Alsherjarárás!

Ég er undir einhverri svakalegri SPAM kommenta-árás. Eyddi 30 kommentum í hádeginu, en þau hafa komið jafnharðan inn. Það gengur ekki að setja inn MT-Blacklist hjá mér (fokking Windows server). Veit einhver hvað ég get gert?

Auk þessa er iPod-inn minn bilaður. Ég held hreinlega að ég fari heim og gráti mig í svefn.

Þeir, sem hafa hins vegar áhuga á að spila póker á netinu eða kaupa sér ódýrt viagra, geta fundið linka við sitt hæfi með flestöllum færslum á þessari síðu 🙂

Djöfulsins verkur

Ef það er eitthvað, sem ég er góður í þá er það að vorkenna sjálfum ógurlega mér þegar ég er með hausverk. Sjá til dæmis þessa [færslu frá því í nóvember](https://www.eoe.is/gamalt/2004/11/12/22.19.31/)

>Allavegana, ég er veikur og búinn að vera það í allan dag. Það skýrir kannski þennan pirring, sem ég hef verið með alla vikuna. En er búinn að vera með hausverk í allan dag. Er að reyna að telja mér trú um að þetta verði allt farið á morgun. Þoli ekki hausverk. Hann hefur í för með sér allsherjarþunglyndi og mér finnst allt ómögulegt. Úff úfff.

Og líka þessa færslu frá því [fyrir rúmu ári](https://www.eoe.is/gamalt/2003/07/10/22.27.06/)

>Mikið djöfull er lífið hræðilega leiðinlegt þegar ég er með hausverk.

>Einhvern veginn virðast öll verkefni verða hundrað sinnum erfiðari, mér finnst allt vera ómögulegt, allt fer í taugarnar á mér og svo skíttapa Cubs til að koma mér í enn verra skap.

Ég hef verið með mígreni frá því að ég var krakki en þó hefur þetta skánað með árunum. Tek vanalega ekki verkjalyf við þessum köstum, þar sem mér finnst það flýta fyrir endurtekningu á hausverknum. Þó gafst ég upp núna áðan. Fór fyrr heim úr vinnunni og reyndi að sofa. Vaknaði skárri, en svo versnaði verkurinn til muna. Tók því Excedrin, sem mun sennilega laga hausverkinn en valda því svo að ég verð upptjúnaður af koffíni eitthvað frameftir.

Núna er ég hins vegar að drepast, með stíflað nef og verk í hausnum. Einhvers staðar las ég viðtal við stelpu, þar sem hún sagðist vilja eignast kærasta, sem héldi hárinu hennar uppi á meðan hún ældi í klósettið eftir fyllerí. Ég vil hins vegar kærustu, sem segir: “æ greyið mitt, þú átt svo hræðilega bágt” af mikilli einlægni þegar ég er með hausverk.

Ég geri mér fyllilega grein fyrir hörmungum heimsins, en þegar ég er með hausverk þá vorkenni ég engum í heiminum jafnmikið og sjálfum mér. Ég get bara ekkert að því gert.


Ef að það gat eitthvað glatt mig þá væri það heimskupör karlmanna í The Bachelorette, en það varð nú lítið úr því. Þættirnir eru núna komnir á leiðinlegasta stigið, þegar fólk fer að hitta fjölskyldurnar. Þá verður þetta of væmið og ekki jafnmikið um heimskuleg komment og rifrildi, sem gerir þessa þætti skemmtilega.

Annars fatta ég ekki hvað karlmennirnir sjá við þessa gellu. Ég sé það allavegana ekki.


Ágúst, ég held að ég sé að byrja að fatta “Time out of Mind” Hef rennt honum tvisvar í gegn í kvöld. Galdurinn var bara að skippa yfir Love Sick.

Eftir miðnætti

Ég er á því að það sé ekkert betra eftir miðnætti til að hlusta á en Frank Sinatra. “In the Wee Small Hours” er ein af mínum uppáhaldsplötum. Maður getur þó lagst í stórkostlegt þunglyndi ef maður hlustar vel á textana.

>’Cause there’s nobody who cares about me,
I’m just a soul who’s
bluer than blue can be.
When I get that mood indigo,
I could lay me down and die.

(úr Moon Indigo) – gríðarlega hressandi.

Drottningarviðtöl

Í Kastljósinu áðan var sýnt brot úr norskum fréttaþætti þar sem rætt var við mann, sem lifði af hörmungarnar við Indlandshaf. Saga hans var átakanleg en utan hennar var eitt, sem vakti athygli mína við þáttinn. Það var sú staðreynd að Kjell Magne Bondevik, forsætisráðherra sat þarna við pallborðið og hlustaði á það þegar maðurinn skammaði norsk stjórnvöld fyrir seinagang við hjálparstörf.

Ég spyr þá, víst að svona gerist í Noregi, af hverju í ósköpunum þurfum við á litla Íslandi að sitja við það einstaklega bjánalega fyrirkomulag að forsætirsáðherra sé alltaf einn í viðtölum, nema fyrir kosningar og á gamlársdag?
Continue reading Drottningarviðtöl

Dans, dans, dans

Sá áðan auglýsingu fyrir Salsa námskeið hjá einhverju dansstúdíó-i. Ég þóttist einu sinni vera ýkt góður að dansa salsa og merengue, enda dansaði ég nánast hverja einustu helgi þegar ég var skiptinemi í Caracas í Venezulea fyrir alltof mörgum árum.

Partýin í Venezuela voru nefnilega algjört æði. Ég mætti edrú en fékk mér kannski 3-4 [Polar](http://www.empresas-polar.com/espanol/publi_sihay_es.html) bjóra í boði hússins. Drykkjan var hinsvegar algjört aukaatriði, ólíkt því sem gerist hérna heima. Nei, aðalatriðið var að *dansa*. Fólk setti bara merengue disk í spilarann og svo greip maður næstu stelpu og byrjaði að dansa. Og dansaði allt kvöldið. Nánast án þess að stoppa. Mikið var það æðislega gaman.

Vá, hvað ég sakna þess. Þessi hópdans, sem er stundaður á Íslandi er einfaldlega hundleiðinlegur miðað við það að dansa salsa eða merengue við stelpu.

Allavegana, stelpan, sem ætlaði með mér á salsa námskeið í haust hér á Íslandi, klikkaði á því, en ég er samt staðráðinn í að fara á námskeið fyrr en síðar. Fóstursystir mín í Venezuela kenndi mér að dansa merengue en ég lærði salsa aldrei nógu vel. Jú, einhverjar stelpur reyndu að kenna mér það bæði í Mexíkó sem og í Venezuela og á Kúbu en samt finnst mér ég ennþá vera hálfslappur í því. Og ég veit að núna er ég búinn að gleyma öllum sporunum, sem er synd.


Annars auk þess að læra salsa almennilega þá ætla ég alltaf að læra að dansa tangó. Ég sagði það einnhvern tímann við vini mína að ég ætlaði mér að gera þrennt áður en ég deyji:

1. Fara á Anfield
2. Sjá Pink Floyd á tónleikum
3. Dansa tangó við argentíska stelpu á götum Buenos Aires

Hingað til hef ég ekki gert neitt af þessu. Hef jú farið til Buenos Aires (sem er ein af mínum uppáhaldsborgum) og sá líka Roger Waters, fyrrum söngvara Pink Floyd á tónleikum. En það er ekki nóg.

Fyrir 5 árum var ég í Buenos Aires ásamt þremur af mínum bestu vinum. Við vorum þar í þrjár vikur, en samt klikkaði ég á tangó-inum með argentísku stelpunni. Ég er samt ekki ennþá búinn að gefa upp drauminn. Mig langar enn að finna þessa argentísku stelpu og dansa við hana tangó á hliðargötu í Buenos Aires alla nóttina.

Það væri æði.

2. janúar 2005

Já, Gleðilegt Ár!

Gamlárskvöld var það rólegasta í mörg ár. Einsog vanalega var ég heima hjá foreldrum. Fór svo heim til vinar míns einsog flest gamlárskvöld. Hlustaði á Dylan og talaði við skemmtilegt fólk. Var edrú allt kvöldið og keyrði heim.

Fór svo aftur heim til vinar míns á nýársdag og horfði á Liverpool tapa fyrir Chelsea. Það var ekki einsog ég hafði vonast eftir að þessi [óheppni](https://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2005/01/02/14.17.57/) Liverpool yrði bara á árinu 2004. 2005 byrjar alveg hræðilega með tapleik og fótbroti snillingsins Xabi Alonso. Ég var þó ekkert svo þunglyndur eftir leikinn. Betra en ég átti von á.

Allavegana, ég mæli með grein Hallgríms Helgasonar í Fréttablaðinu á gamlársdag. Hallgrímur er snillingur og skrifar um fjölmiðlafrumvarpsruglið frá því í sumar. Alveg er magnað að hugsa til þess hver kolklikkað þetta sumar hans Davíðs var í raun. Legg til að fólk rammi greinina inn og lesi hana einu sinni á ári til að gleyma því aldrei úr hverju þessir Sjálfstæðisþingmenn eru gerðir.


Talaði við vin minn, sem býr á Tælandi áðan. Það samtal varð ekki til að leysa þær flækjur, sem mér finnst líf mitt vera í þessa stundina. Veit ekki hversu mikið ég á að skrifa á þessa síðu. Vinur minn var nýkominn frá Phuket, þar sem hann drakk íslenskt vatn og hjálpaði við að bera kennsli á lík. Ótrúlega magnað.


Reyndi að horfa á Terminator 3 í gærkvöldi en mikið afskaplega er það leiðinleg mynd. Reyndi þá að horfa á Chicago en gafst upp. Hún var þó ekki jafn leiðinleg og ég hafði búist við.

Úff, þarf að taka mér tak á þessu nýja ári. Það er svo margt að gerjast inní hausnum á mér, finnst einsog ansi margt þurfi að breytast. Kannski ef ég skrifa bara um það hérna, þá geri ég eitthvað í hlutunum í stað þess að hugsa bara um þá.

Sekur eða saklaus?

Úr [frétt af Reuters](http://story.news.yahoo.com/news?tmpl=story&cid=578&e=3&u=/nm/20050102/ts_nm/security_usa_dc)

>The Bush administration is preparing plans for possible lifetime detention of suspected terrorists, **including hundreds whom the government does not have enough evidence to charge in courts**

Jahá! Þú ert semsagt saklaus uns sekt er sönnuð í Bandaríkjunum. Neeeema Bandaríkin haldi að þú sért hryðjuverkamaður, þá ertu strax sekur.

*Four more years! Four more years!*

Tvöþúsundogfjögur

Ok, árið er búið. Ég fokking trúi þessu ekki. Ætlaði að skrifa rosa dramatískan pistil um hvar ég stæði á þessum tímamótum, en ég á eftir að gera helling í dag og svo er ég veikur fyrir pólitískum umræðum í sjónvarpi, þannig að ég bíð með það.

Finnst ég ekki hafa gert neitt nema að vinna þetta árið. Ekki það að vinnan hefur verið ofboðslega skemmtileg (og stundum hrikalega erfið), en finnst lífið utan vinnu hafa verið viðburðarlítið.


Annars er [árslistinn hjá Múrnum](http://www.murinn.is/eldra_b.asp?nr=1475&gerd=Frettir&arg=5) algjör skyldulesning. Uppáhaldspunkturinn minn:

>Forsjárhyggja ársins: Tillaga Samfylkingarinnar um að banna sælgætis- og gosauglýsingar fyrir níu á kvöldin til að vernda börn fyrir óæskilegum áhrifum slíkra auglýsinga. Næsta frumvarp mun ganga út á að binda fyrir augun á börnunum þegar þau fara í Kringluna.

Það segir ansi margt um Samfylkinguna þegar að Vinstri-Grænir eru farnir að gera grín að forstjárhyggjunni í þeim flokki. Ég styð Samfylkinguna en svona einstök vitleysa einsog þetta sælgætisfrumvarp Samfylkingarþingmanna veldur því að maður endurskoðar það hvort maður sé í réttum flokki. Viðurkenni reyndar að ég hef starf af því að selja sælgæti og (hollan) skyndibita, þannig að eitthvað er ég litaður. En ég ætla að skrifa betur um þetta seinna.

Já, og þetta er líka gott:

>Besta skemmtun ársins: Frjálshyggjufélagið, fyrir að vera það sjálft.

og

>Orsakaskýring ársins: Sú kenning Björns Bjarnasonar að ólöglegt olíusamráð hafi verið Stalín að kenna.


Jæja, þetta er komið gott. Þakka þeim, sem lásu síðuna á árinu. Það hefur verið ómissandi fyrir mig að hafa þessa síðu til að tappa af öðru hvoru. Það kemur mér sífellt á óvart hversu margir lesa þessa síðu á hverjum degi, en það gefur manni þó orku í að halda áfram.

Allavegana vona að þið eigið öll gott ár framundan og að Liverpool vinni Chelsea á morgun.

**Gleðilegt ár!**

Klámfengin bjórauglýsing?

Ég ætlaði að skrifa um fréttina á Stöð 2 um bjórauglýsingu Faxe ([sjá frétt hér](http://media.gagna.net/uskefnistod2/clips/2004_12/1546/frett12.wmv)), þar sem talsmaður femínista sagði auglýsingu frá Faxe bjór vera að ýta undir klámvæðingu og að auglýsingin gefi í skyn að það sé í lagi að hella stelpur fullar til þess eins að ná þeim í bólið.

Ég er löngu hættur að furða mig á viðkvæmni femínista, en ætlaði þó að skrifa um þetta mál. Ég komst svo að því í morgun að [Stefán Pálsson skrifar akkúrat það, sem mig langaði að skrifa um málið](http://kaninka.net/stefan/011604.html). Ég mæli með grein hans.

Það er fáránlegt að túlka það svo að áfengi sé eitthvað, sem karlmenn noti bara til að ná til sín saklausum stelpum í bólið. Femínistar vilja alltaf túlka hlutina á versta veg, en heimurinn er ekki svo einfaldur.

Er það nefnilega ekki málið að stelpur nota áfengi til að losa um hömlur alveg einsog strákar? Ég hef ekki orðið þess var að það þurfi mikið átak hjá okkur körlum til að hella íslenskar stelpur fullar, þær sjá alveg fyrir því sjálfar. Ég veit að nokkur af þeim samböndum, sem ég hef verið í, hafa byrjað þegar áfengi hefur verið haft um hönd. Í nokkrum tilvika var það áfengi, sem hjálpaði viðkomandi stelpum að fá í sig kjark til að taka af skarið og einnig hefur það hjálpað mér.

Ég spyr þá, er eitthvað að því? Einsog Stefán [skrifar](http://kaninka.net/stefan/011604.html): *”Fólk má alveg hafa þá skoðun að æskilegast væri að öll pör kynntust í strætó eða yfir kakóbollum – en það er fráleitt að loka augunum fyrir veruleikanum.”*

Ný tölva!

Jæja, ég er búinn að eignast nýja tölvu. Það eru viss stórtíðindi, þar sem gamla heimilstölvan var orðin meira en 4 ára gömul.

Gamla tölvan, sem var Apple Powermac G4 var orðin dálítið lúin, þrátt fyrir að hún hafi **aldrei** bilað. Hún var hins vegar orðin hæg í sumum vinnslum og ákvað ég að uppfæra.

Nýja tölvan mín er **fallegasta tölva í heimi**, [iMac með 20 tommu skjá](http://www.apple.com/imac/design.html). Öll tölvan er inní þessum æðislega skjá. Ég er alveg í skýjunum yfir þessari nýju tölvu (sjá mynd).

Núna hef ég loksins ekki afsakanir fyrir því að fresta ýmsum verkefnum, sem ég var búinn að taka að mér og er núna að uppfæra nokkra vefi, sem ég hef umsjón með. Er með dúndrandi hausverk, sem ég er búinn að vera með í allan dag, en reyni að láta það ekki hafa of mikil áhrif á mig. Þessi hamingjusvipur á myndinni er því frekar mikil tilgerð hjá mér, enda er ég alveg hræðilega þreyttur 🙂