« Rússlandsferð 6: Lestarferð frá helvíti og brjálaður einræðisherra í vaxi | Aðalsíða | Styttugarður »

Rússneskir dyraverðir og georgísk lögga

6. september, 2003

Jæja, þá er ég kominn heim eftir frábæra ferð til Rússlands. Hérna kemur djammsagan frá St. Pétursborg, frá því síðasta laugardag. Ég ákvað að bíða með að birta hana svo að hún mamma mín færi ekki að hafa of miklar áhyggjur af mér. :-) Færslan er skrifuð síðasta sunnudag.


Djammið í gær var eftirminnilegt, vægast sagt.

Ég komst að því að klúbburinn, sem ég ætlaði að fara á, var lokaður og því valdi ég annan klúbb, Ostrov. Sá staður var hins vegar ekki mjög spennandi. Frekar eldra fólk þarna inni og svo voru barþjónarnir allir berir að ofan. Það fannst mér ekki ýkja spennandi. Á leiðinni á klúbbinn var ég stoppaður af tveim löggum, sem spurðu mig um skilríki, en það er vinsæl iðja hjá löggum hérna að hafa þannig peninga af ferðamönnum. Ég var ekki með skilríki, en þeir gáfust þó upp og létu mig í friði.

Ég ákvað því að taka taxa að Metro, sem er klúbbur í hinum enda borgarinnar. Þar inni var mjög gaman. Staðurinn var á nokkrum hæðum og var mismunandi tónlist í öllum sölum. Allt frá Júrópoppi til karókíbars (Já, og hvernig er hægt að hafa ekki My Way á lagalistanum í karókí?). Ótrúlegt en satt, þá hitti ég tvo Íslendinga þarna inná barnum, annar þeirra var meira að segja með mér í Verzló.

Allavegana, ég var búinn að fá mér 2-3 bjóra og var að komast í stuð þegar ég ákvað að fara á klósettið. Þegar ég kom útaf klósettinu og ætlaði að labba að barnum kom allt í einu dyravörður, greip í mig og ætlaði að draga mig útaf staðnum. Ég skildi ekkert í þessu og spurði hann hvað væri málið en hann svaraði engu. Hann leiddi mig svo út. Þar spurði ég hann og annan dyravörð hvað ég hefði gert, en þeir svöruðu engu. Hlógu bara að mér og sögðu eitthvað á rússnesku og kölluðu mig svo "stupid American". Við það varð ég verulega pirraður og ákvað að segja nokkur vel valin kveðjuorð við dyraverðina. Því hefði ég betur sleppt.

Þegar að ég fór að tjá mig stukku allt í einu báðir verðirnir á mig og snéru mig í jörðina. Ég veitti enga mótspyrnu (enda hefði það verið nokkuð tilgangslaust) en samt kom þriðji vörðurinn og steig oná ökklann á mér meðan hinir héldu mér á götunni. Ég sá ekki alveg hvað gerðist en allavegana finn ég að það er verið að setja á mig handjárn. Ég var síðan dreginn inní lögreglubíl. Ég spurði ítrekað hvað ég hefði gert en þeir svöruðu mér ekki. Þeir höfðu hins vegar mjög gaman að þessu öllu, því löggurnar þrjár, sem voru í bílnum hlógu mikið að mér.

Ég var keyrður á lögreglustöð. Í bílnum sagði ég bara "I didn't do anything", en löggan, sem sat við hliðiná mér sagði mér að þegja. Á lögreglustöðinni var mér sagt að setjast niður og handárnin voru tekin af mér.

Þá gekk inn lögreglustjórinn. Hann heilsaði mér með því að kýla mig í andlitið. Það var helvíti sárt en honum fannst það hins vegar mjög fyndið.

Svo leitaði hann á mér og tók allt úr vösunum mínum, heimilisfangið á gistiheimilinu og alla peningana mína (um 3000 rúblur). Hann heimtaði skilríki en ég var ekki með vegabréfið á mér, bara kreditkortið mitt, sem hann tók. Hann spurði mig svo einhverjar frekari spurningar um eitthvað kjaftæði. Hann spurði til dæmis ítrekað um heimilisfangið á gistiheimilinu, þrátt fyrir að hann væri sjálfur með spjaldið frá gistiheimilinu.

Það kom svo upp í samtalinu að hann væri frá Georgíu. Ég var nokkuð desperate í að reyna að milda lögreglustjórann og fór ég því eitthvað að blaðra um að Shevardnadze hefði verið voða góður utanríkisráðherra (Hinn Georgíumaðurinn, sem ég mundi eftir, var Josef Stalin, en ég fann svo fátt gott til að segja um hann). Þetta plan til að mýkja stjórann misheppnaðist þó algjörlega vegna þess að hann sagðist hata Shevardnadze.

Eftir einhvern tíma fór lögreglustjórinn svo heim til sín. Ég var því látinn sitja fram á gangi í einhverja klukkutíma. Síðan uppúr þurru kemur lögreglumaður að mér og skipar mér að fara út og nánast hendir mér útaf stöðinni. Þeir höfðu hins vegar hirt alla peningana mína og heimilisfangið á gistiheimilinu. Ég hafði hins vegar lært af reynslu föstudagsins og var með nokkra dollara í skónum mínum, sem ég notaði til að borga fyrir taxa heim.

En það er allt í lagi með mig núna. Ég er með nokkrar skrámur í andlitinu og svo er ég að drepast í ökklanum, en annars er ég í fínu ástandi.

Ég elska samt áfram Rússa.

(Skrifað í St. Pétursborg klukkan 20.25)

Einar Örn uppfærði kl. 14:19 | 765 Orð | Flokkur: Ferðalög



Ummæli (4)


Jesús, það er eins gott að það er í lagi með þig! Ég lenti sem betur fer ekki í neinu svona í Rússlandi, en hafði einmitt heyrt margar misljótar sögur.

Velkominn heim!

Sigga Sif sendi inn - 06.09.03 15:18 - (Ummæli #1)

Hey! eitthvað til að segja barnabörnunum :-)

Aftur á móti held ég að Shevardnadze trixið sé dæmt til að mistakast í flestum tilfellum til að mýkja Georgíumenn í Rússlandi.

En shit hvað ég hefði ekki meikað þetta, way too fragile for police beatings :-)

Ágúst sendi inn - 06.09.03 22:34 - (Ummæli #2)

Takk fyrir skemmtilegar sögur frá Rússlandi! Ég er einmitt á leiðinni þangað bráðlega. Rakst á síðuna af tilviljun og vildi bara þakka fyrir mig.

Álfheiður sendi inn - 14.07.04 12:55 - (Ummæli #3)

Það var nú lítið. Gaman að þú hafðir gaman af þessu :-)

Vona líka að vegabréfsvesenið hafi verið þessu virði :-)

Einar Örn sendi inn - 14.07.04 19:02 - (Ummæli #4)

Ummælum hefur verið lokað fyrir þessa færslu


EOE.is:

Blaður um hagfræði, stjórnmál, íþróttir, netið og mín einkamál.

Á þessum degi árið

2004 2002 2001 2000

Leit:

Síðustu ummæli

  • Einar Örn: Það var nú lítið. Gaman að þú hafðir gaman af þes ...[Skoða]
  • Álfheiður: Takk fyrir skemmtilegar sögur frá Rússlandi! Ég e ...[Skoða]
  • Ágúst: Hey! eitthvað til að segja barnabörnunum :-) ...[Skoða]
  • Sigga Sif: Jesús, það er eins gott að það er í lagi með þig! ...[Skoða]

Gamalt:



Ég nota MT 3.2

.