« Home improvement, part deux | Aðalsíða | Opið bréf Michael Moore til Wesley Clark »

Gemmér allt! Þú færð ekki neitt!

september 18, 2003

SH skrifar á Múrinn í dag um Halldór Ásgrímsson og ráðstefnuna í Cancun: Fáfræði Halldórs stendur umræðu fyrir þrifum.

Ég átta mig ekki alveg hver stefna Múrsmanna í þessum málum er. Þeir virðast vera á móti auknu frelsi í alþjóðaviðskiptum, en samt eru þeir sárir yfir því að Vesturlönd lækkuðu ekki tolla á landbúnaðarvörur. Er það furða að sá stimpill vilji festast við Vinstri-Græna að þeir séu á móti öllu. Ég verð þó að viðurkenna að það getur vel verið að ég hafi bara ekki verið nógu duglegur að rýna í greinina til að finna stefnu þeirra.

Ég missti reyndar af þættinum með Halldóri en það er með ólíkindum hvernig þrjóska Evrópubúa og Bandaríkjanna eyðilagði ráðstefnuna í Cancun. Halldór er einmitt fulltrúi flokks, sem stendur fyrir öllu því, sem eyðileggur alþjóðaviðskipti. Hann vill vernda íslenskar landbúnaðar- og iðnaðarvörur (hvað er kjúklingur annað en iðnaðarvara?) fyrir eðlilegri samkeppni sama hvað það kostar skattgreiðendur.

Íslendingar eru reyndar með ólíkindum ósanngjarnir í þessum málum og í þessum umræðum kemur bersýnilega í ljós hræðilegur tvískinnungsháttur okkar þjóðar. Við viljum nefnilega takmarka (eða eyða) öllum höftum í sjávarútvegi, sem er okkar helsta útflutningsvara. Við fríkum út ef að einhver þjóð setur hömlur á innflutning á fiski. Hins vegar gerum við ALLT til þess að vernda landbúnaðarvörur, sem eru helsta útflutningsvara vanþróðari ríkja. Þetta er óþolandi ástand. Ef við værum hinum megin borðsins, þá værum við alveg brjáluð.


Það sama á í raun við um marga hluti. Við viljum að önnur þjóð hjálpi okkur í varnarmálum og þáðum þróunaraðstoð lengi vel. Hins vegar nú þegar við erum rík þjóð, þá gefum við ekki neitt tilbaka. Við PR skrifuðum fyrir nokkrum árum grein í róttækt blað (sem lifði stutt), þar sem við gagnrýndum harðlega þá þjóðarskömm okkar Íslendinga að við veitum minna en nær allar vestrænar þjóðir í þróunaraðstoð. Þessi grein var birt fyrir 6 árum en samt á hún alveg jafnvel við í dag. Það hefur ekkert breyst.

Við getum ekki ætlast til að fá allt í hendurnar á okkur en gefa aldrei neitt tilbaka. Það er ekki sanngjarnt.


Draumurinn um sjálfstæða bóndann

Ég er fylgjandi því að tollar á landbúnaðarvörur verði felldir niður. Það er hins vegar athyglisvert að niðurfelling tolla virðist vera orðin tískumál hjá mótmælendum á þessum ráðstefnum. Michael Lind skrifar athyglisverða grein um þá staðreynd að ef tollum verði létt þá sé ólíklegt að upp spretti litlir og ríkir bændur í þróunarlöndunum einsog draumur mótmælenda virðist vera. Mun líklegra sé að landbúnaðurinn verði iðnvæddari, noti tæknina og verði hagkvæmari. Það mun þýða að færri hafa atvinnu en að land verður betur notað. Mjög athyglisverð grein, þrátt fyrir að ég sé ekki endilega sannfærður um að hún standist.

Einar Örn uppfærði kl. 12:18 | 447 Orð | Flokkur: Stjórnmál



Ummæli (2)


ef ég skyldi múrspistilinn rétt þá finnst þeim lítil framför í því að afnema tollana og gagnrýnin í pistlinum er á Halldór Ásgrímsson af því að hann sagði að það væri vont fyrir þróunarríkin að tollarnir hafi ekki lækkað.

SH rökstyður þetta með:

  1. Arðurinn af útflutningnum fer beint í hendur vestrænna kapítalista.
  2. Það skapast engin atvinna heima fyrir af útflutningnum.
Gunni Palli sendi inn - 18.09.03 15:07 - (Ummæli #1)

Gangi þér vel að auglýsa eftir stefnu Múrsins í alþjóðaviðskiptum! Ég spurði að því og fékk hið snotra svar “pistlar eru á ábyrgð einstaka höfundar” til baka, og þar með getur Múrinn bæði hafnað og krafist alþjóðaviðskipta ef upphafsstafinir neðst í greininni eru mismunandi. Að sjálfsögðu allt eftir hentugleika umræðunnar hverju sinni.

Geir sendi inn - 23.09.03 17:13 - (Ummæli #2)

Ummælum hefur verið lokað fyrir þessa færslu