Síðasti þátturinn af Spin City var í gærkvöldi. Þetta var ágætis þáttur, en Michael J. Fox er hættur vegna Parkinsons veiki. Ég horfði alltaf á þessa þætti heima á Íslandi og mér fannst þeir ágætir. Þátturinn í gær var fínn. Ekkert stórkostlegur. Hann var allavegana ekki jafn mikil vonbrigði og síðasti Seinfeld þátturinn. Síðasti þátturinn af Beverly Hills 90210 var svo sýndur fyrir einhverjum tveim vikum. Ég ákvað að horfa á hann. Það var ekki góð ákvörðun
Ritgerð
Mér tókst einhvern veginn að gubba út úr mér 6 blaðsíðna stjórnmálafræði ritgerð í gærkvöldi. Hún er hins vegar mjög léleg.
Stjórnmálafræði
Það er alveg magnað hvað mér tekst alltaf að draga hluti fram á síðustu stund. Ég á að skila lokaritgerðinni í stjórnmálafræði á morgun og ég er búinn með svona 10% af henni. Það þýðir að ég get ekki farið á frumsýninguna á Mission Impossible 2.
Frænkur
Ert þú ástfangin af frænku þinni eða frænda? Þá er þetta síðan fyrir þig.
Apple
Það var grein í Newsweek fyrir 2 vikum, þar sem Apple eigandi spyr sjálfan sig hvort það sé þess virði að vera trúr Apple. Vissulega er oft erfitt a¦ vera Apple notandi núna þegar Microsoft hefur einokun á öllum PC-markaðinum og flest forrit eru gerð upphaflega fyrir PC. Fyrsta tölvan mín var Macintosh Plus, sem ég átti í nokkur ár og reyndist mér mjög vel.
Ég færði mig svo yfir á PC og átti PC tölvur alveg þangað til að ég keypti mér iBook í haust. Fyrir mig þá hefur iBook tölvan mín reynst betur en PC-tölvurnar, sem ég átti. Stýrikerfið er einfaldlega mun betra en Windows. Einnig er uppsetning á öllum aukahlutum og forritum mun öruggari og einfaldari en á PC. Ég held þó að ég vilji sjá hvernig Mac OS X reynist áður en ég kaupi mér næstu Apple tölvuna
Dillo
Ég veit að ég ætti sennilega að vera að læra núna, en ég nenni því einfaldlega ekki. Gærdagurinn var skemmtilegur. Við eyddum deginum niður við vatnið, þar sem voru tónleikar allan daginn. Um kvöldið var svo bara fjör.
Í dag er aðal partídagur
Í dag er aðal partídagur Northwestern nemenda, Dillo Day. Þannig að núna er ég að fara niður á strönd, þar sem verða tónleikar og læti í allan dag. Jibbííí!
Siggi Hall
Ég var að lesa á Vísi.is að Siggi Hall verði með einhvern þátt á NBC. Mig grunar nú að sá þáttur sé bara á NBC stöðinni í Kaliforníu en ekki um allt landið. Það er annars gaman þegar Íslendingar eru að “meika” það hérna. Kannski Siggi Hall verði bara næsti Ainsley Harriott.
Kid Rock
Ja hérna. Greyið Kid Rock.
Fleiri mörk
Ég rakst á nokkuð skemmtilega frétt á Liverpool heimasíðunni. Þar heldur Gerard Houllier að Liverpool þurfi að skora fleiri mörk. Maðurinn er snillingur. Liverpool skoraði ekki mark í síðustu fimm leikjunum. Hann hefði betur áttað sig á þessu aðeins fyrr. En allavegana, þá held ég að hann sé rétti maðurinn fyrir Liverpool og þeir verða með besta liðið á næsta keppnistímabili. Þá loksins mun þessi hrikalega bið eftir titli enda.
Annars er ég svo forfallinn fótboltaaðdáandi að ég veit varla hvað ég á að gera, nú þegar enski boltinn er búinn. Maður verður víst bara að bíða þolinmóður þangað til að EM byrjar í sumar. Megi Holland vinna!