Serrano á Bíldshöfða

Síðasta eitt og hálfa árið á Serrano eru búnir að vera ansi skrautlegir. Við opnuðum okkar annan stað á N1 Hringbraut í lok janúar, við keyptum Síam í ágúst, opnuðum í Smáralind í nóvember og svo í Dalshrauni í Hafnarfirði í apríl. Salan er á þessum sama tíma búin að margfaldast.

Núna á þriðjudaginn opnum við svo fimmta Serrano staðinn á nýrri N1 stöð á Bíldshöfða (hinum megin við götuna við N1 Ártúnshöfða). Við höfum frábæra reynslu af því að vinna með N1 á þeirra stöðvum og erum bjartsýn á að þessi staður verði jafn vinsæll og sá á Hringbraut.

(mynd tekin í gær, fjórum dögum fyrir opnun – sjá fleiri myndir hér)

Það skrýtna við þessa opnun er að ég hef ekki komið nærri því jafnmikið nálægt henni og fyrri opnunum. Í tengslum við síðustu opnanir hef ég skráð nokkuð nákvæmlega allt, sem þarf að gera til að opna nýjan stað og nú er það svo að þær upplýsingar eru allar til taks á einum stað. Ég var löngu búinn að klára öll teikningamál af stöðinni með N1 og arkitektunum, en á meðan að ég var úti í ferðalaginu mínu, þá sá Emil, sem á staðinn með mér, nær algjörlega um skiplagninguna á opnun staðarins.

Þannig að ég hef sloppið við mesta stressið við opnunina. Þó ég viðurkenni fúslega að stressið við að opna nýjan stað er eitt það allra skemmtilegasta stress, sem ég upplifi. Við höfum aðeins haft 2-3 daga inná stöðinni til að undirbúa okkur, en þetta lítur samt ágætlega út. Stærstu tækin komu inn núna áðan og þegar ég var uppá Bíldshöfða fyrir smá stundu, þá litu hlutirnir nokkuð vel út. Við opnum svo á þriðjudaginn næsta, 1.júlí.

* * *

Emil er búinn að taka við af mér sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins og ætla ég að einbeita mér á næstunni að öðrum verkefnum í fyrirtækinu, sem koma aðallega að þeim mögleika að opna Serrano stað í Skandinavíu. Ég mun eflaust skrifa mun meira um það þegar að að því kemur. En ég er allavegana búinn að draga mig að miklu leyti útúr daglegum rekstri hérna heima.

Serrano staðurinn á Bíldshöfða verður semsagt sá fimmti í röðinni og við erum nú þegar búnir að skrifa undir samning um að opna sjötta staðinn, en hann verður þó ekki opnaður fyrr en um mitt næsta ár.

Ruslpóstur, klipping og Rocky

Letters! We’ve got letters! We’ve got lots and lots of letters!

* Ég er með alveg FÁRÁNLEGA stutt hár núna. Ég þori varla útúr húsi. Þessi klipping er talsvert styttri en [þessi klipping](http://flickr.com/photos/einarorn/2442724107/). AAaaaargh, fokk. Stelpan sem klippti mig hafði rosalega áhyggjur af því að hún væri að klippa eitthvað vitlaust og þær reyndust á rökum reistar. Einhvern veginn finnst mér hárið alltaf síðara í stólnum en það er þegar ég kem heim.

* Í gær horfði ég á Age of Love, enda það krappí raunveruleikasjónvarpsdrasl (sem er mitt uppáhald). Þessi þáttaröð er full af snilldar mómentum. Í þættinum í gær sagði ein 42 ára konan að hún væri orðin 42 ára og því þyrfti hún ekki lengur að eltast við stráka. Hver lógíkin í þessari fullyrðingu er veit ég ekki. Ég hefði haldið að þörf kvenna til að actually gera eitthvað, í stað þess að bíða eftir að strákarnir komi til þeirra, myndi aukast með aldrinum. En hvað veit ég?

* Allavegana, ég átti alveg lygilega frábæra helgi um síðustu helgi. Fór með vinum mínum í Paintball fyrir austan fjall og svo í sumarbústað við Álftavatn þar sem var ótrúlega gaman að drekka fram á morgun. Ég keyrði svo í bæinn og sótti frænku mína og við fórum svo saman í Húsafell þar sem öll fjölskyldan mín var í útilegu. Þar borðaði ég ótrúlega góðan mat, lá í sólbaði og talaði við fólkið í fjölskyldunni og slóst við litlu frændur mína.

* Í alvöru talað, þið fólk sem ég þekki ekki neitt, HÆTTIÐ að senda mér þennan N1/Shell ruslpóst! Líkurnar á að ég sé móttækilegur fyrir áróðri um að hætta að versla við N1 eru sirka _NÚLL_!

* Nú á ég bara tvo þætti eftir af Lost seríunni.

* Er þetta besta atriði kvikmyndasögunnar? Ég man ennþá þegar ég var lítill strákur og sá þetta atriði í fyrsta skipti. Lagið er enn eitt besta lag í heimi til að hlusta á í líkamsræktinni. Já, og ekki er þetta verra!

Takk.

Halla og konurnar í Íran

Þessi grein eftir mig birtist í morgun á Vefritinu.

* * *

Í Morgunblaðinu á laugardaginn birtist viðtal við Höllu Gunnarsdóttur. Halla, sem varð þekkt fyrir að bjóða sig fram til formann KSÍ og hefur starfað fyrir VG, lýsir þar reynslu sinni úr ferð til Íran. Viðhorf hennar til munar ástöðu kvenna í Íran og á Íslandi er furðulegt. Í viðtalinu segir Halla meðal annars:

“Hugmynd margra er sú, að fyrir byltinguna í Íran hafi þar verið tiltölulega opið og lýðræðislegt samfélag, svo hafi verið gerð bylting og þá haf allt farið aftur til steinaldar.

Halla vill meina að þetta sé vitleysa og heldur áfram:

“Fyrir byltingunaltinguna sagði ríkið að konur mættu ekki vera með slæðu, eftir byltinguna segir ríkið að konur eigi að vera með slæðu. Þetta er sama kúgunin.”

Þessi yfirlýsing er með ólíkinum. Hvernig getur Halla haldið því fram að kúgunin sé eins ef að ein tegund af klæðnaði sé bönnuð og þegar að ALLAR tegundir af klæðnaði í heimi, utan einnar, séu bannaðar? Er ekki munur á því hvort að gallabuxur séu bannaðar og því ef að allar konur yrðu skyldaðar til að vera í gallabuxum alla daga, alls staðar?

Það var vissulega svo að konur börðust fyrir því í írönsku byltingunni að þær mættu klæðast Hijab en hætt er við því að barátta þeirra hefði ekki verið svo öflug ef þær hefðu vitað að Hijab yrði í kjölfarið einu fötin sem þær mættu klæðast utandyra það sem eftir lifði ævi þeirra.

Gleymum því heldur ekki að við erum ekki að tala um gallabuxur heldur Hijab, sem í dag er lagt bann við að klæðast í Tyrklandi. Fyrir þá sem hafa ferðast til Íran og Tyrklands þá hlýtur að vera erfitt að halda því fram að það bann við einni tegund af fötum í Tyrklandi komist nálægt því að vera jafn kúgandi fyrir konur og það að þær séu skyldaðar af yfirvöldum í Íran til að klæðast eingöngu Hijab. Hijab er að mörgu leyti framlenging á þeirri hugsun að konan sé eign eiginmannsins og að enginn eigi að fá að njóta þess að horfa á hana nema eiginmaðurinn. Í Íran og nágrannalöndum eru konur neyddar annaðhvort af yfirvöldum eða karlmönnum í kringum þær til að klæðast Hijab þegar þær hætta sér út meðal annarra karlmanna. Hijab felur vöxt þeirra, hár og í mörgum tilfellum andlit líka.

* * *

Þess utan hef ég ekki heyrt marga halda því fram að staða kvenna í Íran fyrir byltinguna hafi verið góð (man reyndar ekki eftir neinum). Því sé ég ekki hvers vegna Halla þarf að afsaka Klerkastjórnina með því að halda því fram að hlutirnir hafi verið jafn slæmir áður en hún komst til valda. Þetta er sama ömurlega leiðin til réttlætingar á slæmum stjórnvöldum og mörgum vinstri mönnum er tamt að nota í tilfelli Kúbu, þar sem að afleitir stjórnarhættir Fidel Castro eru oft afsakaðir með vísun í það að ástandið hafi jú líka verið svo slæmt undir Batista.

* * *

Halla heldur í þessu stutta viðtali áfram.

“Konur alls staðar í heiminum eru kúgaðar. Það er stigsmunur en ekki eðlismunur á því hvernig konur í Íran hafa það og hvernig konur á Íslandi hafa það.”

Það er naumast.

Það er semsagt eingöngu stigsmunur á kúgun kvenna á Íslandi og í Íran.

Eflaust hefur Halla heillast af Íran í heimsóknum sínum þangað. Ég er sjálfur nýkominn úr ferðalagi um lönd í nágrenni Íran og verð að játa að ég er gjörsamlega heillaður af fólkinu í þeim löndum. Betra samansafn af vinalegu, gestrisnu og skemmtilegu fólki er erfitt að finna. En þótt að ég hafi fallið kylliflatur fyrir Sýrlendingum og Jórdönum, þá féll ég ekki fyrir því samfélagi sem að þessar þjóðir mynda. Jú, fólkið er yndislegt, en kúgun á kvenfólki er gríðarleg. Jú, fólkið er yndislegt en Sýrland er einræðisríki þar sem að ýtt er undir Gyðingahatur í skólum.

* * *

Ef marka má frásagnir þeirra ferðamanna, sem ég hef hitt, þá eru Íranir líkt og Sýrlendingar yndislega gestrisið og gott fólk. Það breytir því ekki að, hvort sem það er Klerkastjórninni eða Shah að kenna, þá er kúgun kvenna í Íran meðal annars svo háttað í dag:

  • Baráttukonur fyrir kvenréttindum hafa ítrekað verið handteknar í landinu. Í fyrra komst það í fréttirnar þegar að 26 baráttukonur voru handteknar nokkrum dögum fyrir alþjóðlegan baráttudag kvenna og sátu tvær þeirra í einangrun í 15 daga.
  • Karlmenn eiga að taka allar ákvarðanir inná heimilinu og þeir fá ávallt forræði yfir börnum í skilnaðarmálum. Fóstureyðingar eru nánast allar ólöglegar í Íran, meira að segja þegar um nauðgun er að ræða.
  • Konur eru neyddar til að hylja allan líkama sinn utan andlits og þær mega ekki nota snyrtivörur. Kvenhatur klerkanna hefur gert konur einar að sökudólgi fyrir kynferðislega löngun og því þarf þær að hylja. Konur máttu eftir yfirtöku Klerkastjórnarinnar giftast 9 ára gamlar þótt margir hefðu viljað hækka þann aldur í 14 ár.
  • Ríkisstjórn Ahmadinejad hefur gert margt til að reyna að aðskilja konur og karla enn frekar (í viðbót við að vera til dæmis aðskilin með öllu í skóla), meðal annars með því að setja upp kynjaskiptar lyftur í opinberar byggingar meðan hann var borgarstjóri í Tehran.
  • Í íranska réttakerfinu eru ótal dæmi um það að konur séu taldar óæðri verur. Til að sanna framhjáhald þarf til að mynda vitnisburð tveggja karlmanna eða fjögurra kvenna.

* * *

Einnig segir Halla í viðtalinu af því sögu þegar að eiginmaður í Íran ákvað að svara sjálfur öllum þeim spurningum sem var beint til eiginkonu hans á meðan að eiginkonan bar fram te! Höllu fannst það þó ekki dæmi um “kúgunarsamband” þar sem að konan hafði gifst 15 ára gömul og því hefði sambandið alltaf verið svona!

Þetta er furðulegt dæmi um tilhneigingu margra vinstri manna til að afsaka kúgun kvenna í Múslimalöndum.

* * *

Þess má líka að lokum geta að á Íslandi hlaut Halla sjálf gríðarlega athygli og stuðning þegar að hún bauð sig fram til formanns Knattspyrnusambands Íslands.

Þar til fyrir tveim árum máttu konur í Íran ekki einu sinni horfa á fótboltaleiki.

Það væri gaman að sjá hversu langt kúgun á kvenfólki þarf að ganga til að Halla telji að eðlismunur sé á henni og kúgun kvenna á Íslandi. Dæmin í Íran eru öll um kúgun á kvenfólki, sem er sprottin af einstöku kvenhatri og kvenfyrlitningu. Skoðanir sem byggjast á þeirri trú að konur séu líkamlega, gáfulega og siðferðilega óæðri karlmönnum.

Að kalla muninn á kúgun kvenna í Íran og á Íslandi eingöngu “stigsmun” gerir, af engu tilefni, lítið úr kúgun kvenna í Íran.

Snillingarnir í Café Tacuba

Á bar í Ísrael heyrði ég mjög óvænt lag með uppáhalds latin hljómsveitinni minni, sem eru mexíkósku snillingarnir í Café Tacuba.  Ég hafði ekki hugmynd um að þeir væru með lög í spilun í öðrum löndum, en þegar ég fór að pæla í því þá hefði ég alveg mátt giska á að akkúrat þetta lag yrði vinsælt með þeim.

Café Tacuba eru skírðir í höfuðið á kaffihúsi í Mexíkóborg, þar sem ég hef orðið svo frægur að drekka espresso.  Lagið Eres er talsvert óvenjulegt fyrir þá.  Fyrir það fyrsta er þetta ballaða og í öðru lagi er það sungið af gítarleikara sveitarinnar, Emmanuel del Real – en ekki aðalsöngvara sveitarinnar, hinum nefmælta Rubén Albarrán (Pinche Juan).

(hérna er fín útgáfa af tónleikum)

Ef þið fílið lagið (hvernig er annað hægt?), þá mæli ég með Cuatro Caminos, plötunni sem inniheldur lagið og Re plötunni sem góða kynningu á þessum snillingum. Já, eða þið getið líka bara kíkt á Serrano í Hafnarfirði eða Smáralind – Café Tacuba eru ansi mikið spilaðir þar.

Til að bæta við þetta: Ojala que Llueva cafe, hið klassíska mexíkóska er hérna í stórkostlegri útgáfu þeirra Cafe Tacuba manna á tónleikum. Ég dýrka þetta lag! (þarna er aðalsöngvarinn Ruben að syngja).

Hérna er svo fyrsta lagið sem ég fílaði með þeim félögum, Metro, þar sem þeir syngja um metró stöðvar í Mexíkóborg.

17. júní

Hæ hó jibbí jei og allt það.

  • Ég svaf í fjóra tíma í nótt eftir djamm í gærkvöldi og hef ekki verið með snefil af þynnku í dag.  Kannski er þetta svar við þynnkuvandamálum.  Ég var mættur á vinnufund klukkan 11 á 17.júní.  Það kalla ég hörku.
  • Fór í bæinn með vinum mínum í gær eftir frábært matarboð hjá öðrum vinum og það var afskaplega skemmtilegt.
  • Núna er ég hins vegar fáránlega latur, ligg uppí sófa og horfi á Age of Love á Skjá Einum.  Ég horfi vanalega aldrei á S1, en rakst á þennan þátt þegar ég var að flakka á milli stöðva eftir að hafa horft á Hollendinga vinna á EM.  Ég bloggaði um þennan þátt fyrir um ári og S1 hafa greinilega lesið þann pistil.  Semsagt, þá fjallar þátturinn um að hinn 31 árs gamli Mark Philippoussis er í nokkurs konar Bachelor hlutverki en twist-ið er að stelpurnar skiptast í tvo hópa, annars vegar stelpur sem eru á milli 20-30 ára og svo aftur þær sem eru nær fertugu (sú elsta 48 ára).  Ég myndi segja að það væru svona 99,7% líkur á að hann velji einhverja úr yngri hópnum.

    Sætasta stelpan í hópnum er 25 ára, en þessi 48 ára lítur ótrúlega vel út.

  • Ég heyrði af því í gær að Ölstofan og Vegamót þyrftu framvegis að loka klukkan 3 um helgar.  Grófari aðför af mínu skemmtanalífi hefur ekki verið gerð í sögu Reykjavíkur.  Af hverju í andskotanum gat þetta ekki komið fyrir Sólon eða Hressó eða einhverja ámóta staði, sem ég sæki aldrei um helgar?  Af hverju þurftu þetta akkúrat að vera staðirnir tveir sem að ég sæki hvað mest?  Hvernig verður Kaffibarinn þá eiginlega klukkan þrjú?  Ætla þeir að byrja að stafla fólki oná hina gestina?
  • Ég ætla að vaka í nótt og horfa á Boston Celtics vinna 17. NBA titilinn.
  • Einn kostur við það að hafa verið svona lengi í fríi er að á meðan safnaðist upp slatti af sjónvarpsþáttum, sem ég get horft á.  Ég stóðst ekki freistinguna og horfði á fjóra Office þætti í röð, en er búinn að spara Lost aðeins betur.  Á þrjá þætti eftir, sem er æði.  Ó ég elska Lost.

Fyrsta helgin, kaffi og ljósmyndapælingar

Fyrsta helgin á Íslandi er búin að vera verulega góð. Á föstudagskvöld horfði ég heima hjá vini mínum á Holland spila frábærlega gegn Frakklandi og þar á meðal Dirk Kuyt skora mark, sem gladdi mig mjög. Fór síðan í þrítugs afmæli hjá Guðföður bloggsins á Íslandi.

Í gær fór ég svo annan daginn í röð út að hlaupa. Er með harðsperrur nánast alls staðar eftir fáránlega létt hlaup og lyftingar. Það er með ólíkindum hvað maður er aumur eftir svona langt ferðalag. Í gærkvöldi fór ég svo í tvær útskriftir. Fyrst hjá bestu vinkonu minni í sal á Seltjarnarnesi og svo til vinar míns í Garðabænum. Þar var ég fram eftir kvöldi. Fór svo heim til annars vinar í partí og þaðan í bæinn. Ég var ekki alveg að höndla bæinn, þannig að ég fór frekar snemma heim.

* * *

Ég komst að því í ferðinni að það er bara eitt, sem ég get ekki lifað án og það er kaffi. Ég drakk nánast ekkert áfengi í þessar sex vikur, drakk sjaldan sódavatn, borðaði ekki pizzu né taílenskan mat og leið ekkert sérstaklega fyrir það.

En það sem ég var tilbúinn að leggja mest á mig var fyrir góðan kaffibolla. Á shabbat í Jerúsalem labbaði ég fjóra kílómetra til að finna kaffihúsakeðju, sem reyndist svo lokuð. Það voru gríðarleg vonbrigði.  Ég held að ég reyni ekkert að þræta fyrir það að ég er háður kaffi.

* * *

Ég er byrjaður að fara í gegnum myndirnar úr ferðinni.  Þær eru um 1.200 talsins, sem er hreinasta geðveiki.  Ætli ég hendi ekki um 60-70% af þeim en eftir munu þá standa nokkrar mjög góðar myndir.  Ég ætla í leiðinni að kenna sjálfum mér á Aperture, sem ég keypti í London.  Ég hef notað iPhoto í gegnum tíðina, en ætla að prófa að skipta til þess að geta leikið mér aðeins meira með myndirnar.

Og þá kem ég að einni spurningu fyrir ljósmyndanörda.  Málið er að fyrstu vikuna var ég óvart með 20D vélina mína stillta á ISO 800.  Það gerði það að verkum að myndirnar eru sumar grófar.  Ég tók allar myndirnar í RAW.  Og spurningin er, get ég gert eitthvað til að laga þetta?  Það er það klúður að hafa haft ISO alltof hátt þegar ég tók sjálfar myndirnar?

Mið-Austurlandaferð 18: Endalok

Ég er kominn heim.  Kom í gærkvöldi með flugi frá London eftir að hafa eytt einum degi þar í að versla og hitta systur mína.

Er að henda myndunum inná tölvuna mína – þær eru sennilega hátt í þúsund talsins og því mun taka tíma að laga þær og flokka.  Þessa fyrir neðan tók ég í Wadi Rum eyðimörkinni í Jórdaníu.  Þarna er ég að horfa á sólsetur yfir eyðimörkinni, sem var gríðarlega fallegt (myndavélinni var stillt upp á steini – smellið til að sjá stærri útgáfu)

Horft á sólsetur í Wadi Rum

Þetta var frábær ferð. Sennilega besta ferðalag, sem ég hef farið í síðan ég ferðaðist með vinum mínum um Suður-Ameríku fyrir 10 árum. Algjörlega ógleymanlegir staðir, yndislegt fólk, ótrúlegur matur og frábært veður hjálpaði til við að gera ferðina svona vel heppnaða.

Hápunktarnir:

  • Sýrlendingar – Vinalegasta fólk, sem ég hef kynnst
  • Jerúsalem – ótrúleg borg með milljón merkilegum stöðum
  • Stelpur í Tel Aviv
  • Damaskus – yndisleg borg, sem að alltof fáir heimsækja. Umayyad moskan ein og sér nægir sem ástæða fyrir heimsókn, en þegar maður bætir við lífinu, fólkinu og matnum þá er það orðinn frábær pakki.
  • Götumatur í Ísrael – Shawarma laffa var það fyrsta sem ég lærði í hebresku. Ótrúlega góður matur, sama hversu veitingastaðirnir voru shabby.
  • Baalbek í Líbanon – Skemmtilegustu rómversku rústirnar
  • Petra í Jórdaníu – Ótrúlegar fornminjar

Þrátt fyrir að eiginlegri ferðasögu sé hér með lokið, þá á ég eftir að skrifa eitthvað meira um þetta ferðalag á næstu vikum.  Það eru nokkrar sögur ósagðar og svo langar mig líka til að skrifa um pólitík og trúmál tengd þessari ferð – og eins almennar ráðleggingar varðandi ferðalög til þessara landa. Hvort ég hef orku til þess að klára þau skrif veit ég ekki.  En ég mun allavegana setja inn myndir á næstu dögum eða vikum.

Það frábæra við þessi ferðalok er líka að mér líður ótrúlega vel við heimkomu varðandi mitt líf.  Eftir síðustu ferðalög hef ég alltaf komið heim fullur efasemda um það hvert ég er að stefna og hvort ég sé ánægður með mitt líf.  Það að vera úti í svona langan tíma einn gerir það auðvitað að verkum að maður hugsar mikið um sinn gang.  Oft hef ég því komið heim ákveðinn í að breyta öllu í mínu lífi.

En núna við heimkomuna er ég sáttur við hvert ég stefni.  Vinnan virðist hafa tilgang og ég sé hvert ég stefni þar.  Og í einkalífinu finnst mér hlutirnir líka vera á réttri leið.  Þannig að eina áhyggjuefnið við heimkomu er að ná af mér einu eða tveimur aukakílóum, sem fylgdu því að borða shawarma, endalaust af arabísku brauði og öðru góðgæti.  

Ég vona að þið hafið haft gaman af því að lesa þessar ferðasögu. Ég vona allavegana að mér hafi tekist að koma því á einhvern hátt til skila hversu frábært þetta ferðalag, þessir staðir og þetta fólk voru.

Takk.

Skrifað í Vesturbæ Reykjavíkur klukkan 23.14

Mið-Austurlandaferð 17: Tel Aviv er Tel Aviv

Þá er síðasti dagur þessarar Mið-Austurlandaferðar næstum því búinn. Klukkan er að verða fimmhér við Miðjarðarhafið í Tel Aviv. Búinn að eyða deginum á ströndinni, lesandi, horfandi á mannfólkið, drekkandi bjór, borðandi morgunmat og góðan hádegismat á veitingastöðum á ströndinni. Í kvöld ætla ég svo að mæta á einn strandbarinn og horfa á Holland vinna Ítalíu á stórum skjá á ströndinni.

* * *

Það fyrsta sem maður einsog ég hlýt að spyrja mig að eftir nokkra daga í Tel Aviv er: “Af hverju í andskotanum bý ég ekki í Tel Aviv?” Þetta er æðisleg borg!  Frjálslynd, falleg, býður uppá fullkomið veður, strendur, Miðjarðarhafið, fallegar stelpur, gott næturlíf, öflugt menningarlíf, góða veitingastaði og svo framvegis og framvegis. Þetta er einfaldlega frábær borg.

Það er líka erfitt að ímynda sér að Jerúsalem sé álíka nálægt Tel Aviv og Selfoss er nálægt Reykjavík – því borgirnar tvær gætu vart verið ólíkari. Í Jerúsalem þverfótar maður ekki fyrir trúarbrögðum – moskum, bænahúsum, kirkjum, haredi gyðingum á leið að Grátmúrnum, nunnum, rabbíum og svo framvegis og framvegis. Og Jerúsalem er íhaldsöm. Á shabbat lokar hreinlega allt. Veitingastaðir og kaffihús líka.

Ég kom hingað til Tel Aviv á föstudaginn og spurði stelpuna í afgreiðslunni hvort það væri ekki allt lokað á shabbat einsog í Jerúsalem. Hún svaraði einfaldlega “Jerúsalem er trúuð – Tel Aviv er Tel Aviv”. – Og ætli það sé ekki besta lýsingin á Tel Aviv – hún er einfaldlega Tel Aviv. Að vissu leyti minnir hún á svæði í kringum Los Angeles eða Barcelona. Mannlífið mótast að vissu leyti af nálægðinni við ströndina. Á shabbat hópast allir á ströndina og síðan nýtur fólk næturlífsins í miðborginni fram eftir morgni. Hérna virðist oft eingöngu búa ungt fólk – og borgin virðist að vissu leyti gerð fyrir ungt fólk.

* * *

Smá útúrdúr: Ég studdi Hillary Clinton í bandarísku demókrata forkosningunum, en er þó sæmilega sáttur við Barak Obama. Eftir því sem að leið á kosningabaráttuna varð ég þó alltaf spenntari og spenntari fyrir Hillary. En allavegana. Einsog flestir hér í Ísrael var ég spenntur fyrirAIPAC ræðunni hans og hún var að mörgu leyti mjög góð. Obama talaði um tímann sinn hér í Ísrael, heimsóknina á Yad Vashem (hann notaði hebreska orðið Shoa til að nefna Helförina) og hann lýsti yfir stuðningi við Ísrael og sjálfsagðan rétt Íslraelsríkis til sjálfsvarnar. En svo tókst honum að klúðra ræðunni með einum punkti þegar hann sagði að Jerúsalem yrði áfram höfuðborg Ísraels (gott) og að hún yrði óskipt (glórulaust). Með þessum eina punkti um það að Jerúsalem yrði óskipt, sem er fáránlegt að halda – því hún er mikilvæg borg fyrir Araba og að mörgu leyti mjög arabísk á stórum svæðum – missti hann aðdáun ansi margra í Mið-Austurlöndum. Óskiljanleg mistök, sem munu gera lítið til að auka stuðning Gyðinga við hann, en munu auka andúð Múslima.

* * *

Ég kann afskaplega vel við Ísraela, en þeir eru þó að mörgu leyti mjög ólíkir þeim Aröbum, sem ég hef kynnst í nágrannalöndunum og Palestínumönnum. Ég vissi alltaf að ég myndi losna við mína ísraelsku fordóma eftir smá tíma í sjálfu landinu. Einsog margir bakpokaferðalangar hef ég nefnilega ekki haft neitt sérstaklega góða reynslu af Ísraelum á bakpokaferðalögum. Það kann vel að vera vegna tímasetningarinnar á bakpoka-ferðalögum Ísraela, sem flestir fara í strax eftir herþjónustu, sem hlýtur að taka á sálina.

Allavegana, Ísraelar eru mun lokaðri en Arabar. Besta orðið, sem ég hef séð lýsa þeim er brusque. Flestir virka smá þurrir við fyrstu kynni, en það breytist þegar maður hefur kynnst fólkinu betur. Stelpurnar eru uppteknar af því að vera svalar og láta sem þeim sé sama um allt sem er í gangi í kringum þær – og flest ungt fólk virðist vera upptekið af því að líta út eins töff og mögulegt er. Þetta er mjög ólíkt Arabalöndunum þar sem maður hefur á tilfinningunni að allir vilji vera vinir manns. Ætli sú þjóð, sem líkist Ísraelum í viðhorfi einna best sé ekki… Íslendingar?

* * *

Hvað er ég búinn að gera í Tel Aviv gæti einhver spurt? Jú, ég ætlaði að fara á Diaspora safnið í morgun, en það reyndist lokað. Og jú, ég kíkti til Jaffa í smá stund, en ætli besta lýsingin sé ekki einfaldlega sú að ég hef notið lífsins. Gleymt því í smá stund að ég er túristi í ókunnu landi og einfaldlega notið góðrar helgi í Tel Aviv. Ég hef legið á ströndinni, lesið tvær bækur, horft á EM, drukkið bjór, kíkt á djammið – notið lífsins. Ég er búinn að gera nóg af því að túristast síðustu vikurnar. Ég hef séð nóg af rústum, nóg af söfnum og svo framvegis. Ég hafði alltaf ætlað mér að einfaldlega slappa af í Tel Aviv og það hef ég gert.

Hérna skín sólin og hitinn er passlegur. Ég veit að ég hef nánast ekkert talað um veðrið í þessari ferðasögu og ástæðan er einföld. Veðrið hefur verið nánast fullkomið. Og eftirfarandi segi ég án þess að ýkja hið minnasta. Ég hef ALDREI á þessum 6 vikum séð rigningu. ALDREI! Ég heyrði að það hefði rignt eina nóttina í Damaskus en það er allt og sumt. Og annað: Það hefur verið sól ALLA dagana. Hvern einn og einasta dag! Þetta er með ólíkindum magnað.

* * *

Á morgun á ég svo flug til London, þar sem ég ætla að vera í einn dag og á svo flug heim á miðvikudaginn.

Núna sit ég hérna inná netkaffihúsi ótrúlega sáttur við þessa ferð. Ég er enn með sand í eyrunum eftir dag á ströndinni, lykta af After Sun, orðinn ágætlega brúnn og mér líður afskaplega vel. Eina sem ég á eftir að gera er að setjast niður með bjór í kvöld og horfa á fótbolta. Það er ekki slæm leið til að enda tímann minn í Mið-Austurlöndum.

Skrifað í Tel Aviv, Ísrael klukkan 16.30

Mið-Austurlandaferð 16: Masada mun aldrei aftur falla

Eg er ad skrifa thetta a mjog svo modins internet sjalfsala inna hoteli hja Masada i Israel.  Thessi sjalfsali bydur ekki uppa islenskt lyklabord, thannig ad thessi faersla verdur med utlenskum stofum og thvi sennilega stutt.

Eg kom hingad til Masada i gaer med rutu fra Tiberias, med stoppi i Jerusalem.  Hotelid i Masada liggur i fjallshlidinni vid hlidina klafnum, sem fer uppad sjalfu virkinu.  Ur herberginu minu er svo utsyni yfir Dauda Hafid.  Einsog fyrri skiptin min vid Dauda Hafid (i Jordaniu og Jeriko), tha er hitinn nanast obaerilegur.  Eg var thvi otrulega hamingjusamur thegar eg komst ad thvi ad eg gat eytt eftirmiddeginum i sundlauginni a hotelinu a milli thess sem eg las um 6-daga stridid i solbadi.

* * *

Eg eyddi tveim dogum vid Galilee vatn, en Jesus bjo i nagrenninu mestalla aevi.  Eg gisti i Tiberias, sem er ospennandi resort baer fullur af Israelum i helgarfrium, storum hotelum og storum sundlaugum.  Kannski ekki alveg tipiskur stadur sem ad eg saeki i.  En eg var a agaetis loftkaeldu hoteli og fann mer strax rosalega godan shawarma stad, sem eg bordadi allar minar maltidir a.

I fyrradag leigdi eg mer svo fjallahjol og akvad ad hjola i kringum Galilee vatn.  Thetta reyndist erfid en skemmtileg ferd.  Alls eru thetta um 70 kilometrar og thar sem eg hjola vanalega aldrei, tha var thetta pinu erfitt.  Eg stoppadi nokkrum sinnum, thar a medal a Ein Gev kibbutz-inu (samyrkjubu) thar sem eg bordadi morgunmat og lika a saemilegri strond thar sem eg badadi mig i vatninu.

* * *

I morgun vaknadi eg svo um half-sex leytid og labbadi uppad Masada virkinu.  Leidin er eftir gongustig med um 700 troppum og haekkunin a labbinu er um 350 metrar.  Gongustignum er vanalega lokad klukkan 10 vegna thess ad hitin verdur tha obaerilegur fyrir slika gongu.

Allavegana, thad ad horfa a solarupprasina yfir Dauda Hafinu fra Masada virkinu var storkostlegt.

Masada er mikilvaegur stadur i sogu Gydinga.  Thad var her sem ad sidustu Gydingarnir i Israel vordust arasum Romverja.  Thegar ad Romverjarnir voru ad komast ad virkinu fromdu their allir sjalfsmord i stad thess ad gefast upp.  I dag eru allir skolakrakkar i Israel teknir i synisferd i Masada og israelskir hermenn voru adur fyrr teknir inni herinn her med ordunum “Masada mun aldrei aftur falla”.

* * *

Nuna er eg adeins ad bida eftir rutunni til Tel Aviv.  Thar aetla eg ad reyna ad djamma og eyda shabbat a strondinni.  Thad hljomar ekki illa.  Eg a svo flug fra Ben-Gurion flugvelli til London a thridjudagsmorgun.

Skrifad i Masada, Israel klukkan 9.00