Vinsælasta lagið á Íslandi í dag?

Þegar ég var að elda kvöldmatinn áðan (eða réttara sagt: þegar ég var að hita upp Pad Thai-ið mitt í örbylgjunni) heyrði ég eftirfarandi setningu í þættinum Ísland í dag á Stöð 2:

>Nú fáum við að sjá nýtt myndband fyrir **vinsælasta lagið á Íslandi** í dag, sem er flutt af **Sálinni hans Jóns Míns**

Þetta er mögnuð þjóð.

Frá Þýskalandi til Englands

Ferðalög í Evrópu eru talsvert minna spennó heldur en sögur frá Mið-Ameríku. Einhvern veginn er það lítið spennó að segja frá ferð í loftkældum lúxus lestum og öðru slíku. En allavegana, ég er núna staddur á Heathrow, bíðandi eftir flugvél heim. Er orðinn þreyttur á að ferðast, allavegana í bili.

Hef verið í Þýskalandi og Englandi síðustu viku. Var fyrst á sýningu í Köln í þrjá daga. Þaðan fór ég svo yfir til London og þaðan til York, þar sem ég hef átti fund. York er fínn lítill bær. Þar búa um 100.000 manns, en á hverju ári koma þar tvær milljónir túrista, þannig að bærinn er líflegur.

Frá York fór ég svo ásamt tveim vinnufélögum upp til Liverpool, þar sem planið var að fara á leik á Anfield. Ég ætla sennilega að skrifa eitthvað meira um þann leik og mína upplifun á Liverpool bloggið. Liverpool er bara fínasta borg, mun álitlegri en ég hafði átt von á. Hafði heyrt alls konar skrýtna og misgóða hluti um borgina, en hún kom mér skemmtilega á óvart. Það að fara á Anfield var svo auðvitað frábær lífsreynsla.

Ég hef auðvitað verið Liverpool aðdáandi síðustu 20 árin og á hverju ári eru og ég vinir mínir fullir af áætlunum um að fara á Anfield, en einhverra hluta vegna hefur aldrei neitt orðið úr þeim plönum.

Auk leiksins djömmuðum við svo í gærkvöldi. Fórum á heljarinnar skemmtistaðarölt og ég get núna fullyrt það að það er sko *nóg* af fallegu kvenfólki í Liverpool borg. Djammið í Liverpool er helvíti skemmtilegt fyrir utan það að ég þurfti að röfla í hverjum einasta dyraverði vegna þess að ég var í strigaskóm. Þegar inná staðina var komið reyndust staðirnir vera flottir og uppfullir af fallegum stelpum. Ég dreg hér með alhæfingar mínar um breskt kvenfólk tilbaka.

Í dag er ég svo þunnur, sit hérna í biðsalnum á fokking Heathrow, hárið á mér asnalegt, maginn á mér skrýtinn og sé rúmið mitt í hyllingum.

*Skrifað á Heathrow, London, England kl. 18:50*

= >

Ég er að fara út í fyrramálið. Á sýningu í Köln og svo fer ég yfir til Englands á fund seinna í vikunni.

Ég hef varla getað andað vegna vinnu síðan ég kom heim úr fríinu og því nenni ég varla að fara strax út, en kvarta samt ekki. Verð auðvitað með tölvuna með mér, enda í vinnunni og mun reyna að uppfæra þessa síðu.

Me gusta la Gasolina!

Ef mér leiðist eitthvað meira en að strauja skyrtur, þá er það að þurfa að éta stór orð.

Í Mið-Ameríku er eitt lag alveg fáránlega vinsælt og hefur verið það undanfarið ár. Allir rútubílstjórar elska lagið, það er spilað á öllum klúbbum, veitingastöðum og í öllum verslunum. Það er hreinlega fullkomlega ómögulegt að losna við þetta lag.

Þegar ég og Anja vorum í einhverri rútunni byrjaði ég að bölva laginu. Hún sagðist þá fíla lagið og að þetta lag hefði verið *ýkt vinsælt í Þýskalandi í allt sumar*. Ég hló og sagði að þetta staðfesti það að Þjóðverjar væru skrýtnir.

Ég hélt því svo fram að Íslendingar væru svo hipp og kúl að þetta lag yrði aldrei vinsælt á Íslandi. Við hefðum betri smekk en svo.

En svo kem ég heim og hvað gerist: Jú, lagið er í brjálaðri spilun á Íslandi! Og ekki nóg með það, heldur þá erum við langt á eftir Þjóðverjum í spilun á laginu. Það er lágmark að ef við byrjum að spila hallærisleg lög, þá ættum við að gera það á undan öðrum löndum. En við virðumst bara lepja upp poppið löngu á eftir þjóðum, sem við höldum að séu hallærislegar. Ef þetta er ekki áfellisdómur yfir Íslandi, þá veit ég ekki hvað er. Semsagt, Þjóðverjar eru kúl, við ekki.

En allavegana, lagið er hið magnaða “**Gasolina**” með Puertó Ríkanum Daddy Yankee (sjá [mynd](http://www.reggaetonline.net/images/reggaeton/fotos/daddy-yankee-13.jpg)). Þetta lag hefur verið fáránlega vinsælt um alla rómönsku Ameríku og er núna orðið vinsælt í Bandaríkjunum, Evrópu og loks á Íslandi. Lagið er fáránlega óþolandi, en einhvern veginn hef ég smá veikan blett fyrir því. Aðallega vegna þess að það minnir mig á plássleysi, loftleysi, predikara og feita sölumenn í rútum í Mið-Ameríku.

Textinn er náttúrulega stórkostlegt afrek í textasmíði. Viðlagið hljómar svona:

>A ella le gusta la gasolina (dame mas gasolina!)
Como le encanta la gasolina (dame mas gasolina)

Eða á íslensku

>Hún fílar bensín (gefðu mér meira bensín)
Já, hún elskar bensín (gefðu mér meira bensín)

Jammm, vissulega snilld.

En fyrir ykkur, sem hlustið ekki á FM957 eða álíka gæðastöðvar, þá ætla ég að gera ykkur þann stórkostlega greiða að bjóða uppá þetta lag, allavegana næstu tvo daga.

[Gasolina – Daddy Yankee](https://www.eoe.is/stuff/gasolina.mp3) – 4,41 mb – MP3

Njótið og hugsið svo hlýlega til mín þegar að þið byrjið að heyra “me gusta la gasolina” í hausnum á ykkur allan daginn.

Ekkert að þakka!

Íslenski bachelor-inn: Fyrstu þrír þættirnir

Hvar á ég að byrja?


Ok, fyrir það fyrsta svo það sé á hreinu, þá er fólkið sem skráir sig í [þennan þátt](http://bachelor.s1.is/) náttúrulega hetjur. Það *veit* að það verður gert grín að því og í raun með því að taka þátt í þessum þætti, þá er það að bjóða uppá ákveðin skrif og skot á sjálft sig.

Ég hefði aldrei þorað að fara í þennan þátt og því er þetta fólk hugrakkara en ég hvað það varðar.

En þetta fólk er jú komið í þáttinn og þetta er íslenskt raunveruleikasjónvarp og ég er vanur því að skrifa um raunveruleikasjónvarp á þessari síðu. Þannig að þessu tækifæri get ég ekki sleppt. Ég er búinn að horfa á þrjá fyrstu þættina af þessum þætti og ég veit hreinlega ekki hvar ég á að byrja.


Ok, til að byrja með nokkrir punktar úr lausu lofti.

**Fyrir það fyrsta**: Bachelor-inn býr um rúmið sitt *á hótelherbergi*. Hvaða karlmaður gerir svona lagað? Kannski er hægt að finna mann, sem býr um sig heima hjá sér (mamma, sá maður er þó vandfundinn!!!), en að búa um rúmið sitt á hótelherbergi er annaðhvort merki um geðveiki eða þá að hann var að reyna að heilla alþjóð fyrir framan myndavélarnar.

**Í öðru lagi**: Hvað er málið með einstæðar mæður á Íslandi? Þegar ég skrifaði [fyrst um þennan þátt](https://www.eoe.is/gamalt/2005/06/23/19.23.41), þá efaðist ég um að framleiðendur þáttarins myndi finna **25 einhleypar íslenskar stelpur** til að taka þátt. Ég hafði rétt fyrir mér. Ég gat aldrei talið þær nákvæmlega, en stelpurnar í þættinum voru ekki fleiri en 15. Þannig að það er greinilegt að framleiðendurnir fækkuðu stelpunum í þáttunum, væntanlega vegna þess að ekki nógu margar stelpur buðu sig fram. Ástæðan er einfaldlega sú að það eru (einsog ég hef áður bent á) [allar stelpur á Íslandi á föstu](https://www.eoe.is/gamalt/2003/10/02/22.59.00/). Þær, sem eru ekki á föstu og eru komnar yfir tvítugt eru svo ansi margar orðnar einstæðar mæður.

Ég átta mig í raun ekki alveg á þessu. Ég held að í bandarísku þáttunum hafi ekki ein einasta stelpa átt barn, en í íslenska þættinum virðist helmingurinn af stelpunum eiga lítinn krakka. Af hverju er þetta? Eigum við eitthvað met í fjölda einstæðra mæðra? Ganga sambönd ekki upp á Íslandi?

**Í þriðja lagi**: Í guðs bænum, hættið að kalla þennan þátt “Íslenski bachelor-inn”. Fyrir það fyrsta er “piparsveinn” fínt orð. Það notar enginn orðið “bachelor” yfir piparsvein, ekki einu sinni ungt fólk. Auk þess er það alveg stórkostlega hallærislegt að fallbeygja orðið “bachelor”. Þetta er svo bjánalegt að ég kemst varla yfir það. Ekki að ég sé neinn íslensku fasisti, en samt.
Continue reading Íslenski bachelor-inn: Fyrstu þrír þættirnir

Mið-Ameríkuferð 12: Ferðalok

Ég er kominn heim. Kom klukkan 6 í morgun. Fór beint í vinnuna úr fluginu, en gafst upp um 2 leytið vegna þreytu. Er búinn að sofa síðan þá.

Ferðin var **æðisleg**. Ég hef enga sérstaka þörf fyrir afslöppun í fríunum mínum. Hef aldrei séð sjarmann við það að liggja á strönd í þrjár vikur. Ég vil að fríin mín séu full af ævintýrum, upplifunum og látum. Afslöppunin felst í því að gleyma vinnunni og *lifa* lífinu á öðruvísi hátt í smá tíma. Þannig kem ég heim fullur af sögum og krafti. Það er mín hvíld.

Mér finnst ég vera á ákveðnum tímamótum í mínu lífi og ég gerði mér miklar væntingar um að þessi ferð mín myndi skýra hlutina og gera mér kleift að taka þær ákvarðanir, sem mér finnst ég verða að taka. Að vissu leyti gerði ferðin það, en að vissu leyti flækti hún hlutina líka. Þannig gerast hlutirnir einfaldlega, maður getur ekki hannað atburðarrásina fyrirfram.


Ég hef haft gaman af því að skrifa ferðasöguna og vona að þið hafið haft gaman af því að lesa hana. Það er öðruvísi að gera þetta hérna opinbert á móti því að skrifa ferðasöguna til vina og vandamanna. Aðallega saknaði ég þess að heyra ekkert frá vinum. Það vissu allir hvað ég var að gera, en ég vissi ekkert hvað hinir voru að gera. Það er kannski í lagi í svona tiltölulega stuttu ferðalagi, en á lengra ferðalagi þyrfti ég að skoða hvernig ég gæti haldið út þessari síðu, sem og persónulegu sambandi við mína vini.

En ég hef strax við heimkomu fengið hrós frá fólki, sem ég hafði ekki hugmynd um að læsu þessa síðu, fyrir ferðasöguna og mér þykir verulega vænt um það. Að vissu leyti er feedback-ið það, sem heldur manni við efnið. Mér þykir alltaf gríðarlega skemmtilegt þegar að fólk kommentar á sögurnar mínar og bætir jafnvel við sínum eigin sögum. Það gerir þetta allt skemmtilegra.


Fyrir ykkur, sem eruð að spá í einhverju svona ferðalagi, en finnið alltaf ástæður til að gera það ekki, þá hef ég bara eitt að segja: *Þetta er ekkert mál!*

Ef ég tek ekki með flugferðir í dæmið, þá má ætla að ég hafi eytt um 30 dollurum á dag á ferðalaginu. Dýrasta hótelið, sem ég gisti á var í Cancun og þar borguðum við 30 dollara fyrir herbergið, eða 15 dollarar á mann. Fyrir utan það, þá fór hótel eða gistiheimila kostnaður ALDREI upp fyrir 10 dollara á nótt, eða um 600 krónur. Auk gistingar, þá voru rútuferðir um 2 dollarar á dag og matur kannski um 14-15. Samtals, þá áætla ég að ég hafi eytt undir 30 dollurum á dag. Það gera 1800 krónur á dag, eða 54.000 fyrir heilan mánuð.

Flugin kostuðu mig 50.000 (reyndar var Flugleiðaflugið á frímiða), þannig að ferðin kostaði mig samtals um 105.000 krónur. Ég leyfi mér að *fullyrða* að Íslendingur á Mallorca í tveggja vikna ferðalagi þar sem hann gistir á sömu ströndinni og eyðir tíma í sömu sundlauginni í tvær vikur, eyðir meiri peningi en ég á mínu mánaðarferðalagi um 5 lönd Mið-Ameríku.

Auðvitað þarf maður að færa fórnir, en það er *hluti* af ævintýrinu. Ég hef gist í gistiheimilum fullum af kakkalökkum og flugum. Fyrir utan Cancun gisti ég aldrei á hóteli með loftkælingu, þrátt fyrir gríðarlegan hita. Ég ferðaðist með ódýrum rútum og borðaði á ódýrum veitingastöðum. En það að ferðast og lifa einsog fólk býr í þessum heimshluta er mikilvægur hluti af upplifuninni. Það er ekkert gaman að ferðast um þessa staði og skoða þá útum glugga á loftkældri risarútu, ofverndaður af íslenskum fararstjóra og með gistingu á lúxushóteli. Kannski er það í lagi þegar maður eldist, en í dag get ég ekki hugsað mér annað en að gera þetta á ódýra mátann. Gisting á ódýrum gistiheimilum er líka frábær leið til þess að kynnast fullt af skemmtilegu fólki.

Þannig að verðmiðinn ætti ekki að hindra fólk. Þá er bara að berja í sig kjark, kaupa Lonely Planet bók um svæðið, sem þig langar að heimsækja, og drífa þig af stað. Það er EKKERT mál að feraðst einn. Kostirnir eru ótal margir og þú átt eftir að kynnast fullt af fólki, sem er á svipuðu róli og þú. Ég er búinn að kynnast fleira fólki á þessum mánuði heldur en á Íslandi allt síðasta ár.


En allavegana, ég vona að þið hafið haft gaman af ferðasögunni. Ég hef haft gaman af að skrifa hana og ef ég hef kveikt hjá einhverjum löngum til ferðalaga, þá er það *frábært*. Takk fyrir mig.

p.s. myndin er tekin uppá stærsta píramídanum í Chichen Itza, Mexíkó.

*Skrifað í Vesturbæ Reykjavíkur*

Mið-Ameríkuferð 11: Bandaríkin

Jæja, ferðin er nokkurn veginn búin. Er kominn til Bandaríkjanna og á morgun á ég flug heim til Íslands.

Tíminn í Cancun var fínn. Ströndin þar er æði og liturinn á sjónum er sá fallegasti, sem ég hef séð lengi. Ég borðaði svo tvisvar alambre de pollo með osti og beikoni, sem ég held að sé uppáhaldsmaturinn minn í öllum heiminum. Ólýsanlega gott.

Anja og ég fórum á djammið í Cancun, á stað sem heitir Mambo Cafe. Þar var brilliant 14 manna salsa band frá Kólumbíu, sem spilaði fyrir dansi. Við dönsuðum því salsa og eitthvað af merengue langt fram á morgun. Ég komst ekki nægilega oft útað dansa á þessum tíma í mið-Ameríku, en þetta djamm bætti upp fyrir það. Hún kann ekki að dansa og ég er kominn verulega úr æfingu, þannig að þetta var ekki eins smooth og vanalega. Í minningunni er ég nefnilega frábær salsa dansari, en það má sennilega þakka því að ég var alltaf leiddur af innfæddum gellum, sem gátu dregið mig áfram um allt gólfið. Ég er ekki alveg nógu fær til að leiða. Þyrfti að fá einhverja kennslu.

Við fórum svo og skoðuðum Chichen Itza, sem var fínt. Vorum eiginlega komin með nóg af Maya rústum, þar sem við höfðum heimsótt Lamanai í Belize og Tikal í Gvatemala á innnan við 10 dögum og auk þess er Tikal umtalsvert merkilegri rústir heldur en Chichen Itza, þannig að þetta var hálfgert anti-climax. En samt ágætt.

Flaug svo hingað til Washington í gær og gisti hjá vinum mínum. Fór á djammið í gær með nokkrum Íslendingum. Skemmti mér verulega vel á hefðbundnu bandarísku bara-fylleríi. Var því fáránlega þunnur í dag. Fórum á bar og horfðum á [hörmungina](https://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2005/10/02/17.13.55/) í morgun. Það lagaði ekki beint þynnkuna. Er í raun ennþá hálf þreyttur. Kíktum svo yfir í Georgetown og borðuðum kvöldmat frá uppáhalds pizza [staðnum](http://www.cpk.com/) mínum.

Kíkti á netið og sá að Santa Ana eldfjallið í El Salvador, sem ég var nálægt fyrir um [þremur vikum](https://www.eoe.is/gamalt/2005/09/05/23.32.43/index.php) er byrjað að [gjósa](http://www.mbl.is/mm/frettir/erlent/frett.html?nid=1161286). Á sama tíma er lítill fellibylur að fara [yfir Yucatan og norður-Belize](http://news.xinhuanet.com/english/2005-10/03/content_3577493.htm), þar sem ég var í síðustu viku. Anja, sem er enn í Cancun segir að þar hafi rignt stanslaust síðan að ég fór. Magnað.

Ég á svo flug heim annað kvöld. Ætla að reyna að ljúka þessari ferðasögu þegar ég kem heim. Já, og set inn myndir. Þetta er búin að vera yndisleg ferð…

Skrifað í Washington D.C., Bandaríkjunum klukkan 22:50

Mið-Ameríkuferð 10: Cancun

Jei, kominn til Cancun. Komst aldrei hingað í spring break í háskóla. Það næsta, sem ég komst var Panama City Beach á Florida. Lonely Planet bókin mín er samt algjörlega á móti Cancun og segir að það sé hallæris-staður með fullt af blindfullum bandarískum krökkum! Hvenær hefur það nú talist ókostur, spyr ég?

Allavegana kom hingað klukkan 3 í gærnótt. Anja er eitthvað að vesenast í banka (mín ráðleggging: Ekki fá ykkur kreditkort hjá Deutche Bank, þau eru drasl. Íslandsbanki er miklu betri!) og því hef ég ekki ennþá komist á ströndina þrátt fyrir að veðrið sé æði. Hef líka núna verið í Mexíkó í meira en **12 klukkutíma** án þess að fá mér tacos al pastor. Það er hneyksli. HNEYKSLI!


Komst ekki í bláu holuna. Fólkið, sem átti pantað með okkur í ferðina veiktist og því varð að fresta ferðinni um tvo daga. Við Anja fórum þess í stað í köfun útí kóralrifin rétt fyrir utan Caye Caulker. Sáum risa skjaldböku og fullt af dýralífi, en því miður enga hákarla. Verður að bíða betri tíma.

Vippuðum okkur svo yfir til meginlandsins og til Orange Walk, sem er bær útí rassgati í Belize. Þaðan tókum við svo 2 tíma bátsferð í gegnum regnskóginn til Lamanai, Maya borgarinnar. Nokkuð interesting, þrátt fyrir að Tikal hafi jú verið talsvert áhrifameira. En bátsferðin var skemmtileg, þrátt fyrir að þýsku fuglaskoðararnir hafi látið fararstjórann stoppa óþarflega oft. Ég get hreinlega ekki tapað mér yfir fuglaskoðun, sama hvað ég reyni.

Þetta var jú í gær og um kvöldið keyrðum við að landamærunum og svo í ískaldri glæsirútu (jamm, við erum komin í siðmenninguna í Mexíkó) alveg hingað til Cancun. Á leiðinni var svo sýnd Shaolin Soccer á spænsku. Það er mikið þrekvirki í kvikmyndagerð.

Í dag: Ströndin.
Á morgun: Chichen Itza og djamm.
Á laugardagsmorgun: flug til Miami og þaðan til DC. Jammmmmm!

*Skrifað í Cancun, Mexíkó klukkan 12:48*