Fyrir langa löngu var ég að reyna að finna þetta myndbrot með Steve Carrell og Stephen Colbert þegar þessir tveir snillingar voru aðalgrínararnir í The Daily Show. Í þá daga horfði ég á þáttinn á nánast hverju einasta kvöldi þegar ég var í námi útí Bandaríkjunum. Þetta brot rifjaðist upp fyrir mér í samræðum sem ég átti við vin minn yfir hádegismatnum í dag (vorum að prófa Nítjándu í Turninum, sem var fínt).
Allavegana, í þessu myndbroti – Drink Responsibly – dettur Steve Carrell í það fyrir framan myndavélarnar. Þetta er um fimm mínútur, en þið verðið hreinlega að horfa á þetta. Já, og ef einhver horfði ekki á myndbandið sem ég linkaði á á laugardaginn, gerið það þá NÚNA!
* * *
Annars var helgin frábær. Ég fór í afmæli hjá stelpu sem ég þekkti ekki neitt á Domo á föstudaginn, en þar var fullt af ótrúlega skemmtilegu fólki sem ég þekki. Fór með vinum mínum útað borða á indverska daga á Ólíver á undan, sem var mjög fínt. Afmælið var ótrúlega skemmtilegt og einn vinur minn stóð meðal annars fyrir einu allra fyndnasta atviki sem ég hef séð á íslenskum skemmtistað og mun sennilega ylja mér um hjartarætur hvenær sem mér leiðist í framtíðinni. Fórum svo á Ölstofuna, þar sem að fjörið hélt áfam.
Á laugardaginn fór ég svo í UJ útilegu, sem var haldin nálægt Reykholti. Útilegan var reyndar færð inn sökum veðurs, en ég tjaldaði þrátt fyrir það rétt hjá húsinu. Þar var mjöög gaman.
* * *
Ég er búinn að vera hálf þreyttur í allan dag og svaf m.a.s. fyrir kvöldmat, sem gerist nánast aldrei. Mætti jú í ræktina í morgun í fyrsta skipti í viku, sem var yndislegt, en var samt hálf þreyttur allan daginn. Komst að því að Café Americano kostar 350 krónur á Kaffitár, en venjulegur kaffi kostar bara 280 krónur með frírri áfyllingu. Ég verð að játa að ég skil ekki þá verðlagningu. En þar sem það ágæta kaffihús er nánast einsog skrifstofa mín, þá held ég kvörtunum í lágmarki.
* * *
Áhorf mitt á Ísland í Dag er komið niður í sirka 15 sekúndur á dag. Það er akkúrat tíminn sem að Vala Matt þarf til að kynna það sem verður í þættinum.
* * *
Ég er búinn að spila Grand Theft Auto IV öðru hvoru undanfarna daga. Samkvæmt tölfræðinni þá er ég búinn með 15,2% af leiknum. Ég hef í raun ekki dottið inní tölvuleik síðan ég spilaði (og dýrkaði) BioShock í jólafríinu.
* * *
Og að lokum þá skrifar Kristján Atli upphitun fyrir The Dark Knight. Ég held að ég hafi sagt það í kommentum á þessari síðu að ég man hreinlega ekki eftir því hvenær ég var jafn spenntur fyrir bíómynd og þessari.