Radiohead í Astoria

Ó hvað ég elska þetta lag…

Ég heyrði þetta í sjónvarpsþætti áðan. Ég held að þetta hljóti að vera meðal bestu laga sem ég hef nokkru sinni heyrt á tónleikum á ævinni. Ég fletti upp tónleikunum, sem ég sá með Radiohead í Grant Park í Chicago árið 2001, og fann þar set listann. Hann er vægast sagt ótrúlega góður. Sérstaklega voru uppklöpp 2 og 3 ógleymanleg. Ég skrifaði einu sinni á þessari síðu um bestu tónleikana, sem ég hef farið á á ævinni. Þá setti ég Radiohead tónleikana í annað sætið á eftir Roger Waters í Houston.

Það voru mistök. Radiohead tónleikarnir í Grant Park eru bestu tónleikar, sem ég hef farið á.

Richard Wright dáinn

Allt frá því að ég var 18 ára gamall hefur Pink Floyd verið mín uppáhaldshljómsveit. Vissulega hef ég síðustu ár ekki hlustað jafn ofboðslega mikið á sveitina og ég gerði áður. Sennilega vegna þess að ég hef hlustað á allar plöturnar alltof oft.

Þegar ég settist niður fyrir einhverjum 10 árum og gerði lista yfir það sem mig langaði að gera yfir æfina, þá voru á honum fjölbreyttir hlutir. Ég ætlaði að sjá Liverpool spila (helst úrslitaleik í Evrópukeppni, sem rættist á ótrúlegan hátt í Istanbúl), ég ætlaði að dansa tangó á götum Argentínu og gera fjölmarga aðra hluti.

Og ég ætlaði að sjá Pink Floyd spila á tónleikum. Sá hluti hefur ræst að hluta til, því tvisvar hef ég séð Roger Waters spila á tónleikum – bæði í Houston og í Reykjavík. En draumurinn var alltaf að sjá þá fjóra saman aftur, Gilmour, Wright, Waters og Mason. Það er þó ljóst að af því verður aldrei, því að Richard Wright dó í dag. Hann var 65 ára gamall og hafði barist í nokkur ár við krabbamein.

Wright var auðvitað aldrei jafn mikilvægur meðlimur einsog Waters og Gilmour, en hann samdi nokkur góð lög, þar á meðal tvö ómissandi lög á Dark Side of the Moon – Great Gig in the Sky og Us and them. Einnig var hann að sögn mikilvægur hlekkur í nokkrum frábærum lögum einsog Echoes og Atom Heart Mother.

Það er því ljóst að Live 8 tónleikarnir árið 2005 voru þeirra síðustu tónleikar saman. Ein besta hljómsveit rokksögunnar mun því aldrei spila aftur saman.

The Verve saman á ný

Hey, vissuð þið að Verve eru byrjaðir aftur saman og eru nýbúnir að gefa út plötu, sem fær fjórar stjörnur í Rolling Stones? Ég hafði allavegana ekki hugmynd um það en var verulega glaður þegar ég heyrði af því.

Hérna er fyrsta smáskífan og hún lofar góðu: Love is Noise

Eins frábær söngvari og Richard Aschroft er, þá er hann algjörlega ómögulegur án hinna Verve meðlimanna einsog síðustu 10 ár sólóferils hans sýna fram á. Það er hreinasti glæpur að þessi hljómsveit hafi ekki gefið út plötu í 11 ár síðan þeir gáfu út hina STÓRKOSTLEGU Urban Hymns árið 1997, sem var ásamt Ok Computer með Radiohead það langbesta sem kom út það ár.

Ég sá Aschroft spila á klúbbi í Chicago fyrir nokkrum árum og það var sorgleg upplifun. Hann er ekki nema 36 ára gamall, svo hann á nóg eftir og það er vonandi að hann hafi lært af þessum sóló mistökum og haldi núna hljómsveitinni saman.

Free Bird!

Ok, bætum þessu inná listann yfir þau lög, sem ég vildi að ég hefði séð á tónleikum um ævina. Hérna fer Ronnie van Zandt fyrir Lynyrd Skynyrd, nokkrum mánuðum áður en hann dó, á tónleikum í Oakland í Júlí árið 1977.

Lagið er auðvitað besta lag í heimi, Free Bird!

Bíldshöfði, morgunmatur og Sigur Rós

Jæja! Serrano staður númer 5 er þá opinn. Opnuðum klukkutíma of seint í morgun, sem skýrðist á því að einhver af fjölmörgum eftirlitsaðilum skilaði ekki sínu áliti nógu fljótt, þannig að við þurftum að hinkra með opnun þó að allur matur væri tilbúinn. Þetta tókst þó að lokum og það er búið að vera frábært að gera í allan dag.

Einn kosturinn við það að vera að opna fimmta staðinn er að við lærum alltaf eitthvað nýtt í hverri opnun og við erum alltaf að bæta staðina örlítið. Afgreiðsluborðið, sem að Frostverk smíðar, er gott dæmi um þetta því í hvert skipti sem við hittum þá fyrir nýjan stað þá erum við með nýja hluti, sem við viljum fá inní borðið. Lea Galgana, sem hefur hannað staðina í Smáralind og Dalshrauni hannaði líka fyrir okkur nýtt útlit á frontinum, sem er talsvert ólíkt (og flottara) en útlitið á N1 Hringbraut.

Allavegana, ég tók slatta af myndum síðustu vikuna sem við höfðum til að byggja upp staðinn inná stöðinni og þær eru komnar hingað inn. Ég tímasetti myndirnar miðað við opnun og það er magnað að hugsa til þess að þetta hafi verið staðurinn 6 dögum fyrir opnun og þetta staðurinn 17 klukkutímum fyrir opnun.

* * *

Staðurinn er semsagt tilbúinn, en þó munum við bæta við hann á næstu vikum. Fyrir það fyrsta mun bílalúgann vonandi opna fljótlega, sem ætti að vera skemmtileg nýjung þótt að hún skapi vissulega ákveðin vandræði þegar kemur að skipulagningu. En það er eitthvað sem við munum leysa.

Einnig ætlum við að byrja með morgunmat á Bíldshöfðanum seinna í sumar eða haust. Við erum búin að vera að gera tilraunir með morgunmat síðustu vikur og þær lofa góðu. Ef að einhver hefur áhuga á að vera með í rýnihóp fyrir morgunverðar-burrito og quesadilla, sendið mér þá endilega póst.

* * *

Núna er ég nett þreyttur, það verður alltaf mikið spennufall eftir svona opnanir. Þannig að ég ætla að eyða kvöldinu í að klára að horfa á þá Lost þætti, sem ég á inni. Jibbí jei!

* * *

Mikið afskaplega er nýji Sigur Rósar diskurinn frábær. Ég er búinn að vera sönglandi Gobbedigook og Inní mér syngur vitleysingur og Við Spilum endalaust nánast án þess að stoppa síðustu daga. Þessi hljómsveit er ótrúleg. Verst að þeir gerðu ekki heilan disk með hressum lögum. Þá hefði sá diskur einangrað sumarhlustunina mína.

Snillingarnir í Café Tacuba

Á bar í Ísrael heyrði ég mjög óvænt lag með uppáhalds latin hljómsveitinni minni, sem eru mexíkósku snillingarnir í Café Tacuba.  Ég hafði ekki hugmynd um að þeir væru með lög í spilun í öðrum löndum, en þegar ég fór að pæla í því þá hefði ég alveg mátt giska á að akkúrat þetta lag yrði vinsælt með þeim.

Café Tacuba eru skírðir í höfuðið á kaffihúsi í Mexíkóborg, þar sem ég hef orðið svo frægur að drekka espresso.  Lagið Eres er talsvert óvenjulegt fyrir þá.  Fyrir það fyrsta er þetta ballaða og í öðru lagi er það sungið af gítarleikara sveitarinnar, Emmanuel del Real – en ekki aðalsöngvara sveitarinnar, hinum nefmælta Rubén Albarrán (Pinche Juan).

(hérna er fín útgáfa af tónleikum)

Ef þið fílið lagið (hvernig er annað hægt?), þá mæli ég með Cuatro Caminos, plötunni sem inniheldur lagið og Re plötunni sem góða kynningu á þessum snillingum. Já, eða þið getið líka bara kíkt á Serrano í Hafnarfirði eða Smáralind – Café Tacuba eru ansi mikið spilaðir þar.

Til að bæta við þetta: Ojala que Llueva cafe, hið klassíska mexíkóska er hérna í stórkostlegri útgáfu þeirra Cafe Tacuba manna á tónleikum. Ég dýrka þetta lag! (þarna er aðalsöngvarinn Ruben að syngja).

Hérna er svo fyrsta lagið sem ég fílaði með þeim félögum, Metro, þar sem þeir syngja um metró stöðvar í Mexíkóborg.

Last Fm í síðustu viku

Topp 10 listamenn á Last Fm hjá mér í síðustu viku

1. Miranda Lambert
2. Manic Street Preachers
3. Los Amigos Invisibles
4. Pharoahe Monch
5. Daft Punk
6. Maná
7. Bon Iver
8. The Arcade Fire
9. Madonna
10. LCD Soundsystem.

Hver segir svo að ég sé með einhæfan tónlistarsmekk? Bandarískt kántrí, velskt rokk, venezuelskt popp, bandarískt hip-hop, frönsk dans tónlist, mexíkóskt rokk, bandarískt popp, kanadískt rokk, bandarísktp popp og bandarísk dans tónlist.

Homecoming

Ok, ég gerði mistök þegar ég valdi plötur ársins í fyrra. Í fyrsta sætið setti ég Night Falls over Kortedala með Jens Lekman og í öðru sæti var Graduation með Kanye West.

Núna þegar þrír mánuðir eru liðnir af 2008 þá er engin spurning í mínum huga að Kanye platan er miklu betri. Ég er búinn að hlusta á hana sennilega tvöfalt oftar en Lekman.

Í tilefni þessarar viðurkenningar á klúðri þá býð ég hér uppá BESTA lagið af BESTU plötu síðasta árs með BESTA rappara í heimi sem fjallar um BESTU borg í Bandaríkjunum, Chicago.

Takk!