Dýrt kaffi?

Ágúst hrósar nemendafélaginu í HR fyrir að lækkar verð á kaffi niður í 50 krónur.

Það er augljóst að við Northwestern nemendur lifum ekki við slíkan lúxus. Kaffið í Norris stúdentamiðstöðinni (Seattle’s Best) kostar 160 krónur.

Annars legg ég til að fólk hætti að birta niðurstöður úr prófum, sem það var að taka á netinu.

Lærir fólk ekkert í Caltech?

Ég neita að trúa því að fólk Caltech viti ekki hvað Hooke lögmálið sé!!!!!!.

Einn vinur minn í knattspyrnuliðinu komst inní bæði Northwestern og Caltech. Hann valdi Northwestern af því að honum fannst vera svo margir nördar í Caltech. Mér finnst alveg vera nóg af nördum í Northwestern. Nördarnir í Caltech virðast þó ekki vera alltof klárir samkvæmt Árdísi, sem lærir þar.

Ég veit ekki hvað Hooke lögmálið er, þrátt fyrir að ég hafi lært eðlisfræði í tvær vikur í Verzló.

Mér finnst það frekar skrítið að ég skuli vera með stúdentspróf í eðlisfræði.

Procter & Gamble

Ég er ennþá á bókasafninu (reyndar svaf ég heima í nótt). Eftir mikla leit fann ég loksins fyrirtæki til að skrifa um. Ég ætla að skrifa um Procter & Gamble. Þetta er einmitt fyrirtæki, sem allir (sem eru í samkeppni við þá) elska að hata. Procter og Gamble á Íslandi eru með rosa flotta heimasíðu.

Annars er Procter & Gamble ansi merkilegt fyrirtæki. Þeir eru brautryðjendur á mörgum sviðum markaðsfræðinnar, svo sem í “brand management”. Þeir eru líka að mati sumra djöfladýrkendur.

Hins vegar er ég orðinn svo hrikalega spenntur fyrir Liverpool-Roma, sem er á ESPN eftir um einn og hálfan tíma að ég get varla lært.

Bókasafn frá helvíti

Ég var að klára stjórnmálafræðiritgerðina mína í morgun og núna er ég strax byrjaður á lokaritgerð fyrir félagsfræðitímann.

Ég er hins vegar búinn að komast að því að allar bækurnar, sem ég hef áhuga á eru í útláni.

Ég þarf að fjalla um eitthvað ákveðið fyrirtæki og þeirra “corporate culture”. Fyrst datt mér í hug að fjalla um Apple, en allar góðu Apple bækurnar voru í útláni. Því næst var Sony, svo Amazon.com, svo Pets.com. Allar voru þessar bækur í útláni. Skrítið…

Íslensk Þakkagjörðarhátíð í Washington D.C.

Ferðin okkar Hildar til D.C. var frábær. Talsvert meira spennandi en titill þessarar greinar.

Við gistum hjá Friðrik og Thelmu en þau eru bæði í skóla í Washington D.C., Friðrik er í George Washington en Thelma í University of Maryland. Einnig vorum við þarna til að heimsækja Jens og Jónu. Þarna komu líka Genni og Sandra, en þau eru í LSU í Baton Rouge. Auk þeirra eru þarna í D.C. Arnar og Dröfn, sem eru bæði í GW og Bjarni, en Bjarni, Friðrik og Arnar spila allir fótbolta fyrir GW.

Allvegana, þá komum við til D.C. á miðvikudeginum. Eftir að hafa komið okkur fyrir tókum við lest að Arlington kirkjugaðinum, þar sem við skoðuðum m.a. leiði John F. Kennedy. Þar nálægt er svo Iwo Jima minnismerkið, sem við skoðuðum. Eftir þetta löbbuðum svo (nokkuð lengi) yfir í Georgetown hverfið. Þar skoðuðum við tröppurnar, þar sem Karras fannst í snilldarmyndinni The Excorcist. Eftir að Thelma hafði skoðað búðina sína fórum við svo að borða á nokkuð góðum stað.

Genni og Sandra komu til D.C. seint um kvöldið og fóru Jens og Jóna að sækja þau. Við fórum svo öll heim til Jens og Jónu, þar sem við tókum á móti þeim og fengum okkur “einn” bjór.

Eitthvað fór þessi bjór í suma og því vorum við lengi af stað daginn eftir. Við (karlkyn) horfðum því á NFL mest allan daginn (Thanksgiving day). Um sjö fórum við svo heim til Jens og Jónu, þar sem allir voru og borðuðum við meiriháttar kalkún með þrjátíu tegundum af meðlæti. Við fórum svo upp til Arnars og Drafnar, þar sem við spiluðum og fengum okkur að drekka…

Á föstudeginum var svo tekinn léttur túristatúr um borgina, en í þessari blessuðu borg er nóg af túristastöðum. Við löbbuðum niður að National Mall, þar sem allir helstu túristastaðirnir eru. Við skoðuðum Capitol (þó ekki of nálægt, því sumu var lokað vegna árásanna) og löbbuðum svo yfir að Washington Monument og svo Lincoln Memorial. Því næst Vietnam War Memorial og svo á endanum Hvíta Húsið.

Um kvöldið fórum við svo yfir á GW campusinn, þar sem við vorum með smá partí í herberginu hans Bjarna, þar sem voru nokkrir fótboltagaurar auk okkar Íslendinganna. Seinna löbbuðum við svo yfir í Georgetown ásamt nokkrum af strákunum og fórum á bar þar. Við vorum án efa vinsælasta fólkið á barnum. Nokkrir af okkur drukku tequila á nokkuð óvenjulegan hátt og fyrir það urðum við afskaplega vinsælir og margir vildu kaupa staup handa okkur, sem við þáðum. Seinna um kvöldið byrjuðum við svo að syngja íslensk lög við gríðarlegar undirtektir á barnum.

Á laugardeginum skoðuðum við Pentagon og skemmdirnar þar en það var þó búið að hreinsa flest það versta og uppbyggingin er greinilega hafin. Stelpurnar fóru svo að eyða peningum, en við strákarnir leituðum að opnum bar. Því miður var skortur á slíkum stofnunum í borginni og heimsóttum við því Bjarna. Um kvöldið fórum við svo að borða í gömlu hverfi fyrir utan Washington D.C. Seinna um kvöldið fórum við til Bjarna og djömmuðum þar. Eftir það fórum við svo á “gríðarlega skemmtilegan” næturklúbb. Þar gerðist ekkert. Eftir klúbbinn fórum við aftur til Bjarna, þar sem Friðrik og Genni sungu Oasis lög fyrir alla nágrananna. Þegar þeir höfðu sungið nóg löbbuðum við alla leið heim, fram hjá Hvíta húsinu og helstu byggingunum. Þrátt fyrir tilraunir sumra tókst okkur ekki að vekja Bush.

Á sunnudeginum fórum við Hildur svo heim. Við flugum frá Dulles flugvellinum og var flugið frekar slæmt. Um mínútu eftir flugtak lentum við í rosalegri ókyrrð, sem stóð yfir í nokkrar mínútur. Mér var nokkuð brugðið, þar sem þetta var svo stuttu eftir flugtak. Einnig var fullt af fólki öskrandi og konan við hliðiná mér greip í mig og spurði mig “are we going to be alright??” Þetta var frekar óskemmtileg reynsla en sem betur fer komumst við heil út úr þessu öllu.

Stjórnmálafræði og Henry Rollins

Það er ekkert voða hressandi svona seint á föstudegi að vera að skrifa stjórnmálafræðiritgerð. Það eru þó fullt af hlutum, sem eru leiðinlegri.

Til að halda mér vakandi og við efnið er ég búinn að laga kaffi og svo hlusta ég á Rollins Band, sem er alger snilld. Henry Rollins er vissulega snillingur. I am a liar, yeah!! I like it, I feel good

Hagfræði er sko langbesta fagið

Athygilsverðar pælingar á netinu um gildi háskólanáms og mun á ýmsum fögum, aðallega verkfræði og heimspeki.

Bestu innleggin í þessa umræðu er sennilega að finna hér og hér.

Björgvin tekur einmitt svipað á málunum einsog bandarískir háskólar. Flestir betri háskólar hér í landi leggja nefnilega áherslu á að háskólanám (undergraduate) sé í raun aðeins undirbúningur fyrir frekara framhaldsnám. Ég er t.a.m. að læra hagfræði en samt dettur mér ekki í hug að stökkva uppí flugvél og fljúga til New Jersey og fara að stinga ofan í Paul Krugman eftir mitt fjögurra ára nám.

Allt frá því fólk byrjar nám við háskóla í Bandaríkjunum er það hvatt til að taka sér tíma í að velja sér fag. T.a.m. fyrsta árið í mínum skóla þurfa allir að taka tvö fög úr sex hópum. Þannig þurfti ég að taka tvo bókmenntatíma, tvo raungreinatíma, tvo heimspekitíma o.s.frv. Þetta er allt gert til þess að fólk kynnist öllum hliðum námsins og sé betur undirbúið að taka ákvörðun um það hvað það vilji læra. Ég held að þessi aðferð sé nokkuð sniðugri en íslenska aðferðin, þar sem fólk þarf flest að ákveða í byrjun náms hvað það vilji gera.

Ég tel að öllum sé hollt að læra greinar, sem það hefur kannski ekki brennandi áhuga á. Ég tel að það víkki sjóndeildarhringinn og það kemur einnig (að nokkru leyti) í veg fyrir meting á milli fræðigreina. Ég fékk til að mynda á þessu fræðigreinaflakki mínu að lesa Suður-Amerískar bókmenntir, fræðast um sögu Rússlands, lesa um tengsl trúar og þýskra bókmennta, lesa Nietzche og Plato, lauk þess sem ég lærði stærðfræði og hagfræði.

Ég tel það nauðsynlegt að það ríki viss virðing á milli háskólanema. Allur metingur er, að mínu mati, neikvæður. Það er slæmt að gera lítið úr fólki, sem stundar nám við háskóla, sem eru kannski að einhverra mati lægra skrifaðir. Ég reyni einnig að gera ekki lítið úr þeim vinum mínum, sem eru að læra kvikmyndagerð við skólann (þó ég öfundi þá svolítið af heimavinnunni).

Ég komst að því að það er fjandi erfitt að fá A í rússneskum bókmenntum. Jafnvel erfiðara en að fá A í verstu hagfræðitímunum. Þeir, sem eru að læra bókmenntir við skólann minn eiga kannski ekki jafn auðvelt með að finna vinnu eftir nám og þeir, sem eru í hagfræði- eða verkfræðideildinni, en þeir eru svo sannlarlega ekki búnir að sóa tímanum sínum hér. Málið snýst nefnilega ekki bara um að læra eitthvað, sem kemur þér beint að gagni á vinnumarkaðnum, heldur margt fleira. Mörg fög kenna manni að hugsa gagnrýnið. Stærðfræði kennir manni að leysa vandamál. Ég efast t.a.m. um að ég muni nokkurn tímann nota þekkingu mína á Black-Scholes formúlinni og hvernig á að sanna hana frá sjónarhorni stærðfræðinnar, en ég tel samt að ég hafi lært margt.

Háskólanám er nefnilega ekki bara leið til að fá betri vinnu.

Bæ bæ Fowler

Maður er búinn að búast lengi við þessum tíðindum, en það er samt sorglegt að sjá fletta gerast.

Því verður fló ekki neitað að Fowler er ekki nema framherji númer þrjú hjá Liverpool og á sennilega ekki mikinn sjens í að vinna sig upp. Samt finnst mér 11 milljónir punda frekar “lítið” fyrir Fowler.

Mitt kramda hægrikrata hjarta

Flest, ef ekki allt, í þessari grein er einsog talað frá mínu hjarta.

Ég vil fá gamla Alþýðuflokkinn aftur. Ekki Samfylkingarsamsuðu, fulla af gömlum sósíalistum. Ég vil almennilegan hægrikrata flokk, sem myndi vinna saman með Sjálfstæðisflokki. Það er nefnilega þannig að Framsóknarflokkurinn dregur fram allt það versta í fari Sjálfstæðisflokknum (svo sem ríkisstyrki í landbúnaði).

Hægri krataflokkur myndi hins vegar draga fram allt það besta í Sjálfstæðislfokknum (frjáls markaður, lægri skattar, minni ríkisafskipti).

Samfylkingin er ávallt að hamra á því að hún sé höfuðandstæðingur Sjálfstæðisflokksins. Þýðir það þá að hún sé höfuðandstæðingur minnkandi ríkisafskipta og lægri skatta, sem Sjálfstæðisflokkurinn segist styðja. Samfylkingin leggur áherslu á mennta- og velferðarmál, en málið er að Sjálfstæðisflokkurinn er sammála þeim í helstu atriðum. Helsti andstæðingur minn í stjórnmálum væru Vinstri-Grænir enda er stefna þeirra (fyrir utan suma ágæta spretti í einstaka utanríkismálum) gamaldags og afturhaldssöm.

Ef Samfylkingin heldur áfram að hamra á því að Sjálfstæðisflokkurinn sé höfuðandstæðingurinn, þá eiga þeir flokkar vart samleið í ríkisstjórn. Það þýðir að eina leiðin fyrir Samfylkinguna er að vinna með Vinstri grænum og Framsókn (guð hjálpi okkur).

Ég held að skárri kostur væri bara fyrir okkur hægri krata að halda okkur til í sér stjórnmálaflokk, þótt sá flokkur næði ekki nema 10-15 prósentum einsog Stefán talar um í greininni.