Steggjapartí

Var í steggjapartíi í gær. Það var æði.

Við vinirnir vorum búnir að skipuleggja þetta steggjapartí fyrir Borgþór vin okkar nokkuð lengi. Ég asnaðist til að trúa veðurspánni, en það var búið að spá skýjuðu veðri fyrir laugardaginn alla vikuna. Veðrið í gær var hins vegar með ólíkindum gott.

Við fórum með stegginn í listflug, sjóstangveiði, fótbolta og sund. Veðrið var æði allan daginn og við vorum allir brunnir í andlitunum, enda úti allan daginn. Við kíktum svo í bæinn og enduðum á Hverfis. Eftir að hafa andað að mér reykmettuðu loftinu á barnum fattaði ég að ég var talsvert drukknari en ég hafði haldið og ákvað því að rölta heim í Vesturbæinn. Það er eitthvað mikið að þegar ég nenni ekki að vera lengur í bænum.


Ég hef oft verið hressari en ég var í morgun. Ef það er eitthvað verra en að vakna þunnur, þá er það að vakna þunnur í íbúð fullri af drasli og tómum bjórdósum. Fékk hjálp við að þrífa og nú lítur þetta allt betur út.

Nú stefnir allt í það að innan mánaðar verði fjórir af mínum bestu vinum giftir. Það er helvíti magnað.

Frestun kosninga í Daily Show

Fyrir alla, sem hafa gaman af bandarískum stjórnmálum, þá eru [þessi myndbrot úr Daily Show](http://video.lisarein.com/dailyshow/july2004/elections/) algjör snilld!!

Bæði fjalla um hugsanlega frestun kosninganna í USA vegna árása hryðjuverkamanna (via [On Lisa Rein’s Radar](http://onlisareinsradar.com/)) Þetta eru um 20mb í erlendu niðurhali, en vel þess virði. 🙂

Fjölmiðlafrumvarps- kjaftæðisendalok

Við unnum!

[Davíð tapaði](http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1094261).

Ég veit að ég ætti að vera glaðari nú þegar Davíð hefur þurft að viðurkenna fullkominn ósigur. Algjörlega fullkominn ósigur!

En þessa þrjá mánuði í lífi mínu fæ ég ekki tilbaka. Davíð er búinn að valda stríðsástandi í þjóðfélaginu bara af því að hann þolir ekki Baug. Og núna er Davíð búinn að viðurkenna ósigur, en samt viðurkennir hann auðvitað ekki neitt. Einhvern veginn er það ekki ósigur í hans augum að við stöndum núna í nákvæmlega sömu sporum og fyrir þrem mánuðum.


Davíð kvartar um að völd færist á færri hendur, en gleymir að minnast á það að hann og Halldór eru búnir að taka öll völd í sínar hendur. Mikið er það nú samt illa komið fyrir Sjálfstæðisflokknum þegar að *Framsóknarmenn eru orðnir rödd skynseminnar*.

Finnst ykkur, sem eruð sæmilega frjálslynd og enn í Sjálfstæðisflokknum, það ekki vera sorglegt?

Ég bara skil ekki þetta unga fólk í flokknum. Hvernig getur það stutt Davíð og þessa vitleysu alla? Finnst því þetta allt vera í fínasta lagi?

Ég var að spá í þessu þegar ég var að lesa þennan [pistil Járnskvísunnar ](http://www.jarnskvisan.com/archives/003362.html) og áttaði mig á að þetta er allt saman kjaftæði. Ég er ábyggilega miklu nær ungum Sjálfstæðismönnum í skoðunum en þeir eru Davíð. Samt verja þau hann og alla hans menn. En þegar Össur kemur í sjónvarpið og bendir á hina augljósu vitleysu í ríkisstjórninni, þá fer hann alveg hræðilega í taugarnar á Sjálfstæðisfólki.

Er það kannski eini munurinn á okkur? Hverjir fara í taugarnar á okkur. Ég er nánast með ofnæmi fyrir Einari Guðfinns, en líkar ágætlega við Össur. Ungu Sjálfstæðismennirnir fyrirlíta hins vegar Össur og eru með mynd af Einari Guðfinns uppá vegg. Er munurinn á okkur bara einhverjar tilfinningar gagnvart einstaklingum?

Ég hef heyrt fulltaf fólki segjast ekki geta stutt Samfylkinguna útaf því að Össur sé þetta eða hitt. Það skil ég ekki, því stjórnmálaflokkar eiga umfram allt að snúast um málefni en ekki skemmtilega leiðtoga. Er það kannski bara rugl hjá mér?

Ég hef nánast aldrei heyrt hægri-sinnað-ungt-fólk segjast ekki geta stutt Samfylkinguna útaf stefnu flokksins, heldur kvartar það bara yfir Össuri og Ingibjörgu.

Látum við virkilega skoðanir okkar stjórnast af því hvort okkur líkar vel eða illa við einhverja fimmtuga kalla?

Er það ekki dálítið skrítið?


En það er svosem ágætt að þetta er búið, þrátt fyrir að mér finnist rosalega gaman að fylgjast með pólitík og það verður dauft núna þegar ekki er hægt að rífast um þetta.

Múrinn og Heimdallarskólinn

Þau á Múrnum skrifa í dag gott [andsvar við grein Hafsteins Þórs, formanns SUS](http://www.murinn.is/eldra_b.asp?nr=1312&gerd=Frettir&arg=5), sem birtist fyrir nokkru [á frelsi.is](http://www.frelsi.is/graentogvaent/nr/2450).

Hafsteinn Þór er hugsjónarmaður, en umfram allt foryngjahollur og því hefur hann nánast ekkert gagnrýnt flokkinn sinn fyrir atferli hans í fjölmiðlamálinu og öllu því tengdu. Í stað þess að svara gagnrýni stjórnarandstæðinga og Múrsins tekur Hafsteinn [46 ára gömul ummæli sósíalista og gerir þau að aðal-umfjöllunarefni sínu](http://www.frelsi.is/graentogvaent/nr/2450). Með því var hann víst að skjóta á umfjöllun Múrsins um þjóðaratkvæðagreiðslur, þrátt fyrir að þau á Múrnum hafi ekki verið fædd þegar þessi ummæli voru höfð.

Vandamálið er bara að einsog [andsvar Múrsins](http://www.murinn.is/eldra_b.asp?nr=1312&gerd=Frettir&arg=5) sýnir, þá er þetta kvót hans Hafsteins einungis útúrsnúningur.

Það er yndislegt að Hafsteinn skuli enn vera jafn dásamlega upptekinn af því að berjast við kommúnisma og hann hefur ávallt verið. Þar sem hann hefur lítil rök inní deilur nútímans, þá kýs hann frekar að beita hárbeittum rökum gegn stefnu, sem dó fyrir mörgum árum. Það er nefnilega auðveldara að grafa upp áragömul, misgáfuleg ummæli andstæðinga sinna, heldur en að eiga rökræður við þá í nútímanum (þó er verra þegar ummælin standast ekki einsog Múrinn sýnir fram á).

Hafsteinn hefur skrifað nákvæmlega tvær greinar á frelsi.is eftir að Davíð tók af okkur þjóðaratkvæðið. Sú fyrri fjallaði um það hversu [kjaftfor Steingrímur J. er](http://www.frelsi.is/greinar/nr/2443) og sú seinni var um [meint 46 ára gömul ummæli](http://www.frelsi.is/greinar/nr/2450) fyrrum þingmanns Vinstri-Grænna.

Það er greinilegt að formaður SUS er með puttana á púlsi þjóðlífsins. Ef ungliðar flokksins eru svona úr takti við restina af þjóðinni, er það þá furða að þingmenn sama flokks séu heillum horfnir?

Nýr æPod

Það er búið að opinbera nýja iPod-inn. Steve Jobs er í viðtali við Newsweek og þeir láku forsíðunni í gær.

Sjá [hér á engadget](http://www.engadget.com/entry/8424310331131743/)
Einnig hér er Newseek greinin: [The new iPod](http://www.msnbc.msn.com/id/5457434/site/newsweek/)

Svo sem engar byltingar, en hann er með 12 tíma batteríi (í stað 8), takkarnir 4 eru farnir og þess í stað er bara hjólið. Svo virðist stýrikerfið í spilaranum sjálfum aðeins vera breytt. Já, og svo eru þeir allir 100 dollurum ódýrari, sem þýðir væntanlega að þeir eru um 10.000 krónum ódýrari í Apple búðinni. Verða bara til í 20gb og 40gb.

**Uppfært**: [Hérna er öll Newsweek greinin](http://msnbc.msn.com/id/5457432/site/newsweek) um iPod og gríðarleg áhrif og vinsældir þessa litla tækis.

Nýja Quarashi lagið

Fyrir þá, sem vissu ekki af því þá er hægt að nálgast nýja Quarashi lagið (að ég held á löglegan hátt) á netinu. Það var sett uppá [simblogg.is](http://simblogg.is/):

[Stun Gun](http://quarashi.gsmblogg.is/Quarashi_Stun_Gun.mp3) (MP3 – 3,9mb)

Grúví lag, ekkert rokkvesen. Þannig eru Quarashi bestir. Tiny rappar aðallega og svo á Ómar “chorus-inn”. Þetta eru snillingar.

Mblog pælingar

Ég er búinn að setja upp svona móðins [mblog](http://mblog.is/mblog/web?cmd=blogs&mboard=350075) á heimasíðu Símans. Þetta er reyndar vita gagslaust því þetta er hýst á einhverri síðu útí bæ. Mun skemmtilegra væri að hafa þetta á minni eigin síðu í hliðarstikunni.

Þannig að ég spyr hvort einhver hafi reynslu af þessu mblog-i og viti hvernig er hægt að gera þetta gagnlegra. Það sem mér dettur í hug:

1. Er hægt að fá RSS skrá útúr mblog.is?
2. Gæti ég einhvern veginn sent myndir bara beint inná mína heimasíðu í gegnum Movable Type?
3. Er hægt að blogga í gegnum SMS með Símanum (hef séð það gert hjá OgManUnited) inná mína heimasíðu?
4. Get ég eytt myndum útaf mblog.is?

Þetta gæti verið sniðugt dæmi ef að ég gæti einhvern veginn tvinnað þetta inní þessa heimasíðu. Hefur einhver reynslu af þessu? Veit einhver um einhverja skemmtilega fídusa, sem ég er ekki að gera mér grein fyrir?


Já, og svo legg ég til að Síminn í Kringlunni ráði fleira starfsfólk. Takk fyrir.

Ok, farinn útað hlaupa. Það er sko eins gott að það verði fáklæddar stelpur á línuskautum meðfram Ægissíðunni. Annars verð ég verulega vonsvikinn.

Ég og iPod-inn minn

ipod45.jpgNúna er talið að Apple, yndislegasta tölvufyrirtæki muni [kynna nýja gerð af iPod í næsta mánuði](http://www.thinksecret.com/news/augustipods.html). Núverandi iPod-ar rúma 40GB af tónlist, en talið er að þeir nýju muni rúma allt að 60GB. Einnig er talið að þeir verði minni og fáanlegir í mörgum litum.

Núna er spennandi að sjá hvort að nýji iPod-inn verði nógu spennandi til þess að ég verði fársjúkur, reyni að selja iPod-inn minn og verði svo ekki í rónni fyrr en ég hef keypt mér einn af þessum nýju. Ég er nefnilega tækjasúkur.

Ég elska líka iPod-inn minn.

Ég elska hann, sennilega jafn heitt og hægt er að elska rafmagnstæki. Hann er ómissandi hluti af mínu lífi. Hann heldur mér á lífi í ræktinni og ég get varla hugsað mér ferðalög án þess að hann sé með í för. Ég hef átt hann í ár og það er hreint með ólíkindum að hugsa sér hversu miklu hann hefur breytt. Þetta litla [tæki](http://www.apple.com/ipod/) er æði.