Myndir frá Gvatemala

Ég setti inn í gærkvöldi [myndir úr Gvatemala ferðinni](https://www.eoe.is/myndir/cagvatemala05/). Satt best að segja fannst mér pínku skrýtið að setja þessar myndir inn, þar sem fullt af þeim er með Önju, sem er fyrrverandi kærasta mín. En ég ákvað að setja inn þessar myndir, svo ég geti svalað forvitni vina minna, sem vildu sjá framan í hana.

Ég hef aldrei sett inn mikið af myndum af öðrum en sjálfum mér á þessa síðu og þykir það eiginlega betra þannig. Þetta er vinsæl síða og því finnst mér það ekki við hæfi að birta mikið af myndum af öðru fólki án þess að láta það vita.

En allavegana, myndirnar frá Gvatemala eru frá Livingston, Rio Dulce og Tikal. Hægt er að [skoða allar myndirnar mínar hér](https://www.eoe.is/myndir/) og ferðasögurnar frá Gvatemala eru hér:

[Mið-Ameríkuferð 6: Garifuna](https://www.eoe.is/gamalt/2005/09/17/23.10.29/)
[Mið-Ameríkuferð 7: Ég og Brad Pitt](https://www.eoe.is/gamalt/2005/09/19/17.40.31/)
[Mið-Ameríkuferð 8: Tikal](https://www.eoe.is/gamalt/2005/09/24/18.56.06/)

Við lok uppboðsins

Jæja, uppboðinu er lokið. Fyrir það fyrsta, ef þú bauðst í eitthvað en hefur ekki enn fengið póst frá mér, sendu mér þá [línu](https://www.eoe.is/ummig) og þá geturðu nálgast hlutinn. Í kvöld hef ég verið að afhenda slatta af dóti úr uppboðinu, en á eftir að senda útá land og enn er fullt af dóti, sem hefur ekki enn verið sótt.

En þetta er búin að vera miklu meiri vinna en ég gerði mér grein fyrir í upphafi, þannig að ég hef ekki enn getað svarað öllum póstum, sem ég hef fengið um þetta allt saman.


Ég vil fyrst og fremst þakka fyrir mig. Þetta er búið að vera mjög gefandi og ég gerði mér enga grein fyrir því hversu mikla og góða athygli þetta myndi vekja. Ég hef hitt fulltaf fólki og fengið ótrúlega indælar tölvupósts-sendingar.

Umfjöllunin um þetta hefur líka verið ansi viðamikil. Auðvitað hefur þetta vakið athygli í bloggheimum, en líka í hefðbundnum fjölmiðlum. Ég komst í DV og lenti þar á forsíðu, auk þess sem að það var nær heilsíðugrein um uppboðið. Svo var viðtal við mömmu daginn eftir. 🙂

Sama dag og greinin birtist í DV, þá kom viðtal við mig á NFS. Fyrir þá, sem hafa áhuga þá er [hægt að horfa á viðtalið hér](http://veftivi.visir.is/veftivi/main.do?treeId=19010&progId=7588). Þú þarft bara að spóla svona 48 mínútur inní myndbandið til að sjá viðtalið við mig, sem ég held að hafi heppnast nokkuð vel.

Síðan kom viðtal við mig í Mogganum síðasta laugardag.


Umfjöllunin í bloggheimum hefur náttúrululega verið mikil. Flestar heimsóknir komu af stóru linkasíðunum, Geimur og B2. Svo linkuðu nokkrar vinsælustu bloggsíður landsins á þetta, svo sem hjá Manúelu, Katrínu, Dr. Gunna og Stefáni Páls og fullt af fleirum. Það væri of langt mál að telja alla upp eða kommenta hjá öllum, en ég vil bara þakka öllum sem linkuðu á uppboðið. 🙂

Það er líka greinilegt að þetta hefur snert marga og fjölmargir hafa fengið hugmyndir út frá þessu framtaki mínu. Og það er frábært að mínu mati. Þetta er svipað og með ferðalög. Það þarf bara að drífa sig af stað og gera eitthvað. Ekki bara að láta það naga sig að hafa ekki gert neitt. Það þarf engin sérstök frumlegheit, bara að finna sér gott málefni og styðja það reglulega.

En ég þarf að reyna að klára að koma út öllum varningnum og eflaust verða einhverjar tafir fram yfir jól, þar sem ég þarf víst líka að kaupa jólagjafir handa fjölskyldunni. En ég mun skrifa meira um þetta þegar ég hef séð lokaupphæðina, sem kemur inn (væntanlega nálægt 300.000 krónum) og þegar ég hef ákveðið hvernig peningnum verður varið.

En þangað til: Takk!

Þáttur á RÚV

Veit einhver hvar er hægt að nálgast danska þáttinn “[Milljarðakaup Íslendinga](http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/?file=576)”, sem var sýndur á RÚV í gær? Verður þetta endursýnt, eða er hægt að nálgast þetta á netinu einhvers staðar (n.b. ég tala ekki dönsku).

Ég ætlaði að horfa á þetta, en var svo fastur uppá veitingastað langt fram eftir kvöldi og missti af þættinum.

Bestu lögin 2005

Þá er komið að árlegum viðburði hér á síðunni – bestu lögin og bestu plöturnar á árinu að mínu mati.

Í þetta skiptið ætla ég að skipta þessu í tvennt. Fyrst lögin og síðan plöturnar. En allavegana, hérna koma 15 bestu lögin á árinu að mínu mati.

  1. b514.jpg
    Kelly Clarkson – Since You’ve been Gone – Já, hverjum hefði dottið þetta í hug. Kelly fokking Clarkson. American Idol og allur sá viðbjóður.

    En þetta lag er einfaldlega fáránlega grípandi og skemmtilegt. Ég gaf því ekki sjens fyrr en ég sá að nokkrir “virðulegir” pennar voru farnir að hrósa því. Og það er ekki að ástæðulausu að þetta lag er svona vinsælt hjá fólki, sem myndi aldrei detta í hug að horfa á Ædol. Ég gaf því sjens og eftir 2-3 hlustanir var það komið inní hausinn á mér og þar sat það fast í margar vikur.

    Einfaldlega besta lag ársins. Það kom þá allavegana eitthvað gott úr þessari Idol vitleysu allri.

  2. Sigur Rós – Hoppípolla – Samkvæmt iTunes þá er þetta það lag, sem ég hef oftast hlustað á á árinu. Enda er þetta besta lagið á frábærri plötu Sigurrósar.
  3. Bloc Party – Like Eating Glass
  4. The Cardigans – I need some fine wine and you, you need to be nicer to me – Frábært Cardigans rokk einsog það gerist best. Nina er algjörlega á toppnum í þessu lagi.
  5. Coldplay – Fix You – Persónulega þá olli X&Y mér talsverðum vonbrigðum því ég átti von á meiru frá Coldplay. En Fix You er samt sem áður frábært lag.
  6. The Game – Hate it or Love it – The Game er snillingur og platan hans er frábær. Ég hélt að ég myndi velja eitthvað Kanye West lag á topp 15, en þrátt fyrir að mér finnist Late Registration vera besta hip-hop plata ársins, þá er ekkert lag á henni jafngrípandi og Hate it or Love it með The Game.
  7. Queens of the Stone Age – Little Sister – Besta lagið á frábærri plötu frá QOTSA.
  8. Weezer – Perfect Situation – Langbesta lagið á lélegri Weezer plötu.
  9. Antony and the Johnsons – Hope there’s Someone – Ég er ekki alveg kominn í aðdáendaklúbb AATJ einsog allir indí skríbentar á landinu. Platan er *góð* en ekki það stórkostlega meistarastykki sem margir vilja meina. En þetta er besta lag plötunnar.
  10. Madonna – Hung Up – Án efa danslag ársins. Fáránlega grípandi hjá Madonnu.
  11. Snoop Dogg & Justin – Signs
  12. Eels – Railroad Man
  13. Nine Inch Nails – Only
  14. System of a Down – B.y.o.b.
  15. Ampop – My delusions – Aldrei hefði mér dottið í hug að einhver í minni fjölskyldu gæti búið til góða tónlist, en Birgir frændi afsannar þá kenningu mína. Frábært lag.

Nálægt því að komast á listann: Soul meets body – Death Cab, Gold Digger – Kanye West, Best of You – Foo Fighters, Faithful – Common, Landed – Ben Folds, Tribulations – LCD Soundsystem, Forever Lost – The Magic Numbers

Plöturnar koma svo seinna í þessari viku.

Laugardagksvöld fyrir jól

michigan-lights.jpg
Hvað gerir ungur piparsveinn á laugardagskvöldi?

Jú, í mínu tilfelli þá hef ég eytt síðustu 5 klukkutímunum inní eldhúsi á Serrano, skerandi kjúkling og búandi til sósur. Það var hressandi

Einhvern veginn varð þetta síðasta laugardagksvöld fyrir jól ekki alveg einsog ég hafði gert mér vonir um. Það var svo sem blanda af nokkrum atburðum. Dagurinn í dag var sá stærsti í sögu Serrano. Við höfum aldrei selt jafnmikið og bættum fyrra met, sem sett var 22.desember í fyrra, um rúmlega 10%.

Um klukkan 6 fékk ég skilaboð um að stelpan í eldshúsinu hefði skorið sig illa og þá vissi ég að ég myndi ekki gera merkilega hluti í kvöld og dreif mig því uppá veitingastað og kláraði vaktina hennar. Ég veit ekki hvað það er, en ég hef alltaf lúmskt gaman af því að vera uppá stað þegar svona brjálað er að gera. Ég fyllist einhverri orku við það allt saman.


Annars hef ég fengið fullt af fólki í heimsókn í dag til að sækja dót, sem það hafði boðið í á uppboðinu. Held að ég hafi fengið um 15 manns í heimsókn, sem er nokkuð góður árangur.

Í dag birtist svo viðtal við mig í Mogganum. Þá eru búin að birtast við mig viðtöl bæði í DV og í Mogganum útaf þessu uppboði, auk viðtalsins sem ég fór í á NFS síðasta miðvikudag. Það er nokkuð magnað.


Ég þarf að fara að koma mér inní eitthvað jólastressskap til að ég klári hlutina. Núna þarf ég að senda hluta af gjöfunum mínum til útlanda, þar sem að báðar systur mínar dvelja erlendis og því get ég ekki haldið uppi gamla siðnum mínum að versla allt á Þorláksmessu. Nei, núna þarf ég að hugsa viku fram í tímann, sem ég er nánast ófær um að gera þegar kemur að jóla undirbúning.

Þarf að fara að koma mér í hátíðarskap. Samt veit ég að það gerist í raun aldrei nema fyrr en á Aðfangadag uppí kirkjugarði. Þá fyrst finnst mér jólin vera komin. Ég held að ég hafi ekki almennilega fundið fyrir sérstakri jólastemningu fyrir jól síðustu ár. Síðasta skipti, sem ég man eftir mér í jólaskapi löngu fyrir jól, var þegar ég bjó í Chicago og fór á Michigan Avenue í jólagjafaleiðangur.

Kannski er þetta vegna þess að það hefur einhvern veginn æxlast þannig að ég hef alltaf verið á lausu yfir jólin þessu þrjú ár, sem ég hef núna búið á Íslandi. Einhvern veginn tengi ég jólasteminguna því að labba einhvers staðar úti með stelpu í leit að jólagjöfum.

Því get ég varla komist í jólaskap einsog jólagjafaleiðangrar mínir eru í dag. Því þeir felast í að hlaupa einn á milli búða, nánast búinn að ákveða allar gjafir fyrirfram. Innkaupin eru einsog skylda, í stað þess að vera skemmtun.

Þó hef ég komist að einu undanfarin ár, sem ég man ekki alveg hvenær breyttist hjá mér. Í dag finnst mér nefnilega miklu skemmtilegra að sjá viðbrögð annarra við mínum gjöfum, heldur en að opna mínar eigin gjafir. Þess vegna finnst mér það dálítið fúlt að ég skuli þurfa að senda gjafir til útlanda í stað þess að sjá viðbrögð frændsistkyna minna á aðfangadagskvöld.

Uppboð: Nokkrar bækur

Og þá er komið að nokkrum bókum. Flest nokkuð gamlar bækur, sem taka upp pláss í íbúðinni minni. Þetta eru íslensk knattspyrna og svo Stephen King bækur í íslenskri þýðingu.

Hér getur þú lesið um [uppboðið, skoðað hin uppboðin](https://www.eoe.is/uppbod) og hér getur þú lesið [af hverju ég stend í því](https://www.eoe.is/gamalt/2005/12/10/9.38.15/).

Uppboðið virkar þannig að þú skrifar tilboðið þitt í ummælin. Auðveldast er að gera það með því að nefna hlutinn og virðið strax fyrir aftan. Ef að þú vilt setja inn nafnlaust boð, sendu [mér þá póst](mailto:einarorn@gmail.com) og ég set inn þá upphæð.

Lágmark: 400 krónur

Uppboðinu mun ljúka á **miðnætti á mánudag**.
Continue reading Uppboð: Nokkrar bækur

Uppboð: Geisladiskar – Flytjendur R-Z

Hérna er þriðji hlutinn í geisladiskauppboðinu. Núna flytjendur, sem byrja á R-Z. Hérna er hægt að já diskana með flytjendum [A-G](https://www.eoe.is/gamalt/2005/12/15/10.37.25/) og hérna [með H-Q](https://www.eoe.is/gamalt/2005/12/15/22.38.10/).

Athugið að diskarnir eru í **mjööööög** misjöfnu standi. Þeir hafa margir hverjir verið notaðir gríðarlega mikið – hulstrin eru mikið rispuð og diskarnir geta verið verulega rispaðir margir hverjir. Ég get ekki verið að fara yfir þá alla, þar sem það yrði alltof mikil vinna. Ef þú kaupir disk og ert ósátt/ur við gæðin hefurðu kost á að skila honum eða þá bara látið boðið standa, þar sem þetta fer allt til góðgerðarmála.

Hér getur þú lesið um [uppboðið, skoðað hin uppboðin](https://www.eoe.is/uppbod) og hér getur þú lesið [af hverju ég stend í því](https://www.eoe.is/gamalt/2005/12/10/9.38.15/).

Uppboðið virkar þannig að þú skrifar tilboðið þitt í ummælin. Auðveldast er að gera það með því að nefna hlutinn og virðið strax fyrir aftan. Ef að þú vilt setja inn nafnlaust boð, sendu [mér þá póst](mailto:einarorn@gmail.com) og ég set inn þá upphæð.

Mér finnst fínt lágmark um 400 kall fyrir geisladiskinn. Þetta fer nú einu sinni allt til góðgerðarmála. Ég er til í að skoða lægra lágmark ef að keyptir eru 5 eða fleiri diskar.

Uppboðinu mun ljúka á **miðnætti á sunnudag**.
Continue reading Uppboð: Geisladiskar – Flytjendur R-Z

Piparsveina-uppgjör

Ég horfði á lokaþáttinn á Bachelor í kvöld og svo sem lítið hægt að segja um þáttinn, enda lítið spennó sem gerðist. Hann valdi Jenný og þau eru voða ánægð. Gott mál.

Þátturinn á eftir þar sem tekin voru viðtöl við þáttakendur var öllu skárri.


Jenný var spurð útí [forsíðu DV í gær](http://www.visir.is/ExternalData/pdf/dv/051214.jpg) en þar sést hún kyssa stelpu á djamminu (hún er þarna til hægri við mig og nágranna minn, Guðna Ágústs). Jenný sagði að þetta væri ósköp eðlilegt að kyssa stelpu á djamminu og henni þótti ekkert óeðlilegt að gera það á meðan hún væri í sambandi með strák.

Halló, halló, halló! – er ég orðinn svona gamall? Hvenær varð það *normal* að stelpur kysstust á djamminu? Varð þetta til þegar að menn fóru að taka reglulega myndir á skemmtistöðunum? Eru stelpur að gera þetta af því að þeim finnst þetta vera svona mikið æði, eða halda þær að þetta sé svona mikið “turn-on” fyrir okkur karlmenn?

Já já, ég *veit* að þetta hefur verið í tísku í einhver ár, en finnst öllum þetta eðlilegt? Hver er tilgangurinn? Varla eru það tilfinningar, víst Jenný finnst ekkert óeðlilegt við að gera þetta meðan hún er í sambandi.

Æji, ég vil ekki hljóma einsog einhver tepra og því verð ég sennilega að fagna því að allar stelpur séu að kyssast hægri og vinstri. Húrra! Áfram [stelpur](http://maggabest.blogspot.com/2005/12/pepp-pistill.html)!


Uppáhaldslínan mín í þættinum hennar Sirrýjar.

>Það eru hérna inni hommar og lesbíur – það er alveg klárt mál.

Jammmmm!

Uppboð: Geisladiskar – Flytjendur H-Q

Hérna er annar hlutinn í geisladiskauppboðinu. Núna flytjendur, sem byrja á H-Q. Hérna er hægt að já diskana með flytjendum [A-G](https://www.eoe.is/gamalt/2005/12/15/10.37.25/).

Ok, þá er komið að umfangsmesta hlustanum í þessu uppboðu. Nefnilega geisladiskunum mínum. Ansi stór hluti þeirra er hérna, alls um 350 tallsins – flokkaðir eftir nafni flytjanda. Athugið að diskarnir eru í **mjööööög** misjöfnu standi. Þeir hafa margir hverjir verið notaðir gríðarlega mikið – hulstrin eru mikið rispuð og diskarnir geta verið verulega rispaðir margir hverjir. Ég get ekki verið að fara yfir þá alla, þar sem það yrði alltof mikil vinna. Ef þú kaupir disk og ert ósátt/ur við gæðin hefurðu kost á að skila honum eða þá bara látið boðið standa, þar sem þetta fer allt til góðgerðarmála.

Hér getur þú lesið um [uppboðið, skoðað hin uppboðin](https://www.eoe.is/uppbod) og hér getur þú lesið [af hverju ég stend í því](https://www.eoe.is/gamalt/2005/12/10/9.38.15/).

Uppboðið virkar þannig að þú skrifar tilboðið þitt í ummælin. Auðveldast er að gera það með því að nefna hlutinn og virðið strax fyrir aftan. Ef að þú vilt setja inn nafnlaust boð, sendu [mér þá póst](mailto:einarorn@gmail.com) og ég set inn þá upphæð.

Mér finnst fínt lágmark um 400 kall fyrir geisladiskinn. Þetta fer nú einu sinni allt til góðgerðarmála. Ég er til í að skoða lægra lágmark ef að keyptir eru 5 eða fleiri diskar.

Uppboðinu mun ljúka á **miðnætti á sunnudag**.
Continue reading Uppboð: Geisladiskar – Flytjendur H-Q