Laugardagsköld

Ég fór óvænt á djammið í gær. Var búinn að sætta mig við það að vera heima um kvöldið og horfði því á hræðilega Spaugstofu og aðeins skárri spjallþátt með Gísla Marteini, þar sem nágranni minn Guðni Ágústsson fór á kostum.

Allavegana, þá fórum við Emil á djammið niðrí miðbæ. Byrjuðum á Sólon og færðum okkur svo yfir á Vegamót. Báðir staðirnir voru troðfullir og var mjög gaman. Það kemur mér alltaf á óvart hversu ótrúlega mikið er af fallegum stelpum niðrí bæ um helgar. Það er hreinlega með ólíkindum.

Veðrið var ágætt og svakalega mikið af fólki í bænum enda haugur af einhverjum Skotum, sem voru að fagna sigrinum og höstla íslenskar stelpur. Þegar ég kom heim um klukkan 5 var kveikt á tölvunni, sem er náttúrulega hrikaleg mistök, þar sem að þá finn ég ávallt þörf fyrir að skrifa fullt af emailum. Ég var því frekar stressaður þegar ég vaknaði í morgun og fór að fletta í gegnum “Sent” möppuna á póstforritinu mínu. Þar var þó ekkert svo slæmt.

Annars setti ég inn mína fyrstu færslu á Metafilter í dag. Hún er hér.

Landsleikurinn

Leikurinn við Skota í dag var svo sem ekkert til að hrópa húrra fyrir. Fyrra mark skota var náttúrulega fáránleg óheppni og eftir það var þetta erfitt fyrir íslenska liðið þrátt fyrir ágætis spretti inná milli.

Ég horfði á leikinn í sjónvarpi og verð ég að segja að ég vona að Njáll Eiðsson muni aldrei aftur lýsa leik með íslenska landsliðinu. Það leið ekki ein mínúta án þess að Njáll fyndi eitthvað nýtt til að kvarta yfir.

Mér ofbauð líka fjölmiðlaumfjöllunin eftir leikinn. Atli þjálfari var áðan í viðtali á Stöð 2. Þar var Snorri Már Skúlason í þvílíkum ham og baunaði stanslaust á Atla. Spurði m.a. Eggert Magnússon (sem sat við hliðiná Atla) hvort það stæði til að reka Atla. Þetta viðtal var fyrir neðan allar hellur. Það er með ólíkindum að landsliðsjálfari í fótbolta skuli vera tekinn í svona viðtal á meðan stjórnmálamenn eru ALDREI teknir svona fyrir í viðtölum. Mér þætti til dæmis gaman að sjá Snorra Má í svona ham á móti Davíð Oddsyni.

Þessi gagnrýni á Atla er náttúrulega komin útí tóma vitleysu. Hann fær aldrei að velja hópinn í friði án þess að Guðjón Guðmundsson og einhverjir ámóta klárir íþróttafréttamenn telji upp lista með öllum hugsanlegum knattspyrnumönnum, sem Atli valdi ekki.

Svo toppaði Snorri Már allt með því að telja upp galla Árna Gauts markvarðar, en fyrra markið var honum að kenna. Árni er sennilega einn besti (ef ekki sá besti) markmaður, sem Íslendingar hafa átt og hefur nær undantekningalaust veri besti maður Rosenborg í Meistaradeildinni.

Skoska pressan sýndi hversu mikilvægir fjölmiðlar geta verið fyrir landsleik. Þeir gerðu lítið úr vonum sinna manna og létu þjálfarann í friði fyrir leikinn. Það tók gríðarlega pressu af leikmönnum. Hér á Íslandi eru leikmennirnir hins vegar ásakaðir um að gefa sig ekki alla í leiki og fyrir að vera í fríi hérna á Íslandi. Svo koma alltaf upp gagnrýnisraddir, sama hvernig Atli stillir upp liðinu.

Movabletype og Brasilía

Nei, ég ætla ekki að fjalla frekar um Brasilíu. Sverrir svarar mér aftur og hef ég svo sem ekki miklu við það að bæta. Því lýkur hér ummfjöllun minni um Brasilíu allavegana þangað til að næsta eintak af The Economist kemur og ég get lært meira.

Hins vegar taka glöggir lesendur síðunnar kannski eftir því að ég er búinn að uppfæra Movabletype kerfið uppí útgáfu 2.5. Movabletype á einmitt eins árs afmæli þessa dagana og fjalla höfundar forritsins um viðbrögð við forritinu í ágætis pistli á MT síðunni.

Það er kannski einna skemmtilegast að nú er íslenska orðin eitt af aðalmálunum í kerfinu. Ég fæ meira að segja þakkir fyrir það. Einnig eru nokkrar fleiri breytingar í forritinu. Meðal annars er búið að bæta inn leitarvél, sem ég mun setja upp á þessari síðu innan nokkurra daga. Einnig er notkun á Trackback auðvelduð til muna.

Sverrir svarar fyrir sig

Sverrir Jakobsson svarar grein minni á ómálefnalegan hátt einsog þeirra Múrsmanna er von og vísa. Það er alltaf stutt í hrokann þar á bæ enda eru þeir fullvissir um að þeir viti meira um flesta hluti en annað fólk.

Sverri svara flestum punktum mínum með rökunum “nei, þetta er ekki svona“, sem eru ágætis rök. Mótrök mín gætu því verið: “jú, víst”.

Einnig ásakar hann mig um að kunna ekki að lesa. Hann segir:

Hins vegar kann Einar Örn ekki að lesa. Eða hvers vegna kýs hann að kalla pistil um skrif mín og Steinþórs Heiðarssonar um Brasilíu “Sverrir Jakobsson og Brasilía”?

Ég svara nú með beittum mótrökum: “þú kannt sjálfur ekki að lesa!”. Greinin “Sverrir Jakobsson og Brasilía” fjallar einungis um skrif Sverris (hún er skrifuð áður en skrif Steinþór birtust. Greinin “Múrsvitleysa um Brasilíu” er svo svar mitt við grein Steinþórs. Skrif Sverris komu þar ekkert við sögu.

Sverrir heldur svo áfram og telur að kunnátta mín af brasilískum stjórnmálum sé öll tilkomin vegna blaðagreinar í The Economist. Ég tel mig ekki vera neinn sérfræðing um Brasilíu en þekking mín nær þó umtalsvert lengra en þessi blaðagrein í The Economist. Ágúst Flygenring svarar þessu ágætlega á heimasíðu sinni:

Ég legg mig fram við að lesa mismunandi skoðanir og sjónarhorn á hinum ýmsu málum. Ég aftur á móti hef mína skoðun, rétt einsog Sverrir hefur sína, og hún þarf ekkert að vera réttari en hver önnur. Mér finnst hinsvegar sjálfsagt að vitna í og benda á skrif þar sem (mín) skoðun er rökstudd, ef það er vel sett fram og með málefnalegum hætti. Þar sem Sverrir segist lesa The Economist ætti hann að vita að greinarnar þar um Lula setja fram málefnalega gagnrýni, m.a. á það sem Cardosa mistókst að gera (einsog t.d. að bæta lífeyrissjóðakerfinu).

Einnig skýtur Sverrir á hagfræðinga og ásakar þá um vanþroska og að þeir “læri ekkert með aldrinum”.

Það að setja alla hagfræðimenntaða menn svona á sama stall er náttúrulega ótrúlegt. Menntahroki Sverris skín þarna í gegn því hann er greinilega sannfærður um að þeir, sem stundi sagnfræði séu á einhvern hátt upplýstari og klárari en þeir, sem nema hagfræði.

Múrvitleysa um Brasilíu

Ég er kannski farinn að endurtaka sjálfan mig varðandi þessi skrif um Brasilíu. Hins vegar verð ég að svara þeirri vitleysu, sem Steinþór Heiðarsson skrifar á Múrinn í morgun. Pistillinn heitir hvorki meira nér minna en: Stórsigur Lula – afhroð frjálshyggjumanna í Brasilíu. Þar segir m.a.

Stóru tíðindin úr fyrri umferðinni – fyrir utan sigur Lula – eru auðvitað þau að ríflega þrír fjórðu hlutar kjósenda höfnuðu frjálshyggjustefnu sitjandi forseta, Fernando Henrique Cardozo, og forsetaframbjóðanda stjórnar hans.

Þetta er svo mikið bull að það er ekki fyndið. Lula naut aldrei mikils stuðnings meðal brasilísku þjóðarinnar þangað til snemma á þessu ári þegar hann hét því að hann myndi EKKI breyta um efnahagsstefnu. Hann hefur m.ö.o. lofað að halda áfram þeirri frjálshyggjustefnu í efnahagsmálum, sem Cardoso hefur staðið fyrir hingað til.

Einnig skrifar Steinþór:

Að hluta til er það vegna þess að þær eru komnar fram hvort eð er vegna óstjórnar í tíð Cardozos en líka af því að niðurskurðurinn í samfélagslegum verkefnum er að ganga af heilu þjóðfélagshópunum dauðum.

Þarnar hefði Steinþór átt að kynna sér betur staðreyndir málsins. Ég bendi á þessa mynd úr síðasta hefti The Economist. Ég ætla ekki að fara að verja þá hrikalegu misskiptingu auðs, sem ríkir í Brasilíu (mig minnir að Brasilíu sé með mestu misskiptingu auðs í heimi, eða var það Mexíkó?). Hins vegar er hún auðvitað ekki tilkomin á tímum Cardoso. Staðreyndin er sú að hann hefur gert mest allra forseta landsins til að bæta stöðu fátækra. Cardoso naut til að mynda meiri stuðnings meðal fátækra heldur en sósíalistinn Lula. Það var millistéttin, sem studdi Lula. Cardoso lækkaði ungbarnadauða, sendi fleiri börn í skóla og bætti aðbúnað í fátækrahverfum. Mér þætti gaman ef Steinþór gæti bent á þennan “niðurskurð í samfélagslegum verkefnum”, sem Cardoso á að hafa staðið fyrir.

Ég held að Steinþór ætti að kynna sér málin aðeins betur áður en hann lýsir stoltur yfir sigri sósíalismans í Brasilíu.

Sverrir Jakobsson og Brasilía

Sverrir Jakobsson, sem skrifar á Múrinn og eigin heimasíðu fjallar um kosningarnar í Brasilíu og kvartar yfir því að Mogginn sé eitthvað á móti hinum endurfædda sósíalista Lula da Silva. Hann endar stutta færslu sína á þessum orðum. (ég vona að hann verði ekki fúll þótt ég vitni beint í hann:

Ég vona hins vegar að Lula nái kjöri og nái að sveigja efnahagsstjórnun í Brasilíu frá þeirri braut sem alþjóðastofnanir hafa þröngvað upp á landsmenn líkt og aðra íbúa þriðja heimsins. Ekki veitir af.

Ég hef nokkrar athugasemdir við þessa færslu:

Í fyrsta lagi var efnahagsstefna Hernando Cardoso vel heppnuð. Honum tókst að koma niður verðbólgunni og minnka að einhverju leyti fátækt í landinu. Hann bætti heilbrigðiskerfið og nú fara í fyrsta skipti nær öll brasilísk börn í skóla. Honum hefur tekist betur upp en nokkrum forseta landsins.

Í öðru lagi þá þröngvar Alþjóðabankinn ekki efnahagsumbótum uppá lönd. Hann kemur löndum, sem hafa komið sér í vandræði, til aðstoðar með lánum. Eðlilega setur Alþjóðabankinn skilyrði fyrir lánunum í stað þess að ausa peningum í óábyrga stjórnmálamenn. Þessi ráð hafa auðvitað reynst misvel enda eru hagfræðingar ekki fullkomnir frekar en sagnfræðingar.

Í þriðja lagi, þá var Lula kosinn fyrst og fremst vegna þess að hann er ekki eins róttækur og hann var. Hann hefur til að mynda lofað að hann muni ekki breyta efnahagsstefnu Cardoso. Það var fyrst og fremst útaf því, sem fólk treysti honum loks til að stjórna landinu.

Það sýnir líka árangur Cardoso að hann er ennþá mjög vinsæll í landinu. Hann gat þó ekki boðið sig fram aftur vegna takmarkana á setu forseta í embætti.

Það er vonandi að Lula verði farsæll í embætti en það mun honum aðeins takast ef hann heldur áfram á sömu braut og Cardoso í efnahagsmálum.

Lula í The Economist

Lulaeconomist.jpgBesta blað í heimi, The Economist, fjallar í nýjasta heftinu um kosningarnar í Brasilíu og væntanlegan sigur Lula da Silva. Greinin fjallar á mjög jákvæðan hátt um þann ágæta árangur, sem Fernando Cardoso náði í embætti en honum tókst meðal annars að láta verðbólguna hverfa, lækka ungbarnadauða umtalsvert og skipta upp landi þannig að 600.000 fátækir bændur fengu sitt eigið land.

Mörg vandamál Brasilíu eru tilkomin vegna þess að ríkisstjórar landsins hafa eytt langt um efni fram. Cardoso vann á þessu vandamáli með því að neyða þá til að hafa stjórn á fjármálum sínum.

Þrátt fyrir þetta þá bendir blaðið auðvitað á að það sé margt óunnið. Það er nauðsynlegt fyrir Lula að halda áfram á sömu braut og Cardoso í efnahagsmálum, enda hefur mikið áunnist. Blaðið fjallar einnig um ótta fjárfesta við Lula og segir þar.

Given Mr da Silva’s switch to more orthodox economic policies, and the chance that some parts of the current governing coalition will stay, it seems that life under President Lula might not be so different. So why are the markets panic-stricken at the prospect? As Mr da Silva’s lead has increased, the real has fallen to record lows and the spreads on Brazil’s bonds (ie, the interest investors expect on them, above that on US Treasuries) have soared. Investors’ main worry is not that, once in office, Mr da Silva will rip off his moderate garb to reveal his old, fiery, socialist self and declare a debt moratorium. It is that he may be incapable of taking the tough decisions needed to stabilise the debt—imposing a further fiscal squeeze if needed in the short term, while passing difficult reforms, such as cutting the fat pensions of public servants, who tend to vote for him.

Svo er spurning hvort að Lula verði kannski einsog Hugo Chavez, sem hefur reynt að styrkja tengsl lands síns við Kúbu á kostnað samskipta við Bandaríkjanna en hefur engum árangri náð í efnahagsmálum (Lula er góður vinur Chavez og Castro). Eða verður Lula kannski einsog Carlos Menem, sem var í framboði fyrir vinstri flokk (Perónista í Argentínu) en stundaði mikinn markaðsbúskap í embætti.

Vonandi nær Lula betri árangri en þeir menn skiluðu.

Sósíalistar í Brasilíu… og eignarétturinn

Þá virðist sem gamli sósíalistinn Lula muni ekki ná hreinum meirihluta í kosningunum í Brasilíu. Það þýðir að hann mun keppa við einhvern hægri frambjóðenda í seinni hluta kosninganna. Það verður þó að teljast líklegt að Lula vinn sigur þá. Líklegur andstæðingur hans í kosningunum er Jose Serra, sem Cardoso, núverandi forseti studdi.

Það er þó nokkuð ljóst að Cardoso hefur náð sæmilegum árangri á sínum tíma. Hann tók upp nýjan gjaldmiðil og honum tókst að ná niður verðbólgunni. Honum hefur þó lítið tekist að vinna á vandamálum fátæktarinnar, sem er jafnslæm og áður.

Samkvæmt kenningum Múrsmanna þá munu sennilega öll vandamál landsins leysast, enda eru öll vandræði landa í Suður Ameríku annaðhvort hægrisinnuðum stjórnmálamönnum, Bandaríkjunum eða Alþjóðastofnunum að kenna. Ég vona þó innilega að Lula takis að koma þessu landi í betra ástand enda varð ég mjög hrifinn af landi og þjóð þegar ég ferðaðist þar um fyrir nokkrum árum.

Allavegana, þá ætlaði ég ekki að tala um þetta, heldur mundi ég allt í einu eftir bókinni The Mystery of Capital: Why Capitalism eftir Hernando De Soto. Undirtitill bókarinnar er: Af hverju kapítalismi virkar í hinum vestræna heimi en mistekst alls staðar annars staðar? De Soto er perúskur hagfræðingur. Hann tók sig til og mat það hversu mikils virði eignir fátæks fólks í heiminum væru. Ég man ekki töluna, sem hann fann út, þar sem bókin er kominn oní kassa á leið til Íslands, en hún var gríðarlega há. De Soto kemst að þeirri niðurstöðu að eitt af undirstöðu vandamálum fátækari ríkja sé sá að eignarétturinn sé illa skilgreindur.

Margir halda því oft fram að fátækt fólk í löndum einsog Brasilíu geti varla bjargað sér og að eina leiðin til að hjálpa sé að senda peninga eða matargjafir. Það er hins vegar stór misskilningur. Ég veit ekki hvort fólk geri sér almennt grein fyrir því, en fátækt fólk í löndum einsog Brasilíu er eitthvað það framtaksmesta í heiminum. Eina, sem maður þarf að gera, til að sannfærast um þetta er að fara í rútuferð um landsbyggðina. Á hverju stoppi safnast fullt af fátæku fólki hjá rútunni og reynir að selja manni alls kyns dót, hvort sem það eru handunnir minjagripir eða sælgæti, en þessi sala er oftast ólögleg vegna þess að fólkið borgar engan söluskatt.

De Soto skrifar að aðalvandamál þessa fólks sé að eignarétturinn sé illa skilgreindur. Þannig að það sé til dæmis ómögulegt fyrir fólk að taka sér veðlán á húsinu sínu, vegna þess að húsin eru oftast ekki skráð neins staðar. Jafnvel þótt að húsin séu í fátækum hverfum, þá eru þau, samanlagt, mikils virði. Ef að fólk gæti tekið veðlán, þá gæti það fengið pening, sem það gæti notað til að fjárfesta í sinni eigin atvinnustarfsemi. Þetta myndi leiða til þess að vinna þessa fólks væri lögleg (sem hún ætti auðvitað að vera), það myndi borga sína skatta og ætti að geta rekið sitt litla fyrirtæki til góðs fyrir fjölskylduna.

Það sýnir sig nefnilega að jafnvel í löndum einsog Kúbu, þar sem sósíalismi er (að minnsta kosti að nafninu til) stundaður, að kraftur einkaframtaksins er gríðarlega sterkur í fólki. Þar var fyrir nokkrum árum heimahúsum leyft að taka á móti ferðamönnum, bæði í mat og gistingu. Auðvitað vildi strax fjöldinn allur af fólki setja upp slíka staði og borðaði ég oft í notalegum heimahúsum þegar ég heimsótti eyjuna.

De Soto nefnir einnig að reglugerðir geri fátæku fólki, sem vill stofna fyrirtæki, lífið leitt. Þannig tók það aðstoðarmenn De Soto 2 ár og yfir 100 heimsóknir á hinar ýmsu ríkisskrifstofur bara til þess eins að fá leyfi fyrir litlu kaffihúsi.

Ef þessu fólki væri auðveldað lífið aðeins, með því að skilgreina eignarétt þeirra og með því að fækka tilgangslausum reglugerðum, gæti kraftur eignaframtaksins svo sannarlega hjálpað mörgu fólki uppúr vonleysi fátæktarinnar.

Öruggur sigur!

OwenNei, kannski var þessi sigur hjá Liverpool í dag ekki alveg öruggur. Chelsea léku hálf varfærnislega og þeir áttu ekki skot á mark í seinni hálfleiknum. Ég hélt þó að þetta myndi enda með jafntefli en auðvitað kom snillingurinn Michael Owen til bjargar.

Hjá Chelsea voru það frakkarnir tveir, Desailly og Gallas, sem voru þeirra bestu menn. Þeir héldu Owen og Heskey algerlega niðri en þegar Baros kom inná þá átti Desailly í stökustu vandræðum með hann. Eins og svo oft áður á þessu tímabili var Dietmar Hamann besti maður Liverpool. Það er alveg hreint lygilegt hvað hann stöðvar margar sóknir andstæðinganna. Dudek varði ekki eitt skot, þrátt fyrir að Liverpool hefðu verið slakari aðilinn mestallan leikinn.

Það eru akkúrat svona leikir, sem Liverpool þarf að vinna, til að geta orðið meistarar. Leikir, þar sem þeir lenda í basli en ná á einhvern hátt að finna einhverja leið til að brjóta andstæðingana á bak aftur.

Ég spái því að Arsenal tapi næsta leik. Ég hef ekki hugmynd um við hverja þeir spila, en ég veit bara að nú munu þeir tapa.

Syd

Áhugaverð grein í The Guardian um tilraun blaðamanns þar til að taka viðtal við sérvitringinn Syd Barrett, sem var upphaflegi söngvari Pink Floyd.

Ég er mikill aðdáandi Pink Floyd en hef aldrei haldið sérstaklega uppá Syd Barrett tímabilið, en hann samdi öll lögin á fyrstu plötunni, The Piper at the Gates of Dawn. Auk þess samdi hann nokkur vinsæl lög, sem komu aldrei út á breiðskífu (nema á Echoes, best of plötunni, sem kom út í fyrra).

The Piper at the Gates of Dawn er frábær plata og enn er Interstellar Overdrive eitt af mínum uppáhalds Pink Floyd lögum. Eftir að Syd Barret yfirgaf Pink Floyd gaf hann út tvær sóló plötur. Ég á aðra, Madcap Laughs, sem er ekkert sérstök.

Það er þó áhugaverð staðreynd, sem blaðamaður The Guardian bendir á, að á Echoes á Syd Barrett einn fimmta af lögunum, þrátt fyrir að hafa bara verið með Pink Floyd í rúmlega eitt ár af þeim þrjátíu árum, sem þeir störfuðu. Reyndar er hluti af því vegna þess að þeir vildu gefa út lögin, sem Syd samdi fyrir The Piper at the Gates of Dawn, það er See Emily Play, Jugband Blues og Arnold Layne.