Bow wow wow yippy yo yippy yay

Ég fór á Snoop Dogg með tveimur vinum mínum á sunnudag. Einn stakk reyndar af eftir smá stund, þannig að við vorum eiginlega bara tveir allan tímann, ég og [PR](http://www.jenssigurdsson.com/). Ég hef fílað Snoop nokkuð lengi. Uppgötvaði hann reyndar ekki þegar hann byrjaði, heldur var það ekki fyrr en 3-4 árum seinna. Þegar það gerðist varð hann strax í miklu uppáhaldi hjá mér.

Við komum inní höllina þegar að Hjálmar voru að klára sitt sett. Þeir voru nokkuð góðir. Frekar fyndin hljómsveit. Þeir líta út einsog Creedence Clearwater Revival, en spila nokkuð skemmtilega tónlist. Held einhvern veginn að tónlistin njóti sín jafnvel betur á tónleikum. Kannski að ég gefi þeim loksins sjens og kaupi plötuna.

Næstir á svið voru Hæsta Höndin. Það atriði var frekar slappt. Til að byrja með heyrðist ekkert í Erp, því míkrafónninn hans var í rugli. Það heyrðist eiginlega bara í þeim, sem gerðu ekkert nema að hrópa með í chorus-num (Sesar A t.d.). Svo komu á svið nokkrir úr Rotweiler hundum. Það var ekki mikið betra, því ekkert heyrðist í Bent í því prógrammi. Það er með ólíkindum að svona klúðrist á svona tónleikum. Sama hversu góðir menn eru á sviði (og þeir voru jú ansi hressir), þá er lítið gaman þegar að það heyrist ekkert í neinum.


Eftir að það atriði klárast var sýnd snotur stuttmynd, þar sem að Snoop svaf hjá tveim gellum og skaut svo aðra þeirra. Í þeirri mynd var víst eitthvað plott, en textinn heyrðist illa sökum slaks hljóðs í höllinni. Snoop kom svo á svið og byrjaði á *Murder was the Case* í nokkuð slappri útgáfu, en eftir það var leiðin hiklaust uppá við. Snoop fór í gegnum mörg af sínum bestu lögum. Flest lögin voru af Doggystyle og svo nokkur af nýju lögunum, sem hann hefur sungið sem dúett með tónlistarmönnum, sem eru vinsælli en hann sjálfur meðal yngstu kynslóðarinnar, svosem *P.I.M.P.*, *Signs* og *Drop it Like It’s Hot*.

Við PR vorum þau auðvitað spenntastir fyrir gömlu Doggystyle og Chronic slögurunum, enda það bestu plöturnar hans Snoop. Hann tók mörg bestu lögin af þeim plötum, svo ég var nokkuð sáttur við prógrammið. Á milli laga gerði Snoop svo mikið úr því að fá salinn til að syngja með sér og hann virtist hafa alla í vasanum. Reyndar gerði hann eiginlega alltof mikið af þessu og þetta var alltof langt. Maður nennir bara að segja “Iceland is da best” og “We love you Snoop” visst mörgum sinnum áður en það verður þreytandi.


Þannig að tónleikarnir voru góðir, ég fékk það sem ég hafði búist við. Ekki síður skemmtilegt var að fylgjast með fólkinu á tónliekunum. Ég hata að hljóma einsog Íhaldsmaður og flestir sem þekkja mig vita að ég er mikill fylgismaður þess að stelpur klæði sig létt og gangi í pilsum, en ég verð hreinlega að vera sammála því sem [Ásgeir Helgi skrifar á Deiglunni í gær](http://www.deiglan.com/index.php?itemid=8860):

>Ég hafði aldrei tekið eftir þessu fyrr, en það er staðreynd að stúlkur, rétt um fermingaraldur klæða sig margar hverjar eins og mellur.

Vandamálið er ekki að fermingarstelpurnar klæði sig einsog þær séu fullorðnari en þær eru, heldur er vandamálið að þær klæðast fötum, sem að stelpur á framhaldsskóla-aldri og uppúr, myndu *aldrei* klæðast nema á grímuballi. Það er alveg ljóst að ef maður hefur sérstakan áhuga á að sjá léttklæddar fermingarstelpur, þá voru tónleikarnir í gær staðurinn til að vera á. Þetta var allavegana nóg til að breyta mér í íhaldsmann í fyrsta skiptið. Kannski er þetta bara aldurinn. Allavegana klæddust stelpurnar ekki svona í minni sveit þegar ég var á þessum aldri. Ég hefði þó sennilega verið alsæll með það ef svo hefði verið.

Aldursbilið var talsvert þrengra en á flestum tónleikum, sem ég hef séð. Þeir allra elstu virtust vera um þrítugt og svo náði þetta niður í um 12-13 ára krakka. Þeir elstu voru auðvitað þarna útaf Doggystyle, en þeir yngri hafa sennilega hrifist af Snoop í gegnum dúettana, sem hann hefur flutt að undanförnu. Allavegana var mest fagnað þegar *Drop it like it’s hot* var spilað, en minna fagnað þegar að *Wit Dre Day* og hans bestu lög komu. Sem er magnað.

Pad Thai

Fokk, hvað Pad Thai á Krua Thai er gott.

Verst að þetta er ekki beinlínis hollasti matur í heimi.

Upptökur

Þetta er búinn að vera skrítinn en skemmtilegur dagur. Fyrir það fyrsta stóðu yfir upptökur á nýjum sjónvarspauglýsingum fyrir vörumerki, sem ég stjórna. Þess vegna var ég óvenju lítið inní vinnu, en var þess í stað niðrí Saga Film, þar sem ég fylgdist upptökum á auglýsingunni.

Hef aldrei fylgst með upptökum á svona auglýsingu fyrr, en þetta var nokkuð skemmtilegt. Þetta er einn af þessum hlutum, sem gera vinnuna mína skemmtilega og brýtur upp daglegt stress. Held að ég hefði hvort eð er ekki höndlað það að vera fyrir framan tölvuna í góða veðrinu, þannig að þetta var kærkomið.


Um hádegi fékk ég svo símtal frá Agli Helgasyni, þar sem hann bað mig um að koma í Ísland í Dag í kvöld til að ræða um [veðurfærsluna mína](https://www.eoe.is/gamalt/2005/07/11/19.18.41). Hann sagði að sér hefði verið bent á þessa færslu og vildi ræða hana við mig. Fyrsta hugsunin var að þetta væri eitthvað djók, en ég þekkti röddina hans, svo að það var ljóst að þetta væri alvara. Ég sagðist auðvitað vera til í þetta.

Þannig að ég fór snemma úr vinnunni, dreif mig heim, rakaði mig og keyrði svo uppá Stöð 2. Mætti voðalega tímanlega þangað uppeftir, en það virðist vera þannig að það gerist ekkert fyrr en að 5 mínútur eru í útsendingu. Þannig að ég sat bara þarna og las Séð & Heyrt. Svo þegar útsendingin var að byrja var ég drifinn í smink og svo inná sett.

Ég er ekki búinn að horfa á þáttinn, ætla að kíkja á hann á Stöð2 + eftir nokkrar mínútur, en mér fannst þetta ganga nokkuð vel. Var settur á móti einum veðurfræðingnum (ekki þó Sigga Storm, einsog Egill talaði um, heldur Guðríður sem flytur líka veðurfréttir á Stöð 2). Ég þuldi þar upp tölfræðina og uppúr því kom smá umræða. Það var þó enginn að mótmæla þessum niðurstöðum mínum. Eiginlega voru allir sammála um þetta. Einu mótmælin voru þau að það væri meiri rigning í Bergen. Svo viðurkenndi veðufræðingurinn að þau reyndu að finna svona tölur, sem myndu líta vel út fyrir Íslendinga. Svo sem alveg skiljanlegt, þar sem hún talaði um að fólk skammaði hana fyrir veðrið útá götu.

En þetta var fínt, fólkið var voða nice og þetta gekk vel fyrir sig. Eina var að þau gleymdu að plögga bloggið mitt. En ég meina hey.


**Uppfært (EÖE)**: Jæja, búinn að horfa á þetta. Þetta var bara nokkuð fínt. Hélt að ég hefði stamað eitthvað á Tíbet-dæminu, en það var voðalega ómerkilegt. Þannig að ég er bara nokkuð sáttur við þetta fyrsta sjónvarpsviðtal mitt.

Í í D

Allir að horfa á Ísland í Dag klukkan 18.18 í kvöld. Umræðuefnið er geysi spennandi: [Leiðinlegasta sumarveður í heimi](https://www.eoe.is/gamalt/2005/07/11/19.18.41/index.php).

Dagurinn í dag

Búinn að þrífa íbúðina mína. Búinn að hlaupa 8 kílómetra í sólinni.

Er á leiðinni í BBQ boð og svo á **SNOOP**!!! Jamm, þetta er góður dagur.


Fór á djammið á föstudaginn. Lá í leti í gær. Hef ekki skrifað á þessa síðu í heila fjóra daga. Magnað að maður skuli ekki hafa meira að segja eftir slíka hvíld.

Hjólhýsi og wife swap

Magga fjallar um [hjólhýsaæði landans](http://maggabest.blogspot.com/2005/07/hjlhsarusl.html). Hún er besti bloggari landsins, segi ég og skrifa.


Á þessi Wife Swap þáttur virkilega að vera skemmtilegur? Ég náði ekki að standa uppúr sófanum eftir að [Liverpool leikurinn kláraðist](https://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2005/07/13/20.56.38/) og festist yfir þessum þætti. Þetta er hryllilega leiðinlegt. Án efa í síðasta skipti sem ég hlusta á Bo Halldórs. “Nýjasta æðið í bandarísku sjónvarpi” my ass.

Ég er ferlega þreyttur. Fór í körfubolta eftir vinnu og svo komu nokkrir vinir í heimsókn til að horfa á Liverpool leikinn. Núna get ég varla staðið uppúr sófanum.


Færslan mín um [leiðinlega sumarveðrið](https://www.eoe.is/gamalt/2005/07/11/19.18.41) var listuð á [b2.is](http://www.b2.is) (gamla Batman) og það þýddi að 3000 manns skoðuðu þá færslu. Ekki einn af þessum þrjú þúsund kommentaði á færsluna, sem mér finnst magnað.

En allavegana, það er *ekki enn* búið að boða mig í Kastljósið til að tala um þessa stórkostlegu uppgötvun mína! Ég meina, *ég*, hagfræðingurinn Einar Örn uppgötvaði það að á Íslandi er leiðinlegasta sumarveður í heimi!!! Þetta er senninlega ein af fimm merkilegustu uppgötvunum Íslandssögunnar og mun sennilega hafa hræðilega afleiðingar fyrir íslenska þjóðarsál.

Veðurfræðingarnir í fréttunum passa sig á því að minnast alltaf á það þegar það er kalt í Evrópu eða rigning á Spáni, sérstaklega þegar það er sól á Austurlandi á sama tíma. Það er gert til að búa til þann ímyndaða rauveruleika að veðrið hérna sé eðlilegt og í einhverju samræmi við veður í öðrum löndum. Það er hins vegar bull.

En svona er þetta.

QOTSA og Sufjan Stevens

Ég var að komast að því að “[Lullabies to Paralyze](http://www.metacritic.com/music/artists/queensofthestoneage/lullabiestoparalyze)” með Queens of the Stone Age er *helvíti góð plata*. Hún fellur í sama hóp og Time out of Mind, það er að hún byrjar svo hroðalega leiðinlega að ég gafst eiginlega uppá að hlusta á hana. Ég hlustaði nokkrum sinnum á hana stuttu eftir að hún kom út, en byrjunin er svo leiðinleg að ég dæmdi alla plötuna út frá henni. Það voru mistök.

Eiginlega byrjar “Lullabies” ekki af alvöru fyrr en á “In My Head”, sem er lag númer 6. Eftir það er platan virkilega góð. Fyrsta lagið á plötunni er djók, svo koma nokkur lög sem eru einungis *la la*. Eftir miðbikið, færist hins vegar fjör í þetta. *I Never Came* er að ég held eitt besta lag þessa árs og hin lögin eru öll virkilega góð, sérstaklega *Blood is love*, *Someone’s in the wolf* og *Broken Box*. Ja hérna…


En þessi plata er samt ekki jafn góð og [Illinois](http://www.metacritic.com/music/artists/stevenssufjan/illinois) með Sufjan Stevens. Sú plata er stórkostleg snilld. Gunni vinur minn mældi með henni við mig fyrir nærri því tveimur mánuðum, en ég var lengi að gefa henni sjens. Ég ætti að vita betur, því ég hlusta alltaf á ráðleggingar hans í tónlist. Og jú, platan er frábær.

Held að þetta sé besta plata ársins hingað til ásamt *Blinking Lights…* með Eels.

McD búningar

Þetta er stórkostlegt: McDonald’s [ætlar að eyða **80 milljónum bandaríkjadala** í að fá hip-hop tískufyrirtæki einsog SeanJohn, Tommy Hilfiger, Fubu](http://www.suntimes.com/output/news/cst-nws-mac06.html) og fleiri til að hanna nýja búninga á starfsfólk staðanna.

Ég hannaði Serrano búningana með einhverjum gaur hjá bolafyrirtæki á svona 15 mínútum og að mínu mati eru þeir umtalsvert smekklegri en McDonald’s búningarnir, þannig að þetta ætti að vera auðvelt verk.

Leiðinlegasta sumarveður í heimi

Ég er vanalega ekki mikill svartsýnismaður, en þetta veður hefur alveg stórkostleg áhrif á mig. Veðrið fer nær aldrei í taugarnar á mér á veturna. Mér er alveg sama þótt að veturnir séu harðir. Hins vegar vil ég hafa almennilegt sumarveður, þar sem ég get verið úti á stuttermabol, get labbað um bæinn án þess að fjúka og get grillað án þess að blotna.

Ég lýsti í síðustu færslu eftir hugmyndum að því hvort það væri eitthvað land í heimi, sem þyrfti að þola jafn ömurlega leiðinlegt sumarveður og við Íslendingar. Einhverjar tillögur komu, til dæmis Grænland, Falklandseyjar, Bhútan og Mongólía.


Ég ákvað að skoða þetta aðeins betur og fletta upp veður-upplýsingum frá þessum stöðum og bera saman við Reykjavík. Það er auðvitað ekki hægt að bera saman veðurfar í heilum löndum, þannig að ég miða við höfuðborgir. Niðurstöðurnar eru magnaðar:

Hérna er meðalhitinn í Reykjavík. Meðalhitinn í besta mánuðinum, Júlí, er Júlí með heilar 13 gráður.

Ok, hvaða staðir koma þá til greina sem kandídatar fyrir leiðinlegasta sumarveður í heimi? Prófum höfuðborgina í Mongólíu. Nei, meðalhitinn þar í besta mánuðinum er 22 gráður. Hvað með Moskvu? Nei, hitinn er líka 22 gráður í heitasta mánuðinum þar, langt yfir Íslandi. Wellington á Nýja Sjálandi? Neibbs, hitinn er 19 gráður í bestu mánuðinum. En Alaska (teygjum þetta aðeins, líkt og Alaska væri sér land)? Veðrið hlýtur að vera verra þar! Ha? Neibbs, hitinn í besta mánuðinum þar er 18 gráður.

Í örvæntingunni minni þá ákvað ég að prófa Grænland og leitaði uppi meðalhitann í Narsarsuaq (það eru ekki til upplýsingar um Nuuk). Og vitiði hvað?

MEÐALHITINN Í NARSARSUAQ Á GRÆNLANDI ER HÆRRI EN Í REYKJAVÍK!!!

Meðalhitinn í Narsarsuaq í júlí er 14 gráður, eða 1 gráðu hærri en í Reykjavík. Þetta er hreinasta sturlun!

Þannig að með öðrum orðum, þá get ég ekki fundið land með verra sumarveður en Ísland!

Hvernig getum við mögulega verið hamingjusamasta þjóð í heimi þegar að við erum með leiðinlegasta sumarveður í heimi? Eru allir nema ég á prozac?


Uppfært (EÖE): Ágúst Fl. er með svipaðar pælingar á sinni heimasíðu og hann kemst að sömu niðurstöðu og ég.