Fyllerí í sjónvarpi, helgin, GTA, Dark Knight og fleira

Fyrir langa löngu var ég að reyna að finna þetta myndbrot með Steve Carrell og Stephen Colbert þegar þessir tveir snillingar voru aðalgrínararnir í The Daily Show. Í þá daga horfði ég á þáttinn á nánast hverju einasta kvöldi þegar ég var í námi útí Bandaríkjunum. Þetta brot rifjaðist upp fyrir mér í samræðum sem ég átti við vin minn yfir hádegismatnum í dag (vorum að prófa Nítjándu í Turninum, sem var fínt).

Allavegana, í þessu myndbroti – Drink Responsibly – dettur Steve Carrell í það fyrir framan myndavélarnar. Þetta er um fimm mínútur, en þið verðið hreinlega að horfa á þetta. Já, og ef einhver horfði ekki á myndbandið sem ég linkaði á á laugardaginn, gerið það þá NÚNA!

* * *

Annars var helgin frábær. Ég fór í afmæli hjá stelpu sem ég þekkti ekki neitt á Domo á föstudaginn, en þar var fullt af ótrúlega skemmtilegu fólki sem ég þekki. Fór með vinum mínum útað borða á indverska daga á Ólíver á undan, sem var mjög fínt. Afmælið var ótrúlega skemmtilegt og einn vinur minn stóð meðal annars fyrir einu allra fyndnasta atviki sem ég hef séð á íslenskum skemmtistað og mun sennilega ylja mér um hjartarætur hvenær sem mér leiðist í framtíðinni. Fórum svo á Ölstofuna, þar sem að fjörið hélt áfam.

Á laugardaginn fór ég svo í UJ útilegu, sem var haldin nálægt Reykholti. Útilegan var reyndar færð inn sökum veðurs, en ég tjaldaði þrátt fyrir það rétt hjá húsinu. Þar var mjöög gaman.

* * *

Ég er búinn að vera hálf þreyttur í allan dag og svaf m.a.s. fyrir kvöldmat, sem gerist nánast aldrei. Mætti jú í ræktina í morgun í fyrsta skipti í viku, sem var yndislegt, en var samt hálf þreyttur allan daginn. Komst að því að Café Americano kostar 350 krónur á Kaffitár, en venjulegur kaffi kostar bara 280 krónur með frírri áfyllingu. Ég verð að játa að ég skil ekki þá verðlagningu. En þar sem það ágæta kaffihús er nánast einsog skrifstofa mín, þá held ég kvörtunum í lágmarki.

* * *

Áhorf mitt á Ísland í Dag er komið niður í sirka 15 sekúndur á dag. Það er akkúrat tíminn sem að Vala Matt þarf til að kynna það sem verður í þættinum.

* * *

Ég er búinn að spila Grand Theft Auto IV öðru hvoru undanfarna daga. Samkvæmt tölfræðinni þá er ég búinn með 15,2% af leiknum. Ég hef í raun ekki dottið inní tölvuleik síðan ég spilaði (og dýrkaði) BioShock í jólafríinu.

* * *

Og að lokum þá skrifar Kristján Atli upphitun fyrir The Dark Knight. Ég held að ég hafi sagt það í kommentum á þessari síðu að ég man hreinlega ekki eftir því hvenær ég var jafn spenntur fyrir bíómynd og þessari.

Leti og iPhone

Ég er búinn að vera óvenju mikið heima hjá mér þessa vikuna. Útaf þessum hnémeiðslum þá var ég heima allan daginn mánudag og þriðjudag og svo hef ég lítið gert undanfarin tvö kvöld. Til viðbótar við það hef ég engar íþróttir geta stundað þessa vikuna. Það sem ég hef komist að er að þessi leti elur af sér frekari leti.

Þegar ég slepp við það að vakna klukkan hálf sjö til að fara í ræktina þá enda ég ekki á því að vaka lengur eða vera betur út sofinn, heldur fer það í akkúrat hina áttina. Núna er klukkan til að mynda ekki orðin 11 og ég er orðinn dauðþreyttur, hef hangið uppí sófa mestallt kvöldið gerandi ekki neitt. Ég veit ekki hvað það er, en ég tengi allavegana þessa leti við hreyfingarleysið.

Því get ég ekki beðið eftir helginni, þegar ég mun fara útúr bænum og næstu viku þegar ég get byrjað að hreyfa mig á ný.

* * *

Apple er búið að gefa út nýja iPhone útgáfu og ég get ekki beðið eftir að uppfæra, en það er samt ekki hægt alveg ennþá þar sem þá fer síminn hjá mér í rugl.

Ég er eiginlega bara spenntur fyrir þessu nýja iPhone kerfi af tveimur ástæðum. Fyrir það fyrsta, þá sync-ast dagatölin sjálfkrafa á milli tölvu og iPhone. Þetta er frábært fyrir mig, þar sem að sirka helminginn af mínum fundum og kontöktum er ég að breyta á símanum og hinn helminginn á tveimur mismunandi tölvum. Það er því nauðsynlegt að þetta uppfærist sjálfkrafa á milli tækjanna.

Einnig er ég spenntur að sjá hvernig forritin í iPhone verða. Til að byrja með veit ég um eitt forrit, sem mun beinlínis breyta minni vinnu en það er OmniFocus fyrir iPhone. Ég nota OmniFocus á Makkanum mínum til að skipuleggja gjörsamlega allt í minni vinnu. Þetta forrit hefur breytt því hvernig ég hugsa vinnuna mína og hjálpað mér gríðarlega. Eini gallinn er að forritið er á tölvunni minni og margt af því sem ég þarf að gera er ég að gera útí bæ þegar ég nenni ekki að taka upp tölvuna. Fyrir þannig atburði er OmniFocus fyrir iPhone nákvæmlega það sem ég þarf. Ég get ekki beðið eftir því að uppfæra og setja forritið inná símann minn.

Fyrir utan OmniFocus væri NetNewsWire sennilega forrit númer 2 sem ég myndi setja inn auk þess sem að Apple gáfu út nokkuð flott forrit, sem gerir manni kleyft að stjórna itunes á Makkanum eða AppleTV með símanum. Það lítur vel út.

Myndir frá Líbanon

Jæja, loksins er fyrsti hluti myndanna minna kominn á netið. Þetta hefur tekið lengur en ég átti von á. Fyrir það fyrsta, þá var ég að læra á Aperture, sem ég nota núna í staðinn fyrir iPhoto (ég þarf að blogga sérstakt nördablogg um það), og svo komu líka aðrir skemmtilegir hlutir hérna heima á Íslandi inná milli og myndirnar frá ferðinni gleymdust. Svo voru þetta um 1.300 myndir, sem ég þurfti að grisja úr.

Allavegana, hérna eru komnar inn myndirnar frá Líbanon. Þarna eru myndir frá Beirút, Baalbek, Byblos, Trípolí og Qadisha dalnum. Ég reyndi að grysja vel úr, svo þetta væri sæmilega áhugavert fyrir sem flesta. Fyrri tengillinn er á yfirlitsmyndina í Flickr, þar sem hægt er að kommenta á hverja mynd – og sá seinni er á slide show, þar sem myndirnar eru stærri.

Myndir frá Líbanon
Flickr SlideShow með myndunum frá Líbanon

Myndir frá hinum löndunum þremur koma svo síðar.

Myndin að ofan er frá Baalbek. Þarna er ég fyrir framan Musteri Bakkusar, einn af hápunktum ferðarinnar.

Free Bird!

Ok, bætum þessu inná listann yfir þau lög, sem ég vildi að ég hefði séð á tónleikum um ævina. Hérna fer Ronnie van Zandt fyrir Lynyrd Skynyrd, nokkrum mánuðum áður en hann dó, á tónleikum í Oakland í Júlí árið 1977.

Lagið er auðvitað besta lag í heimi, Free Bird!

Helgin í Úthlíð

Vá hvað þetta var skemmtileg helgi!

Ég fór í útilegu með fullt af vinum mínum í Úthlíð. Tveir vinir mínir voru að útskrifast úr háskóla og þeir buðu heilum helling af fólki á tjaldsvæðið í Úthlíð. Á föstudagskvöldið voru ekkert rosalega margir mættir en þó var þar nóg af skemmtilegu fólki til þess að kvöldið væri frábært. Við grilluðum, drukkum, röltum um svæðið og enduðum í kassagítarstemningu þar sem að Afgan var spilaður sirka 15 sinnum. Á laugardeginum eyddum við svo löngum tíma í sundlauginni og í sólbaði enda veðrið alveg fáránlega gott.

Seinni partinn á laugardeginum kom svo fulltaf fleira fólki og laugardagskvöldið var sögulegt. Um miðnætti safnaðist allur hópurinn saman þar sem að nokkrir snillingar stóðu fyrir fjöldasöng. Þar var alveg ótrúlega góð stemnning og gaman.

Kvöldið hjá mér endaði svo í gamni slag við einn vin minn, þar sem mér tókst að rústa hnénu á mér. Í dag komst ég að því að ég var með áverka á liðþófa, sem er alveg einstaklega vont. Í gær eyddum við aftur heillöngum tíma í sundlauginni, lágum í sólbaði, tókum til á tjaldsvæðinu og vorum svo ekki komin í bæinn fyrr en um 7 leytið. Helgin kláraðist svo í sunnudags kvöldkaffi. Ótrúlega skemmtileg helgi, ein skemmtilegasta útilega sem ég hef farið í og ekki fræðilegur möguleiki að gera henni skil almennilega í bloggfærslu. Ég set þó inn myndir þegar ég endurheimti myndavélina mína, sem ég týndi á laugardagskvöldinu.

* * *

Ég fór uppá bráðamóttöku í dag og þar kom í ljós að það var ekkert slitið í hnénu, sem var það sem ég var hræddur við þar sem að sársaukinn var fáránlegur í gær. Ég er núna kominn í teygjusokk og ákvað að taka því rólega í dag og á morgun. Samkvæmt lækni á þetta að taka um 2 vikur að lagast, en ég má ekki spila fótbolta í 4 vikur.

Ég get ekki verið heima hjá mér í rólegheitunum án þess að fá samviskubit yfir því að ég skuli ekki vera að gera eitthvað gagnlegra. Ég var með smá þrýsting í hnénu þannig að ég lá uppí sófa og spilaði Grand Theft Auto IV. Þann leik keypti ég þegar ég kom heim frá Ísrael, en hafði samt ekki spilað hann, sem sýnir hversu mikið notuð Xbox vélin mín er. Ég fékk samt reglulega samviskubit yfir því að vera ekki að gera eitthvað gagnlegra.

* * *

Og já, einsog allir aðrir í útilegunni þá er ég alveg fáránlega brúnn eftir helgina. Ég held að ég hafi verið eini maðurinn, sem að tók með mér sólarvörn í útileguna. Íslendingar virðast almennt halda að þeir geti ekki brunnið á Íslandi. Það er misskilningur. 🙂

Stelpa, Lost, sólgleraugu og útilega

Punktar:

  • Stelpa, sem þú átt ekki sjens í, talar um hvernig þú átt að ná í stelpur sem eru aðeins minna sætar.
  • Í kvöld fór ég með vinum útað borða og fékk verulega vondan mat. Það þýðir að ég er búinn að fara á þrjá nýja veitingastaði í röð án þess að vera ánægður með matinn. Það er ekki sérlega góður árangur.
  • Ég er á leiðinni í útilegu með góðum vinum á morgun. Ég er spenntur. Þetta sumar er strax farið að líta miklu betur út en síðasta sumar.
  • Ég týndi sólgleraugunum mínum (þessum hérna) og ég er búinn að vera alveg miður mín síðustu daga. Agalegt ástand!
  • Er að hlusta á nýja Portishead diskinn, sem lofar góðu.
  • Kláraði að horfa á fjórðu seríuna í Lost. Lokaþátturinn var verulega góður, en þessi sería var samt pínu vonbrigði eftir frábæran lokahluta á þriðju seríunni. Ágætis mælikvarði á hrifningu mína er sá að ég horfði nánast aldrei á heilan Lost þátt í einni atrennu í fjórðu seríunni. Mér tókst alltaf að rífa mig upp til að fara á klósettið eða skoða tölvupóst eða eitthvað ámóta gagnslaust. Ég var búinn að búast við loka-twistinu, en ég er samt alveg jafn spenntur fyrir fimmtu seríunni einsog ég var fyrir þeirri fjórðu.
  • Fyrir utan Lost, þá eru það eiginlega bara Office þættirnir sem ég er spenntur fyrir. Jú, ég hef líka verið að horfa á Gray’s Anatomy með vinkonu minni og ég fíla þá þætti. En fyrir utan þessa þrjá þætti (og jú Entourage líka) þá er ég eiginlega ekki spenntur fyrir neinum þáttum. Ég ætla að horfa á Dexter, sem margir hafa mælt með og svo ætla ég líka að horfa á The Wire. Er ég að missa af einhverju öðru? Eru til dæmis engir gamanþættir í dag, sem er þess virði að horfa á?

Bíldshöfði, morgunmatur og Sigur Rós

Jæja! Serrano staður númer 5 er þá opinn. Opnuðum klukkutíma of seint í morgun, sem skýrðist á því að einhver af fjölmörgum eftirlitsaðilum skilaði ekki sínu áliti nógu fljótt, þannig að við þurftum að hinkra með opnun þó að allur matur væri tilbúinn. Þetta tókst þó að lokum og það er búið að vera frábært að gera í allan dag.

Einn kosturinn við það að vera að opna fimmta staðinn er að við lærum alltaf eitthvað nýtt í hverri opnun og við erum alltaf að bæta staðina örlítið. Afgreiðsluborðið, sem að Frostverk smíðar, er gott dæmi um þetta því í hvert skipti sem við hittum þá fyrir nýjan stað þá erum við með nýja hluti, sem við viljum fá inní borðið. Lea Galgana, sem hefur hannað staðina í Smáralind og Dalshrauni hannaði líka fyrir okkur nýtt útlit á frontinum, sem er talsvert ólíkt (og flottara) en útlitið á N1 Hringbraut.

Allavegana, ég tók slatta af myndum síðustu vikuna sem við höfðum til að byggja upp staðinn inná stöðinni og þær eru komnar hingað inn. Ég tímasetti myndirnar miðað við opnun og það er magnað að hugsa til þess að þetta hafi verið staðurinn 6 dögum fyrir opnun og þetta staðurinn 17 klukkutímum fyrir opnun.

* * *

Staðurinn er semsagt tilbúinn, en þó munum við bæta við hann á næstu vikum. Fyrir það fyrsta mun bílalúgann vonandi opna fljótlega, sem ætti að vera skemmtileg nýjung þótt að hún skapi vissulega ákveðin vandræði þegar kemur að skipulagningu. En það er eitthvað sem við munum leysa.

Einnig ætlum við að byrja með morgunmat á Bíldshöfðanum seinna í sumar eða haust. Við erum búin að vera að gera tilraunir með morgunmat síðustu vikur og þær lofa góðu. Ef að einhver hefur áhuga á að vera með í rýnihóp fyrir morgunverðar-burrito og quesadilla, sendið mér þá endilega póst.

* * *

Núna er ég nett þreyttur, það verður alltaf mikið spennufall eftir svona opnanir. Þannig að ég ætla að eyða kvöldinu í að klára að horfa á þá Lost þætti, sem ég á inni. Jibbí jei!

* * *

Mikið afskaplega er nýji Sigur Rósar diskurinn frábær. Ég er búinn að vera sönglandi Gobbedigook og Inní mér syngur vitleysingur og Við Spilum endalaust nánast án þess að stoppa síðustu daga. Þessi hljómsveit er ótrúleg. Verst að þeir gerðu ekki heilan disk með hressum lögum. Þá hefði sá diskur einangrað sumarhlustunina mína.

Gærdagurinn

Ég var í brúðkaupi í gær, sem var skemmtilegt einsog hefð er fyrir í brúðkaupum vina minna.

Highlight kvöldsins fyrir mig voru tvö. Fyrir það fyrsta mjög metnaðarfullar tilraunir vinkvenna minna við að koma mér á sjens með einni stelpunni í boðinu. Hið seinna var svo þegar að vinur minn sýndi fyrirlitningu sína á [sólgleraugunum mínum](http://www.flickr.com/photos/einarorn/780207278/) með því að henda þeim í vegg. Hann vildi að ég losaði mig við þau og fengi mér í staðinn gleraugu frá [alvöru merki](http://oakley.com/), en ekki gleraugu sem væri hægt að kaupa á 5 pund í Next.

Kíktum svo saman í bæinn á Vegamót / Boston / Ölstofuna. Vorum þar til klukkan 3.

Sem var frábært, því ég var farinn að sofa rétt eftir klukkan 3. Munurinn á því og að fara að sofa klukkan 6-8 einsog hefur gerst á flestum djömmum undanfarið, er gríðarlegur. Ég vildi óska þess að íslenskir skemmtistaðir færu aftur í gamla opnunartíma sinn. Þegar maður verður eldri (hóst) þá kann maður alltaf betur að meta fríin um helgar og það er svo hræðileg sóun að eyða öllum deginum í þynnku.

Mun betra væri að geta gert þetta einsog í Bretlandi. Það er að kíkja útá lífið um klukkan 7 og vera svo búinn rétt eftir miðnætti. Það myndi þýða að maður gæti náð 8 tíma svefni, en verið samt vaknaður fyrir klukkan 10 daginn eftir. Þá ætti maður allan daginn framundan til að njóta, í stað þess að allur dagurinn fari í svefn. Þetta myndi bæta skemmtanalífið í Reykjavík til muna og einnig hvetja fleira fólk til þess að kíkja út á lífið. Margir á Íslandi hætta mun fyrr að fara útá lífið en í útlöndum og ég held að ein stærsta ástæðan sé það hversu lengi fólk er að í bænum.

Ég er enn að reyna að gera það upp við mig hvort ég eigi að skella mér til útlanda um næstu helgi og ef svo er, hvort ég eigi að fara til London í n-ta skipti eða til Skotlands. Veðrið í London lítur ágætlega og svo hef ég alltaf ætlað að fara og skoða Stonehenge, sem ég gæti gert núna. Verð að ákveða þetta í dag.

Skotland?

Ok, ég fékk þá flugu í höfuðið að skella mér til Skotlands um næstu helgi (þangað hef ég aldrei komið), þar sem ég hef í raun ekkert frí tekið mér í sumar fyrir utan eina helgi í Chicago/DC sem ég bætti aftan á vinnuferð..

Ég sé að Icelandair er með flug til Glasgow.  Nú spyr ég: Ef ég hef 4 daga í Skotlandi, hvað á ég að gera?  Á ég að eyða meiri tíma í Edinborg eða Glasgow?  Er eitthvað í nágrenni þessara borga, sem ég á að skoða?