RÚV.is = Fail

Fyrir ári skrifaði ég um það hversu hræðilega erfitt það er fyrir Mac notendur að horfa á sendingar RÚV og lagði til að þeir settu hreinlega allt á Youtube. Það væri ókeypis lausn, sem myndi gera öllum kleift að horfa á þætti af stöðinni.

Í kvöld ætlaði ég í fyrsta skipti í nokkra mánuði að horfa á upptöku á RÚV.is í Chrome á Makkanum mínum og þetta var niðurstaðan.

Ég er nú sæmilega víðförull á alnetinu, en ég lendi ALDREI í svona vandamálum fyrir utan RÚV.is. Þessi síða þarf að átta sig á því að það er ekki lengur árið 1995.

Stokkhólms hálf maraþon 2011

Í gær hljóp ég hálf maraþon í Stokkhólmi annað árið í röð. Í fyrra hljóp ég á 1.44, en í ár var ég með fimm mínútum lélegri tíma 1.49. Það sem kannski var aðallega merkilegt við þessi tvö hlaup var munurinn á því hvernig ég æfði fyrir þau.

Í fyrra hljóp ég í júní-september allavegana þrisvar í viku og að minnsta kosti 5-10 kílómetra í hvert skipti. Alls voru kílómetrarnir 62 í júní, 105 í júlí og 140 í ágúst. Samanlagt yfir 300 kílómetrar. Þegar að kom að því að hlaupa hálf maraþonið var ég því orðinn vel vanur að hlaupa mjög langar vegalengdir (hafði að mig minnir fjórum sinnum farið yfir 15 kílómetra. En á móti var ég ekkert í sérstaklega góðu líkamlegu formi. Mér fannst einsog ég gæti hlaupið endalaust en ég var dottin úr öllu CrossFit formi – var með fitu á maganum og gat litlu lyft. Það tók mig um 6-8 vikur að ná mér í almennilegt almennt form eftir þetta hlaupasumar.

* * *

Í ár ákvað ég að breyta algjörlega um áherslu. Í stað þess að hlaupa nokkrum sinnum í viku ákvað ég að æfa bara CrossFit. Ég tók bara þá tíma, sem voru í boði í gym-inu mínu og í CrossFit Reykjavík þegar ég var heima í sumar. Ég hljóp einhvern slatta, en það voru alltaf sprettir. Ég hljóp einu sinni meira en 6 kílómetra allt sumarið, það var í Midnattsloppet þegar ég hljóp á frekar hægu tempói. Ef ég tel bara hlaup yfir 5 km, þá hljóp ég í allt sumar samtals um 50 kílómetra (einu sinni 10km, annars 5-7km). Ólíkt Crossfit stöðunum heima á Íslandi, þá er mjög lítið um hlaup í okkar stöð í Stokkhólmi – það eru í raun aldrei tekin lengri hlaup en 500 metrar í einu.

Þetta hefur skilað mér í mjög gott form. Ég er miklu sterkari en ég var, með minni fitu og mér líður vel. Það var kannski smá bjartsýni hjá mér að fara beint í hálf maraþon eftir að hafa bara hlaupið 5-6 kílómetra og æft CrossFit, en mér fannst það vera tilraunarinnar virði.

Ég við 12 km markið

Fyrstu 7-8 kílómetrarnir voru fínir. Að æfa svona mikið CrossFit gerir mann góðan í sprettum og styttri hlaupum og því fannst mér fyrsti hlutinn vera léttur. Eftir 10 kílómetra fór ég að finna fyrir löppunum mínum talsvert og það var svo slæmt að eftir 13 kílómetra var ég næstum því hættur því auk þess var ég orðinn mjög slæmur í mjöðunum. Ég þurfti þá að stoppa í smá stund því ég var kominn með svo mikinn krampa í lappirnar. Næstu 4-5 kílómetrar voru gríðarlega erfiðir – ég var með stanslausam krampa í löppunum og mér leið einsog þær væru gerðar úr blýi – og að ef ég myndi hlaupa aðeins hraðar þá myndi ég detta niður og ekki geta labbað í mark. Þetta var í raun versti sársauki, sem ég hef fundið fyrir í íþróttum. Það var bara einhver þrjóska, sem hélt mér áfram í þessu. Ég þurfti að stoppa 3-4 sinnum og teygja á löppunum þegar ég hélt að kramparnir væru að drepa mig.

Eftir að ég gat hlaupið upp brekkuna að Götgötunni þá gat ég svo klárað þetta á sæmilegum hraða. Lokatíminn var 1.49:13. Ég var ótrúlega ánægður með að ná allavegana að klára þetta á undir 1.50, en takmarkið hafði verið að fara hlaupið á undir 1.40.

Kominn í mark

Það sem ég hef lært af þessu er jú að ef maður ætlar að hlaupa hálf maraþon, sama hversu góðu almennu formi maður er í, þá verður maður að taka nokkur lengri hlaup líka til þess að venja lappirnar á þá vinnu. Það skiptir engu máli hvað maður getur tekið í réttstöðulyftu því það er svo allt öðruvísi álag á mjaðmir og lappir að hlaupa 21 kílómetra. Ég er ekki alveg viss hvort ég fer í hálf maraþon á næsta ári, en þá mun ég sennilega taka svipað prógramm og núna, en á tveggja vikna fresti bæta við lengra hlaupi – frá 10-20 kílómetrum. Það ætti að koma í veg fyrir að maður verði jafn slappur í löppunum næst.

The New Apostolic Reformation: The Evangelicals Engaged In Spiritual Warfare : NPR

The New Apostolic Reformation: The Evangelicals Engaged In Spiritual Warfare : NPR. – Í þessum útvarpsþætti er fjallað um kristinn trúarhóp í Bandaríkjunum sem trúir að endalok heimsins séu í nánd og hafa tengsl við Rick Perry, sem er talinn líklegur forsetaframbjóðandi Repúblikana.  Það er frekar óhugnalegt að hlusta á þennan þátt, en ég mæli með honum.

Fyrirtækjaskattar og nýsköpun

Það hafa ansi margir bent á grein eftir Warren Buffett, þar sem hann hvetur til þess að skattar á milljónamæringa í Bandaríkjunum verði hækkaðir. Margt í efni þessarar greinar á svo sem ekki við á Íslandi, þar sem að tekjuskipting er mun jafnari á Íslandi en í Bandaríkjunum.

Hins vegar fannst mér einn punktur í grein Buffets góður og hann á við um margt:

Back in the 1980s and 1990s, tax rates for the rich were far higher, and my percentage rate was in the middle of the pack. According to a theory I sometimes hear, I should have thrown a fit and refused to invest because of the elevated tax rates on capital gains and dividends.

I didn’t refuse, nor did others. I have worked with investors for 60 years and I have yet to see anyone — not even when capital gains rates were 39.9 percent in 1976-77 — shy away from a sensible investment because of the tax rate on the potential gain. People invest to make money, and potential taxes have never scared them off. And to those who argue that higher rates hurt job creation, I would note that a net of nearly 40 million jobs were added between 1980 and 2000. You know what’s happened since then: lower tax rates and far lower job creation.

Buffet er að tala um fjármagnsstekjuskatt, en þetta á ekki síður við um fyrirtækjaskatta.

Ég hef oft bent á þetta þegar að menn tala um fyrirtækjaskatta á Íslandi og hvernig þurfi að lækka þá til að efla nýsköpun. Ég veit ekki um einn einasta mann, sem hefur hætt við að stofna fyrirtæki eða koma hugmynd sinni á framfæri vegna þess að skattur á hugsanlegan framtíðarhagnað sé of hár. Þegar ég stofnaði mitt fyrirtæki með mínum vini þá vissi ég ekki einu sinni hve hár fyrirtækjaskatturinn á Íslandi var. Ég hugsaði það alltaf þannig að ef að eftir einhver ár fyrirtækið yrði nógu stórt og farsælt til að skila alvöru hagnaði þá myndi það ekki skipta öllu máli hvort að skatturinn yrði 15% eða 25% af þeim hagnaði.

Ég held að flestir sem hafa áhuga á að stofna fyrirtæki hugsi mest um það hvernig er hægt að koma þeim af stað, en ekki hvernig hagnaðinum verði skipt þegar að því kemur. Þess vegna er mun mikilvægara að hafa stöðugan gjaldmiðil, góðan aðgang að erlendum mörkuðum og að hæfu vinnuafli. Þannig skipti hlutir einsog ESB aðild og menntun miklu meira máli fyrir nýsköpun heldur en skattar.


Hérna er einnig góð grein eftir Sam Harris um svipað mál: How Rich is Too Rich? Þar beinir Harris orðum sínum til þeirra, sem vilja ekki jafna tekjur, hversu mikil tekjusmisskipting sé ásættanleg? Hversu mikinn hluta af verðmætum heimsins er eðlilegt eða réttlátt að ríkasta fólk heims eigi?

And there is no reason to think that we have reached the upper bound of wealth inequality, as not every breakthrough in technology creates new jobs. The ultimate labor saving device might be just that—the ultimate labor saving device. Imagine the future Google of robotics or nanotechnology: Its CEO could make Steve Jobs look like a sharecropper, and its products could put tens of millions of people out of work. What would it mean for one person to hold the most valuable patents compatible with the laws of physics and to amass more wealth than everyone else on the Forbes 400 list combined?

How many Republicans who have vowed not to raise taxes on billionaires would want to live in a country with a trillionaire and 30 percent unemployment? If the answer is “none”—and it really must be—then everyone is in favor of “wealth redistribution.” They just haven’t been forced to admit it.

Ég mæli með þessari grein.

Veronica Maggio

Á þessu ári hef ég sennilega ekki hlustað jafnmikið á neinn listamann líkt og hina sænsku Veronica Maggio. Veronica er þrítug, frá Uppsala og hefur gefið út þrjár plötur. Sú nýjasta hefur verið spiluð gríðarlega mikið heima hjá okkur Margréti síðustu mánuði, sem og á nánast öllum útvarpsstöðvum í Svíþjóð.

Á morgun ætlum við Margrét að sjá Veronicu spila á Cirkus á eyjunni Djurgården í Stokkhólmi. Ég er gríðarlega spenntur.

Ég held að Veronica hafi verið nokkuð vinsæl í Danmörku og Noregi, en sennilega ekki á Íslandi. En hérna eru tvo æðisleg lög sem eru af nýju plötunni sem heitir Satan i Gatan. Ef þú hlustar á þau 2-3svar sinnum þá er ég sannfærður um að þú fallir fyrir henni.

Fyrst stuðlagið Jag kommer, sem er sennilega mest spilaða lagið af plötunni. Ég þurfti bara að heyra það tvisvar til þess að fá það algjörlega á heilann.

Og svo Mitt hjärta blöder, sem er líka frábært lag.

Ég veit ekki hvað það er með sænskar stelpur, en Robyn átti án efa besta lag síðasta árs (Dancing on my own) og Veronica Maggio á á þessu ári það lag sem ég hef mest hlustað á. Einhvern tímann hefðu það nú þótt fréttir.

Ryugyong hótelið

Ryugyong hótelbyggingin í Pyongyang í Norður-Kóreu hefur lengi heillað mig. Hún byrjaði sem eitthvað brjálæðislegt verkefni Norður-Kóreustjórnar og átti að verða að aðal-kennileiti borgarinnar. Þrátt fyrir að í Norður-Kóreu séu nánast engir túristar þá átti þetta að verða hæsta hótelbygging í heimi þegar að þeir byrjuðu að byggja árið 1987. En málið var að penigarnir kláruðust og árið 1989 var byggingu hætt þegar að það var ennþá byggingarkrani oná sjálfu hótelinu.

Hótelið leit því næstu 20 árin svona út.

Þetta var frekar neyðarlegt fyrir Norður-Kóreustjórn. Official gædar fyrir túrista á vegum stjórnarinnar neituðu til að mynda að viðurkenna að byggingin væri til. Ég hef lesið sögur á netinu þar sem að gædinn neitaði að svara spurningum um bygginguna, þótt að hún væri beint fyrir aftan hann. Hún var einnig tekin útaf kortum af borginni. Allt var gert til að reyna að gleyma byggingunni, sem er auðvitað ómögulegt því hún gnæfði yfir alla Pyongyang borg með byggingarkranann oná og innviðina í rúst. Það mátti engin fara inn því menn voru hræddir um að þá myndi allt hrynja.

Þegar ég sá þessa frábæru myndaseríu í The Atlantic frá Norður-Kóreu þá sá ég að loksins er byrjað að klára hótelið. Það er víst egypskt fyrirtæki sem tók við verkefninu og núna hefur byggingin verið klædd að utan og þar á að opna veitingastaður á efstu hæðinni á næstu árum. Ryugyong lítur því svona út í dag. Talsverð breyting, þótt að ég hafi ekki séð neinar myndir af byggingunni innan frá ennþá.