Ég á Mæspeis 2.0

Af því að ég á ekkert líf og hef ekkert gott við tímann minn að gera, þá er ég búinn að breyta [prófílnum mínum á Mæspeis](http://www.myspace.com/einaro). Núna lítur hann meira út einsog þessi heimasíða. Þú gætir þurft að smella á refresh til að sjá rétt útlit.

Og ég er búinn að fara úr 13 vinum í 20 á einum degi. Það er voðalega skemmtilegt. Núna þarf ég bara svona 300 vini til að ná meðaltalinu. 🙂

Ég á Mæspeis

Af því að ég er svo hipp og kúl og móðins og allt það, þá setti ég upp [Myspace](http://www.myspace.com/einaro) síðu einhvern tímann síðasta sumar. Eyddi um hálftíma í það verkefni, fattaði ekki hvað var svona spennó við þetta og gafst upp.

Þangað til að í síðustu viku hafði ég ekkert að gera og ákvað að setja eitthvað inná þessa blessuðu síðu. Þannig að hún núna uppfærð og þú getur m.a. hlustað á uppáhaldslagið mitt í dag á prófílnum mínum.

Ógisslega spennó, ekki satt?

Allir aðrir sem ég skoða eiga svona 3-400 vini. Ég á hins vegar 13, sem er ekkert sérstaklega merkilegur árangur. Ég stefni kannski ekki alveg á 300, þar sem ég held að ég geti ekki munað fleiri nöfn en svona 50.

En allavegna, hér eftir verð ég þekktur sem [Myspace.com/**einaro**](http://www.myspace.com/einaro). Mun ég því ekki svara öðrum nöfnum.

Afmæli

Við á Serrano ætlum að fagna 4 ára afmælinu okkar á laugardaginn. Ég veit að eitthvað af fyrrverandi starfsfólki Serrano les þetta blogg og við ætlum einmitt að bjóða fyrrverandi starfsfólki á afmælið. Þannig að ef þú hefur unnið á Serrano og…

1. Varst ekki rekinn útaf því að þú sagðir okkur að amma þín væri dáin, þrátt fyrir að hún væri á lífi… eða
2. Sagðir ekki upp með sms skeyti fimm mínútum fyrir vakt… eða …
3. Hefur ekki kallað mig meira en fimm vondum nöfnum eftir að þú hættir…

…þá endilega hafðu samband við mig á einarorn@gmail.com og ég segi þér allt um það hvenær og hvar á að mæta.

Við viljum endilega sjá sem flesta! 🙂

2 ný tæki

Ég skammast mín ekkert fyrir að vera á tíðum algjörlega tækjaóður. Ég hef núna beðið í næstum mánuð eftir nýjasta [tækinu mínu](http://www.apple.com/macbookpro/), sem mun eflaust gera líf mitt betra, innihaldsríkara og yndislegra þegar hún loksins kemur.

Á meðan ég bíð get ég allavegana leikið mér með tvö snilldartæki tengd iPodinu mínum, sem ég keypti í Tælandi.

* Fyrir það fyrsta keypti ég mér [TuneBase](http://catalog.belkin.com/IWCatProductPage.process?Product_Id=257270) frá Belkin á flugvellinum í Bangkok. Þetta er lítið tæki, sem maður stingur í sígarettukveikjarann í bílnum. Tækið bæði hleður iPodinn og sendir svo út útvarpsbylgjur til að hlusta á iPod-inn í bílagræjunum.

Nú hef ég átt svona útvarpssendi áður, en þessi er margfalt betri. Bæði eru hljómgæðin æðisleg og svo er þetta sniðugara að því leyti að tækið kveikir og slekkur á iPodinum þegar maður kveikir eða slekkur á bílnum. Algjör snilld!
* Hitt tækið er ekki síður mikil snilld, en það er [Nike +](http://www.nike.com/nikeplus/). Þetta er lítill sendir sem maður setur á hlaupaskóinn sinn og svo annar sendir, sem maður tengir við iPod nano. Þessir sendar nema það svo hversu langt maður hleypur í ræktinni, reiknar út kaloríur og alles. Þegar maður hleypur með iPod-inn nægir að smella á einn takka og þá kemur rödd og segir manni hversu lengi og hversu langt maður hefur hlaupið. Ef þú bætir árangur þinn kemur svo Lance Armstrong í lokin og óskar manni til hamingju með persónuleg met.

Svo getur maður líka valið sér ákveðið lag, sem maður kemur manni í stuð og kallað það fram með því að halda niðri miðjutakkanum. Þessa dagana er það I’m the Ocean með Neil Young, sem hjálpar mér í gegnum síðustu metrana. Ekki veitir af, þar sem að hlaupaform mitt hvarf á ferðalaginu í Asíu.

Allavegana bæði þessi tæki eru snilld. Mæli með þessu fyrir alla iPod eigendur.

I ain't in love, I ain't in luck

Það er eitthvað stórkostlegt að gerast innra með mér. Ég held að ég sé að byrja að fíla Rolling Stones. Ég er búinn að vera með Exile on Main Street á repeat undanfarna daga og ég er að byrja að *elska* þessa plötu!

Byrjunin á Rocks off, Tumbling Dice og **Let it Loose**, sem er algjörlega æðislega frábært lag. Jedúddamía! Ég **dýrka** þetta lag!

>Who’s that woman on your arm
all dressed up to do you harm
And I’m hip to what she’ll do,
give her just about a month or two.

Bit off more than I can chew
and I knew what it was leading to,
Some things, well, I can’t refuse,
One of them, one of them the bedroom blues.

She delivers right on time,
I can’t resist a corny line,
But take the shine right off your shoes,
Carryin’, carryin’ the bedroom blues.
Oo…

In the bar you’re getting drunk,

I ain’t in love, I ain’t in luck.

Hide the switch and shut the light,
let it all come down tonight.
Maybe your friends think I’m just a stranger,
Some face you’ll never see no more.

Let it all come down tonight.
Keep those tears hid out of sight,
let it loose, let it all come down.

Fokk hvað þetta er mikil snilld!

Ef þið hafið einsog ég ekki haft mikið álit á Rolling Stones þá hvet ég ykkur til að ná ykkur í Let it Loose og svo restina af Exile on Main Street. Það tekur tíma að komast inní þetta, en þetta er einfaldlega snilld.

Friedman og dópið

Milton Friedman dó í vikunni. Ég hef ekki skrifað um það, en hef lesið slatta af því, sem um hann hefur verið skrifað. Það eru kannski ekki allir sem vita um skoðanir Friedmans á eiturlyfjum. Hann hafði að mínu mati skynsamar skoðanir á þeim málefnum.

Rogier van Bakel [skrifar](http://www.bakelblog.com/nobodys_business/2006/11/milton_friedman.html) stuttlega um þetta mál, en lítið hefur verið minnst á eiturlyfjaskoðanir hans eftir að hann dó:

>Friedman was an adviser to Richard Nixon and Ronald Reagan, and greatly influenced Margaret Thatcher (icons of squaredom, all). To be sure, for all his sway over those leaders’ economic policies, Friedman utterly failed to convince them that drug prohibition produces nothing but colossal social and financial failure. But it’s also a reality that, to use some time-tested lefty jargon, he fearlessly spoke truth to power, never bending or obfuscating his views on personal freedom just to avoid giving offense to his political masters.

Það er magnað að Friedman hafi tekist að færa almenningsálitið svo nálægt sínum skoðunum í mörgum efnahagsmálum, en honum mistókst algerlega að breyta almenningsálitinu þegar kemur að eiturlyfjamálum. Svo ég vitni í orð Friedman, sem van Bakel vitnar í:

>Informers are not needed in crimes like robbery and murder because the victims of those crimes have a strong incentive to report the crime. In the drug trade, the crime consists of a transaction between a willing buyer and willing seller. Neither has any incentive to report a violation of law. On the contrary, it is in the self-interest of both that the crime not be reported. That is why informers are needed. The use of informers and the immense sums of money at stake inevitably generate corruption — as they did during Prohibition. They also lead to violations of the civil rights of innocent people, to the shameful practices of forcible entry and forfeiture of property without due process.

Satt, Milton! Satt!

Og svo þessi [snilld frá Friedman](http://www.druglibrary.org/special/friedman/prohibition_and_drugs.htm). Hann súmerar algerlega í einni málsgrein mína skoðun á eiturlyfjum:

>On ethical grounds, do we have the right to use the machinery of government to prevent an individual from becoming an alcoholic or a drug addict? For children, almost everyone would answer at least a qualified yes. But for responsible adults, I, for one, Would answer no. Reason with the potential addict, yes. Tell him the consequences, yes. Pray for and with him, yes. But I believe that we have no right to use force, directly or indirectly, to prevent a fellow man from committing suicide, let alone from drinking alcohol or taking drugs.

Og svo þetta:

>But, you may say, must we accept defeat? Why not simply end the drug traffic? That is where experience under Prohibition is most relevant. We cannot end the drug traffic. We may be able to cut off opium from Turkey but there are innumerable other places where the opium poppy grows. With French cooperation, we may be able to make Marseilles an unhealthy place to manufacture heroin but there are innumerable other places where the simple manufacturing operations involved can be carried out. So long as large sums of money are involved-and they are bound to be if drugs are illegal-it is literally hopeless to expect to end the traffic or even to reduce seriously its scope. In drugs, as in other areas, persuasion and example are likely to be far more effective than the use of force to shape others in our image.

Hvenær ætli Friedman hafi skrifað þetta?

Jú, fyrir **34 árum**. Hefur ástandið batnað? NEI! Ég er sannfærður um að ástandið í heiminum væri umtalsvert betra í dag ef að menn hefðu ekki bara hlustað á hagfræðinginn Friedman tala um efnahagsmál, heldur líka hlustað á hann tala um eiturlyf.

Já, svo mæli ég með [þessari skemmtilegu bók](http://www.amazon.com/High-Society-Ben-Elton/dp/0552999954/sr=8-6/qid=1163946631/ref=pd_bbs_6/102-6152500-3549730?ie=UTF8&s=books) eftir snillinginn Ben Elton. Ég las hana í Víetnam og hún er verulega skemmtileg auk þess sem hún veltir upp mörgum áhugaverðum punktum í tengslum við lögleiðingu eiturlyfja.

Einar Örn klikkar

Í gærkvöldi fór ég með vini mínum á Óliver. Þar töluðum við um ýmis mál. Þar á meðal kvennavandræði mín og vinnu mína.

Ég sagði honum að mér þætti ég of oft taka með mér vinnuna heim og of oft eyddi ég kvöldunum í áhyggjur útaf vinnu eða í sjálfa vinnuna. Ég sagðist ætla að taka mér tak og bæta þetta. Einnig ætlaði ég að hætta að kíkja svona oft á netið.

Kvöldinu í kvöld (laugardagskvöld nota bene) hef ég eytt á netinu skoðandi hluti útaf vinnunni minni. Ég hef einnig talað í símann í sirka klukkutíma í kvöld útaf vinnu.

Þetta byrjar semsagt ekki vel. 🙂

Fléttulistabull

Ooooo, [svona](http://www.visir.is/article/20061116/SKODANIR03/111160053) vitleysa fer í taugarnar á mér.

>Það sem ég undrast helst er að fólkið sem hefur hæst um að kjósa skuli hæfasta fólkið vill sjaldnast heyra minnst á kynjakvóta eða fléttulista. Fólkið sem segist eingöngu kjósa eftir hæfni einstaklinga hlýtur þá að telja að verri staða kvenna á listum endurspegli það að karlar séu hæfari en konur.

Þetta er bull! Það að ég sé á móti fléttulistum þýðir ekki að ég telji að karlar séu hæfari en konur. Ég vel á lista í prófkjörum eftir hæfileikum. Það getur einfaldlega komið upp sú staða að það séu mun fleiri hæfir karlar í framboði en konur. Er það virkilega svo óhugsandi?

Ég efast ekki um það í eina sekúndu að konur á Íslandi eru jafnhæfar og karlmenn. Það er útaf því að allt Ísland er talsvert stórt mengi af fólki, um 300.000. Ef við tökum hins vegar pínulítið mengi einsog prófkjör í einu kjördæmi þar sem eru um 20 manns í framboði, þá er það næstum því pottþétt að annaðhvort séu karlarnir hæfileikaríkari eða þá að konurnar séu hæfileikaríkari. Það eru býsna takmarkaðar líkur á því að í svo litlum hópi séu þau alveg jafn hæfileikarík.

Karlar og konur hafa jafnan möguleika til að kjósa í prófkjöri og það er engin ástæða til þess að halda að kjósendur í prófkjöri hygli sérstaklega karlmönnum af einhverjum einkennilegum ástæðum. Það hlýtur einfaldlega að vera að í þeim kjördæmum þar sem karlar fái betri niðurstöðu séu karlframbjóðendur betri, og í þeim kjördæmum þar sem kvenframbjóðendur fái betri niðurstöðu (einsog t.d. Samfylking RVK), þá séu kvenframbjóðendurnir betri (að mínu mati var t.d. enginn vafi um það hjá Samf. í RVK).

Hvernig öðruvísi er hægt að skýra það út að hjá sama flokknum (Samfylkingunni) séu konur í fjórum af átta efstu sætunum í Reykjavík, en bara í ein kona í fimm efstu sætunum á Suðurlandi? Eru einhverjar líkur á að tveir 5000 manna hópar, sem báðir kjósa sama flokkinn, hagi sér svona ólíkt – að kjósendur í Suðurkjördæmi haldi almennt að karlar séu betri þingmenn, en að kjósendur í Reykjavík haldi almennt séð að konur séu betri þingmenn?

Er það ekki þá líklegra að kvenframbjóðendur í Reykjavík hafi einfaldlega verið frambærilegri en kvenframbjóðendur á Suðurlandi? Er það ekki líklegra heldur en að almenningur á Suðurlandi hafi eitthvert annað álit á kvenþjóðinni heldur en almenningur í Reykjavík?

Má ekki treysta því að kjósendur séu almennt nógu skynsamir til þess að kjósa ekki á lista eftir kynferði?

p.s. Í því prófkjöri, sem ég tók þátt – þá endaði listinn [minn](https://www.eoe.is/gamalt/2006/11/09/17.57.08/) sem fléttaður – en það var hrein tilviljun. Ég taldi einfaldlega að þetta væri besta röðunin – alveg ótengt því hvort frambjóðendur væru karlar eða konur.

Frakki, Stones og fleira

Í kvöld endurheimti ég frakkann minn. Alveg síðan á laugardagskvöld þegar ég staulaðist útaf Ölstofunni um miðja nótt, þá hefur hann hangið þar á snaga. Annaðhvort eru gestir Ölstofunnar svona mikið sómafólk eða þá að þeim fannst frakkinn ekki nógu fallegur til að stela.

En hann er kominn aftur. Og það er reykingarlykt af honum. Ótrúlegt en satt!

Damien Rice diskurinn nýji hefur einangrað iTunes spilunina mikið síðan að ég kom heim.

Merkilegra en það er að ég held að ég sé að byrja að fíla Rolling Stones! Það hélt ég að myndi aldrei gerast. Ég kenni The Departed um. Meira um það síðar.

Já, og [Milton Friedman er dáinn](http://money.cnn.com/2006/11/16/news/newsmakers/friedman/index.htm). Ef ég væri jafnmikill hagfræðinörd og ég var fyrir nokkrum árum, þá myndi ég eflaust nenna að skrifa um það. En ég hef breyst.

Aðalmeðferð

Í Kastljósi áðan heyrði ég þessa setningu:

>Nú er framundan aðalmeðferð í Baugsmálinu.

Eruði ekki að fokking grínast í mér?

Gátu menn ekki klárað þetta Baugsmál meðan ég var úti? Ég gubbaði næstum því útaf væntanlegum leiðindum, sem þetta mun hafa í för með sér. Hversu lengi á að pína okkur með þessu máli?