Kominn heim

Jæja, ég er kominn heim frá Bandaríkjunum. Síðasta vikan úti leið frekar hratt. Ég var í síðasta prófinu á miðvikudag, en það var hagfræði. Síðan eyddi ég deginum við að klára að versla jólagjafirnar og svo fórum við Hildur útað borða og svo í partí um kvöldið.

Flugið var bara fínt, ég hafði sofið svo lítið undanfarna daga að ég gat í fyrsta skipti sofið alla leiðina heim. Svo held ég líka að þetta hafi verið í fyrsta skiptið, þar sem það var hlýrra á Íslandi en á þeim stað, sem ég var að koma frá. Allavegana þá var í síðustu viku svona 10 stiga frost í Chicago.

Fox

Jens PR minnti mig á að í dag var Vicente Fox svarinn í embætti eftir 71 árs valtatíma PRI.

Þetta eru vissulega gleðitíðindi, því PRI (Partido institutionario revoluciónal) hefur hindrað allar tilraunir í lýðræðisátt. Ég ber mikla virðingu fyrir Ernesto Zedillo, fráfaranda forseta Mexíkó. Hann á heiður skilinn fyrir að sjá til þess að síðustu kosningar fær fram á heiðarlegan hátt. Það er vonandi að Fox verði gæfusamur í embætti því Mexíkó veitir sannarlega ekki af góðum forseta.

Þetta er góður dagur fyrir Ameríku.

Smashing Pumpkins

Tónleikarnir í gær voru náttúrulega snilld, enda ekki við öðru að búast. Þeir voru þó talsvert öðruvísi en þeir, sem ég sá í Aragon í maí. Þar voru allir standandi í einni þvögu, en þessir voru í United Center (Chicago Bulls höllinni) og voru allir í sætum.

Það var grein í Chicago Tribune í dag, þar sem talað var við nokkra aðdáendur á tónleikunum. Það voru nokkrir, sem komu frá Evrópu, Asíu og Ástralíu bara til að sjá þessa tónleika. Einn strákur frá Ítalíu var búinn að vinna tvær vinnur í allt sumar, bara til að borga farmiðann til Chicago og miðann á tónleikana. Þeim hefur ábyggilega fundist þetta vera þess virði. Pumpkins spiluðu í nær 3 tíma og þau tóku nær öll þekktustu lögin sín.

Þau voru duglegir við að breyta útsetningunum á þekktustu lögunum. Þetta kom oftast vel út, sérstaklega í Today, en skemmdi dálítið fyrir, sérstaklega mjög hröð útgáfa af Disarm, og nánast speed-metal útgáfur af Everlasting Gaze og Bullet with Butterfly Wings.

Það var náttúrulega klappað og öskrað ógurlega þegar þau þökkuðu fyrir sig í fyrsta sinn, og endaði það með því að þau voru klappaðir upp þrisvar sinnum. Í fyrsta skiptið kom pabbi Billy Corgan og spilaði á gítar í einu lagi. Þau voru svo klappaðir aftur upp og þá tóku þau m.a. Cherub Rock. Í síðasta skiptið hélt Billy Corgan langa ræðu, þar sem hann þakkaði fyrir sig. Hann þakkaði aðdáendunum og afsakaði öll þau skipti, þegar þau í hljómsveitinni hafa verið erfið. Hann sagði svo auðvitað að Chicago væri besta borg í heimi og hann vonaðist til að eitthvað af íþróttaliðunum myndu nú fara að vinna eitthvað (Chicago Bulls, Bears, Cubs og Blackhawks eru öll ömurlega léleg þessa stundina, aðeins Chicago White Sox hafnaboltaliðið getur eitthvað).

Eftir ræðu Corgan þá kynnti James Iha bandið og var klappað vel fyrir þeim, sérstaklega Jimmy Chamberlain (enda hann snillingur). Í endann stóðu þau svo fjögur saman fremst á sviðinu og tóku 1979. Eftir þrettán ár er ein af mínum uppáhaldshljómsveitum hætt. Það var einstakt tækifæri að vera viðstaddur þennan sögulega viðburð.

Majones

Núna eru bara 4 tímar þangað til að lokatónleikar Smashing Pumpkins byrja. Ég get ekki beðið mikið lengur.

Fool enough to almost be it
Cool enough to not quite see it
Doomed
Pick your pockets full of sorrow
And run away with me tomorrow
June

We’ll try and ease the pain
But somehow we’ll feel the same
Well, no one knows
Where our secrets go
I send a heart to all my dearies
When your life is so, so dreary
Dream
I’m rumored to the straight and narrow
While the harlots of my perils
Scream

Maus

Hljómsveitin Maus (næstbesta íslenska hljómsveitin á eftir Quarashi) heldur úti alveg frábærri vefsíðu á maus.is. Útlitið á þessari síðu er með því allra flottasta, sem ég hef séð.

Á síðunni er meðal annars hægt að nálgast nokkur mp3 lög. Nokkur eru óútgefin og nokkur eru af tónleikum. Á meðal tónleikalaganna er skemmtileg útsetning á Girls on film. Þeir enda lagið með orðunum: “Einsog sannir Íslendingar þá auglýsum við að sjálfsögðu eftir eftirpartíi”.

Tónleikar

Á morgun er ég að fara á lokatónleika The Smashing Pumpkins í United Center. Miðar á tónleikana eru seldir á ebay fyrir 1200 dollara. Ég myndi aldrei selja mína miða! Það að hlusta á Mayonaise “live” í síðasta skipti er mun verðmætara.