Ryugyong hótelið

Ryugyong hótelbyggingin í Pyongyang í Norður-Kóreu hefur lengi heillað mig. Hún byrjaði sem eitthvað brjálæðislegt verkefni Norður-Kóreustjórnar og átti að verða að aðal-kennileiti borgarinnar. Þrátt fyrir að í Norður-Kóreu séu nánast engir túristar þá átti þetta að verða hæsta hótelbygging í heimi þegar að þeir byrjuðu að byggja árið 1987. En málið var að penigarnir kláruðust og árið 1989 var byggingu hætt þegar að það var ennþá byggingarkrani oná sjálfu hótelinu.

Hótelið leit því næstu 20 árin svona út.

Þetta var frekar neyðarlegt fyrir Norður-Kóreustjórn. Official gædar fyrir túrista á vegum stjórnarinnar neituðu til að mynda að viðurkenna að byggingin væri til. Ég hef lesið sögur á netinu þar sem að gædinn neitaði að svara spurningum um bygginguna, þótt að hún væri beint fyrir aftan hann. Hún var einnig tekin útaf kortum af borginni. Allt var gert til að reyna að gleyma byggingunni, sem er auðvitað ómögulegt því hún gnæfði yfir alla Pyongyang borg með byggingarkranann oná og innviðina í rúst. Það mátti engin fara inn því menn voru hræddir um að þá myndi allt hrynja.

Þegar ég sá þessa frábæru myndaseríu í The Atlantic frá Norður-Kóreu þá sá ég að loksins er byrjað að klára hótelið. Það er víst egypskt fyrirtæki sem tók við verkefninu og núna hefur byggingin verið klædd að utan og þar á að opna veitingastaður á efstu hæðinni á næstu árum. Ryugyong lítur því svona út í dag. Talsverð breyting, þótt að ég hafi ekki séð neinar myndir af byggingunni innan frá ennþá.

Tristan da Cunha – afskekktasti staður í heimi (uppfært)

Þegar ég var með vini mína í heimsókn fyrir einhverjum dögum þá fórum við (eða aðallega ég) að ræða hver væri afskekktasti staður á jörðinni. Við erum jú frá Íslandi, sem flestum finnst afskaplega afskekkt – en það eru klárlega til umtalsvert einangraðari staðir. Ég fletti þessu upp á Wikipedia og þá fann ég eyjaklasann Tristan da Cunha. Þessar eyjur eru samt ekki afskekktustu eyjur í heiminum – sá heiður á Bouvet eyja (sjá á Google Maps), sem er norsk eyja suður af Suður-Afríku, sem er lítið annað en jökull.

Tristan de Cunha er þó afskekktasti byggði staður í heimi. Eyjaklasinn liggur á milli Suður-Afríku (2.816 frá Suður-Afríku) og Suður-Ameríku (3.360 frá Suður-Ameríku). Stærsta eyjan er um 100 ferkílómetrar og þarna búa 270 manns. Eyjurnar tilheyra Bretlandi. Allir á eyjunni eru bændur og einn helsti tekjustofninn er sala á frímerkjum. Flestallir íbúanna eru afkomendur breskra sjóliða, sem settust þarna að 1800 og eitthvað.

Allar myndir frá þessum eyjum minna ótrúlega mikið á Ísland. Höfuðstaðurinn, Edinburg of the Seven Seas líkist íslensku sveitaþorpi ansi mikið og flestar myndir af eyjunum á Flickr gætu þess vegna verið teknar á Íslandi eða á Færeyjum þótt þessar eyjur séu tugþúsundum kílómetra frá Íslandi.

Allavegana, fyrir landafræðinörd einsog mig, þá fannst mér magnað að lesa um þessar eyjur.

* * *

**Uppfært 3. julí** Ég fékk póst frá fólkinu sem setti inn myndirnar á Flickr, þar sem viðkomandi tók eftir mikilli traffík frá þessari vefsíðu. Viðkomandi sagði að þau hefðu ferðast á báti í heila viku frá Suður Georgíu og vegna erfiðs sjós gátu þau ekki komist á gúmmíbát í tvo heila daga að Tristan de Cunha eyjunni. Loks hafi einhverjir eyjaskeggjar komið og sótt þau útí bátinn og farið með þau á land. Hérna má sjá restina af myndunum úr ferð þeirra. Og fyrir áhugasama þá er hægt að kaupa ferðir til þessara eyja hérna.

Indlandsferð eftirmáli 1: Praktískir hlutir

Morgunbátsferð á Ganges í Varanasi

Morgunbátsferð á Ganges í Varanasi

Hérna eru nokkrir hlutir, sem ég punktaði hjá mér í Indlandsferðinni og geta hugsanlega gagnast þeim, sem hafa áhuga á því að ferðast til Indlands.

Almennt um ferðalög á Indlandi

  • Maður getur ferðast nánast hvert sem er á Indlandi með lestum. Þær ferðast mun hraðar en rútur (þó ekki mjög hratt) og í þeim er þægilegt að ferðast. Ef valið stendur á milli rútu og lestar, þá er nánast alltaf best að velja lest.  Það er nánast ómögulegt að sofa í rútum þar sem lætin á indverskum vegum eru óbærileg allan sólarhringinn, vegna flutningabíla, sem keyra á 30km hraða og flauta allan tímann.
  • Allir túristar ferðast í loftkældu rýmunum. Þau hafa þá kosti að loftið er sæmilega stabílt, það er upphitað þegar það er of kalt á næturna og kælt á daginn. Langoftast ferðuðumst við með næturlestum í 3AC farrýminu (3 = 3 kojur). 2AC er aðeins betra (2 = 2 kojur) en munurinn skiptir ekki miklu máli. Í styttri daglestum er hægt að velja venjulegan AC class, þar sem maður er með sæti í staðinn fyrir koju.  Stór kostur við loftkælinguna er líka að þar eru lokaðir gluggar, sem þýðir að það kemur ekki jafn mikið hljóð frá lestarteinunum.  Ódýrari farrýmin eru með opnum gluggum og þar er fólki troðið í hundraðatali inní litla vagna.  Það er kannski hægt að þola það í styttri ferðum innan borga, en það er varla hægt að mæla með því fyrir ferðamenn, nema að þú ætlir að ferðast um Indland á 100 krónum á dag.  Þannig að ef þú ætlar að eiga sjens á því að sofa í lest þá ferðastu í loftkældum vagni.
  • Það er algjörlega nauðsynlegt að panta miða í lestar með fyrirvara. Það skiptir engu máli þótt að það sé low-season hvað varðar ferðamenn því að á nánast öllum leiðum eru Indverjar 90-99% farþeganna og þeir panta miða með löngum fyrirvara. Þetta þýðir smá skipulag, en ég myndi mæla með að panta miða í lestar helst viku fram í tímann og jafnvel lengra ef hægt er. Flest hótel panta miðar í lestar gegn vægu gjaldi (kannski 50-100 rúpíur). Ég mæli klárlega með að fólk nýti sér það. Það að bíða í miðasölu á indverskum lestastöðum er einfaldlega ömurlegt. Indverjar ryðjast í biðröðum og á lestarstöðvum taka þær ógurlegan tíma, auk þess sem að afgreiðslufólkið (jafnvel í ferðamannaröðunum) talar oft slæma ensku. Eina undantekningin á þessu er lestarstöðin í Delhi. Þar er verulega þægilegt að panta miða fyrir túrista.
  • Ansi mörg hótel bjóðast til að sækja þig á lestarstöðar.  Oft gegn smá gjaldi, sem er oftast lægra en það sem þú nærð að prútta þig niður á. Þetta tryggir það að þú kemst á réttan stað og þú kemst hjá því að prútta við indverska rickshaw bílstjóra um miðjan nótt. Sem er gott.

Hlutir, sem þarf að taka með

  • Nestisbox fyrir lengri lestarferðir – þú getur beðið veitingstaði um að útbúa mat fyrir lengri lestarferðir, en pakkningarnar þeirra eru alltaf drasl. Taktu með þér nestisbox, sem þú getur notað undir snyrtivörur eða eitthvað annað þegar það er ekki notað undir mat
  • Lítinn rafmagnsketil til að hita vatn. Við reynum að sjóða vatn og drekka það í stað þess að kaupa plastflöskur, sem eru viðbjóður og menga mikið – auk þess sem það þarf að keyra flöskuvatn langar leiðir.

    Ímyndaðu þér hvað þú drekkur mikið af plastflöskuvatni á svona ferðalögum. Örugglega 2 flöskur á dag eða meira. Á mánaðarferðalagi ertu því að kaupa þér 60 flöskur, sem eru kannski ekki endurunnar heldur enda í hafinu eða í einhverjum viðbjóðs ruslahaug útí vegkanti.  Nei, að sjóða sér vatn er klárlega málið. Þetta ætti fólk að gera í þeim löndum þar sem kranavatn er á mörkunum (þar sem innfæddir drekka það en túristar ekki) og líka á stöðum þar sem kranavatnið er slæmt (einsog á Indlandi).

    Þetta er frekar einfalt – þú hellir bara kranavatni í ketilinn, sýður vatnið í 2-10 mínútur og setur það á almennilega flösku (við vorum með Laken stálflöskur). Þegar að vatnið er orðið kalt þá bætirðu smá sítrónu eða límónu útí til að bæta bragðið. Þetta spara pening og bætir umhverfið. Ég nota líka ketilinn til að sjóða mér vatn fyrir Nescafé á hverjum morgni. Það sparar pening og kaffið sem maður kaupir á veitingastöðum er hvort eð er Nescafé (og þá mjöööög dauft blandað).

  • Vasahnífur og vasaljós. Nauðsynlegt á öllum bakpokaferðalögum.
  • Góð heyrnartól fyrir iPod-inn þinn, sem blokka út umhverfishljóð sæmilega vel. Já, og góða eyrnatappa og svefngrímu fyrir lestarferðir.
  • Það er ekki auðvelt að kaupa góðar snyrtivörur, góða sólarvörn eða dömubindi á Indlandi.  Taktu slíkt með.

Prútt og annað

Indverjar eru ein fátækasta þjóð heims.  Á Indlandi rekst maður á gríðarlegan fjölda fólks, sem getur ekki látið sig dreyma um þann lúxus sem við búum við í okkar samfélagi.  Stundum getur það verið erfitt að til dæmis ákveða hversu langt maður á að ganga í prútti við Indverja.

Mín grundvallarregla er að prútta nánast alltaf þegar ég veit að viðkomandi eru að gefa mér túristaverð.  Það er ágætt að spyrja til að mynda á hótelum hvað maður á að borga fyrir ferðir á milli staða innan borga.  Þá hefurðu indversku verðin og getur prúttað út frá því.  Oftast er maður að prútta við bílstjóra og þá fer það dálítið eftir hvert farartækið er hversu mikið maður prúttar.  Mjög oft ferðuðumst við til dæmis með hjóla-rickshaw.  Mennirnir sem keyra slík farartæki (eða draga þau í Kolkata) eru gríðarlega fátækir.  Það er auðveldlega hægt að prútta ferðir þeirra niður í 5-10 rúpíur, en þá verður maður að spyrja sig líka hvað maður eigi að fá útúr því.  Viltu virkilega að maður sé að hjóla með þig í gríðarlegri mengun fyrir 20 krónur fyrir klukkutíma ferð?

Auðvitað vill maður ekki að allir Indverjar sjái dollaramerki þegar þeir sjá útlendinga.  En það er oftast gott að prútta eitthvað smá, en nota aðeins skynsemina varðandi það hversu langt á að ganga.  Stundum er hægt að prútta langt niður, en gefa svo á eftir veglegt þjórfé.  Þá hefur maður allavegana prúttað og haldið heiðrinum, en maður er líka að hjálpa mönnum, sem eiga lítið annað en hjólið sem þeir eru á.

Ég mæli klárlega með því að fólk noti hjóla-rickshaw sem allra allra allra mest.  Þessi farartæki menga ekki neitt og með því að versla við þessa menn, þá er maður að hjálpa fólki sem á ekkert.

Kostnaður

Og hvað kostar þetta svo allt? 1 milljón, 2 milljónir, 5 milljónir?
Nei, svona ferðalag einsog við vorum á kostar mun minna en fólk heldur.

Mjög oft held ég þó að fólk sé verulega að ofmeta kostnaðinn við svona bakpokaferðalög til framandi staða og vanmeta kostnaðinn við sólarlandaferðirr til Spánar eða helgarferðir til London og Köben

Kostnaður við svona ferð má skipta í nokkra hluta

  1. Flugmiði á staðinn. Þetta er auðvitað mismunandi eftir því hvar fólk býr. Við vorum heppin að fá flugmiða frá Stokkhólmi til Mumbai fram og tilbaka fyrir 3.500 sænskar krónur – sirka 64.000 íslenskar
  2. Hótelkostnaður. Við gistum nánast allar nætur á mjög ódýrum hótelum. Ekki í lægsta klassa, en í svona lágum-mid-range klassa. Það þýðir að oftast borguðum við frá 600-1000 rúpíur fyrir hverja nótt. Hæst fórum við í 2000 rúpíur, en þá vorum við með sundlaug á hótelinu. Öll verð eru fyrir okkur tvö. Það er hægt að fara í mun ódýrari hótel – allt niður í nánast núll, en þá getur hreinlæti verið talsvert slæmt. Það ætti þó ekki að vera erfitt að finna fín hótel á í kringum 400-600 rúpíur fyrir tvo í flestum borgum Indlands, sem eru mjög fín og með loftkælingu í þeim borgum þar sem það þarf.
  3. Matur er kannski stærsti kostnaðarliðurinn, en það er mjög erfitt að dæma hver meðalkostnaðurinn er þar. Við borðum stundum 2 máltíðir á dag og stundum 3.Morgunmatur kostar oftast um 100-150 rúpíur á mann fyrir brauð, egg og safa (ég laga mitt eigið kaffi). Hádegistmatur kostar kannski 200 rúpíur og góður kvöldmatur með nóg af kjöti getur kostað kannski upp í 2-400 rúpíur. EF þú hins vegar sleppir því að borða kjöt þá geturðu klárlega lækkað þennan kostnað umtalsvert. Ef þú borðar bara grænmetisfæði og getur hugsað þér að borða hrísgrjón og chapati (brauð) og dal (baunir) þá geturðu auðveldlega komist af með undir 100 rúpíur fyrir hverja máltíð.

    Ef þú ert tilbúinn að fara í götumat getur verðið farið enn lægra. Í Kolkata borðuðum við nokkrum sinnum á götumatsstað hjá hótelinu og borguðum milli 20-40 rúpíur á manninn.  Til að fá prótein með matnum án þess að það kostaði of mikið þá keypti ég mér oft omelettu með réttinum, sem ég keypti.  Egg er sennilega ódýrasti prótein gjafinn á indverskum veitingastöðum. Kjötskammtar í karríréttum eru oftast mjög litlir.

  4. Ferðalög á milli staða. Oftast eru það lestar á milli staða. Næturlest á góðu farrými á milli tveggja borga, sem eru í talsverði fjarlægð (3-500 km) getur kostað uppí 1.100 rúpíur á manninn. Verðið lækkar eftir því sem vegalengdin styttist og rútur eru enn ódýrari.

    Innan borga tókum við mest hjóla-rickshaw eða mótor-rickshaw. Sá kostnaður ætti ekki að fara yfir 1-300 rúpíur á dag – fyrir 300 þá ertu næstum því komin með einkabílstjóra allan daginn.

  5. Aðgangur að túristastöðum. Við ferðumst allt sjálfstætt og erum því ekki að borga pening fyrir gæda eða slíkt (nema þegar við fengum okkur gæd inní einhverjum höllum. Stundum leigðum við okkur þó rickshaw fyrir allan daginn til að taka okkur á milli staða. Nánast alls staðar þurfa útlendingar að borga mun hærra aðgöngugjald en Indverjar. Algengt verð inní virki og slíkt er 200-300 á mann (Taj Mahal var dýrasti miðinn á 750).

Þegar þetta er tekið saman, þá er ekki galið að ætla að hefðbundinn dagur sé svona (á einstakling) á nokkuð þægilegu ferðalagi með góðum mat, þar sem ferðast er sæmilega hratt á milli staða.

Hótel: 350
Matur: 250
Ferðalög (lest á 2-3 daga fresti + rickshaw): 300
Aðgöngumiðar: 100
= 1.000 rúpíur á dag.
= 2.500 íslenskar krónur á dag

Fyrir einn mánuð þýðir það 75.000 krónur plús flugfar fyrir svona ferð og fyrir tveggja mánaða ferð erum við að tala um 150.000 + flugfar á mann. Ef fólk ber það saman við sólarlandaferðir til Spánar með öllum kostnaði eða verslunarferð til London, þá held ég að menn séu fljótir að komast uppí sömu upphæðir.

Auðvitað hafa ekki allir efni á þessu. En ég hef reynt að benda sem flestum á að ef fólk ferðast sjálfstætt, er tilbúið að búa á hótelum, sem teljast ekki lúxus og borða mat á venjulegum veitingastöðum, þá geta menn ferðast til mest framandi landa í heiminum fyrir minni pening en þeir myndu eyða á Benidorm. Allt sem þarf er góð ferðahandbók, smá sjálfstraust og vilja til að sjá heiminn. Ég get lofað fólki að það á eftir að fá mun meira útúr svona ferð en sólaralandaferð til Spánar.

Mæli ég með ferðalagi til Indlands?

Það verður að tækla í tveim hlutum.

  1. Ef þú hefur aldrei ferðast utan Evrópu, Bandaríkjanna eða annarra ríkra landa. Þá, nei. Indland er geðveiki og landið getur svo auðveldlega orðið fullkomlega yfirþyrmandi að óvanir ferðamenn eiga ekki eftir að geta höndlað það. Umferðin, mengunin og fátæktin er svo svakaleg að jafnvel nokkuð vanir ferðamenn einsog ég eiga stundum erfitt með að höndla það. Þannig að byrjaðu á einhverju auðveldara. Sjáðu Suð-Austur Asíu eða Suður-Ameríku. Svo Indland.
  2. Ef þú hefur ferðast utan ríku landanna og ert sæmilega vanur ferðamaður. ÞÁ JÁ! Eftir hverju ertu að bíða?  Indland er stórkostlegt. Frá Taj Mahal til Gullna Hofsins. Fólkið er yndislegt og maturinn (allavegana þangað til að þú færð í magann) er stórkostlegur. Fá lönd bjóða uppá annað eins magn af merkilegu fólki og merkilegum túristastöðum.

Indland er oft erfitt, en allir þessu stórkostlegu staðir bæta upp fyrir það svo um munar. Plús að eftir að maður kemur heim, þá man maður eftir Taj Mahal, en ekki endilega erfiðu lestarferðinni til að komast á staðinn.

Það er mjög ódýrt að ferðast á Indlandi og lestarnar gera ferðalögin þægileg. Þetta land verður fjölmennasta land heims eftir nokkur ár og ég leyfi mér að fullyrða að maður hefur ekki séð heiminn fyrr en maður hefur komið til Indlands.

Góða ferð!

Indlandsferð 17: Ferðalok

Hjá Taj Mahal

Hjá Taj Mahal

Þá er þessi Indlandsferð búin. Tveir mánuðir í þessu brjálaða og yndislega landi. Ég hefði alls ekki viljað hafa ferðina styttri því dagsrkáin var mjög þétt nánast allan tímann, en eftir tvo mánuði er maður líka búinn að fá sinn skammt af Indlandi.

Því Indland getur verið lygilega frústrerandi á tíðum. Það er ekki erfitt að verða ástfanginn af Indlandi og Indverjum, en það er ekki heldur erfitt að verða brjálaður útí landið og fólkið. Það er hluti af því sem gerir þetta land svo magnað.

Ég verð líka að játa að eftir að ég fékk magapestina hef ég átt einstaklega erfitt með að borða ekta indverskan mat. Ég ældi tandoori kjúklingi og eftir það langaði mig ekki í tandoori. Því var ég alveg einstaklega varkár í mataræði síðustu vikurnar og maturinn, sem hafði verið stórkostlegur í Rajastan, varð frekar óspennandi síðustu vikurnar – steikt hrísgrjón og slíkt.

* * *

Síðasta vikuna í ferðinni vorum við á Havelock eyju. Við kláruðum Advanced Open Water kúrsinn, sem gerir okkur kleift að kafa á fleiri stöðum í framtíðinni. Það er gott að hafa lokið því af því að kafanirnar í kúrsinum eru ekki alveg jafn skemmtilegar og þær kafanir þar sem maður hefur frelsi til að gera það sem maður vill gera. Auk næturköfunarinnar (sem var algjört highlight) þá tókum við síðasta daginn á námskeiðinu myndavélaköfun og svo köfun þar sem við áttum að greina fiska.

Síðasta daginn á Havelock vöknuðum við svo snemma og keyrðum yfir á hina yndislegu strönd 7 þar sem planið var að kafa með fílnum Rajan. Þessi fíll er nokkuð frægur eftir að hann lék í myndinni The Fall þar sem hann kafar (sjá ótrúlegt myndband á Youtube). Fíllinn, sem er orðinn rúmlega sextugur, kafar enn þann dag í dag með fólki. Við mættum því á ströndina ásamt 6 öðrum köfurum og vonuðumst til að hann myndi kafa með okkur. Við urðum þó fyrir vonbrigðum þar sem öldurnar voru það háar að greyið fíllinn þorði ekki útí. Þannig að við fengum bara aðeins að synda í vatninu meðan hann labbaði aðeins um. Sem var jú ótrúlega skemmtilegt þótt að það væri ekki jafn spennandi og köfun með honum.

Seinna um daginn tókum við svo ferju til Port Blair, sem er aðalborgin á Andaman eyjum og á fimmtudaginn tókum við þaðan fyrsta af fimm flugum á leið okkar til Stokkhólms. Port Blair => Chennai => Hyderabad => Mumbai => Zurich => Stokkhólmur.

Við komum svo hingað til Stokkhólms seinnipartinn á föstudaginn eftir 34 tíma ferðalag, sem var með því lengra, sem ég hef lagt í (á leiðinni svaf ég heila 3 tíma). Eftir heimkomuna höfum við notið Stokkhólms. Farið í CrossFit, borðað á Serrano og kíktum svo útá lífið með vinum í gær. Það er yndislegt að vera kominn aftur heim til þessarar frábæru borgar.

Frábært ferð og ég vona að þið hafið notið þess að lesa þessa ferðasögu. Ég mun á næstu dögum skrifa smá praktíska punkta um ferðalög til Indlands.

Skrifað á eyjunni Södermalm í Stokkhólmi klukkan 19.36

Indlandsferð 16: Paradís?

Andaman eyjur eru 1.000 kílómetra austan við meginland Indlands og maður þarf oft að minna sig á að maður er (formlega allavegana) enn staddur á inversku landi.

20110413-064032.jpg

Ég á strönd 7 á Havelock eyju.

Andaman og Nicobar eyjur (túristar fá ekki að koma á Nicobar) eru eyjaklasar sem innihalda hundruðir lítilla eyja. Hérna búa enn innfæddir ættbálkar, sem eru þó sumir í útrýmingarhættu og mikill meirihluti íbúanna kemur frá meginlandi Indlands, þar á meðal stór hópur, sem flúði uppskipti Bengal héraðs (í Indland og Austur-Pakistan/Bangladesh). Af 62 tegundum spendýra, sem búa á eyjunum eru 32 þeirra bara til hér.

Eyjurnar eru eins nálægt túristabæklinga-paradís og hægt er að komast. Ég skrifa þetta fyrir utan litla bungalow-ið okkar á eyjunni Havelock og 100 metra frá mér sé ég ströndina og Andaman hafið. Nánast allar eyjurnar (Havelock meðtalin) eru þaktar hitabeltisskógi frá hæstu punktum og alveg að hvítum ströndum. Strandirnar eru fullkomnar með algjörlega hvítum sandi og blágrænum sjó. Og jafnvel Havelock eyja er ótrúlega lítið þróuð þegar að kemur að túrisma. Hérna er ódýrt að vera – stutt frá okkar bungalow er hægt að leigja sér gistingu fyrir um 250 isk á nóttu og okkar bunglaow kostar undir 2.000 krónum á mann á dag (miklu dýrara en á meginlandinu, en fyrir svona paradís, helvíti ódýrt). Einu gallarnir, sem ég get fundið, er að hérna er erfitt að kaupa áfengi og að hitinn á nóttunni er svo mikill að það er smá erfitt að sofa í okkar ó-loftkælda húsi).

* * *

Og hérna eru líka rétt fyrir utan eyjuna stórkostleg kóralrif með mögnuðu dýralífi, sem býður uppá frábæra köfunarmöguleika.

Strönd númer 7, sem er hinummegin á eyjunni og við heimsóttum á laugardaginn, var í einhverju Time blaði valin besta strönd í Asíu og það er auðvelt að sjá af hverju. Hún er gríðarlega löng, með fullkomnum hvítum sandi, fallegum skógi í bakgrunni, 28 gráðu heitum sjó og nánast engu fólki. Við erum hérna utan mesta túristatímabilsins, en samt kom það mér á óvart hversu fáir eru hérna. Það hjálpar sennilega að til Port Blair eru bara bein flug frá Kolkata og Chennai og til að komast á Havelock eyju þarf að taka 3 tíma ferju frá Port Blair.

Við komum hingað til að njóta sólarinnar og kafa. Við höfum ekki gert svo mikið af því að njóta sólarinnar, því að asninn ég brann illa á bátnum í fyrstu köfuninni og hef því forðast sólina. En þess í stað höfum við kafað slatta og það hefur verið frábært.

Við ákváðum að bæta aðeins við köfunarnámið okkar sem að ég byrjaði á í Hondúras fyrir 6 árum og taka Advanced kúrsinn. Það gefur okkur m.a. leyfi til þess að kafa dýpra (30 metra í staðinn fyrir 18) og í myrkri. Til þess að fá það leyfi höfum við því farið í nokkuð sérstakar kafanir. Við höfum farið í djúpköfun og köfun þar sem við áttum að komast leiðar okkar með hjálp kompás. En hápunkturinn var án ef að kafa í fyrsta skipti í myrkri.

Hitinn hérna á kvöldin er gríðarlega mikill og því er það yndislegt að kafa hérna á kvöldin. Hitastigið í vatninu er það sama og að sjá hlutina með vasaljósi í algjöru myrkri er einfaldlega stórkostlegt. Við köfuðum 4 saman í hóp með lítil vasaljós og skoðuðum fiskana, sem að kunna betur við sig í myrkri. Þetta var mögnuð lífsreynsla og magnaðast af öllu var í lok köfunarinnar þegar við slökktum á öllum ljósunum (við héldum þá í línu úr bátnum) og á um 5 metra dýpi lékum við okkur að því að snerta svif, sem að lýstu í myrkrinu þegar við snertum þau. Það er einhver almagnaðasta sjón, sem ég hef séð því svifin eru útum allt og í hvert skipti sem maður hreyfði hendur eða fætur þá lýstust upp hundruðir svifa.

* * *

Það eru ekki nema nokkrir dagar eftir af þessari ferð og bara nokkrar kafanir hérna á Andaman eyjum eftir. Á miðvikudaginn byrjum við að þoka okkur nær Stokkhólmi.

Ég hef ekki farið á netið í fimm daga og því er ég að skrifa þetta blogg á símann minn og mun reyna að birta það þegar ég kemst nær netsambandi á ný.

Skrifað á Havelock eyju í Andaman eyjaklasanum á Indlandi klukkan 17.14 mánudaginn 11.apríl.

Indlandsferð 14: Bitinn

Áður fyrr var ég oft spurður af því hvernig ég þorði/nennti að ferðast einn. Ég útskýrði fyrir fólki að það að ferðast einn væri kannski ekki mitt fyrsta val – ef ég hefði haft æsta og skemmtilega ferðafélaga þá hefði ég valið það. En valið stóð oftast milli þess að fara til Evrópu með félögum eða fara til framandi landa einn með bakpoka – og ég valdi það seinna.

Síðustu tvær löngu ferðir (Indónesíu og Indland) hef ég farið með unnustu minni og munurinn er auðvitað mikill. Hérna í Bangladess hef ég verið einn síðustu daga (Margrét þurfti að fara annað – við hittumst svo aftur á morgun á Indlandi) og það er dálítið skrítið að rifja upp gömlu taktana. Allt í einu þarf ég að tala við alla hótelstarfsmenn, sama hversu pirrandi þeir eru og sama þótt þeir tali álíka góða ensku og Manuel í Fawlty Towers. Ég hef enga Margréti, sem getur tekið yfir samræðurnar þegar ég er farinn að æsa mig. Og allt í einu þarf ég að skipuleggja allt, hringja öll símtöl og prútta við alla leigubílstjóra. Það er jú ótrúlega þægilegt að geta deilt þeirri ábyrgð – auk þess að það er auðvitað ómetanlegt að hafa góðan ferðafélaga á öllum öðrum stundum.

Það að ferðast einn hefur þó einstaka kosti. Til dæmis kynnist maður fyrr öðru fólki. Það eru kostir og gallar við það að tala íslensku. Kostirnir eru að enginn skilur mann, en gallarnir eru líka að enginn skilur mann og því hikar fólk við að koma upp að manni og byrja að spjalla. Það er mun auðveldara fyrir enskumælandi fólk að kynnast öðrum óvart þegar að aðrir heyra samtöl þeirra. Þegar maður ferðast einn í Bangladess, þá er maður sífellt að kynnast fólki.

* * *

Ég hef verið hérna í Khulna í Suður-Bangladess síðan á fimmtudag þegar að ég kom hingað með rútu frá Dhaka. Rútuferðin var ein af þessum rútuferðum, sem lítur hrikalega út á pappírnum en reynist á endanum nokkuð skemmtileg. Ég var í krappí rútu í miklum hita og ferðin tók 9 tíma í staðinn fyrir 6 einsog var lofað. En á móti kom að Bangladess er fallegt land og það var gaman að sitja við gluggann og horfa á landið þjóta framhjá. Og ég var líka með frábæran sessunaut, sem talaði góða ensku og talaðu um Bangladess mestallan tímann. Auk þess var langur partur ferðarinnar á bílaferju, þar sem ég fór útúr rútunni og kynntist enn fleira fólki.

Dagarnir hérna í Khulna hafa ekki verið einsog ég planaði þá. Stærsta ástæðan fyrir því að koma hingað suður var að ég ætlaði að fara í ferð til Sundarbans, sem er mikill skógur sem nær niður að Bengal Flóa og er meðal annars heimili Bengal tígursins. Ég skoðaði milljón möguleika á lengri og styttri ferðum, en smám saman fóru þeir allir í rugl. Bæði voru aðstæður ekki sem bestar fyrir slík ferðalög akkúrat núna og svo voru hérna fáir túristar og að lokum stóð ég frammi fyrir því að geta bara farið í dagsferð, sem kostaði yfir 200 dollara. Mér fannst það glórulaust og því hætti ég á endanum við að sjá skóginn.

Ég hef líka verið að jafna mig eftir að hafa verið étinn mjög illa af moskító flugum á hótelinu í Dhaka. Ég vissi það ekki fyrr en eftirá hversu mikil plága moskító flugur eru í Dhaka – því oftast eru moskító flugur minna vandamál í borgum en í sveitum. Á ógeðshótelinu mínu í Dhaka var engin loftkæling og opinn gluggi og það leiddi til þess að ég var gjörsamlega étinn af moskító flugum. Morguninn eftir taldi ég yfir 50 bit á líkamanum. Þau eru að skána núna (þökk sé Tiger Balm og sjálfsaga) en flest sjást þó enn.

Í staðinn fyrir Sundarbans fór ég í dagsferð til Bagerhat og nærliggjandi bæja. Þar skoðaði ég meðal annars frægustu mosku Bangladess, sem var ágæt en svo sem ekkert til þess að skrifa langa pistla um. Ég skoðaði einhverjar aðrar moskur og hindúa turna og eitthvað fleira. Litlu bæirnir virtust vera talsvert íhaldssamari en Dhaka og Khulna því allt í einu var meirihluti kvenna í svörtum sloppum með hulin andlit.

Ég get ekki að því gert að verða alltaf hálf leiður þegar ég sé þennan klæðnað. Það er einsog einhver gleði sé tekin útúr samfélögunum þegar að konur mæta manni ekki í litríkum klæðum heldur í svörtum kápum með hulin andlit. Ég elska að skoða mannlíf í nýjum borgum, en það er bara eitthvað svo þrúgandi við það þegar að helmingur íbúanna er allt í einu í klæðum, sem eiga að fela öll þeirra sérkenni. Ég fékk þetta sterklega á tilfinninguna þegar ég var í Hama á Sýrlandi og aftur núna.

* * *

Stærsti íþróttaviðburðurinn í þessum heimshluta kláraðist í gær – heimsmeistarakeppnin í krikket. Keppnin hefur staðið yfir síðustu sex vikur og var keppt í borgum á Indlandi, Bangladess og Sri Lanka. Það hefur verið ómögulegt að missa af þessari keppni á Indlandi því að indverskir krikket-spilarar eru dýrkaðir og dáðir. Alls staðar er krikket númer 1 og áhugi til að mynda á fótbolta virðist frekar lítill.

Í gær var úrslitaleikurinn á milli Indverja og Sri Lanka. Báðar þjóðir hafa unnið keppnina einu sinni áður, en nánast allar þjóðirnar, sem geta eitthvað krikket hafa einhverja tengingu við Bretland.

Ég horfði á ansi stóran hluta leiksins og reyndi í leiðinni að lesa mér til um reglurnar. Ég þekki hafnabolta vel og því voru þessar leiðbeingar nokkuð hjálplegar. Jafnvel þótt að leikurinn hafi verið gríðarlega langur þá var ég orðinn verulega spenntur í lokin. Indland vann leikinn þrátt fyrir að þeirra þekktasti leikmaður hefði lítið getað í leiknum og ég geri ráð fyrir að fagnaðarlætin verði enn í gangi þegar að við komum aftur til Kolkata.

* * *

En allavegana, ég sit núna á netkaffihúsi í miðbæ Khulna. Eftir klukkutíma tek ég rútu norður til Jessore og þaðan á ég í kvöld flug aftur til Dhaka. Á morgun á ég svo pantað flug frá Dhaka aftur til Kolkata á Indlandi.

Skrifað í Khulna, Bangladess klukkan 2.35

Indlandsferð 13: Eh, Bangladess

Rickshaw umferðarteppa í Dhaka

Rickshaw umferðarteppa í Dhaka

Ok, ég veit ég veit – það passar ekki alveg að kalla þessa færslu Indlandsferð því að ég er jú í öðru landi, Bangladess. En mér til varnar, þá er erfitt að sjá muninn á Dhaka í Bangladess og öðrum borgum Indlands, sem við höfum verið í að undanförnu.

Hérna eru sömu lætin, sama umferðin, rickshaw (hjóla og vélknúnir), fólkið lítur út eins, konur í sarí og svo framvegis. Um 90% íbúanna í Bangladesh eru múslimar, en maður sér samt ekki mikinn mun útá götu. Jú, það hljóma bænaköll einsog í öllum borgum Indlands og hér eru menn með hvítar húfur og konur með slæður. En fatnaður kvenna er samt ótrúlega frjálslegur og maður hefur á tilfinningunni að konurnar séu með slæður frekar til að verjast sólinni en vegna þess að einhver skipi þeim að vera með þær.

Semsagt, þetta er allt voða frjálslegt. Fólkið hérna virðist eiga miklu meira sameiginlegt með Indverjum í Vestur-Bengal heldur en Pakistönum í Punjab.

* * *

Bangladesh hefur verið sjálfstætt ríki í aðeins 40 ár – eða frá 1971. Þegar að Indlandi var skipt upp stuttu fyrir sjálfstæði hafnaði Austur-Bengal í Pakistan vegna þess að meirihluti íbúa á því svæði voru múslimar. Pakistan var hálf skrítið land í upphafi því það var engin land-tenging á milli Austur-Pakistan (Bangladess) og Vestur-Pakistan (í dag, Pakistan) – auk þess sem að fólkið talaði sitthvort tungumálið. Öllu landinu var svo stjórnað af fólki frá Vestur-Pakistan. Það fór líka svo að þegar átti að gera Urdu að þjóðarmáli Pakistans þá gerðust kröfur um sjálfstæði Austur-Pakistans háværari (hér er töluð bengalska). Það fór svo að lokum eftir 9 mánaða stríð við Vestur-Pakistan með hjálp frá Indlandi (og gríðarlegan fjölda fallna) að Bangladesh varð að sjálfstæðu ríki.

Bangladess er 8. fjölmennasta ríki veraldar. Hér búa um 160 milljón manns, sem er fjórföldun á fólksfjölda frá árinu 1950 (semsagt, fjöldi íbúa hefur farið úr 40 milljónum í 160 á 60 árum!) Landið er þéttbýlasta stóra land heims (það er að segja eingöngu borgríki og mjög lítil ríki eru þéttbýlari). 90% íbúanna eru múslimar og hin 10% eru nánast allir hindúar. Landið er í 158. sæti yfir landsframleiðslu per íbúa í heimi, fyrir neðan bæði Pakistan og Indland. Landið er því fátækasta land í heimi, sem ég hef heimsótt. Landsframleiðsla per íbúa er til að mynda hærri á Haiti, Mali og í Kyrgyzstan.

* * *

Ég kom hingað til höfuðborgarinnar Dhaka með flugi frá Kolkata. Dhaka er gríðarlega stór og fjölmenn borg (9. fjölmennasta borg í heimi með um 15 milljón íbúa) og umferðin og mengunin er nánast óbærileg. Menguninni er bjargað frá enn verra ástandi vegna þess að hérna virðast vera sæmilegar strætó-samgöngur (strætóarnir eru eldgamlir og hanga saman á einhvern undraverðan máta) og einnig er gríðarlega mikið af (fallega skreyttum) hjóla-rickshaw um alla borg.

Ég eyddi gærdeginum í skoðanaferð um borgina. Ég var slappur eftir hálf skrítinn svefn undanfarna daga (höfðum þurft að vakna fyrir kl 5 3 daga í röð), en átti þó ágætis dag í borginni. Ég borgaði hjóla-rickshaw gaur fyrir að taka mig á helstu túristastaði í gömlu Dhaka. Ég skoðaði búdda musteri, moskur og svo Bleiku höllina, sem liggur við bakka Buriganga ánnar. Ég skoðaði líka hafnarsvæðið, þar sem að farþegaferjur og litlir bátar fullir af vatnsmelónum sigla um.

Ég gisti á hóteli rétt fyrir norðan elsta hluta borgarinnar. Hótelherbergið mitt er hreinræktað ógeð. Það er í mid-range kaflanum í 6 ára gömlu Lonely Planet bókinni minni og það fær mig til að efast um annaðhvort geðheilsu höfunda bókarinnar eða skynsemi þess að vera með 6 ára gamla gædbók. Eini kosturinn við hótelið er að hérna í lobbíinu eru tölvur og sturtan var furðugóð.

Annars er Dhaka ekkert sérstaklega heillandi borg þegar að kemur að byggingum og slíku. En fólkið hérna er jafn yndislegt og Indverjar. Þótt að ég hafi verið á Indlandi í sjö vikur þá finnst mér það ennþá magnað hversu merkilegur maður þykir hér. Krakkar hópast í kringum mann og alls konar fólk starir á mann líkt og maður sé það mest spennandi, sem hafi komið fyrir þau þessa vikuna. Þegar íslenskir krakkar eru litlir er þeim kennt að stara ekki. Ef að 230 cm svartur maður hefði labbað inná skólalóðina þegar ég var 8 ára þá hefði ég reynt einsog ég gat að stara ekki – en það sama á ekki við hér. Börn, jafnt og fullorðnir stara á mann og eitt lítið bros frá mér er nóg til þess að gera alla glaða. Þetta er furðuleg tilfinning. En það gerir það líka að verkum að þrátt fyrir mengunina og lætin þá er erfitt að vera ekki heillaður af Dhaka og Bangladess.

*Skrifað í Dhaka, Bangladess klukkan 11.04*

Indlandsferð 12: Fjallaloft í Darjeeling

20110328-024127.jpg

Besta útsýni göngunnar í morgun

Í fyrsta skipti í þessari ferð hefur veður sett talsvert strik í reikninginn hjá okkur. Veðrið hingað til hefur verið nokkurn veginn fullkomið, því að þetta er góður árstími til að heimsækja Indland. Í Rajasthan var hitinn oftast í kringum 30 gráður og sól uppá hvern einasta dag. Við sáum, að ég held, aldrei rigningu.

Síðustu dagana var þó hitinn orðinn ansi mikill. Í Khajuraho fór hann yfir 35 stig og svo yfir 37 stig í Varanasi. Við vorum því spennt yfir því að koma hingað upp í Himalaya fjöllin til Darjeeling.

En veðrið hérna er auðvitað mun óvissara en nálægt sjávarmáli. Hérna eru í raun bara tveir mánuðir þar sem að ferðamenn geta verið nokkuð vissir um gott gönguveður og gott skyggni – það er október-nóvember. Næst besti tíminn er vanalega talinn vera febrúar-maí. Hvernig sem það nú nákvæmlega virkar þá hefur verið skýjað og þoka hérna allan tímann. Það er leiðinlegt því að Darjeeling er aðallega frægt fyrir fjallasýn – frá bænum á að sjást nokkuð vel í þriðja hæsta fjall heims, Kanchenjunga, sem er yfir 8.700 metra hátt. Í dag og síðustu daga höfum við hins vegar bara séð þoku.

Við eyddum gærdeginum á labbi um sjálfan bæinn. Bærinn er ekki stór á indverskan mælikvarða. Allt frekar afslappað og ef það væri ekki sér-indversk-bílflautu-geðveiki hérna einsog alls staðar, þá væri þetta friðsæll bær líka (hann er í raun nokkuð friðsæll – þrátt fyrir flautin). Við löbbuðum alla leið í dýragarðinn, sem er nokkuð þekktur þar sem þetta er eini dýragarðurinn í heiminum, þar sem fæðst hafa snjó-hlébarðar (e: snow leopard – dýr, sem heita í höfuðið á nýjasta Apple MacOSX stýrikerfinu). Í dýragarðinum er slatti af dýrum úr Himalaya fjöllum, sem var skemmtilegt að sjá – svo sem rauða pöndu og svo snjó-hlébarða, sem var svo fallegur að Margrét hélt því fram um tíma að hann væri fallegasta dýr, sem hún hefði séð (s.s. fallegri en kötturinn Suarez, sem býður eftir okkur í Stokkhólmi).

Við fórum svo innná Himalayan Mountaineering Institute (HMI), sem að frægasti sonur Darjeeling – Tenzing Norgay – var forstöðumaður fyrir lengi. Á HMI er safn, þar sem sýndur eru munir tengdir fjallgöngu og fjallað ítarlega um það þegar að Darjeeling búinn Norgay varð fyrstur manna, ásamt Edmund Hillary, til að klífa Mount Everest. Fyrir utan safnið er svo stytta af kappanum, sem að Hillary afhjúpaði eftir andlát hans.

* * *

Í dag fórum við svo í göngu í nágrenni Darjeeling. Við höfum ekki mikinn tíma, en ákváðum að taka fyrsta hluta Maneybhanjang-Phalut leiðarinnar. Við keyðrum því yfir til Nepal, þar sem að gæd tók á móti okkur. Hann labbaði svo með okkur í þrjá tíma í grenjandi rigningu og nánast engu skyggni. Það gerðist sirka tvisvar á göngunni að við sáum lengra en 10 metra (sjá mynd). Eftir þann tíma ákváðum við að stytta gönguna og fara tilbaka, enda lítið gaman að labba blaut í gegn án þess að sjá neitt.

Núna sitjum við því inná hóteli og reynum að ná einhverjum hita aftur í líkamann. Á morgun verður vonandi eitthvað útsýni til að sjá fjöll við sólarupprás og svo um hádegið eigum við flug til Kolkata.

*Skrifað í Darjeeling, Vestur Bengal, Indlandi klukkan 14.40*

Indlandsferð 11: Punktar um Indland og Indverja

20110327-024646.jpg

Síki á hjóla-rickshaw á markaði í Amritsar

Eftir 14 klukkutíma lestarferð frá Varanasi til Siliguri og 3 klukkutíma jeppaferð (þar sem við fórum úr nokkrum metrum yfir sjávarmáli uppí 2.100 metra) hingað til Darjeeling þá er einsog við séum komin til annars lands.

Því Darjeeling á auðvitað miklu meira sameiginlegt með Nepal, Sikkim og Bhútan heldur en nokkurn tímann Indlandi. Darjeeling var tekið yfir af bretum af Sikkim í kringum 1860 (og Sikkim var svo síðar innlimað í Indland árið 1975). Fólkið hérna líkist ekki Indverjum neitt, hérna eru flestallir búddistar og venjurnar og andrúmsloftið allt annað en á öðrum stöðum á Indlandi. Flestir eru af nepölskum ættum. Hérna í Darjeeling hefur í mörg ár verið sjálsfstæðishreyfing, sem vill stofna landið Gurkhaland, en kraftur hennar hefur dofnað á síðustu árum.

Það er slatti af hlutum, sem ég hef ætlað að koma inní blogg en ekki gert. Því er þetta ágætis tími fyrir smá punktablogg.

  • Indverjar hafa þann skrýtna ávana að vagga höfðinu til hliðar. Þetta getur þýtt að þeir séu að samþykja það sem þú segir, nokkurs konar þakklæti og einnig að þeir séu óvissir. Það tók okkur góðan tíma að skilja hvernig þeir nota þessa hreyfingu, en við erum orðin sæmilega góð í að skilja hana núna.
  • Indverskar biðraðir eru magnaðar. Við höfum aðallega lent í biðröðum á lestarstöðum. Þær eru eiginlega smá einsog biðraðirnar voru á Vegamótum þegar að ég heimsótti þann stað þrisvar í viku. Fyrir það fyrsta, þá færðu ekkert pláss í biðröðinni. Um leið og það er kominn einhver fyrir aftan þig, þá er sá einstaklingur kominn aaaaalveg uppað þér. Karlmaður í einni biðröðinni hallaði hökunni sinni á öxlina á mér og þótti það greinilega þægilegt.

    Röðin breiðist svo oft út í margar áttir – ekki bara beint aftur. Dálítið einsog þegar maður var alveg við það að komast inná Vegamót. Þá birtist allt í einu einhver hópur af fólki, sem taldi sig hafa brýnara erindi inn á staðinn og vildi fá að komast inn á undan manni. Þannig er þetta í indverskum biðröðum – þegar maður kemst uppað glugganum á lestarstöðinni þá mæta allt í einu 3-4 einstaklingar sitthvorum megin við mann, sem vilja komast að og skilja ekkert í mér að ég hafi eitthvað við því að segja. Ég reyni að segja sjálfum mér að ég hafi engan rétt á því að vera með einhvern sænskan biðraðar-fasisma á Indlandi, en það gerir hlutina ekki mikið auðveldari.

  • Tengt þessu, þá hafa Indverjar ekki sama skilning og við á persónulegu rými. Sennilega vegna þess að Indverjar eru 1,3 milljarðar en við Norðurlandabúar erum 30 milljónir. Indverjar eru einfaldlega vanir því að vera í mannþröng. Það er alls staðar þröngt. Þess vegna koma þeir rosalega nálægt manni þegar þeir tala við mann og standa upp við mann í biðröðum eða bara útá götu.
  • Indverskir karlmenn klæða sig nánast allir á vestrænan máta. Indverskar konur klæða sig hins vegar á mun hefðbundnari hátt. Langflestar klæðast þær litríkum sari. Aðeins þær, sem líta út fyrir að vera mest efnaðar, sér maður í einhverju öðru en saari.
  • Maður sér almennt séð ekkert alltof mikið af indversku kvenfólki útá götu á Indlandi. Karlar eru útum allt. Í lestum, á lestarstöðvum, í búðum, á mörkuðum, útá götum, í bílum og svo framvegis. Sennilega eru það ekki ýkjur að um 70% fólks, sem maður rekst á séu karlmenn. Þetta er furðulegt. Konurnar eyða einfaldlega mun stærri hluta af sínum degi inná heimilinu.
  • Indverjar eru upp til hópa með alvarlegan heyrnarskaða. Ég nenni ekki að Google-a rannsóknir um þetta, en byggt á mínum óformlegu rannsóknum þá hlýtur þetta að vera staðreynd. Fyrir það fyrsta eru gríðarleg læti alls staðar (fyrir utan hérna í fjallasælunni í Himalaya fjöllum). Þetta er verst útá götum, þar sem flautin í bílum eru að gera mig klikkaðan. Flautin eru stanslaus og þar sem við erum oftast gangandi eða í opnum rickshaw bílum, þá heyrum við flautin einstaklega vel. Það líða ekki 20 sekúndur án þess að maður heyri flaut í innan við 10 metra fjarlægð. Þetta einfaldlega hlýtur að skaða heyrn Indverja.

    Indverjar tala líka alveg fáránlega hátt við hvorn annan. Í gsm síma nánast öskra þeir og þegar að það er meira en svona 30-50cm á milli fólks þá tala þeir það hátt að á þá yrði sussað í nánast öllum öðrum löndum heims. Í lestunum hérna virðist bara vera samkomulag um að þegja á milli miðnættis og sirka 4 um morgun. Eftir það byrja fólk að spjalla, þótt að helmingurinn í lestinni sofi. Þrátt fyrir að fólk sé að spjalla við sessunaut sinn í svefnrými lestar þá talar fólk samt álíka hátt og við myndum gera inná skemmtistað.

Ég læt þetta duga í bili. Á morgun ætlum við í göngu um nágrenni Darjeeling og á þriðjudagsmorgun ætlum við að sjá sólarupprás hjá Tiger Hill, þar sem við gerum okkur veika von um að veðrið verði nógu gott til að sjá þriðja hæðsta fjall í heimi, Kanchenjunga.

*Skrifað í Darjeeling, Vestur Bengal, Indlandi klukkan 14.40*