Punktar í upphafi árs

Af því að ég hef ekki nægt efni í heila færslu um eitt málefni:

– Ég get ekki gert upp við mig hvort sé merkilegra: 1. Hversu hryllilega lélegt þetta Áramótaskaup var – eða 2. Að fulltaf fólki í fjölmiðlum finnist það hafa verið æði. Ég passa ekki lengur inní þetta land.
– Ég fór á Players í dag til að horfa á fótboltaleik og fékk hausverk útaf sígarettureyk. Ég get bókað tvennt þegar ég fer á Players. 1. Ég þarf að setja öll föt í þvott og 2. Ég fæ hausverk útaf tóbaksreyk.
– Ég skipti annarri af tveim jólabókunum mínum í Rokland með Hallgrími Helga. Er kominn nokkuð langt með hana. Hún er góð. Enda Hallgrímur snillingur
– Ef ég væri búinn að vera forstjóri í fyrirtæki í 30 ár og fengi skitnar 160 milljónir í starfslokasamning á meðan að arftaki minn, sem hefði unnið í 5 mánuði fengi 130 milljónir, þá yrði ég brjálaður. Ég er hins vegar ekki í þessari stöðu, þannig að þessi reiði mín skiptir litlu máli.
– Í gær horfði ég á Dodgeball og komst ekki hjá því að velta því fyrir mér af hverju í ósköpunum Ben Stiller fær borgað fyrir að leika í kvikmyndum. Horfði líka á Der Untergang, sem er góð.
– Ég hlusta alveg fáránlega mikið á þessi lög þessa dagana: Chicago – Sufjan Stevens, Things the Grandchildren should know – Eels, Geislinn í Vatninu – Hjálmar.
– Hérna geturðu reynt þig í [fánum heimsins](http://www.flag-game.com/). Ég var einu sinni sérfræðingur í fánum og höfuðborgum. Ég og Gunni vinur minn kepptumst um að vita sem mest um þetta tvennt. Í teikningu hafði ég svo gaman af því að teikna upp alla heimsins fána. Landafræði var mitt uppáhaldsfag. Þegar ég hugsa aftur til þessa þá sé ég það að ferðalög hljóta að vera í blóðinu víst ég var svo fljótt með kominn með áhuga á þessu.
– Ef þú ert með PC þig vantar forrit til að halda utanum myndirnar þínar, þá mæli ég með [Picasa](http://picasa.google.com/index.html), sem er ókeypis forrit frá Google. Ég var að setja þetta uppá tölvunni hennar mömmu áðan og þetta virkar ferlega einfalt og skemmtilegt. Ég hélt 10 mínútna tölu um það af hverju mamma ætti að standa í því að merkja allar myndirnar. Veit ekki hvort það hafi smogið í gegn. Ég er fanatískur á að merkja myndirnar mínar. Ég skýri allar myndirnar og svo set ég “tags” á allar myndir, þannig að ég get ávallt leitað að myndum af ákveðinni persónu eða stað.
– Ég er búinn að setja [myndir frá Belize](https://www.eoe.is/myndir/cabelize05/) inná myndasíðuna. Á þeim myndum má meðal annars sjá af hverju ég reyni öllu jöfnu ekki að safna [skeggi](https://www.eoe.is/myndir/cabelize05/gallery/g-og-anja.php) :-).

Áramóta-ávarp

perquin.jpgAf einhverjum ástæðum hef ég undanfarna daga hlustað nær stanslaust á síðasta lagið á nýju(stu) Eels plötunni, “Things the grandchildren should know”. Þetta er án efa besta lag plötunnar og einhvern veginn finnst mér það passa svo vel við þessi áramót. Allavegana 1 eða 2 punktar í laginu eiga vel við það hvernig mér líður núna um áramótin.

I tried to make the most of my situations
And enjoy what i had
I knew true love and i knew passion
And the difference between the two
And I had some regrets
But if i had to do it all again
Well, it’s something i’d like to do

Þetta ár hefur verið skrýtið á svo ótal marga vegu. Svo innilega viðburðalaust, en samt skringilega fullt af spennandi hlutum. Ég hef upplifað æðislegar stundir, en einhvern veginn eru þær nær allar tengdar útlöndum. Hérna heima finnst mér lítið skemmtilegt hafa gerst. Einhvern veginn virkar allt betra í útlöndum. Stelpurnar eru skemmtilegri, hlutirnir meira spennandi og mér líður betur.


Ég hugsa sennilega alltof mikið á áramótum. Reyni að gera upp árið hjá sjálfum mér og hvort ég sé sáttur við lífið og tilveruna. Allt frá því hversu duglegur ég var í ræktinni til þess hvernig ég hef verið við fólkið í kringum mig.

Ég hef ferðast umtalsvert á þessu ári og fyrir það getur árið ekki annað en talist gott. Hef sennilega ferðast umtalsvert meira en flestir í kringum mig og fyrir það get ég ekki annað en verið þakklátur. Ég er heppinn með vinnu í þeim skilningi, en ég sleppi líka umtalsverðu úr hefðbundnu lífsgæðakapphlaupi hér á Íslandi til að geta “eytt” meiri pening í ferðalögin mín, því þau eru það sem gefa mér langmesta lífsfyllingu.

Hef ekki enn getað skilið eina fyrrverandi kærustu mína, sem kvartaði yfir því að sjónvarpið í stofunni minni væri svo hrikalega lítið miðað við sjónvarpið sem hún og hennar fyrrverandi höfðu átt. Þau áttu 300.000 króna sjónvarp í stofunni, sem þau höfðu fjárfest saman í. Hins vegar höfðu þau bara einu sinni á einhverjum 5-6 árum, sem þau voru saman, farið til útlanda. Auðvitað er það þeirra val og allt gott um það að segja. En það þýðir samt ekki að ég geti skilið svona lagað.


Ég sá Liverpool verða Evrópumeistara í Istanbúl í besta úrslitaleik allra tíma. Fyrir það er ég ævinlega þakklátur og geri mér góða grein fyrir því hversu stórkostlega heppinn ég var að upplifa þetta. Ég get allavegana strokað “sjá Liverpool verða Evrópumeistara” útaf listanum yfir hluti, sem ég ætla að gera áður en ég dey. Ég væri þó alveg tilbúinn að endurtaka þetta einhvern tímann aftur. Þess vegna strax á næsta ári.

Ferðalögin hafa líka oft bjargað mér frá leiðindum hérna heima. Oft hefur mér fundist ég vera að gera lítið spennandi hluti, en utanlandsferðir, hvort sem þær voru tengdar vinnu eða öðru, komu mér í gang aftur. Kannski á þetta sérstaklega við London ferðina í ágúst þar sem ég eyddi fjórum dögum með sjálfum mér, hugsandi minn gang. Eftir þá ferð skrifaði ég ferðasögu, sem ég hef þó aldrei haft geð í mér að birta hér því ég var ekki alveg viss hvernig mér leið.

Og svo var Mið-Ameríkufríið mitt líka stór upplifun. Átti þar frábærar 5 vikur í æðislegum löndum. Kynntist frábæru fólki, skemmti mér stórkostlega og naut þess að upplifa nýja hluti í nýjum löndum.

Og svo kynntist ég þar stelpu. Sambandið endaði reyndar tveim mánuðum seinna vegna fjarlægðar og annarra hluta. En enn og aftur fann ég ástina hjá útlenskri stelpu. Það er einsog ég laði að mér skrýtnar íslenskar stelpur, sem eru fullar af vandamálum, bjánalegum afsökunum og öðru veseni. Kannski er þetta tilviljun en utan eins sambands, þá hafa öll mín sterkustu og skemmtilegustu sambönd verið með útlenskum stelpum. Í þeim samböndum hefur verið minnsta vesenið og ég hef ekki þurft að glíma við nein af þeim vandamálum, sem ég hef þurft að glíma við í mínum samböndum og sambandstilraunum með íslenskum stelpum.

Kannski er þetta bara ein stór og skrýtin tilviljun. Ég veit ekki. En ég er eiginlega búinn að fá nóg af vissu leyti.


Næsta ár verður ár breytinga í mínu lífi, á því er ekki nokkur einasti vafi. Ég er sæmilega ánægður við þessi áramót. Ég lít ágætlega út, er í besta formi ævi minnar og mér gengur ágætlega í vinnutengdum málum. En það er samt svo mikið sem mér finnst ekki í lagi.

Því ætla ég að breyta og er í raun strax byrjaður að huga að breytingunum og hef stigið fyrstu skrefin í átt að nokkrum. Það hefur gefið mér aukinn kraft að undanförnu.

En ég mun þó halda áfram að skrifa hér á þessari síðu. Þrátt fyrir að margir skilji ekki þörf mína fyrir að opinbera smá hluta af mínum tilfinningum á vefnum, þá fæ ég furðu mikið útúr því. Ég fæ vissa útrás með því að halda dagbók, en ég þarf líka mína útrás á þessari síðu. Og ég held þessu úti að langstærstu leyti af því að þetta veitir mér ánægju.

Ég vona að þið eigið eftir að eiga gott ár á næsta ári.

E, take it away:

I do some stupid things

but my heart’s in the right place

and this I know

Gleðilegt ár!

Genni!

Það fattar þetta sennilega enginn nema vinir og kunningjar.

Eeeeen, [þetta er það fyndnasta](http://www.jenssigurdsson.com/?p=847) sem ég hef séð á netinu á þessu ári!!

Látum það vera að Björn Ingi þurfi að leita alla leið til Washington D.C. til að finna stuðningsmenn. En Genni að styðja Framsókn?! Genni er einmitt heitasti íslenski stuðningsmaður George W Bush! Núna hef ég séð allt á internetunum. Hvað getur maður sagt?

Bestu plöturnar 2005

Jæja, í kjölfar listans yfir [bestu lög ársins](https://www.eoe.is/gamalt/2005/12/19/23.45.45/), þá eru þetta að mínu mati bestu plöturnar á árinu:

  1. sufjan.jpg
    Sufjan Stevens – Illinois: Já já, ég veit að það er voðalega hipp og kúl og indí að segjast fíla þessa plötu. En það var hreinlega ekki gefin út betri plata á þessu ári. Sufjan syngur um fylkið mitt Illinois. Allt er frábært við þessa plötu frá lagasmíðum til texta og útsetninga.

    Það þarf að gefa henni smá sjens í byrjun, en hún verður bara betri og betri við hverja hlustun. Vissulega hafði hún ekki jafn mikil áhrif á mig og plata ársins í fyrra, en Illinoise hefur verið nánast stöðugt í spilaranum bæði hérna heima og í iPod-inum síðustu mánuði. – Besta lag: Chicago

  2. Green Day – American Idiot: Smá svindl hér í gangi því American Idiot var gefin út árið 2004. En ég fattaði hana ekki fyrr en í byrjun þessa árs. Ég var löngu búinn að gefa frat í Green Day, en þessi plata er einfaldlega frábær endurkoma. Rokkplata “ársins”. – Besta lag: Holiday
  3. Edan – Beauty & the Beat: Þriðja árið í röð er uppáhalds hip-hop platan mín gerð af hvítum gaur. Edan er fokking snillingur og það ætti enginn, sem hefur nokkurn tímann fílað hip-hop að sleppa því að hlusta á þessa plötu. Já, Kanye platan er snilld, en þessi er bara einfaldlega svo miklu skemmtilegri. – Besta lag: I see colors
  4. Eels – Blinking Lights & Other Revelations: E þunglyndur, alveg einsog hann gerist bestur. – Besta lag: Things the grandchildren should know.
  5. Kanye West – Late Registration: Var besta hip-hop plata ársins alveg þangað til að ég uppgötvaði Edan seinni part ársins. Kanye gerir sitt besta til að reyna að bjarga rappinu.
  6. Bloc Party – Silent Alarm: Snilld!
  7. Sigur Rós – Takk: Ég einfaldlega elska Sigur Rós og finnst allt frá þeim vera frábært. Þessi plata er betri en (), sem mér fannst þó vera frábær plata, þrátt fyrir að það sé ekki í tísku að halda því fram.
  8. Antony and the Johnsons – I am a bird now: Virkilega góð plata, sem að verður betri með tímanum.
  9. Queens of the Stone Age – Lullabies to Paralyze: Ég hafði aldrei verið hrifinn af QOTSA fyrr en ég gaf sveitinni sjens fyrir tónleikana í sumar. Og eftir umtalsverða hlustun fattaði ég allt hype-ið.
  10. Madonna – Confessions on a dance floor: Ég bara varð að setja þetta hérna inn. Bara af því að mér finnst það svo ótrúlega fáránlegt að ég hafi elskað plötu með Madonnu. En þetta er einfaldlega frábær dansplata.

Næst því að komast inn: Common – Be, Franz Ferdinand, The Game, Ben Folds, Bruce Springsteen.

Vonbrigði ársins: Coldplay – X&Y, Beck – Guero

Jólakort

Fyrir ykkur, sem fenguð ekki kort frá mér, þá er þetta [jólakort mitt til ykkar](http://www.americangreetings.com/display.pd?bfrom=1&prodnum=3094053&Searchstr=three%20wise%20camels&st=t&path=31871). “Njótið”

Heimsótt lönd á árinu

world2005-des.gif

Þetta ár hefur verið ágætt að sumu leyti en slæmt að öðru leyti fyrir mig persónulega. Eitt það ánægjulegasta er að ég hef getað ferðast talsvert á árinu. Til að halda utanum þetta í anda [Flygenrings](http://www.semsagt.net/s/2005/12/26/14.08.38.html) eru hérna þau lönd, sem ég heimsótti á árinu:

Pólland x2 (Varsjá), Þýskaland x2 (Köln), Tékkland (Prag), Holland x2 (Amsterdam, Breda), Svíðþjóð (Stokkhólmur og Gautaborg), Tyrkland (Istanbúl), England x2 (London, Liverpool, York Kettering), Mexíkó, El Salvador, Hondúras, Gvatemala, Belize, Bandaríkin.

Highlight: Istanbúlferðin og Hondúras.

Af þessum löndum var ég að heimsækja Pólland, Tékkland, Svíþjóð, Tyrkland, El Salvador, Hondúras, Gvatemala og Belize í fyrsta skiptið á ævinni. Því lítur landalistinn minn svona út í dag:

**Norður-Ameríka**: Kanada, Mexíkó, Bandaríkin
**Mið-Ameríka & Karabíska Hafið:** Belize, Kúba, El Salvador, Gvatemala, Hondúras, Bahamas
**Suður-Ameríka**: Argentína, Bólivía, Brasilía, Chile, Kólumbía, Ekvador, Paragvæ, Perú, Urugvæ, Venezuela
**Evrópa**: Austurríki, Belgía, Tékkland, Danmörk, Frakkland, Þýskaland, Grikkland, Ungverjaland, Ísland, Lúxembúrg, Holland, Noregur, Pólland, Portúgal, Rússland, Spánn, Svíþjóð, Sviss, Bretland
**Afríka**: Ekkert
**Mið-Austurlönd**: Tyrkland
**Asía**: Ekkert

Samtals 39 lönd.

Jól

Jæja, þá er ég búinn að eyða öllum morgninum með Emil við að keyra út gjafir til starfsmanna Serrano. Næst er það svo að leita að leiðum niðrí Fossvogskirkjugarði. Það þýðir víst að það eru komin jól.

Ég segi því bara Gleðileg Jól, öll. Verið góð.

Skata

Ég fór í hádeginu á mitt fyrsta skötuhlaðborð. Pabbi var búinn að reyna að draga mig í hlaðborð í nokkur ár og ég ákvað loksins að skella mér með honum þetta árið. Hef alltaf haft lúmskan grun um að skötuát snúist meira um að sýna karlmennsku, heldur en að bragðið sé svo gott. Það er að það væri voðalega macho að segjast borða vel kæsta skötu. Ég vildi því sannreyna þá kenningu.

Ég fór á Tvo Fiska, þar sem hlaðborð var. Ég fékk mér milli-kæsta skötu og hellti einhverri fitu yfir. Settist svo og smakkaði smá bita.

Í raun er þetta *ólýsanlega* vondur matur. Ég hef borðað ýmsan óþverra í gegnum árin á ferðalögum mínum um heiminn og hef gengið svo langt að borða maura og tarantúlur. En það kemst hreinlega ekkert nálægt skötunni í vondu bragði. Ég kúgaðist við það eitt að setja matinn uppí mig, því skatan hefur ekki bara bein áhrif á bragðlaukana, heldur er einsog bragðið sprautist um allan munninn og maður fyllist af einhverju skrýtnu og viðbjóðslegu lofti í munninum.

Ímyndið ykkur versta fisk, sem þið hafið smakkað. Ímyndið ykkur svo að einhver helli terpentínu yfir fiskinn og kveiki í honum. Sá hinn sami mígur svo ofaná fiskinn til að slökkva eldinn. Og til að toppa það, þá er hellt myglaðri mjólk yfir. Þá held ég að við getum farið að nálgast bragðið á skötunni.

Mér finnst frábært að einhverjir einstaklingar hafi hugrekkið til þess að borða þennan mat. En ég hef hins vegar komist að því að þetta er ekki fyrir mig.

Flottur jakki

Af hverju eru ekki [svona jakkar](http://www.jcrew.com/catalog/product.jhtml?id=prod71867697&catId=cat75539) seldir á Íslandi?