Survivor og Letterman

Ég var aðeins að hugsa, þegar ég var að horfa á David Letterman í gærkvöldi. Þannig er að á hverju mánudagskvöldi kemur sá, sem var kosinn af “eyjunni” í síðasta Surviver þætti, í viðtal hjá Letterman. Nú er Letterman sýndur á Sýn og Survivor II á Skjá einum heima. Það væri gaman að vita hver væri á undan að sýna þættina.

Annars var þessi helgi fín, ég vaknaði klukkan 9 á sunnudagsmorgun til að horfa á Liverpool-Birningham. Það var náttúrulega mjög gaman að horfa á mína menn loksins vinna bikar. Ég var í þriðja bekk í Verzló þegar þeir unnu síðast bikar, og ég held að ég hafi verið í 6. bekk í Garðaskóla þegar Liverpool urðu seinast Englandsmeistarar. Það er allt of löng bið.

Fótbolta læti

Ég lenti í svakalegum leik í fótboltadeildinni, sem við strákarnir úr Northwestern fótboltaklúbbnum, spilum í. Við vorum að keppa á móti einhverjum aulum og unnum 9-2. Þeir voru ekkert alltof sáttir við það. Til að byrja með í fyrri hálfleiknum hrækti einn leikmaðurinn þeirra aftan á hausinn á mér, eftir að ég hafði sagt honum að hætta að rífa í bolinn minn. Ég hrinti honum í gólfið en hann stóð strax aftur upp og ætlaði að byrja á einverju veseni, en aðrir strákar úr mínu liði skildu okkur í sundur.

Svo í seinni hálfleik var ég kominn inn fyrir vörnina þeirra og næ að skora, en í leiðinni kemur markmaðurinn þeirra og tæklar mig svo svakalega að ég flaug einhver fet og lenti svo illa á höndinni. Í gærmorgun komst ég svo að því að bein í höndinni var brákað, svo ég verð með höndina í fatla næstu daga.

Tímar

Ég er núna búinn að skrá mig í nýja tíma. Það eru tveir hagfræðitímar, corporate finance og international trade, einn stærðfræðitími, differential equations og svo þýsku tími, Themes in Faust. Þýskutímann er ég að taka vegna þess að mig vantar að uppfylla ákveðna grunn tíma og uppfyllir þýskutíminn “religion and values” hlutann. Gaman að því. Ég veit ekki hvað maður á að segja um þessa tíma, en mér líst þó bara ágætlega á þetta.

Vinnumarkaðs hagfræðitími

Ég er nú ekki vanur því að kvarta yfir tímum, sem ég er í. Það verður hins vegar að viðurkennast að vinnumarkaðs hagfræðitíminn, sem ég er í er svo leiðinlegur að það er nánast fáránlegt.

Half.com

Ég verð að segja eins og er að mér finnst Half.com vera einhver allra besta síðan á netinu. Ég er nokkuð lengi búinn að vera að leita að eintaki af uppáhaldsbókinni minni, sem er Quiet Flows the Don, eftir Mikhail Sholokov. Hún er nær alls staðar “out of print”. Mér tókst loksins að finna eitt eintak á half.com. Eintakið er notað, en það sést varla á bókinni. Og ofan á allt, þá kostaði hún bara 10 dollara, þrátt fyrir að hún væri “hard cover”. Hreinasta snilld.

Field Museum

Hildur og ég fórum um helgina á Field Museum, sem er nokkuð merkilegt safn hérna í Chicago. Þar er m.a. risaðlan Sue, sem er stærsta T-Rex risaeðlan, sem hefur varðveist í heiminum. Þetta var mjög fróðleg ferð. Þegar við vorum búin að skoða nær allt safnið sáum við svo leðurblöku, sem var alveg einsog leðurblakan, sem er búin að vera fram í anddyri síðustu vikur.

Ég hélt reyndar að ég hefði drepið leðurblökuna, þegar ég kom hress heim úr einu partýi og ákvað aðeins að pota í hana. En nei, nei, hún er komin aftur.

Windows XP

Ég var að lesa athyglisverða grein á MSNBC um nýja Windows stýrikerfið, XP. Þar heldur greinarhöfundur því m.a. fram að Microsoft hafi loksins náð því að toppa Apple í einfaldleika stýrikerfisins. Ég veit ekki hvort þetta er rétt hjá honum, því ég hef ekki prófað Windows XP. Það er þó gott mál að stýrikerfið skuli vera byggt á Windows 2000, sem er mun öruggara en Windows 98.

Ástæðan fyrir því að ég skipti yfir í Mac var nefnilega sú að ég fékk mig fullsaddann á ruglinu í Windows 98, sem krassaði að minnsta kosti 4-5 sinnum í viku. Ég er ekki fullkomlega ánægður með Apple stýrikerfið, en það er þó mun einfaldara og þægilegra en Windows 98. Það er nokkuð ljóst að ef OS X verður ekki stabílt, þá verður maður að skoða vel hvort maður haldi áfram að kaupa Apple. Ég hef þó fulla trú á því að OSX muni uppfylla mínar væntingar.

X

Ég var nú ekki að meina að Microsoft væri að apa eftir Apple í nafngiftum á nýju stýrikerfunum. Það er hins vegar ljóst að nýja Windows XP er mjög líkt Apple Mac OS X útlitslega.