Ótrúlegur dagur fyrir Liverpool!

Það er búið að vera magnað að fylgjast með bresku knattspyrnusíðunum í dag. Mest lætin eru í kringum markvaraðakaup Liverpool.

Þetta virðist allt hafa endað með því að Liverpool eru búnir að kaupa TVO markverði. Bæði Jerzy Dudek, markvörð pólska landsliðsins og Chris Kirkland, markvörð enska 21-árs landsliðsins, og er Kirkland orðinn dýrasti enski markvörður allra tíma.

Þetta eru sannarlega ótrúlegar fréttir. Ég hef alltaf staðið við bakið á Sander Westerveld, aðalmarkverði Liverpool og tel ég hann vera næst besta markvörðinn í ensku deildinni (á eftir van der Saar) en Houllier virðist ekki alveg vera sammála mér. En Houllier hefur nú oftast rétt fyrir sér, þannig að maður treystir honum.

ps. ég er að skúbba bæði moggann og vísi

MJ snýr aftur

Það eru eflaust margir, sem hafa áhuga á endurkomu Michael Jordan. Fyrir þá, sem vilja fylgjast vel með í þeim málum vil ég benda á tvo afbragðs pistlahöfunda, sem skrifa fyrir tvö stærstu dagblöðin hér í Chicago.

Þeir eru Sam Smith, sem skrifar fyrir Chicago Tribune og Lacy Banks, sem skrifar fyrir Chicago Sun-Times. Báðir þessir blaðamenn skrifa um körfubolta og er Lacy Banks sérstaklega mikill áhugamaður um endurkomu Jordan.

Jordan æfir á hverjum degi hér í Chicago, en hann býr ennþá í borginni, þrátt fyrir að vinnan hans sé í Washington D.C.

Breytingar hjá ManUtd

Mjög sniðug þessi nýja stefna í leikmannakaupum hjá Manchester United. Í fyrsta lagi þá var það augljóst að vörnin var veikasti hlekkurinn hjá liðinu og því ákvað framkvæmdstjórinn að selja besta varnarmanninn til Lazio.

Í öðru lagi virðist það vera ný stefna hjá liðinu, að þótt menn vilji ekki ganga til liðsins, þá heldur Ferguson bara áfram að reyna alveg þar menn eru orðnir of gamlir fyrir sitt lið´.

Þannig gerðist þetta með Laurent Blanc. Hann var búinn að hafna Man United þrisvar sinnum áður. Núna í dag er hann orðinn 35 ára gamall (8 árum eldri en besti varnarmaður á Englandi) og kemst ekki í liðið hjá Inter Milan. Hann var því sennilega feginn þegar honum bauðst að koma til United.

Það er spurning hvort Man United haldi þessari stefnu áfram. Kannski geta þeir þá keypt Rivaldo þegar hann er orðinn fimmtugur.

Apple búð

Á laugardaginn fórum við Hildur í Woodfield verslanamiðstöðina en þar var einmitt verið að opna Apple búð. Þessi búð er sú fimmta í röðinni af búðum, sem Apple er að koma upp í stærstu borgum Bandaríkjanna. Þeir álíta þetta mikilvægt skref í að ná stærri markaðshlutdeild.

Þegar við komum að búðinni var biðröð fyrir utan og þurftum við að bíða í um korter eftir því að komast inn, en hleypt var inn í hópum. Búðin er mjög flott. Einsog allt frá Apple var hönnunin á búðinni afskaplega einföld og smekkleg. Við skoðuðum þarna nýjustu tölvurnar og horfðum á kynningar fyrir mörg skemmtileg forrit einsog iMovie og iDVD.

Það má ætla að flestir, sem hafi verið á staðnum fyrsta daginn hafi, einsog ég, verið Mac notendur. Hins vegar má áætla að í framtíðinni muni margir PC unnendur heillast af Mac tölvum eftir heimsókn í þessar búðir, því fólk gerir sér best grein fyrir kostum Mac tölva þegar það fær að prófa þær. Það var einmitt stór kostur við búðina, það er að manni var velkomið að fikta í öllu. Maður gat flakkað um á netinu, eða skoðað stýrikerfið, eða klippt saman myndbúta í iMovie og svo framvegis.

Björk

Nýji Bjarkar diskurinn, Vespertine fær fjórar stjörnur hjá Rollingstone. Gagnrýnandinn kallar þetta bestu plötu Bjarkar. Það er ekki slæm gagnrýni. Ég ætla einmitt að kaupa mér diskinn sem allra fyrst, enda á ég allar Bjarkar plöturnar.

Björk verður með tónleika hér í Chicago í október og reyndi ég að kaupa miða á þá tónleika, en þeir seldust upp á minna en 5 mínútum.

Hrekkjusvín.is

Björgvin Ingi skrifar mjög góða grein á hrekkjusvín.is, þar sem hann gagnrýnir hrekkjusvin.is, sem og önnur vefrit. Ég er nokkuð sammála greiningu hans á hrekkjusvínum.

Á hrekkjusvínum hafa verið birtar alltof margar leiðinlegar greinar um allt og ekki neitt (og hef ég ábyggilega skrifað einhverjar). Inná milli hafa þó leynst margar góðar greinar og tel ég að ritið eigi bjarta framtíð ef að vel tekst til með endurskipulaggningu.

Ég tel að það sé markaður fyrir vefrit, sem sé fjölbreytt og aðhyllist ekki endilega eina ákveðna stjórnmálaskoðun. Þrátt fyrir að hrekkjusvin þurfi að viðhalda fjölbreytninni þá er það rétt hjá Björgvini að ritið þarf að marka sér skýra ritstjórnarstefnu.

Netfíkn – (framhald)

Ég var fyrir nokkrum dögum að tala um netfíkn mína. Ég á nefnilega nokkuð erfitt með að halda mér frá netinu og tölvupósti í langan tíma.

Í byrjun sumars ákvað ég að taka stórt skref og ég sagði upp áskrift að kapal internet tengingunni minni. Þannig að síðan þá hef ég þurft að skoða netið í gegnum 56k mótald, sem er óþolandi. Við þetta hefur hins vegar netnotkun mín (utan vinnu) minnkað mjög mikið.

Í póstinum í dag kom hins vegar bréf frá AT&T og vilja þeir endilega fá mig aftur í viðskipti. Þeir bjóða mér nú fyrstu 6 mánuðina á helmingsafslætti. Ég skal alveg viðurkenna að ég mun eiga mjög erfitt með að hafna því tilboði. Það er svo spurning hvernig þetta fari með mig.

Fjölbreytt helgi – NFL og Destiny's Child

Helgin var mjög fín hjá okkur Hildi. Á föstudag gerðum við reyndar lítið. Við höfðum ætlað á djammið, en ég var orðinn eitthvað hálf veikur, þannig að eftir að ég hafði horft á Liverpool vinna Super Cup fórum við bara út að borða á Olive Garden.

Á laugardag skelltum við okkur yfir í Woodfield, sem er stærsta mall-ið hérna á Chicago svæðinu. Þaðan brunuðum við svo niður á Soldier Field, þar sem við sáum NFL-preseason leik á milli Chicago Bears og Arizona Cardinals. Þetta var fínn leikur, en þetta er í fyrsta skipti, sem ég fer á NFL leik. Reyndar töpuðu Bears leiknum á síðustu sekúndunum, enda eru þeir með hrikalegt lið. Stemningin var þó góð og flestir vel ölvaðir á leiknum.

Á sunnudag hafði ég svo ákveðið að koma Hildi á óvart. Ég hafði nefnilega keypt tvo miða á tónleika með Destiny’s Child um kvöldið, en Hildur heldur mikið uppá þá hljómsveit og ég verð að viðurkenna að ég fíla tónlistina þeirra bara nokkuð vel (kannski er maður orðinn gamall, tónlistarsmekkurinn er eitthvað að mýkjast).

Allavegana þá voru tónleikarnir haldnir í Tweeter Center, sem er fyrir sunnan Chicago. Þetta er svið, sem er yfirbyggt, en samt nokkuð opið, þannig að maður situr í raun úti en hefur samt þak yfir höfuðið. Tónleikarnir, sem eru partur af TRL túr, byrjuðu á því að rapparinn Eve kom á svið og var hún nokkuð góð. Á eftir henni kom Nelly og tóku sín þekktustu lög, sem hafa verið spiluð sundur og saman á MTV undanfarið.

Síðast komu svo Destiny’s Child. Þeir, sem hafa horft á eitthvað af þessum tónlistarverðlaunaafhendingum undanfarið (Grammy’s, MTV, o.s.frv.) vita sennilega hvernig þær eru á sviði. Sviðsmyndin var alveg einsog hún var á Grammy verðlaununum. Allavegana þá eru þær stelpurnar nokkuð góðar á sviði. Þær eru mjög góðar söngkonur og flest lögin þeirrra eru mjög grípandi. Þær voru einnig duglega við að skipta um föt, ég held alls 5 sinnum (sem er einmitt 5 sinnum oftar en Thom Yorke gerði á Radiohead tónleikunum).

Þær byrjuðu á Independent Women part 1, tóku svo Bills Bills Bills og svo rúlluðu þær í gegnlum öll vinsælustu lögin sín. Þessir tónleikar voru vissulega mjög frábrugðnir þeim tónleikum, sem ég er vanur að fara á, en þeir voru þó skemmtileg tilbreyting og ég skemmti mér bara nokkuð vel

Netfíkn

Ég held að það sé nokkuð ljóst að ég er frekar háður netinu. Björgvin Ingi skrifar á síðunni sinni að hann eigi erfitt með að halda sér frá því að skoða tölvupóstinn sinn á nokkurra mínútna fresti. Ég er að glíma við svipað vandamál. Ég er alltaf að kíkja á póstinn minn, í von um að eitthvað nýtt sé þar. Einnig kíki ég alltof oft á sumar síður á netinu í von um að þær hafi verið uppfærðar.

Núna er í gangi leikur á milli Liverpool og Bayern Munchen um Super Cup, það er hvað sé besta lið í Evrópu. Þessi leikur er sýndur á minni uppáhaldsstöð, Fox Sports World, en þar sem ég er í vinnunni, þá verð ég að láta mér duga að taka hann upp. Vegna þess þarf ég að forðast flestar þær vefsíður, sem ég skoða reglulega til að ég sjái ekki úrslitin, og ég þori ekki að skoða póstinn min af ótta við að einhver hafi í kvikindisskap sent mér úrslitin. Þetta er auðvitað mjög erfitt og ég hef átt erfitt með að hemja mig síðasta klukkutímann.

Ég reyni að neita fíkn minni og segi bara einsog Björgvin: Ég er ekki háður tölvum, ég get alveg lifað í dag án þess að lesa tölvupóstinn minn (á klukkutíma fresti)