« janúar 22, 2005 | Main | janúar 24, 2005 »

Ferðasögur

janúar 23, 2005

Ég elska ferðabækur og þá sérstaklega ferðabækur eftir Bill Bryson. Ég hef lesið stærsta hlutann af bókunum hans, þar meðtalið Lost Continent þar sem hann ferðast um Bandaríkin og Neither here nor there, þar sem hann rifjar upp bakpokaferðalagið hans um Evrópu. Þegar ég er á ferðalagi vegna viðskipta á ég það til að leiðast inní flugvalla bókabúðir og kaupa bækurnar hans. Á óspennandi viðskiptaferðalögum er yndislegt að láta sig dreyma um meira spennandi ferðalög en dagsferðir til Noregs.

Í Póllandsferðinni kláraði ég In a Sunburned Country, sem er ferðasaga Brysons frá því í Ástralíu. Ólíkt fyrri bókunum, þá er hann í þessari bók of heillaður af landi og þjóð til að vera jafn kaldhæðinn og vanalega. Bryson kolféll nefnilega fyrir Áströlum og landi þeirra. Og hann er alveg einstaklega góður í að lýsa kostum þeirra og í raun féll ég alveg fyrir Ástralíu bara af því að lesa bókina. Samkvæmt honum þá er Ástralía algjör paradís, full af hamingjusömu fólki, sem lifa í landi, sem er eitt hið ríkasta í heimi og njóta þess að hafa nærri fullkomið veður allan ársins hring. Ég get svo svarið það að oft á tíðum langaði mig að láta bókina niður og kaupa mér flugmiða beint til Sydney.

Ég hef reyndar kynnst nokkrum Áströlum um tíðina og þeir eiga það allir sameiginlegt að þeir geta ekki hætt að tala um Ástralíu. Þeir elska landið sitt og eru óendanlega stoltir. Þeir Ástralar, sem ég hef kynnst, eru einsog gangandi landkynning allan sólarhringinn. Þannig að það hlýtur að vera eitthvað verulega spes við þetta land. Mig langar allavegana að fara!


Hef annars klárað nokkrar bækur að undanförnu, sem eru þess virði að fólk lesi.

What’s the matter with Kansas er frábær pólitísk bók, sem reynir að skýra hvernig Repúblikanar hafa smám saman náð völdum í miðríkjum Bandaríkjanna. Hún fjallar um það hvernig þeir fátækustu í landinu eru oft á tíðum dyggustu kjósendur Repúblikana, einungis vegna þess að fólk kýs útfrá trúarskoðunum í stað efnahagslegra ástæðna. Margt af þessu fólki hefur misst trúna á að stjórnvöld hjálpi við að bæta efnahagsástand þeirra og vona þess í stað að stjórnvöld beiti sér fyrir því að koma gildismati þeirra yfir á aðra. Þess vegna kýs þetta fólk Repúblikana, en efnahagsstefna þess flokks er þessu fólki beinlínis fjandsamleg.

Moral Values, sem þetta fólk telur mikilvægast allra málefna, breytist svo aldrei. Hollywood myndir halda áfram að versna, Howard Stern heldur áfram að vera vinsæll, fóstureyðingar eru ennþá löglegar og svo framvegis. Það eina, sem fólk hefur uppskorið eftir stuðninginn við Repúblikana eru skattalækkanir, sem hygla þeim ríkustu. Eða svo segir allavegana höfundurinn, Thomas Frank.

Las einnig The Five People you meet in heaven, sem er góð. Já, og svo er Moneyball frábær, sérstaklega fyrir þá sem hafa áhuga á baseball og viðskiptum.

464 Orð | Ummæli (9) | Flokkur: Bækur

EOE.is:

Blaður um hagfræði, stjórnmál, íþróttir, netið og mín einkamál.

Á þessum degi árið

2005 2004 2003 2000

Leit:

Síðustu ummæli

Gamalt:



Ég nota MT 3.33