Gullni túlípaninn og helgi í Prag

Núna er ég kominn til Hollands eftir helgi í Prag. Er á hóteli, sem heitir því yndislega hollenska nafni “Gullni Túlípaninn” í bænum Breda við landamæri Belgíu. Hérna kom ég um 5 leytið og verð hér næstu tvo daga á námskeiði tengdu vinnunni.

Það er eitthvað karneval í gangi hérna í bænum og eru því allir bæjarbúar klæddir í búninga og drekkandi Heineken á pöbbum bæjarins. Ég var þó frekar þreyttur og ákvað að það væri indlælt að eyða kvöldinu inná hótelherbergi, glápandi á Dismissed og aðra eðalþætti í boði MTV.


En allavegana, ég eyddi helginni í Prag. Leifur, fyrrverandi bekkjarfélagi minn býr þar ásamt tékkneskri kærustu og Ragga vini þeirra í gullfallegri íbúð í miðhluta borgarinnar, þar sem ég fékk að gista á sófanum. Ég ákvað með nokkuð stuttum fyrirvara að fara til Prag. Hluti af ástæðunni var vinnutengd og hluti vegna þess að ég átti fund á föstudegi í Þýskalandi og næsta miðvikudag í Hollandi og hafði lítið að gera heima á Íslandi yfir helgina.

En allavegana, Prag er skemmtileg borg. Kuldinn spillti aðeins fyrir enda nær 10 stiga frost í borginni, þrátt fyrir að sólin hafi skinið allan tímann. Ég eyddi þarna fjórum dögum í rólegheitunum, í að skoða túristastaði, drekka bjór og slappa af. Frábært helgarfrí.

Einsog flestir túristar eyddi ég öllum tímanum í gamla hluta Prag, sem er umtalsvert meira heillandi en kommúnistablokkirnar sem rísa í hæðunum utan við miðborgina. Gestgjafarnir fóru með mér í heljarinnar túristarúnt um alla helstu staðina í borginni: kastalann, Karlsbrúna, Petrin turninn, gamla torgið og gyðingahverfið. Allt æði. Allt voða gaman.

Miðborg Prag er í raun alveg einstök. Það er sennilega erfitt að finna að finna fallegri miðborg, sama hversu víða maður leitar. Yndislega fallegar byggingar og allt iðandi af mannlífi. Víst að mannþröngvin var einsog hún var í 10 stiga frosti í febrúar, þá get ég rétt ímyndað mér hvernig hún er í júlí. Og það er svosem ekki erfitt að skilja hvað fólk sér við borgina.

Gamla torgið og Karlsbrúin eru yndisleg og Gyðingahverfið er magnaður staður, sem ég held að margir túristar láti framhjá sér fara. Samanstendur af mögnuðum kikjugarði og nokkrum bænahúsum, sem eru annaðhvort virk sem slík eða söfn. Vel þess virði að skoða.

Við kíktum út öll kvöldin og skiptumst á að drekka Pilsner Urquell og Budweiser í miklu magni. Budweiser fær mitt atkvæði og svei mér þá, ég held að ég hafi sjaldan fengið betri bjór en Budweiser beint af krana í Prag. Lengsta djammið var á laugardeginum þegar við fórum á Karlovy Lazné klúbbinn við Karlsbrúna, sem kallar sig stærsta klúbb í Mið-Evrópu. Klúbbarnir eru byggðir fyrir túrista og því fleiri stelpur frá Manchester heldur en Prag á dansgólfinu. Þegar að DJ-inn spilaði tékkneskt lag, þá var kærastan hans Leifs sú eina, sem tók við sér. Allir hinir inná staðnum voru útlendinegar, sem er vissulega eilítið sorglegt. Og þar er í raun stærsti galli Prag. Það sést alltof lítið af Tékkum á helstu stöðunum, allt er fullt af útlendingum og það hefur leitt af sér hátt verðlag í miðborginni, sem fælir innfædda frá.

En það spillir þó ekki fyrir því að það er stórkostleg reynsla að sjá Prag í fyrsta skipti. Að keyra yfir Vltava ána að kvöldi til og sjá kastalann upplýstann, sem og að labba í fyrsta skipti um nýja hliðargötu eða inná torgið í gamla bænum (eða einsog ég kýs að kalla það: Staromestske Namestí), er algjörlega ógleymanlegt. Á torgið í gamla bænum vantar bara styttu af Milan Baros til að fullkomna verkið.

Þrátt fyrir að ég hafi skemmt mér vel í Prag, þá voru greinilega ekki allir vinir mínir jafn ánægðir með að ég væri að djamma í Prag. Til að mynda sendi ég einum vini mínum eftirfarandi SMS skeyti á laugardagskvöld: **”HEY, ég er að djamma í Praaaag! Hvernig var Gísli Marteinn?”** Ég fékk hins vegar ekkert svar.


Með þessari ferð til Prag, þá er ég er kominn uppí [15](https://www.eoe.is/gamalt/2004/07/04/17.49.57/)! Ég set myndir frá ferðinni inn seinna.

*Skrifað í Breda í Hollandi klukkan 22.10*

Ich bin ein kugelschreiber

Það er tvennt, sem ég skil ekki við Þjóðverja. Í fyrsta lagi að þessi 80 milljón manna þjóð skuli hafa getað sætt sig á aðeins eina tegund af rúnstykki, sem er framreidd á öllum hótelum í landinu.

Önnur staðreyndin, sem ég skil ekki, er sú að stór bjór í Köln skuli vera 200 ml, en stór bjór í Frankfurt (sem er um 150 km frá Köln) skuli vera 500 ml. Þetta eru tvær magnaðar staðreyndir, sem hafa haldið fyrir mér vöku undanfarið.

En semsagt, ég er í Þýskalandi, Frankfurt nánar tiltekið. Nánar tiltekið á Sheraton í einhverju business hverfi í suður-Frankfurt. Ljómandi skemmtilegt alveg. Kom frá Köln í gær og er búinn að vera á fundi í dag. Fer svo til Prag á morgun, en hef vonandi tíma til að kíkja eitthvað í bæinn fyrri partinn.

Köln var fín einsog ávallt. Ég var á sýningu og fundum allan daginn, en um kvöldin voru partý í boði ýmissa birgja. Á mánudag var ég t.a.m. á siglingu um Rín og á þriðjudaginn var ég í partýi í boði Pez, þar sem var dansað uppá borðum. Gríðarlega hressandi. Það tekur þó furðu mikið á að vera á sýningu allan daginn og svo í boðum fram á morgun. En ég er ungur og hress, þannig að þetta er minnsta mál. Já, eða eitthvað. Mikið svaf ég samt fáránlega vel í nótt.

Hafði smá tíma til að versla. Mér finnst nefnilega gaman að versla föt undir eftirfarandi skilyrðum: Ég verð að vera einn, og ég verð að vera í útlöndum. Ég get ekki gefið neinar nánari skýringar en svona er þetta. Keypti mér m.a. flottustu skó í heimi. Þið verðið einfaldlega að sætta ykkur við að sama hversu mörg pör af skóm þið kaupið um ævina, þá verða þeir aldrei jafn flottir og mínir. Nema þá að þið kaupið nákvæmlega eins skó og ég keypti, en ég mæli alls ekki með því.

Það flæða ekki beinlínis útúr manni skemmtilegar ferðasögur í svona vinnuferðum, en svona er þetta. Vonandi verður Prag meira spennandi. En þetta er búið að vera skemmtilegt hingað til. Erfitt en gaman.

*Skrifað í Frankfurt kl. 22:01*

Föstudagskvöld

Tvö kvöld í röð hef ég lent í því að vinna með laptop-tölvuna fyrir framan sjónvarpið, þar sem ég þarf að undirbúa ansi marga fundi fyrir næstu daga. Í gær var það American Idol, sem ég sat undir, en í kvöld hið íslenska.

Eru menn ekkert að grínast með það hversu miklu skemmtilegra American Idol er? Reyndar þá eru keppnirnar á sitthvoru stiginu, þannig að það skýrir smá muninn. Fyrir kvöldið í kvöld hafði ég aldrei enst í gegnum meira en 15 mínútur af þessu íslenska Idol-i, en í kvöld horfði ég á allan þáttinn. Ameríska Idol-ið er frábær skemmtun og ótrúlega fyndið, en íslenska Idol-ið nær ekki þeim hæðum. Er nokkuð sammála [Hagnaðinum](http://haukurhauks.blogspot.com/2005_01_01_haukurhauks_archive.html#110685907253428245) í áliti mínu á þessum keppnum. Ég átta mig ekki almennilega á obsessjóni Íslendinga á þessari keppni.


Annars er ég að fara út í fyrramálið til Kölnar (via London). Verð í Köln í fjóra daga, fer þá til Frankfurt og ætla svo að eyða næstu helgi í Prag.

Ég verð að komast í nettengingu vegna vinnunnar, hvort sem það er boðið uppá hana á hótelunum eður ei. Þannig að ég mun vonandi geta uppfært eitthvað á meðan á ferðinni stendur.

Já, og [þetta](http://www.ananova.com/news/story/sm_1261997.html?menu) er magnað.

Á rípít

Búinn að vinna síðan 8 í morgun með klukkutíma körfuboltahléi. Það er ágætis törn, enda komið fram yfir miðnætti.

Í iTunes eru eftirfarandi lög á rípít og hafa verið það undanfarna daga:

*Bob Dylan – Man in Me* (eitt aðallagið í Big Lebowski)
*Annie – Heartbeat*
*Bob Dylan – Standing in the Doorway*
*Like a Hurricane – Neil Young & Crazy Horse*. Algjörlega frábært lag. Ég elska Neil Young og þetta er að mínu mati besta rokklagið hans. Aðeins kántrí lögin á Harvest ná að toppa þessa snilld!

Bulls geta eitthvað!!!

Fyrirgefið, en gerið þið ykkur grein fyrir því að Chicago Bulls eru í [6. sæti](http://sports.espn.go.com/nba/standings) í Austurdeildinni?! Sjötta sæti! Einum og hálfum leik á eftir meisturum Detroit! Liðið, sem hefur ekki komist í úrslitakeppnina síðan Jordan hætti og byrjaði leiktíðina 0-9!

Liðið, sem byrjaði síðasta leik var skipað Luol Deng, Antonio Davis, Othella Harrington, Kirk Hinrich og Chris Duhon. Jamm, nöfn sem allir Íslendingar þekkja. Besti leikmaðurinn er hvítur og heitir Kirk Hinrich! Þetta lið er alveg stórkostlega magnað. Meira að segja Eddy Curry og Tyson Chandler eru byrjaðir að spila vel. Mest hefur þó munað um nýliðana Luol Deng og Ben Gordon.

En þetta er magnað og yndislega skemmtilegt, því Bulls hafa ekki getað neitt síðan ég byrjaði að halda með þeim. Ég ólst nefnilega upp sem Boston Celtics aðdáandi, en heillaðist af Bulls þegar ég bjó í Chicago. Ég átta mig ekki alveg á því hvernig mér tókst að heillast af þeim, þar sem Jordan var þá hættur og liðið gat ekki neitt, en allavegana það gerðist. Mikið væri nú gaman ef þeir kæmust í úrslitakeppnina.

Annars var ég einmitt að koma úr körfubolta og þar með eru komnir þrír dagar í röð þar sem ég hef verið í íþróttum á kvöldin. Ég er gjörsamlega uppgefinn og orðinn ansi pirraður á að bíða eftir pizzunni minni.

Ferðadansmyndband

Þetta [myndband er ÆÐI](http://wherethehellismatt.com/videos/dancing.wmv)!!!
(36 mb. Windows Media).

Mæli með þessu fyrir alla. Mig langaði til að pakka oní ferðatösku og byrja að ferðast um leið og ég kláraði að horfa á þetta. Algjör snilld 🙂 (via [Mefi](http://www.metafilter.com/mefi/39013))

Össur bloggar

Ja hérna, Össur Skarphéðinsson, Krataforingi er [byrjaður að blogga](http://ossur.hexia.net/). Hann byrjar af krafti og það er meira að segja hægt að kommenta við allar færslur. Hægt er að nálgast RSS skrá [hér](http://web.hexia.net/roller/rss/ossur).

Össur skrifar þetta í stuttum og hnitmiðuðum bloggstíl og hann fellur ekki í þá gryfju, einsog aðrir pólitíkusar, að skrifa á heimasíður sínar einsog þeir séu að skrifa í Morgunblaðið. Björn Bjarna skrifar reyndar meira í bloggstíl, en pistlarnir hans eru alltaf svo fáránlega langir að ég gefst upp á lestrinum.

Mér líst vel á þetta framtak hjá Össuri og það sýnir vissulega kjark að hafa opið fyrir komment. Ég veit ekki hvað það er, en mér finnst stjórnmálamenn alltaf setja sig í alltof hátíðlegar stellingar í skrifum á heimasíðurnar sínar. Össur virðist vera óformlegri í þessum skrifum og fyrir vikið verður þetta að ég held skemmtilegra.

Svona við fyrsta lestur virkar síðan sæmilega áhugaverð, sem er mjög ólíkt þeim skrifum, sem tíðkast. Langflottast væri náttúrulega að fá blogg frá ungu þingmönnunum, sem væri skrifað einsog þeir væru actually yngri en fimmtugt. Ef að það væri til dæmis ekki mynd uppí horninu, þá væri erfitt að gera sér grein fyrir því (eftir lestur síðunnar) að [Dagný þingkona](http://www.xb.is/dagny/frettin.lasso?id=2367) skuli bara vera 28 ára gömul.

Væri ekki gaman að sjá bloggsíður hjá ungu þingmönnunum, sem sýndu okkur að þau væru actually einsog flest ungt fólk? Væri ekki gaman að fá blogg frá Dagnýju þar sem hún hneykslast yfir Bachelorette eða frá [Ágústi Ólafi](http://agustolafur.is/), þar sem hann talar um sætu stelpurnar á Austurvelli? Þetta fólk hlýtur að hafa um eitthvað meira spennandi að skrifa en einhverja stjórnmálafundi útí bæ. Ég efast ekki um að þessir þingmenn myndu fá fleiri heimsóknir á síðurnar sínar og myndu njóta meira fylgis ef að skrif þeirra væru ekki jafn hátíðleg.

I get unbearably wonderful

  • Ég vil bara koma því á framfæri að Shannyn Sossamon er fáránlega sæt!.

Eru menn ekkert að grínast í mér með þennan handboltaleik? Hvernig í fokking andskotans ósköpunum tókst okkur að klúðra þessu? Kræst!


Er það óeðlilegt að hoppa við Bob Dylan lag? Ég var að spá í þessu í gærkvöldi. “One of us must know (Sooner or Later)” kveikir í mér einhverja einkennilega löngun til loka herberginu, stilla græjurnar á hæstu stillingu og hoppa.

Í laginu eru t.d. tveir stórkostlegir kaflar: Fyrst þegar Dylan syngur *”I didn’t know that you were sayin’ goodbye for gooooooooooooood”* og svo keemur píanó og trommur og læti. Algjört æði. Þá hoppa ég.

Svo í lok lagsins þegar munnhörpusólóið kemur með píanóundirleik. Það er einhvers konar rokk fullkomnun. Fullkominn endir á laginu. Svo er best að láta bara Blonde on Blonde rúlla áfram og þá er maður kominn í rólegri fíling í “I Want You”. Fokk hvað ég dýrka Dylan. Þetta er ekkert eðilega mikil snilld.


Hey, ég sá sæta stelpu í Melabúðinni í kvöld. Það afsannar [ummæli](https://www.eoe.is/gamalt/2005/01/22/21.59.29/#c11219) mín frá því um helgina.

Svo er líka allt í einu komnar fleiri sætar stelpur í World Class í hádeginu. Það var í raun ekki annað hægt miðað við hversu fáránlega mikið af fólki er komið þangað þessa dagana. Annaðhvort er allt Ísland í einhverju tímabundnu líkamsræktar-átaki, eða þá að allar aðrar líkamsræktarstöðvar í bænum eru tómar.

Annars er bílastæðið fyrir utan World Class komið efst á listann yfir þá hluti, sem ég hata. Bílastæðið hefur þar með vippað sér uppfyrir vekjaraklukkuna mína, Roy Keane og veðurfréttir í sjónvarpi á listanum mínum.


> **Annie**: Well, have you ever made love high?
**Alvy**: Me? No. I – I, you know, If I have grass or alcohol or anything, I get unbearably wonderful. I get too, too wonderful for words.

Ó, ég elska Woody Allen!


Horfði á [Rules of Attraction](http://www.imdb.com/title/tt0292644/?fr=c2l0ZT1kZnxteD0yMHxzZz0xfGxtPTIwMHx0dD0xfHBuPTB8c291cmNlaWQ9bW96aWxsYS1zZWFyY2h8cT1ydWxlcyBvZiBhdHRyYWN0aW9ufGh0bWw9MXxubT0x;fc=1;ft=20;fm=1) fyrir nokkrum dögum. Sæmileg mynd. Sérstaklega útaf tvennu: Byrjunaratriðið er frábært og svo er Shanny Sossamon alveg ótrúlega sæt. Það er næg ástæða til að horfa á myndina

Quesadillas!!!

Stórkostleg tíðindi!

Á [Serrano](http://www.serrano.is) getur þú nú keypt ljúffengar Quesadillas. Þetta eru auðvitað stórtíðindi í sögu íslenskra veitingastaða. Ég mæli með Quesadillas með kjúklingi, Steiktu grænmeti og maís. Það var kvöldmaturinn minn í gær. Algjör snilld, þó ég segi sjálfur frá.

</plögg>