Dagurinn í dag

Þetta er búinn að vera góður dagur í Stokkhólmi. Margrét var loksins í fríi í vinnunni og því gátum við túristast aðeins um borgina. Við tókum strætó yfir á Gamla Stan (sem er reyndar í göngu-fjarlægð frá íbúðinni, en það er kalt) og löbbuðum þar um og skoðuðum bæinn. Löbbuðum svo yfir á Skeppsholmen, þar sem við fórum á Moderna Museet. Þar var í gangi frábær ljósmyndasýning með myndum eftir Andreas Gursky. Sú sýning var afskaplega skemmtileg.

Við kíktum aðeins á varanlega hluta safnsins áður en við löbbuðum yfir á Norrmalm þar sem við fengum okkur kaffi í NK. Liverpool gerðu reyndar sitt besta til að reyna að eyðileggja góða skapið mitt, en það mun ekki takast hjá þeim. Átta komment hjá mér á Kop.is var ágætt til að ná pirringnum úr mér.

Í kvöld eigum við svo pantað borð hér og svo ætlum við að kíkja á djammið.

* * *

Vissulega er það ánægjulegt fyrir Samfylkinguna að Jóhanna verði forsætisráðherraefni flokksins í næstu kosningum. En ég verð að játa það að ég er ekkert rosalega spenntur fyrir því að enginn nema Ingibjörg og Össur ætli að sækjast eftir sæti 2 og 3 í Reykjavík. Ég hefði nú talið æskilegt að fá aðeins ferskara fólk inn þar. Það væri nú ekki beint rosalega hresst að hafa Jóhönnu, Ingibjörgu, Össur, Mörð og Ástu Ragnheiði í efstu fimm sætunum miðað við endurnýjuna hjá öðrum framboðum.

Ætli ég skrifi ekki meira um þetta prófkjör seinna, en ég hvet allavegana alla til að kjósa Önnu Pálu í fimmta sætið. Anna Pála er afskaplega skemmtileg og klár stelpa. Hún er líka án efa með bestu framboðssíðuna, sem útskýrir á einfaldan hátt hver hennar pólitík er og kynnir hana sem persónu á skemmtilegan hátt.

Ég þekki Önnu Pálu persónulega og mæli klárlega með henni í þessu prófkjöri.

* * *

Ég er búinn að borða á svo mörgum skemmtilegum veitingastöðum hér í Stokkhólmi að ég er að spá í að koma mér upp einhverju kerfi til að halda utanum þá alla á þessari vefsíðu, þannig að fólk geti gengið að þeim stöðum sem ég mæli með. Ef einhver veit um einhverja sniðuga leið til að halda utanum þetta í WordPress, þá væri ég þakklátur.

Brennandi spurningar

Ég verð að játa það að ég er orðinn nánast óbærilega þreyttur á að lesa fréttir um Seðlabankann og Davíð Oddson. Til að spara fólki þau ósköp að þurfa að lesa þessar fréttir oft á hverjum degi, þá ákvað ég að búa til síðu, sem fjallar bara um það sem málið snýst um.

Þessi síða verður uppfærð þegar að eitthvað spennandi gerist. Með því að heimsækja þessa síðu geturðu því sparað þér lestur allra frétta um Seðlabankann í net-, ljósvaka- og prentmiðlum.

Er Davíð Oddson ennþá Seðlabankastjóri?

Takk fyrir.

Word fyrir Mac

Þetta er versta forrit í heimi: Microsoft Word fyrir Mac.

word

Djöfulsins fokking síkrassandi horbjóður. Er fólk virkilega á launum við að skrifa þetta forrit? Hvernig í ósköpunum getur nýjasta útgáfan af þessu forriti krassað fimm sinnum á sama klukkutímanum? Og á endanum svo svakalega að fyrri björguð skjöl týnast líka?

Það að ég hafi eytt pening í þennan óþverra gefur fólki ærna ástæðu til að efast um gáfnafar mitt.

Ég vil fá þessa tvo klukkutíma AFTUR!

Íbúðir, Paul's boutique og The Wrestler

Punktar!

  • Þar sem ég er að leita mér að húsnæði í Stokkhólmi, þá hef ég óvenju mikinn áhuga á fasteignamálum þessa dagana. Í þessari borg er alveg ótrúlegt magn af gömlum, fallegum byggingum. Ein íbúðin, sem við Margrét skoðuðum var til að mynda í húsi á Gamla Stan, sem var byggt árið 1680. Ég hef alltaf verið ótrúlega hrifinn af gömlum húsum og því er þetta spennandi borg fyrir mig. Ef okkur tekst að semja við bankann, þá erum við vongóð um að geta keypt okkur íbúð einhvers staðar í Vasastan eða hér á Södermalm, þar sem við búum núna í pínkulítilli leiguíbúð.
  • Talandi um íbúðir, hérna getur þú keypt íbúðina hans Jóns Ásgeirs á Manhattan fyrir aðeins 25 milljónir dollara. Sjá frétt í NY Times.
  • Paul’s Boutique er víst næstum því 20 ára gömul og Pitchfork gefa endurútgáfu hennar 10 í einkunn. Ég hef ekki hlustað á hana í næstum því 5 ár samkvæmt iTunes. Það er magnað. Ég hlustaði því á hana í morgun. Mikið ótrúlega er þetta góð plata. Ég uppgötvaði hana ekki fyrr en mörgum árum eftir að hún kom út, en ég hef samt alltaf haldið gríðarlega mikið uppá hana.
  • Við sáum The Wrestler í gær, sem er frábær mynd. Það eru auðvitað allir búnir að tala um Mickey Rourke og hversu góður hann er, þannig að væntingarnar okkar voru miklar, en hann stendur algjörlega undir þeim. Besta mynd, sem ég hef séð síðustu mánuði. Ég er líka búinn að sjá Vicky Cristina Barcelona, sem er fín Woody Allen mynd.
  • Lokalagið í myndinni heitir The Wrestler. Það er frábært lag, samið og sungið af meistara Bruce Springsteen og er af nýju plötunni hans Working on a Dream, sem mér finnst líka vera afskaplega góð.

Margrét er að vinna í allan dag en ég í fríi. Það er enginn fótbolti í sjónvarpinu, þannig að ég veit varla hvað ég á að gera. Ég er búinn að hlaupa úti í miklum kulda í morgun og er núna að drekka morgunkaffið mitt. Ætli ég fari ekki bara á kaffihús og reyni að skrifa email til fólks, sem ég hef dregið alltof lengi að skrifa. Það er sennilega ágætis hugmynd.

Hvert stefnir Eyjan?

Ég verð að játa að ég átta mig ekki lengur á því hvernig blogg eru valin á Eyjuna.

Eyjan er ein af þeim síðum, sem ég les frekar mikið og þarna eru nokkur ágætis blogg einsog hjá félaga Andrési, Árna Snævarr, Agli Helga, Freedomfries og Margréti Hugrúnu. Það er augljóst að um leið og blogg fara inná Eyjuna þá aukast vinsældirnar umtalsvert, einsog Margrét Hugrún talaði meðal annars um í einhverju bloggi, sem ég nenni ekki að leita að.

Ég hélt að stefnan væri að hafa þarna gæðablogg – að safna saman fólki sem skrifar vel og oft. Það getur ekki hver sem er stofnað blogg á Eyjunni, heldur þarf maður væntanlega að sækja um slíkt.

Síðustu vikur hefur Eyjan þó breyst í ansi einkennilega framboðssíðu fyrir valda einstaklinga. Hver var til dæmis tilgangurinn með að bjóða Páli Magnússyni og Sigmundi Davíð að blogga á Eyjunni? Þeir hættu báðir að blogga nánast strax eftir formannskjör Framsóknar (annar hætti 15.jan, hinn 17.jan nema að þeir séu bara í pásu fram að prófkjöri). Páll bloggaði í um 5 vikur, Sigmundur í innan við viku!

Núna eru prófkjörin að byrja í flokkunum og þá allt í einu bætast inn á Eyjuna bloggsíður hjá tveimur stelpum, Bryndísi framsóknarstelpu og Erlu Óskar SUS-ara. Ég geri ráð fyrir að þær síður verði einsog síður framsóknarmannnanna í formannsslagnum – lítið nema létt auglýsing í aðdraganda kosninga. Þetta eru eflaust ágætar stelpur, en ég efast um að skyndilegur blogg áhugi þeirra tengist einhverju öðru en væntanlegu prófkjöri. Hverju bæta slík blogg við Eyjuna?

Að mínu mati ætti Eyjan að fókusera á nokkra góða bloggara en sleppa því að blanda sér í prófkjörin með því að bjóða til sín ákveðnum frambjóðendum. Eða ætla þeir að opna síðuna fyrir öllum, sem eru á leið í framboð? Þá held ég nú að lestur minn á þeirri síðu muni minnka all verulega.

* * *

Já, og svo legg ég til við frambjóðendur sem eru á svipuðum aldri og ég: Þið þurfið ekki að vera í dökkum jakkafötum með bindi á framboðsmyndinni. Það eru engin lög sem skipa til um það. Einsog andinn í þjóðfélaginu er þessa stundina, þá væri ég allavegana miklu frekar til í að kjósa einhvern sem væri aðeins afslappaðari í klæðaburði. En kannski er það bara ég.

* * *

(Og til að taka fram, þá vil ég ekki vera á Eyjunni og hafnaði m.a. samstarfi Liverpool bloggsins og síðunnar fyrir einhverjum mánuðum)