt debet kort (af hverju, veit ég ekki), þá þarf ég varla á fleiri kortum að halda.

Það er nokkuð skemmtilegt að þessir fyrirtæki, sem kaupa póstlistanna halda að áskrifendur The Economist séu allir eins. Þannig fær maður fullt af tilboðum um að ganga í alls konar samtök fyrir stjórnendur auk þess að maður er beðinn um fjárframlög til hægrisinnaðra stofnanna í Washington.

Einnig hef ég fengið fjöldann allan af kredit kortum, þar sem mér er lofað úttektarheimild upp að 5.000 dollururm á mánuði án þess þó að kortafyrirtækin viti neitt um mig nema það að ég hef góðan smekk fyrir tímaritum.

Tenacious D, Corgan, Strokes og Quarashi

Á morgun verður sko gaman því við Hildur erum að fara ásamt þrem vinkonum okkar á risatónleika Q101 Jamboree, sem haldnir verða í Tinley Park, sem er úthverfi suður af Chicago.

Þarna verður fullt af skemmtilegum böndum meðal annars Tenacious D, nýja bandið þeirra Billy Corgan og Jimmy Chamberlain Zwan, The Strokes og íslensku snillingarnir í Quarashi.

Tónleikarnir verða úti, svo það er vonandi að veðrið verði skemmtilegt. Ég er sérstaklega spenntur að sjá Quarashi, enda hef ég bara séð þá spila einu sinni, sem var í kjallaranum á Thomsen fyrir mörgum árum. Einnig verður gaman að sjá Corgan og Tenacious D. Þetta verður snilld.

Ja hérna

Þá er ég búinn að skila hagfræði ritgerðinni minni. Ég er búinn að vera að vinna í þessari ritgerð síðan í janúar og er þetta búin að vera ótrúlega mikil vinna, sérstaklega síðustu þrjár vikur. Fyrir áhugasama, þá fjallar ritgerðin um tengsl á milli veðurfars og fjarveru starfsmanna. Ég set hana inn, eða allavegana eitthvað af henni þegar ég fæ hana tilbaka frá þeim, sem dæma hana.

Vegna þessarar ritgerðar hefur líf mitt verið einstaklega óspennandi undanfarna daga. Til dæmis um síðustu helgi gerði ég ekki neitt nema að læra og fara tvisvar í bíó. Sá Spiderman, sem var fín og svo nýju Woody Allen myndina, Hollywood Ending, sem var alger snilld. Fyndnasta Allen myndin síðan Everyone says I love you. Allen leikur leikstjóra, sem hefur ekki leikstýrt vinsælli mynd í meira en tíu ár en fær alltíeinu gott tilboð. Áður en hann byrjar að mynda verður hann hins vegar blindur en ákveður samt að reyna að leikstýra myndinni. Mjög fyndið.