Urban Hymns

Ég er búinn að vera að hlusta á Urban Hymns í dag. Þvílík ótrúleg snilld, sem þessi diskur er. Ég er að fara eftir nokkrar mínútur á tónleikana. Ég bara vona að þeir verði góðir.

Tónleikar

Í kvöld er ég að fara á Richard Aschroft (fyrrum söngvara The Verve), sem er að spila á Double Door, sem er klúbbur niðrí miðbæ. Ég veit ekki alveg við hverju ég á að búast, þar sem ég veit ekki hvort hann spilar bara ný lög eða líka gamla The Verve slagara.

Miðarnir voru bara það ódýrir að ég ákvað að skella mér á þá. Miðarnir á tónleikana kosta jafnmikið og það kostaði fyrir okkur Hildi að komast inná White Star Lounge, sem er sennilega heitasti klúbburinn í Chicago í dag, síðasta laugardag, þ.e. 20 dollara.

Onion

Við Hildur vorum úti að borða á Flattops. Á leiðinni heim náði ég mér í nýtt eintak af The Onion, sem er besta blað í heimi. Aðal fyrirsögnin á forsíðunni er mjög fyndin að mínu mati.

Cast Away

Talandi um eyjur, þá fór ég í síðustu viku á Cast Away, nýju Tom Hanks myndina. Við ætluðum reyndar að fara á Traffic, en það var uppselt á hana. Cast Away var bara nokkuð góð, þrátt fyrir að hún hafi verið mjög langdregin.

Í raun var Tom Hanks einn að tala við blakbolta hálfa myndina. Myndin er þó meira spennandi en hún hljómar.

Temptation Island

Prófessorinn minn í markaðfræði, var að tala um þáttinn Temptation Island á Fox, sem hann sagði að væri núna uppáhaldsþátturinn sinn. Þessi sería byrjaði í síðustu viku og erum við Hildur búin að horfa á báða þættina. Þvílík snilld! Fox er sama stöðin og sýndi snilldina “Who wants to marry a multi-millionaire?”, en með Temptation Island þá toppa þeir sig algjörlega, því þessi þáttur er búinn að vekja jafnvel enn meira umtal og hneikslun meðal íhaldssamra Bandaríkjamanna.

Þátturinn byggist á því að 4 pör, sem eru búin að vera nokkuð lengi saman er send á litla eyju. Þar taka á móti þeim 8 strákar og 8 stelpur, sem öll eru á lausu. Pörin eru svo aðskilin, strákarnir fara á sinn hluta eyjarinnar og stelpurnar á hinn. Þar taka svo á móti þeim krakkarnir, sem eru á lausu og eiga þau að reyna að tæla þau í framhjáhald. Ég man ekki hvort það er einhver vinningur í boði, en takmarkið er að láta reyna á hvort samböndin þola allar freistingarnar. Það er vægast sagt mjög fróðlegt að horfa á þessa þætti og þetta heldur manni við efnið þangað til að næsta syrpa af Survivor byrjar eftir Super Bowl.

Ráðgjafar

Ég var í fríi í skólanum eftir hádegi í dag og nýtti ég fríið við að hitta hina ýmsu ráðgjafa. Fyrst fór ég til námsráðgjafans míns, og vorum við að tala um það hvernig mér gengi að taka þá tíma, sem ég þarf á að halda. Ég er bara í furðu góðum málum, sérstaklega eftir að ég fékk metinn einn líffræði og einn efnafræðitíma úr verzló.

Ég fór svo til ráðgjafa, sem hjálpaði mér við að laga “resume”-ina mína. Ég er búinn að vera að vinna í atvinnumálum undanfarið, þar sem ég ætla að reyna að redda mér “internship” í sumar. Ég var líka að tala um ráðgjafann um hvaða störf ég vildi fara í. Ég þarf að fara ákveða það á næstunni, hvernig störf ég vil leita að í sumar. Valið snýst um tvo hluti, annars vegar markaðsstörf og hins vegar ráðgjafastörf. Ætli ég sækji ekki um störf á báðum sviðum og ákveði svo, hvað ég vilji gera.

U2 miðar

Ég hef nú oft kvartað undan Ticketmaster, en það sem ég lenti í í morgun var án efa mesta geðveikin. Ég ætlaði að kaupa miða á U2 tónleika, sem verða 12. maí hér í Chicago. Svo auðvitað komst ég ekkert inná síðuna því það var alltof mikið að gera. Ég gafst loks upp um 25 mínútum seinna, því þá var örugglega orðið uppselt. Ég var svo eitthvað að dunda mér á netinu og um 11 leytið kíkti ég aftur á Ticketmaster.

Þá kom í ljós að U2 verða með aðra tónleika og það var byrjað að selja miðana á þá tónleika. Ég reyndi aftur en það var það sama, allt var orðið uppselt. Svo klukkan 20 mínútur yfir 11 gafst ég upp og fór aftur á aðalsíðuna og sá þá að það var búið að bæta við þriðju tónleikunum, sem byrjað var að selja á klukkan 12 mínútur yfir 11. Ég dreif mig yfir á pantanasíðuna og þá tókst mér loksins að næla mér í 2 miða. Þannig að 15. maí erum við Hildur að fara að sjá U2 í United Center. Það verður snilld!

Á leið út

Núna eru bara 4 tímar þangað til að ég á flug út til Boston, og svo tengiflug þaðan til Chicago. Þetta jólafrí er náttúrulega búið að líða alveg fáránlega hratt.

Gamlárskvöld var frábært, ég hef sjaldan eða aldrei skemmt mér jafnvel á gamlárskvöld. Við Hildur fórum í tvö partí hjá vinum og svo fórum við með nokkrum vinum á Astró, þar sem var alveg meiriháttar gaman. Kvöldið var alger snilld.