« Mr. DT | Aðalsíða | Nei, Hannes, nei »

Saga Serrano

13. desember, 2004

Fyrir nokkrum dögum héldum við Emil uppá 2 ára afmæli Serrano á Pravda, þar sem við buðum samstarfsfélögum, vinum og ættingjum. Ég byrjaði að skrifa ræðu fyrir þann atburð, sem ég hætti við að flytja og úr varð þessi grein um sögu staðarins. Ég vona að einhverjir hafi gaman af því að lesa um þessa æsispennandi atburðarrás. Þetta er skrifað út frá mínum sjónarhóli, þannig að eflaust gerir sagan alltof mikið úr mínu hlutverki, en alltof lítið úr hlutverki Emils og annarra, sem hafa komið nálægt staðnum. En svona blogg er alltaf svo sjálhverft :-) .



Það er magnað þegar ég hugsa núna til þess að veitingastaðurinn okkar skuli vera orðinn tveggja ára gamall.

Það má í raun segja að Serrano hafi byrjað fyrir sjö árum í rútuferð einhvers staðar í Suður-Ameríku. Þar var ég ásamt Emil og tveim öðrum vinum mínum á ferðalagi. Í 6 mánuði flökkuðum við um öll lönd Suður-Ameríku á ferðalagi, sem við munum aldrei gleyma. Einsog ég man þetta þá sátum við Emil saman í langri rútuferð. Talið barst að mat og ég fór að tala um mexíkóskan skyndibitastað, sem ég hafði dýrkað og dáð meðan ég bjó og vann í Mexíkó.

Þegar ég var 18 bjó ég og vann í Mexíkóborg. Eftir klókum leiðum hafði mér tekist að redda mér vinnu þar í borg. Fyrsta kvöldið í Mexíkóborg fór ég út að borða með fólki frá fyrirtækinu, sem ég vann hjá. Fyrir valinu var þessi mexíkóski skyndibitastaði, sem ég varð strax ástfanginn af.

Þegar ég minntist á þennan stað við Emil á ferðalaginu í Suður-Ameríku fórum við strax á flug og okkur fannst rosalega sniðugt að opna svona stað á Íslandi.

Eftir að við komum heim úr ferðalaginu skildu leiðir. Ég fór út til Bandaríkjanna í nám en Emil í háskóla á Íslandi. Í Bandaríkjunum varð ég ofboðslega hrifinn af nokkrum veitingastöðum. Þar á meðal var einn veitingastaður, sem ég var fullviss um að myndi virka á Íslandi. Ávallt þegar ég og Hildur, fyrrverandi kærasta mín, borðuðum á þeim stað töluðum við um hversu gaman það yrði að setja upp slíkan stað á Íslandi.

Ég var skeptískur, því ég vissi ekki hvort ég þyrði útí slíkt ævintýri, en Hildur var sannfærð. Það má segja að án hennar væri Serrano örugglega ekki til. Hún hamraði stöðugt á því hversu klár og duglegur ég væri og að þetta yrði ekkert mál fyrir mig. Allar þessar pepp ræður hennar urðu til þess að ég tók ákvörðunina um að þetta vildi ég gera þegar ég kæmi heim.

Í jólafríi heima á Íslandi 2001 hringdi ég svo í Emil og bað hann um að hitta mig á kaffihúsi. Við hittumst á Kaffi List og þar bar ég undir hann hugmyndina um að opna veitingastað. Ég var alltaf á því að ég þyrfti að fá einhvern með mér í þetta og ég var viss um að Emil hefði þá hæfileika og þá þekkingu, sem mig skorti. Hann tók lygilega vel í hugmyndina og sagðist lítast mjög vel á pælingar mínar. Sú hugmynd, sem ég seldi honum það kvöld, var þó gjörólík þeim stað, sem Serrano er í dag.

Þegar ég fór aftur út til Bandaríkjanna byrjaði ég að hugsa betur um möguleikana og komst í raun á þá ákvörðun að hefðbundinn veitingastaður, einsog sá sem ég var að hugsa um, væri ekki nógu sniðug hugmynd. Vænlegra til árangurs væri ákveðin útfærsla á mexíkóskum skyndibita, sem ég hafði minnst stuttlega á við Emil. Við Hildur höfðum nefnilega verið miklir aðdáendur nokkurra staða, sem buðu uppá mexíkóskan skyndibita, og vorum sannfærð um að slíkt gæti virkað heima á Íslandi.

Ég sendi Emil því email og sagðist hafa skipt um skoðun. Hann var mjög sáttur við hugmyndina, því sér hefði litist betur á Serrano hugmyndina. Úr því varð ekki aftur snúið.



Næstu mánuðir voru býsna skrýtnir. Ég átti aðeins 4 mánuði eftir af skólanum og ætlaði mér að setja upp mexíkóskan veitingastað þegar ég kæmi heim. Ég hafði litla, sem enga þekkingu á matnum, veitingastaðabransanum og öðru því tengdu. Við Hildur ályktuðum þó að fyrsta skrefið væri væntanlega að búa til matinn. Við vissum nokkurn veginn hvernig mat við vildum, en höfðum ekki hugmynd um hvernig átti að búa hann til. Utan uppskriftar af guacamole, sem mamma fyrrverandi kærustu minnar í Mexíkó hafði gefið mér, höfðum við ekki neitt.

Því byrjuðum við að fræða okkur um mexíkóska matargerð. Ég keypti allar bækur, sem hægt var að finna og Hildur tók fjölmargar bækur útaf bókasafninu í sínum skóla. Þegar við töldum okkur vita aðeins meira um hvað við værum að leita að, byrjuðum við að prófa okkur áfram í eldhúsinu. Á hverju kvöldi í margar vikur elduðum við kjúkling, salsa sósur og hrísgrjónarétti. Oft bjuggum við til 4 tegundir af marineringu í einu og bárum svo saman kjúklinginn og völdum síðan þann besta. Síðan prófuðum við saman sigurvegarana úr þeim undanrásum til að smám saman þrengja hópinn.

Þegar við svo fundum eitthvað, sem okkur líkaði, prófuðum við okkur áfram. Breyttum uppskriftum, bættum við og drógum úr öðru. Ég er t.a.m. full sannfærður um að enginn 27 ára gamall piparsveinn í þessum heimi á annað eins safn af kryddum og ég. Smám saman breyttum við og bættum og þær uppskriftir, sem við vorum hrifin af, líktust ekki í hið minnsta þeim uppskriftum, sem við höfðum lagt upp með í upphafi.


Við ákváðum fljótlega að við þyrftum að skýra staðinn okkar eitthvað. Við Emil vorum með skýra hugmynd um að nafnið á staðnum yrði að vera alþjóðlegt, í tengslum við mexíkóskan mat, og auðvelt í framburði. Kvöld eitt settist ég því fyrir framan tölvuna mína og leitaði að öllum orðum, sem tengdust mexíkóskri matargerð: Jalapeno, salsa, habanero, chile, og svo framvegis og framvegis. Við afmörkuðum valið, en á endanum urðum við öll 100% sammála um að nafnið Serrano væri besta nafnið. Serrano er heiti á sterkum chili pipar, sem við notum í nokkra rétti á staðnum. Serrano hljómaði nútímalegt og var auðvelt í framburði.


Síðustu mánuðurnir í Bandaríkjunum voru ansi magnaðir. Við Hildur hættum saman stuttu fyrir heimkomu og ég varð eftir í Bandaríkjunum mun lengur en ég ætlaði. Að lokum ákvað ég þó að fara heim. Fyrsta kvöldið mitt á Íslandi hitti ég Emil og við kíktum í bíltúr í Smáralind, þar sem við höfðum hugsað okkur að opna staðinn okkar.

Við tóku langar samningaviðræður við Smáralind, sem runnu að lokum útí sandinn. Á sama tíma og það gerðist, fréttum við af lausu bili í Kringlunni og ákváðum að stökkva á tækifærið. Viðræðurnar við Kringluna gengu upp og við stóðum frammi fyrir því að innan 6 vikna ætluðum við að opna veitingastað, sem við vissum ekki einu sinni hvernig myndi líta út.

Einhvern veginn gekk það upp. Við fengum auglýsingastuna DBT (nú Vatíkanið) til að teikna upp logo og útlit staðarins og hófumst handa við að breyta bilinu úr amerískum kjúklingastað (Popeyes) í íslensk-mexíkóskan veitingastað. Næstu vikur voru því hrein geðveiki. Við unnum nánast allan sólahringinn og ég svaf frekar lítið útaf stressi.

Rúmlega viku fyrir opnun staðarins auglýstum við svo eftir starfsfólki. Á endanum réðum við 3 manneskjur í heilt starf og 7 manns í hlutastarf.

Daginn áður en staðurinn opnaði verður mér ávallt eftirminnilegur. Ég var að farast úr stressi aðallega vegna þess að ég var ekki viss um hvort fólki myndi líka maturinn. Ég var orðinn nokkuð ánægður með matinn, en hafði af einhverjum óskiljanlegum ástæðum, aldrei prófað hann samann. Þannig að ég hafði einungis smakkað kjúklinginn eintóman, en ekki í vafðann í burrito. Eftirá að hyggja var þetta náttúrulega hrein geðveiki, þar sem margra milljón króna fjárfesting var undir þessum mat komin.

Þann 30. október 2002 kölluðum við allt starsfólkið saman uppá stað. Þar héldum við Emil einhverja stutta ræðu um að við værum bara tveir 25 ára strákar, sem vissum ekki alveg hvað við værum að fara útí, en við værum staðráðnir að hafa gaman af þessu og við vonuðum að við yrðum skemmtilegir yfirmenn og það yrði gaman að vinna á staðnum. Við fórum svo stuttlega yfir hvernig hlutirnir áttu að ganga fyrir sig.

Eftir fundinn fór ég svo með kokkinum yfir hvernig átti að matreiða matinn. Við 20-földuðum þær uppskriftir, sem ég hafði unnið með, og bjuggum til heil ósköp af mat. Iðnaðarmenn voru enn að klára ýmsa hluti í afgreiðslunni. Um miðja nótt ákvað ég þó að fara heim og reyna aðeins að sofa fyrir morgundaginn, en Emil hélt áfram að vinna alla nóttina.

Daginn eftir ætluðum við að opna staðinn klukkan 11. Það fór þó allt úrskeiðis, sem gat farið úrskeiðis. Fyrst vorum við alltof lengi að undirbúa matinn og síðan fór tölvukerfið úrskeiðis. Um tvö leytið fóru Emil og kokkurinn fram í afgreiðslu og fengu sér að borða. Klukkutíma fyrir opnun staðarins þá smakkaði Emil í fyrsta skipti matinn, sem við ætluðum að fara að selja. Fram að því hafði hann treyst mér fyrir því að þetta yrði í lagi. Ég held að ég hafi aldrei á ævinni verið jafn feginn og þegar kokkurinn sagði: “Við verðum í góðum málum með að selja þennan mat. Þetta er meiriháttar!” Þrátt fyrir þessi orð var ég samt enn hrikalega stressaður.

Staðurinn opnaði þó klukkan 3. Emil hafði vakað síðustu tvo sólarhringa og fór því heim, en ég stóð í afgreiðslunni mestallan tímann. Stuttu fyrir lokun ákvað ég þó að fara heim, örmagna af þreytu og stressi.

Ég losnaði þó ekki við stressið í bráð. Alltaf nagaði það mig að við værum að selja mat, sem enginn myndi fíla. Í raun var það svo að ég smakkaði ekki matinn á staðnum fyrr en eftir 5 daga. Fram að því fékk ég í magann af tilhugsuninni við að prófa matinn. Ekki vegna þess að mér fyndist hann ógirnilegur (auðvitað langt því frá), heldur nagaði mig sá ótti að þetta væri misheppnað og að þetta myndi bragðast allt öðruvísi en ég hafði ætlað. 5 dögum eftir opnun var maginn á mér loksins nógu þægur og ég smakkaði matinn, sem ég hef borðað nánast daglega síðan. Mér fannst hann æði.


Síðan þá hefur þetta verið algjör rússíbanaferð. Okkur gekk vel í upphafi og við fórum útí að opna annan stað, sem við við síðar lokuðum. Á því ævintýri lærði ég gríðarlega mikið um sjálfan mig og viðskipti.

Serrano hefur verið mikil vinna og þetta hefur tekið á. En umfram allt hefur þetta verið ótrúlega skemmtilegt. Við Emil höfum kynnst ótrúlegu magni af skemmtilegu fólki. Við höfum oft á tíðum verið gríðarlega heppnir með starfsfólkið og tekist að skapa góðan anda á staðnum.

Einhvern veginn hefur okkur Emil líka tekist að ganga í gegnum þetta saman. Við höfum verið ósammála alloft. Ég held því fram að hann nái alltaf sínu fram, en hann heldur því fram að ég nái alltaf mínu fram. En við höfum klárað málinn og ótrúlegt en satt erum við sennilega miklu betri vinir í dag en við vorum fyrir þrem árum.

Þetta er búinn að vera magnaður tími. Gríðarlega erfiður á tímum, en umfram allt skemmtilegur. Í dag er ég gríðarlega stoltur af Serrano. Ég verð alltaf jafn glaður þegar ég labba uppá torg og sé fólk bíða í biðröð eftir því að borða matinn, sem við Hildur elduðum í pínkulitla eldhúsinu okkar í Chicago. Það er ótrúlega magnað.

Einar Örn uppfærði kl. 18:45 | 1860 Orð | Flokkur: Vinna



Ummæli (8)


Brilljant grein! Ég hef lengi vitað að þú ættir þennan stað en aldrei krafið þig um söguna af því hvernig þetta kom allt saman til. Gaman að geta lesið það … ég hafði t.d. ekki hugmynd um að þú hefðir sjálfur þróað matinn í Chicago?!?!?

Ég kem sjaldan í Kringluna sjálfur eftir að ég kláraði Verzló vorið 2001, og þegar ég var í skóla hataði ég Popeye’s, og var fyrir vikið orðinn frekar þreyttur á Subway og Domino’s. Í síðustu viku smakkaði ég svo í fyrsta skipti á Serrano og verð að segja að það var alveg frábært, smakkaðist ótrúlega vel. Það er samt lítið að marka mig, ég elska burritos…

Nú, svo fór ég í Kringluna í dag í jólaverslun og fékk mér Serranos aftur. Betri en í fyrra skiptið (mæli með kjúklingaburritos) verð ég að segja. Endilega láttu mig vita ef þig vantar bakhjarl fyrir útibú í Hafnarfirðinum… :-)

Kristján Atli sendi inn - 13.12.04 19:37 - (Ummæli #1)

Oh… þetta átti að vera Kjúklinga-burrito #2. Með guacamole, það rúlar… :-)

Kristján Atli sendi inn - 13.12.04 19:38 - (Ummæli #2)

þetta er alveg magnað.

Hef einmitt oft reynt að átta mig á því þegar ég les bloggið þitt eða sé serranos á því hvernig 25 ára strákur hefur afrekað þetta.

Glæsilegt hjá þér, og ég á ennþá eftir að smakka þetta almennilega sem verður pottþétt sem fyrst.

Er eitthvað spes sem þú mælir með ?

majae sendi inn - 13.12.04 21:25 - (Ummæli #3)

Mjög gaman að lesa söguna :-)

geimVEIRA sendi inn - 14.12.04 12:02 - (Ummæli #4)

Hey - skemmtileg frásögn :-) . Gott hjá ykkur! Bið að heilsa Emil útgerðarmanni

Lína sendi inn - 14.12.04 12:34 - (Ummæli #5)

Fórum eimmitt stelpurnar í mfl.kvk ÍA á Serrano í Kringlunni í dag. Sumar höfðu aldrei smakkað matinn ykkar áður, aðrar fastagestir! En allar voru samt sammála um að þetta væri dýrindis skyndibiti og við værum ekki á móti því að fá lítið “útibú” hingað á Skagann :-) :-)

Marella sendi inn - 09.01.05 22:57 - (Ummæli #6)

Gaman að heyra

Þið verðið endilega að koma oftar í bæinn :-)

Einar Örn sendi inn - 10.01.05 15:46 - (Ummæli #7)

Mátt búast við okkur á hverjum sunnudegi eitthvað fram í apríl :-)

Marella sendi inn - 10.01.05 20:06 - (Ummæli #8)
Senda inn ummæli

Athugið að það tekur smá tíma að hlaða síðuna aftur eftir að ýtt hefur verið á "Staðfesta".

Hægt er að nota HTML kóða í ummælunum. Hægt er að nota a href, b, br, p, strong, em, ul, li og blockquote

Ég áskil mér allan rétt til að eyða út ummælum, sem eru á einhvern hátt móðgandi, hvort sem það er gagnvart mér sjálfum eða öðrum. Þetta á sérstaklega við um nafnlaus ummæli.

Nafn:


Tölvupóstur (ath. póstfangið birtist ekki á síðunni):


Heimasíða (ekki nauðsynlegt):
:smile: :biggrin: :biggrin2: :blush: :confused: :laugh:

:mad: :rolleyes: :shock: :sad: :tongue: :wink:

Ummæli:


Muna upplýsingar? -


EOE.is:

Blaður um hagfræði, stjórnmál, íþróttir, netið og mín einkamál.

Nýjustu Flickr myndirnar

Scriptless Flickr Badge
Scriptless Flickr Badge

Á þessum degi árið

2006 2005 2003

Leit:

Síðustu ummæli

  • Marella: Mátt búast við okkur á hverjum sunnudegi eitthvað ...[Skoða]
  • Einar Örn: Gaman að heyra Þið verðið endilega að koma oftar ...[Skoða]
  • Marella: Fórum eimmitt stelpurnar í mfl.kvk ÍA á Serrano í ...[Skoða]
  • Lína: Hey - skemmtileg frásögn :-) . Gott hjá ykkur! Bið a ...[Skoða]
  • geimVEIRA: Mjög gaman að lesa söguna :-) ...[Skoða]
  • majae: þetta er alveg magnað. Hef einmitt oft reynt að ...[Skoða]
  • Kristján Atli: Oh... þetta átti að vera Kjúklinga-burrito #2. Með ...[Skoða]
  • Kristján Atli: Brilljant grein! Ég hef lengi vitað að þú ættir þe ...[Skoða]

Gamalt:



Ég nota MT 3.33

.