Stúdentablaðið?

Ég hef aldrei stundað nám við Háskóla Íslands, þannig að ég skil ekki alveg hvað gengur þar á. Ég taldi mig þó vita að Stúdentablaðið ætti að vera virðulegt málgagn stúdenta, allavegana kynna þeir sig þannig til auglýsenda. Í dag fékk ég sent heim eitt slíkt blað. Byrjum á ritstjórnarpistlinum. Nokkur eeeeeðalkomment:

>Um leið og við getum flest verið sammála um að Stalín hafi farið afskaplega **illa að ráði sínu**..

(Feitletrun mín)

>Eru það ekki hægrimenn sem hafa um þessar mundir tvö hundruð þúsund írösk mannslíf á samviskunni?

Nei. Ekki frekar en að við hafnaboltaunnendur höfum þessi mannslíf á samviskunni. Það að Bush sé hægri maður hefur ekkert með aðra hægrimenn eða samvisku þeirra að gera.

>Voru það ekki markaðshyggjumenn sem vörpuðu fyrstir og einir manna atómbombum?

Nei, það voru Bandaríkjamenn. Það hefur ekkert með markaðshyggjumenn að gera, frekar en að fjöldamorð Stalíns hafa með unga vinstri menn að gera.

Og hann heldur áfram:

>mér er ómögulegt að koma auga á “snilldina” í því stjórnarfyrirkomulagi sem elur 2/3 mannkyns á skítugu vatni, hungursneyð, stríði og ævarandi pínu.

Ég vænti þess að hann sé að vitna þarna til kapítalisma og gefur sér þá staðreynd að kapítalismi eða hægri stefna ráði ríkjum í öllum löndum heimsins. Það er hins vegar ekki aaaalveg rétt.

>Ekki þarf ýkja víðfeðma sagnfræðikunnáttu til að átta sig á því að veldi Vesturlanda er reist á arðráni og þrælablóði.

Æji, kræst, ég nenni þessu ekki.

* * *

Af hverju er Elías Davíðsson svo fenginn til að skrifa áróðursgreinar í *Stúdentablaðið*?

* * *

Svo byrjar grein um **Hamas** – samtök, sem vilja útrýma Ísraelsríki, á þessum orðum:

>Hamas-hreyfingin rekur hjálpar- og menningarstofnanir á grasrótarstigi

Svo er tekið viðtal við meðllim í Hamas og þar kemur þessi æðislega spurning frá blaðamanni Stúdentablaðsins:

>En viðurkennirðu ekki að til séu hernaðarárásir sem *skilgreina* má með þá *neikvæðu merkingu* sem hugtakið hryðjuverk felur í sér?

(skáletrun mín)

Er ekki verið að fokking grínast í okkur? Sjálfsmorðsárásir gegn saklausum borgurum *eru hryðjuverk*, alveg óháð því hvað málstaðurinn kann að vera æðislega góður og saklaus. Það að beina árásum sínum gegn saklausum borgurum eru hryðjuverk, punktur! Við þurfum ekki að biðja leiðtoga hryðjuverkasamtaka um að útskýra hugtakið fyrir okkur.

Hvað í ósköpunum er Háskóli Íslands að spá? Frábært að ég hafi líka styrkt útgáfu svona blaðs með því að kaupa auglýsingu af þeim. Á opnunni sem auglýsingin mín birtist er einmitt önnur grein, sem heitir **Skoðanakúgum Kapítalismans**. Þeir gleyma því sennilega að kapítalistinn ég hjálpaði við útgáfu blaðs, þar sem þessi grein birtist. Skoðanakúgunin er ekki sterkari en svo. Ég hreinlega nenni þó ekki að fara yfir þá grein, enda þarf ég að drífa mig útúr bænum.

En kannski er þetta bara grín einsog [Matti heldur](http://www.orvitinn.com/2006/04/13/12.31/) og ég kjáni að láta þetta fara í taugarnar á mér.

Vaknaður?

Þetta finnst mér grúví: Laugardagsviðtal Blaðsins var við Andra Snæ Magnason, [höfund Draumalandsins](https://www.eoe.is/gamalt/2006/03/31/18.23.21/). Í viðtalinu, sem fjallar um bókina, kemur þessi spurning:

Draumalandid-eoe_bladid.jpg
Já, ég er vaknaður. Og ef ég hefði haft meiri tíma, þá væri ég sennilega búinn að skrifa meira um bókina. En ég er bara búinn að vera svo skemmtilega upptekinn af öðru. Það lagast væntanlega í páskafríinu.


Hitti í gær bloggara, sem ég hef kommentað hjá og sem hefur kommentað hjá mér. Heilsaði honum ekki. Var ekki viss um hvort það væri við hæfi. Þannig að ég horfði bara asnalega á hann. Ég þarf sennilega að vera drukkinn til að heilsa fólki, sem ég þekki bara af internetinu.

Brussel

Kominn heim eftir 10 daga ferðalag.

Hvað gerir maður á föstudagskvöldi þegar að kærastan er á djamminu? Jú, situr heima fyrir framan tölvuna, vinnur í bókhaldi og horfir á Bikinímódel Íslands í sjónvarpinu. Gríðarlega hressandi. Sá þáttur er örugglega efni í aðra færslu, enda ég gríðarlega mikill áhugamaður um vandræðalegt sjónvarpsefni.

Var semsagt í 10 daga í Benelux löndunum. Hef áður skrifað um [ferðina til Utrecht](https://www.eoe.is/gamalt/2006/03/30/19.33.15/). Í Amsterdam gerði ég svo sem ekki margt merkilegt. Fór jú á Rijksmuseum, sem mér fannst fínt. Helmingurinn af safninu er í endurgerð, þannig að aðeins helstu meistaraverkin voru til sýnis. Sem hentaði mér vel, þar sem ég nennti ekki löngu safnabrölti og fínt að geta séð helstu Rembrandt verkin á met-tíma.

Fór svo til Brussel, þar sem ég var í þriggja daga ferð til höfuðstöðva Nato. Þarna var 10 manna hópur frá Íslandi samankomin. Við sóttum ráðstefnur á vegum Nató, ég borðaði mikið af góðum mat og drakk óhóflega af léttvíni og bjór. Frábær ferð, en ferðasagan væri sennilega of full af einkahúmor til þess að verða áhugaverð.

Náði að sjá talsvert af Brussel, sérstaklega í mikilli þynnkuferð sem við Jensi fórum í á sunnudaginn. Löbbuðum um Grand Place, sáum einn [furðulegasta túristastað](http://images.google.is/images?hs=FmK&hl=is&client=firefox-a&rls=org.mozilla:en-US:official&q=Manequin%20Pis%20&btnG=Leita&lr=&percentage_served=100&sa=N&tab=wi) í heimi, löbbuðum um allar Evrópbyggingarnar og létum okkur dreyma um ESB aðild.

Mjög gaman.

* * *

Eru ekki annars allir byrjaðir að [lesa Draumalandið](https://www.eoe.is/gamalt/2006/03/31/18.23.21/)? 🙂

Draumalandið

draum.jpgKláraði að lesa *Draumalandið* eftir Andra Snæ inná kaffihúsi hérna í Amsterdam fyrr í dag.

Ég hef svona 20 sinnum við lestur bókarinnar skrifað hjá mér punkta vegna hugmynda, sem ég fékk að pistlum og öðru. Mig langar að skrifa svo ótrúlega mikið um þessa bók og þær tilfinningar, sem hún kallaði fram hjá mér. Ég man hreinlega ekki eftir bók sem hefur breytt sýn minni á samtímamál á Íslandi jafnmikið og *Draumalandið* hefur gert. Ég veit varla hvar ég á að byrja að skrif mín um hana. Ég táraðist, varð fáránlega reiður, fylltist bjartsýni og ofsalegri svartsýni við lesturinn.

Einsog ég segi, þá veit ég ekki hvar ég á að byrja. Ég ætla því bara að biðja fólk um að *lesa* bókina. Hún er einfaldlega **skyldulesning fyrir alla Íslendinga**. Það má vel vera að ekki séu allir sammála innihaldinu, en ég held að langflestir séu sammála um að hún vekji upp gríðarlega margar og áleitnar spurningar um stjórnvöld á Íslandi.

Jafnvel þótt þú hafir ekki áhuga á stóriðju og sért orðinn drepleið/ur á blaðri um Kárahnjúka, Alcoa og allt þetta drasl. Jafnvel þótt þú hafir tapað áhuganum á þessum málum, þá er þessi bók pottþétt leið til að vekja hann upp aftur. Ég er viss um að við lesturinn munu jafnvel þeir, sem hafa engan áhuga á stjórnmálum á Íslandi í dag, vakna til lífsins.

Einsog segir í [Tímariti M&M](http://www.tmm.is/default2.asp?strAction=getPublication&intPublId=323):

>Ég gæti haldið lengi áfram að telja upp vekjandi efnisatriði þessarar bókar en ég vil síður tefja ykkur frá því að lesa hana sjálfir, lesendur mínir góðir. Fáið ykkur Draumalandið, takið hana að láni á bókasafninu, kaupið hana í bókabúðinni, lesið hana við bókaborðið eða stelið henni ef þið eigið ekki fyrir henni. Þessa bók VERÐA ALLIR ÍSLENDINGAR AÐ LESA, hvort sem þeir eru fylgjandi eða mótfallnir stóriðju. Við erum vel menntuð, vel læs þjóð, við eigum rétt á þeim upplýsingum sem þarna er að finna. Það hefur verið reynt að slá ryki í augu okkar, hræða okkur með hótunum og lygum frá því að afla okkur upplýsinga. Hér eru þær allar á einum stað. Notum okkur það og tökum svo sjálfstæða ákvörðun um hvernig það draumaland á að líta út sem við viljum að Ísland sé og verði.

Drífið ykkur útá bókasafn eða útí bókabúð NÚNA! Svo getum við talað saman.

Sælgæti, Amsterdam, Blur og Draumalandið

Búinn að vera hérna í Hollandi í þrjá daga.

Búinn að sitja ráðstefnu um sælgæti í tvo daga, sem hefur á köflum verið áhugaverð og á köflum leiðinleg. Fór í gærkvöldi uppí dómirkjuturninn í Utrecht og eftir það á veitingastað, þar sem að við útbjuggum sjálf matinn. Mjög skemmtilegt. Fékk mér aðeins of mikið af léttvíni og var því ansi nálægt því að sofna í allan dag.

Er kominn inná hótel í Amsterdam, rétt sunnan við aðal miðbæinn. Sit niðrí lobbí, þar sem það er ekkert netsamband á herberginu. Ætla að klára að svara vinnutölvupósti og kíkja svo eitthvað út. Ég elska Amsterdam.

* * *

Það er skrýtið hvernig hálf kjánaleg þjóðerniskennd getur stundum gripað mann í útlöndum. Heima gæti mér ekki verið meira sama um það hver á hvaða fyrirtæki í útlöndum. En í samtali í gær voru tveir Norðmenn að segja að danska fyrirtækið Sterling væri byrjað að fljúga frá Osló. Af einhverju óskiljanlegum ástæðum fannst mér tilefni til þess að leiðrétta þá og segja: **íslenska fyrirtækið Sterling, – they were bought by Icelandic investors, you know!**

* * *

Ég á einhverjar 20 blaðsíður eftir af Draumalandinu eftir Andra Snæ Magnason. Ég er viss um að á næstu vikum ég eigi eftir að reyna að pranga þessari bók inná *alla*, sem ég þekki. Þannig að ef þið viljið spara ykkur ónæðið frá mér, drífið ykkur útí bókabúð strax og kaupið bókina! Hún er **skyldulesning** fyrir alla Íslendinga. Kallar fram bæði mikla bjartsýni og algjört vonleysi. Frábær bók, sérstaklega fyrir þá, sem finnst sniðugt að byggja álver og virkjanir fyrir öll þéttbýlissvæði á landinu.

* * *

Ég hætti að fíla Blur fyrir einhverjum árum og hlustaði aldrei á Think Tank. En platan er inná iPod-inum mínum. Á einhverju shuffle fylleríi heyrði ég lagið Sweet Song í fyrsta skipti. Það lag er algjörlega frábært. Mæli með því!

* * *

Ætlunin er að eyða morgundeginum í Amsterdam. Veit ekki hvort ég hef orku til þess að standa í safnaleiðangri, eða hvort ég sest bara inná kaffihús og læt daginn líða þar. Þarf líka að vinna eitthvað, svo ég sé til.

Út

Ég er að fara út í fyrramálið. Fer til Utrecht í Hollandi, þar sem ég mun sitja ráðstefnu um sælgæti. Hún mun vera fram á fimmtudag. Föstudeginum ætla ég að eyða á [Rijksmuseum](http://www.rijksmuseum.nl/index.jsp) í Amsterdam. Hef ekki enn farið á það ágæta safn, þrátt fyrir að ég hafi komið alloft til Amsterdam.

Svo fer ég um næstu helgi yfir til Brussel. Ég hef komið til Belgíu áður, en ég man ekki neitt frá þeirri heimsókn, þannig að það ætti að vera eitthvað nýtt. Veit ekki hversu vel mér gangi að komast í tölvu og hversu miklu ég hef frá að segja á næstu dögum.

Sjálfvirk ritskoðun?

Af einhverjum ástæðum tekur þessi síða einstaka sinnum uppá því að stöðva komment frá fólki útúr bæ og krefjast þess að ég samþykki þau. Þetta gerðist t.d. núna áðan þegar ég var að svara kommentum við Stöðvar 2 færsluna.

Þegar ég fór inní kerfið og samþykkti mitt eigið komment, þá fann ég nokkra vikna gamalt komment, sem MovableType fannst að einhverjum ástæðum nauðsynlegt að ég samþykkti. Þannig að þetta komment birtist aldrei á síðunni, einfaldlega vegna þess að ég hafði ekki hugmynd um að það væri þarna.

En allavegana, kommentið er svar Ármanns Jakobs við kommenti frá Ágústi Fl varðandi skrif á Múrnum. [Kommentið er núna hægt að sjá hér](https://www.eoe.is/gamalt/2006/02/20/22.04.17/#c30640). Ég biðst velvirðingar á þessu. Það var svo sannarlega ekki áætlun mín að stöðva þessar umræður. Það er hins vegar núna lokað á umræðurnar (til að forðast spam), en menn geta svarað þessu hér.

Stöð 2 og niðurhal

Í Kompási áðan var fjallað um niðurhal á sjónvarpsefni. Inntak þáttarins var svipað og í annarri umfjöllun um þetta mál. Það er – þátturinn byggðist upp á viðtölum við hagsmuna-aðila, þar sem þeir lýsa því yfir að þetta niðurhal kosti þá pening, sé þjófnaður, og að við þessu verði brugðist. Í þættinum var m.a. viðtal við konu frá Stöð 2, sem lýsti yfir miklum áhyggjum af því að niðurhal á sjónvarpsþáttum gæti hugsanlega haft mikil áhrif á afkomu þeirrar sjónvarpsstöðvar.

Engin tilraun var gerð til að komast að því hvað hvetji fólk til þess að hala niður þáttum í stað þess að horfa á í sjónvarpinu. Ég er með allavegana eina kenningu.

Ég var nefnilega lengi vel áskrifandi að Stöð 2. Það var hins vegar áður en ég uppgötvaði að módel af sjónvarpsstöð einsog Stöð 2 er gjörsamlega úrelt fyrirbæri.

Beisiklí þá gengur Stöð 2 útá að fólk borgi fyrir mánaðarlega áskrift að stöðinni. Síðan er væntanlega hópur af fólki í vinnu hjá Stöð 2, sem ákveður hvað á að vera á dagskrá. Þetta fólk ákveður að á mánudögum skuli vera mikið af stelpuþáttum, að það sé sniðugt að hafa röð af sápuóperum á sunnudögum, hvenær barnaefni eigi að vera, að á laugardögum eigi að vera fjölskylduefni og svo framvegis.

Allt er þetta gert til þess að hægt sé að höfða til sem allra flestra. Málið er bara að það er einfaldlega ekki hægt til allra. Ef að ég fer af einhverjum ástæðum ekki útúr húsi á laugardagskvöldi, þá hef ég sem 28 ára gamall maður lítinn áhuga á því að horfa á fjölskyldumyndir eða “Það var lagið”. Stundum er ég í matarboði hjá mömmu þegar að vinsælustu þættirnir eru sýndir á sunnudögum. Ég er í fóbtolta þegar að þessi þáttur er sýndur, og í vinnu þegar að hinn þátturinn er sýndur. Líf mitt samræmist einfaldlega ekki dagskrárstefnu Stöðvar 2.

Fyrir utan það hversu erfitt er að búa til “alhliða” sjónvarspsstöð, sem hentar sem flestum, þá er dagskrárefnið á Stöð 2 einfaldlega ekki mikið fyrir mig. Ég var búinn að vera með Stöð 2 í einhver ár þegar ég áttaði mig á því að mér fannst það ekki spennandi að hafa Strákana á hverjum einasta degi. Mér finnst Sjálfstætt Fólk tilgerðarlegur þáttur og ég get ekki fyrir mitt litla líf þolað Idol. Ég horfi heldur ekki á Opruh, er búinn að sjá flestar bíómyndirnar, sem eru sýndar og finnst fréttirnar og Ísland í Dag hafa dalað eftir að NFS byrjaði. Semsagt, það er nánast engin ástæða fyrir mig að eyða 5.000 krónum á mánuði í áskrift að Stöð 2.

Ég eyði nú þegar umtalsverðum fjárhæðum á mánuði í sjónvarp. Ég borga 4.300 krónur fyrir áskrift að Sýn þar sem ég horfi á Meistaradeildina, NBA og Barcelona í spænska boltanum. Og ég borga um 2.000 krónur á mánuði fyrir enska boltann. Þetta gera samtals 6.300 krónur á mánuði. Þegar ég bjó í Bandaríkjunum borgaði ég 1.400 krónur fyrir um 60 stöðvar, sem innihéldu allt besta efnið, sem framleitt er í heiminum, fyrir utan það sem HBO býr til. Ef ég vildi hafa aðgang að sama efninu og ég hafði fyrir 1.400 krónur í Bandaríkjunum þyrfti ég að borga um 9.500 krónur á Íslandi (áskrift að Sýn, Stöð 2 og Enska Boltanum + auðvitað afnotagjald af RÚV, sem ég tek ekki með).

Vandarmálið við Stöð 2 hvað mig varðar er hins vegar einfalt. Stöð 2 sýnir nefnilega báða uppáhalds þættina mína, The Simpsons og 24. Þetta voru einu ástæðurnar fyrir því að ég keypti Stöð 2 síðustu mánuðina sem ég var með stöðina. Ég bókstaflega horfði ekki á neitt annað og hafði engan áhuga á öðru efni á stöðinni. Þar sem að seríurnar af Simpsons og 24 voru ekki keyrðar á sama tíma þurfti ég í raun að kaupa áskrift að Stöð 2 allt árið til að ná öllum “nýjum” þáttum af þessum seríum. Það hefði þýtt að til þess að horfa á eina seríu af 24 og eina seríu af “The Simpsons” hefði ég þurft að borga um 60.000 krónur, eða 1.250 krónur fyrir hvern einasta þátt. Það sjá það allir að þetta gengur hreinlega ekki upp.

Til þess að geta horft löglega á 24 og The Simpsons þurfti ég með öðrum orðum *líka* að kaupa mér aðgang að Strákunum 5 sinnum í viku, íslenska Idol-inu, Það var lagið með Hemma Gunn, Sjálfstæðu Fólki, Opruh, Veggfóðri með Völu Matt, Third Watch, Nágrönnum, Barnaefninu á morgnana og fullt af öðrum þáttum, *sem ég hef ekki nokkurn minnsta áhuga á að horfa á*. Það er gallinn við Stöð 2.

Þetta er alls ekki svo ólíkt því að til þess að ég gæti keypt nýjasta diskinn með The Flaming Lips, þá þyrfti ég líka að kaupa disk með James Blunt, Coldplay, lögum úr Latabæ, Julio Iglesias, Ríó Tríó og svona 10 böndum í viðbót. Eða að til þess að maður gæti farið í bíó á Munich þá þyrfti maður líka að kaupa aðgang að Finding Nemo, Stuðmannamyndinni, Strákunum Okkar og 5 öðrum myndum, sem manni langaði ekki að sjá.

Stöð 2 verður einfaldlega að horfast í augu við þann veruleika að tímarnir hafa breyst. Það er ekki í dag hægt að ætlast til þess að fólk borgi 5.000 krónur á mánuði fyrir blöndu af dagskrárefni, sem höfðar til eins ákveðins hóps en ekki til annars. Núna í dag vill fólk fá val. Þess vegna finnst mér sjálfsagt að borga 2.000 krónur fyrir einn dagskrárlið (Enska Boltann) en er ekki tilbúinn að borga stórar upphæðir fyrir það að geta horft á uppáhaldsþáttinn minn á ákveðnum tíma á ákveðinni rás, umkringdan af draslefni.

Ég vona að SMÁ-Ís bregðist við þessu aukna niðurhali á skynsaman hátt. Ekki með því að ætla að kæra fólk fyrir að hlaða niður sjónvarspefni, heldur með því að hvetja alla aðila til þess að bjóða uppá betri þjónustu. Ég *vil* borga fyrir mitt efni, en það þýðir ekki að hægt sé að pranga uppá mig alls kyns drasli tengdu því eða að hægt sé að rukka mig óhóflega fyrir það. Ég vil einfaldlega geta borgað fyrir mitt sjónvarspefni hóflegt gjald og geta horft á það þegar mér hentar. Er það óraunhæf krafa?

Síðustu vikur

Á síðustu vikum hef ég:

– Ekki nennt að blogga (nema á Liverpool blogginu)
– Verið hamingjusamur
– Farið á laugardagskvöldi á Ólíver (enn léleg tónlist), Rex (ég er ekki enn nógu gamall fyrir þann stað), Victor (verulega skrýtið), Vínbarinn (í 15 mínútur, til að hitta fólk – ef ég er ekki nógu gamall fyrir Rex, þá er ég ekki nógu gamall fyrir Vínbarinn), Pravda (veit ekki af hverju), Sólon (í 5 mínútur – í fyrsta skipti í 3 ár – sama stelpan er enn að afgreiða á barnum, það hlýtur að vera einhvers konar met), 11 (reyndar of snemma um kvöld), Apótek (brilljant Mojito) og Vegamót (loftræsting – halló?!)
– Borðað hamborgara á Óliver – sem hlýtur að vera besti hamborgari á Íslandi.
– Farið uppí sveit oftar en einu sinni.
– Prófað eitthvað annað en pad thai af matseðlinum á krua thai. Kjúklingur í panang karrý er líka fokking snilld!
– Verið tekinn fyrir of hraðann akstur í Hvalfjarðargöngunum.
– Orðið reiður yfir Íslandi og álæðinu.
– Uppgtövað að það kostar bara 250 kall að þrífa og strauja skyrtu í efnalauginn í JL húsinu. Þessi uppgötvun olli nánast byltingu í mínu lífi.

Svo hafa orðið breytingarnar í mínu persónulega lífi. Þær hafa verið góðar.

Tónlistarblogg: Face of the Earth

change-dismemberment.jpgEinn skemmtilegasti dagur, sem ég upplifði á tíma mínum í háskóla var 25.maí 2002. [Þennan dag](https://www.eoe.is/gamalt/2002/05/28/20.40.28/) var haldinn Dillo Day, sem er (einsog ég hefur áður lýst) “aðal partídagur Northwestern nemenda. Þá reyna nemendur að gleyma því að þeir eru flestallir nördar og reyna að skemmta sér einsog fólk í stóru ríksskólunum hér í kring.”

Þessi dagur er allavegana í minningunni ótrúlega skemmtilegur. Ég byrjaði daginn snemma og fór í einhver 2-3 partý með Dan vini mínum og fleira fólki. Klukkan 3 var ég orðinn jafn skakkur og ég gat orðið þegar Dan og Katie drógu mig inní Patten leikfimisalinn norðarlega á háskólalóðinni.

Þar fyrir var Washington hljómsveitin [Dismemberment Plan](http://www.dismembermentplan.com/) uppá sviði. Ég hef aldrei á ævinni verið jafn gagntekinn af hljómsveit, sem ég var að heyra í fyrsta sinn.

Ég man ekki (afskaplega) lítið frá tónleikunum, en þó eru nokkrir punktar skýrir. Söngvarinn var nördalegur á sviði, eins langt frá því að líta út einsog rokksöngvari. Líkast var að einhver verkfræðinördinn úr byggingunni við hliðiná hefði stokkið uppá svið. Og ég man að þeir kunnu sko að *rokka*. Krafturinn í þeim var gríðarlegur. Við stóðum eiginlega dolfallinn nálægt sviðinu og gátum varla hreyft okkur vegna undrunnar. Hljómsveitin var einfaldlega meiriháttar.

Stuttu seinna byrjaði ég að grúska aðeins í efni frá þessari sveit (sem er því miður hætt að spila saman) og hef í gegnum árin eignast nær allt efni, sem þeir hafa gefið út. Lagið, sem fylgir með þessu bloggi er lagið “Face of the Earth”

[Face of the Earth](https://www.eoe.is/stuff/thefaceoftheearth.mp3) – Mp3 – 6mb

Lagið er tekið af plötunni Change, sem var gefin út 2001. Þetta er nokkuð lýsandi lag fyrir tónlist Dismemberment Plan, sem er einsog ég hef komist að, afbragðs hljómsveit. Þeir urðu aldrei vinsælir, en plöturnar sem þeir gáfu út eru allar góðar.

Face of the Earth hefur líka í gegnum tíðina orðið uppáhaldslagið mitt með hljómsveitinni. Bæði stóð það uppúr á tónleikunum og svo hefur það vaxið í áliti hjá mér með tímanum.