Stjórnmálavitleysa

Ég er að fara til útlanda aftur á laugardaginn og verð í nærri tvær vikur í eintómu vinnu stússi. Nú er það ákveðið að ég fer til Kölnar, Frankfurt, Prag (nýtt land, Jibbíííííí) og svo til Amsterdam. Verð yfir helgi í Prag, þannig að ég get túristast. Er eitthvað, sem ég þarf nauðsynlega að gera í Prag?


Það skal enginn segja mér annað en að þessi [Birkir](http://www.framsokn.is/framsokn/kjornir_fulltruar/nordausturkjordaemi/birkir_jon_jonsson/) framsóknar-Alþingis-maður sé svona 10 árum eldri en ég! Lágmark! Ég neita að trúa öðru!!!

NEITA ÞVÍ!!!

(sjá [sönnunargagn A](http://servefir.ruv.is/dagskra/streaming/default.asp?channel=1&date=2005-01-24&file=4214482))


Úr sjónvarsfréttum RÚV:

>**Samfylkingin á Akureyri telur nauðsynlegt að næsti varaformaður Samfylkingarinnar verði af landsbyggðinni.**

*(Lemur hausnum í vegginn)*


Staksteinar í Mogganum er einhver alversta froða í íslenskum fjölmiðlum. Í síðustu viku birtist þessi snilld:

>**Í þeim kosningum var Ingibjörg Sólrun forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar. Hún varð ekki forsætisráðherra.**

>**Það er hægt að færa rök að því, að þjóðin hafi hafnað Ingibjörgu Sólrúnu, sem forsætisráðherra í síðustu kosningum.**

HALLÓ! Í fyrsta lagi legg ég til að Mogginn hætti að hafa Staksteina á síðustu innsíðunni í blaðinu, því þá endar maður alltaf lesturinn reiður. Í öðru lagi, eru þeir ekkert að grínast með þessa vitleysu?

Það vill svo til að Ingibjörg Sólrún, Halldór Ásgríms og Davíð Oddson voru öll í framboði í sama kjördæminu, Reykjavík Norður. Hvaða flokkur skyldi hafa fengið [flest atkvæði í Reykjavík Norður](http://www.kosningar2003.is/web/NyttEfni?ArticleID=1067)? Var það kannski Framsókn? Nei, Framsókn og Halldór Ásgríms fengu bara 11% atkvæða. Nú þá hlýtur það að hafa verið Davíð og Íhaldið! Neibbs, Davíð fékk bara 35%. Ingibjörg, Össur og Samfylkingin fengu hins vegar 36%.

Samfylkingin var því stærsti flokkurinn í þessu kjördæmi. Má því ekki með sömu rökum segja að þjóðin hafi líka hafnað Davíð og Halldóri sem forsætisráðherraefnum?

Málið er auðvitað að þjóðin getur hvorki valið né hafnað forsætisráðherraefnum. Það er einmitt svo að maður, sem fékk 4.199 atkvæði í síðustu kosningum, er forsætisráðherrann okkar.

Lifi lýðræðið og lifi Moggalógík!


Annars er þetta búinn að vera [ljómandi fínn dagur](http://kaninka.net/sverrirj/011747.html).

Ferðasögur

Ég elska ferðabækur og þá sérstaklega ferðabækur eftir Bill Bryson. Ég hef lesið stærsta hlutann af bókunum hans, þar meðtalið [Lost Continent](http://www.amazon.com/exec/obidos/tg/detail/-/0060920084/qid=1106502191/sr=8-1/ref=pd_csp_1/102-8830672-3264159?v=glance&s=books&n=507846) þar sem hann ferðast um Bandaríkin og [Neither here nor there](http://www.amazon.com/exec/obidos/tg/detail/-/0380713802/ref=pd_sim_b_2/102-8830672-3264159?%5Fencoding=UTF8&v=glance), þar sem hann rifjar upp bakpokaferðalagið hans um Evrópu. Þegar ég er á ferðalagi vegna viðskipta á ég það til að leiðast inní flugvalla bókabúðir og kaupa bækurnar hans. Á óspennandi viðskiptaferðalögum er yndislegt að láta sig dreyma um meira spennandi ferðalög en dagsferðir til Noregs.

Í Póllandsferðinni kláraði ég [In a Sunburned Country]( http://www.amazon.com/exec/obidos/tg/detail/-/0767903862/ref=pd_sim_b_4/102-8830672-3264159?%5Fencoding=UTF8&v=glance), sem er ferðasaga Brysons frá því í Ástralíu. Ólíkt fyrri bókunum, þá er hann í þessari bók of heillaður af landi og þjóð til að vera jafn kaldhæðinn og vanalega. Bryson kolféll nefnilega fyrir Áströlum og landi þeirra. Og hann er alveg einstaklega góður í að lýsa kostum þeirra og í raun féll ég alveg fyrir Ástralíu bara af því að lesa bókina. Samkvæmt honum þá er Ástralía algjör paradís, full af hamingjusömu fólki, sem lifa í landi, sem er eitt hið ríkasta í heimi og njóta þess að hafa nærri fullkomið veður allan ársins hring. Ég get svo svarið það að oft á tíðum langaði mig að láta bókina niður og kaupa mér flugmiða beint til Sydney.

Ég hef reyndar kynnst nokkrum Áströlum um tíðina og þeir eiga það allir sameiginlegt að þeir geta ekki hætt að tala um Ástralíu. Þeir elska landið sitt og eru óendanlega stoltir. Þeir Ástralar, sem ég hef kynnst, eru einsog gangandi landkynning allan sólarhringinn. Þannig að það hlýtur að vera eitthvað verulega spes við þetta land. Mig langar allavegana að fara!


Hef annars klárað nokkrar bækur að undanförnu, sem eru þess virði að fólk lesi.

[What’s the matter with Kansas](http://www.amazon.com/exec/obidos/ASIN/0805073396/qid=1106502323/sr=2-1/ref=pd_ka_b_2_1/102-8830672-3264159) er frábær pólitísk bók, sem reynir að skýra hvernig Repúblikanar hafa smám saman náð völdum í miðríkjum Bandaríkjanna. Hún fjallar um það hvernig þeir fátækustu í landinu eru oft á tíðum dyggustu kjósendur Repúblikana, einungis vegna þess að fólk kýs útfrá trúarskoðunum í stað efnahagslegra ástæðna. Margt af þessu fólki hefur misst trúna á að stjórnvöld hjálpi við að bæta efnahagsástand þeirra og vona þess í stað að stjórnvöld beiti sér fyrir því að koma gildismati þeirra yfir á aðra. Þess vegna kýs þetta fólk Repúblikana, en efnahagsstefna þess flokks er þessu fólki beinlínis fjandsamleg.

Moral Values, sem þetta fólk telur mikilvægast allra málefna, breytist svo aldrei. Hollywood myndir halda áfram að versna, Howard Stern heldur áfram að vera vinsæll, fóstureyðingar eru ennþá löglegar og svo framvegis. Það eina, sem fólk hefur uppskorið eftir stuðninginn við Repúblikana eru skattalækkanir, sem hygla þeim ríkustu. Eða svo segir allavegana höfundurinn, Thomas Frank.

Las einnig [The Five People you meet in heaven]( http://www.amazon.com/exec/obidos/ASIN/0786868716/qid=1106502364/sr=2-1/ref=pd_ka_b_2_1/102-8830672-3264159), sem er góð. Já, og svo er [Moneyball](http://www.amazon.com/exec/obidos/tg/detail/-/0393324818/qid=1106502630/sr=8-1/ref=pd_csp_1/102-8830672-3264159?v=glance&s=books&n=507846) frábær, sérstaklega fyrir þá sem hafa áhuga á baseball og viðskiptum.

So come on courage, teach me to be shy


Ég verð að segja að ég hálfpartinn dáist að fólki, sem getur pikkað út manneskju á djamminu, gengið uppað henni og hafið samræður um ekki neitt.

Ég fer á djammið vegna þess að mér finnst það skemmtilegt, en auðvitað er vonin um að finna einhvern líka partur af þessu. Það situr þó svo lítið eftir að kvöldi loknu. Í gær sá ég svo sæta stelpu á dansgólfinu að ég fékk í magann þegar hún dansaði rétt hjá mér. Hún var svo sæt að ég fann mig næstum þvi knúinn til að fara uppað henni og segja eitthvað glatað. *Næstum því!* En ég vissi ekki hvað það átti að vera, svo ég hætti við. Svo sá ég hana uppi talandi við einhvern strák og þar með var hún útúr mínu lífi. Og ég get ekki einu sinni lýst henni almennilega í dag. Kannski ef ég hitti hana aftur myndi ég muna eftir henni. Kannski ekki.

Svo sá ég aðra stelpu á dansgólfinu og sama sagan endurtók sig.

Það situr ekkert eftir í manni. Einu skiptin undanfarna mánuði, sem eitthvað hefur setið eftir í mér daginn eftir, var þegar ég hitti stelpur, sem ég hafði hitt áður. Hitti fyrir einhverjum vikum eða mánuðum stelpu, sem ég var með í skóla einu sinni en hafði ekki séð í langan tíma. Hún stóð uppúr í minningunni daginn eftir, en það gera ekki stelpur, sem maður hittir í fyrsta skiptið á djamminu. Svona er það bara.


En ég var samt á æðislegu djammi. Var með vinnunni á Thorvaldsen Bar í mat og drykk og fór svo með nokkrum á Pravda og seinna á Hverfisbarinn, þar sem ég var eitthvað frameftir. Dansaði mikið og skemmti mér æðislega.

Kom þó heim og setti Damien Rice á og sofnaði á sófanum. O er ekki beint plata, sem ég hlusta á þegar ég er í stuði, þannig að eitthvað var ég daufur í lok kvöldsins.

Vaknaði í morgun og fannst að ég hefði gert einhvern skandal, en fattaði svo að kvöldið hafði bara verið æðislegt og ég hafði hvorki sagt né gert neitt vitlaust. Labbaði niður í bæ til að sækja bílinn minn og hélt að ég hefði losnað við þynnkuna, en eftir fótboltagláp var ég orðinn svo slappur að ég ákvað að fara að sofa. Vaknaði um kl. 7. Drakk 1 lítra af Kristal og horfði á Simpsons frá því í gær. Settist svo niður hér og hugsa minn gang. Sá að ég hafði fengið email frá fóstursystur minni í Venezuela, og talaði svo við góðan vin á MSN. Sit núna og hlusta á Sea Change með Beck. Ég eeeelska þessa plötu! Líður einsog það sé sunnudagskvöld en er því feginn að það er bara laugardagur.


Mér finnst alltaf erfitt að koma aftur í vinnuna eftir hlé. Þegar maður er í vinnuferðum erlendis eiga verkefnin til með að hlaðast upp á meðan. Ég mætti í vinnuna á fimmtudag frekar þreyttur eftir að hafa komið heim seint í daginn áður. Það er eiginlega dálítið yfirþyrmandi að lesa svona mikið af tölvupósti á svo stuttum tíma. Í vinnupóstinum höfðu hlaðist upp um 90 skeyti og í prívat póstinum um 10. Maður verður kolklikkaður á að lesa svona mikið af pósti og tilfinningarnar verða fáránlega brenglaðar.

Á tæpum klukkutíma komst ég að því að ég hafði móðgað eina manneskju verulega, fundur sem ég fór á fyrir nokkrum vikum – bar lítinn árangur, þessi aðili hafði verið að kvarta, þessi aðili er byrjaður á þessu, hinn aðilinn er byrjaður á hinu. Þessi er reiður, þessi er glaður og svo framvegis…

Það bærast svo margar tilfinningar með manni eftir allan þennan lestur. Maður er ánægður með einn hlut en fúll yfir öðrum. Allt saman var þetta eiginlega of mikið fyrir mig þann daginn, sérstaklega þar sem ég var svo þreyttur. Þannig að dagurinn varð allur hálf skrítinn. En svona er þetta.

Aukavinna

Við erum að leita okkur að fólki á Serrano. Þetta eru vaktir í afgreiðslu á daginn frá 16-20 og svo um helgar. Mjög sveigjanleg vaktaplön. Ef þú, eða einhver, sem þú þekkir, er að leita sér að vinnu með skóla, endilega sendið mér línu á serrano (@) simnet.is. Ég ætla að reyna að taka viðtöl á morgun inní Kringlu.

Warszawa


*Auðvitað* eru Pólverjar fínir. Þrír dagar eru nú ekki langur tími til að kynnast þjóð, en það er allavegana byrjun. Fyrir það fyrsta eru allir Pólverjar Pólverjar. Það er, það eru allir eins, allir af sama stofni, allir hvítir. Ekki það að Pólverjar hafi eitthvað á móti innflytjendum, þetta bara er svona. Það var ekki fyrr en á þriðja degi sem ég sá svartan mann og ég sá aldrei neinn frá Asíu eða Mið-Austurlöndum. Dálítið magnað aðeins 300 kílómetra frá Þýskalandi.

Því miður eru stelpurnar ekki jafn huggulegar og í Rússlandi. Þær eiga þó það inni að mér finnst svo yndislega krúttulegt að heyra stelpur tala slavnesk tungumál. Finnst það næstum því jafnflott og að heyra argentískar stelpur tala spænsku. Ég held að ég yrði miklu fyrr hrifnari af stelpu ef hún talaði við mig á rússnesku eða pólsku frekar en einhverju öðru tungumáli.

En allavegana, fyrir utan vinnu gat ég skoðað smá hluta af Varsjá, bæði í leigubíl og gangandi. Ég keypti mér Lonely Planet bók um Pólland og las um sögu þessa lands á leiðinni. Ég er ákveðinn að koma aftur til Póllands og fara þá niður til Kraká og skoða þá borg sem og Auschwitz.

Varsjá ber þess á ýmsan hátt merki hversu illa borgin varð úti í Seinni Heimsstyrjöldinni. Aðeins 50% íbúanna lifðu af Heimsstyrjöldina og aðeins 15% bygginganna stóðu þegar að Nasistarnir höfðu lokið sér af. Ég hafði engin tækifæri til að fara þar sem Gettó-ið var áður og sjá minnismerki um hetjulega baráttu Gyðinga og Pólverja, en ég er harðákveðinn í að gera það næst þegar ég kem til Varsjár. Það er svo ótrúlegt hvað þessi þjóð hefur mátt þola í gegnum tíðina enda hafa fáar þjóðir verið jafn einstaklega óheppnar með nágranna.

Sú staðreynd að svona fáar byggingar lifðu styrjöldina af veldur því að borgin er ansi lituð af arkitektúr áranna eftir Heimsstyrjöldina og eru byggingarnar þá undir áhrifum frá Sovétríkjunum og þeim arkitektúr sem þar var vinsæll. Til að mynda er hæsta byggingin, Palace of Culteres nánast alveg einsog systurnar sjö, sem Stalín lét byggja í Moskvu. Palace of Cultures var jú gjöf Sovétmanna til Pólverja og voru nokkuð skýr skilaboð um það hver stóri bróðir væri, því lengi vel var bannað að byggja hærri byggingar í Varsjá.

Gamli miðbærinn hefur að hluta til verið endurreistur einsog hann var, en einnig að hluta til einsog hann var ekki. Sumar byggingar eru byggðar einungis svo þær líti út fyrir að vera gamlar. Bærinn er þó sjarmerandi, þótt að matsölustaðurinn, sem við borðuðum á fyrsta kvöldið í miðbænum hafi verið lygilega slappur. Innblásinn af Lonely Planet bókinni pantaði ég Bigos af matseðlinum, sem er víst það pólskasta af öllu pólsku í pólskri matagerðarlist. Þetta var ofsoðið kál borið fram í óætu brauði. Bragðaðist jafnvel verr en það hljómar.

Svo er Pólland auðvitað orðið mekka kapítalismans og með hreinum ólíkindum hvað það er hægt að opna marga KFC og McDonald’s staði á ekki lengri tíma. Þarna eru Kringlur útum allt og allir súpermarkaðirnir eru í eigu Carrefour og Tesco. KFC, H&M, Pizza Hut, Zara og McDonald’s á hverju götuhorni. Þetta ætti ekki að koma mér á óvart eftir veru mína í Rússlandi, en stundum getur maður ekki annað en gapað yfir ógnarkrafti kapítalismans.

Myndavélin mín varð batteríslaus á versta tíma, þannig að ég tók engar myndir. Ég held einmitt að myndavélin fái þráðlaust rafmagn úr íbúðinni minni. Hún virðist alltaf vera fulllhlaðinn heima hjá mér, en um leið og ég tek hana útúr húsi, þá verður hún batteríslaus. Helst reynir hún að vera batteríslaus þegar að hleðslutækið er í öðru landi. Ég verð því bara að taka myndir næst.

Ólafur Teitur og fréttayfirlit

Ólafur Teitur, frjálshyggju- og [Liverpool](https://www.eoe.is/liverpool/) maður er alveg ótrúlegur. Fyrir tveim vikum finnur hann einhvern prófessor, sem vill íhuga það að Ísland segi upp EES samningnum og tekur sjálfur við hann viðtal, sem er sett á forsíðu Viðskiptablaðsins.

Síðan fær hann til sín í sjónvarpssal hinn Íslendinginn, sem heldur uppi sömu skoðun og vitnar þar í eigin viðtal í Viðskiptablaðinu (sem hann tekur aldrei fram að hann hafi tekið) og lýsir því síðan sigri hrósandi í lok þáttarins að nú sé komin af stað umræða í þjóðfélaginu um að segja upp EES samningnum. Já, og svo kemur hann með 5 mínútna innslag um að RÚV hafi ekki haft einhverja frétt í fréttayfirliti á meðan að skyldar fréttir komust í yfirlitið. Algjör snilld!

Þunglyndi og markverðir frá Póllandi

Það er ekki á mann leggjandi að byrju þynnkudag á því að Liverpool tapi fyrir Man United. Ég er búinn að vera hálf þunglyndur í allan dag. Var á djammi í gær en reif mig upp þegar nokkrir vinir komu í heimsókn til að horfa á leikinn. Leikurinn var svo ömurlegur. Skap mitt er sambland af þreytu, þynnku og þessu tapi. Semsagt ekki skemmtilegur kokteill.

Ætla að fara snemma að sofa í kvöld, þar sem ég held að frekari mannleg samskipti séu ekki æskileg. Nokkuð góður mælikvarði á það er þegar mamma fer að kvarta yfir því að ég sé alltof daufur.


Það var semsagt starfsmanndjamm á Serrano í gær. Mjöög skemmtilegt. Upphaflega ætlaði ég ekki að drekka, en það klikkaði. Fór svo í bæinn með fólkinu. Allir vildu fara á Gaukinn, þar sem það virðist vera staður fyrir uuuuunga fólkið. Semsagt staður þar sem öllum er hleypt inn. Dyravörðurinn spurði mig um skilríki og ég spurði tilbaka: Ertu að spyrja MIG um skilríki. Hann leit á mig og sagði, nei drífðu þig bara inn.

Ég meina þetta var einsog á þriðjubekkjarkvöldi í Verzló. Ég er nú alltaf hræðilega slappur í því að segja til um aldur stelpna (mér finnst þær alltaf vera miklu eldri en þær eru) en strákarnir þarna virtust margir hverjir ekki vera mikið eldri en 14. Eða það fannst mér allavegana. Ég gafst fljótt upp. Var líka ekkert alltof hress eftir veikindin. Hafði verið í fínu stuði í partíinu, en hafði greinilega ekki úthaldið með mér. Ákvað bara að fara heim, þrátt fyrir að ég hafi nú ekki verið mjög drukkinn.


Á mánudaginn er ég að fara til Póllands, heimalands Jerzy [fokking](https://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2005/01/15/15.00.57/) Dudek og verð í þrjá daga í Varsjá. Ég hef alltaf haft ákveðna fordóma gagnvart Póllandi, sem ég veit ekki almennilega af hverju eru til staðar en mig hlakkar samt til að fara til Póllands. Ég er bölvaður asni að nýta ekki ferðina betur og reyna að túristast eitthvað, en maður ætti þó að sjá eitthvað. Kannski verð ég alveg heillaður og losna við alla mína fordóma. Hver veit?


Kannski er þetta þynnkan, sem talar. Eeeen, mér finnst Fall to Pieces með Velvet Revolver vera helvíti flott lag. Ég fíla [Slash gítarinn](http://www.fitzmulti.com/bands/slash.jpg), enda var ég mikill Guns ‘n Roses aðdáandi. Ég var líka ýkt mikill Stone Temple Pilots aðdáandi, þannig að mér líður einsog ég sé 15 ára all over again þegar ég hlusta á þetta.

Gott sjónvarp

Ég mæli með [Kenny og Spenny](http://www.cbc.ca/kennyvsspenny/) á Popp Tíví. Ég hló mun meira að þeim þætti heldur en Office þættinum á undan. Það segir ansi mikið.

Þættirnir byggjast uppá tveim vinum, sem eru alltaf í keppni. Í þættinum, sem var sýndur í kvöld, voru þeir að keppast um hver gæti vakað lengur. Þetta er hrein kanadísk snilld! Ég held að þetta hafi verið endursýning, en þættirnir eru á mánudagskvöldum að mig minnir.

En Office þátturinn var líka auðvitað snilld. Ég á þessa þætti á DVD en horfði á þáttinn aftur í kvöld. Besta línuna átti David Brent:

>Spyrill “When was the last time you had an actual girlfriend?”
David Brent: “I don’t look on it as when. I look on it as who, and why.”

Snilld!


Finnst einhverjum þættir einsog Bacelor og Bachelorette vera skemmtilegir þegar þeir eru komnir á þetta 1on1 stefnumótastig? Er ég kannski bara bitur og leiðinlegur að finnast það með ólíkindum leiðinlegt sjónvarpsefni að horfa á fólk kúra uppí sófa?


Á kontakt listanum mínum eru fjórir veikir (eða allavegana fjórir, sem taka það fram). Ég held að ég hafi smitað fólk af flensu í gegnum MSN. Það hlýtur að teljast kraftaverk í læknaheiminum.

Útvarpsleysi

Vá, ég hélt að það kæmi mér ekkert á óvart á þessum blessaða fjölmiðlamarkaði, en samt á ég bágt með að trúa því að þær þrjár útvarpsstöðvar, sem ég gat hlustað á, Radio Reykjavík, Skonrokk og X-ið, séu allar hættar.

Í fyrsta lagi er mögnuð sú snilld að ÍÚ hafi sett upp Skonrokk beinlínis til að koma Radio Reykjavík á hausinn og þegar það tókst, þá hættir Skonrokk líka. Það er fokking magnað. Einnig á ég bágt með að trúa því að X-ið skuli ekki geta gengið. Ég hef bæði hlustað og auglýst talsvert á þessari stöð og fannst mér auglýsingarnar vera að skila góðum árangri hjá þeim hóp, sem maður var að sækjast eftir.

Það að þessar stöðvar hætta þýðir líka að nú er ég búinn að missa þrjá af þeim fjórum þáttum, sem ég hlusta á í útvarpi. Ég hlustaði alltaf á Tvíhöfða á morgnana, svo íþróttaþáttinn í hádeginu og loks Freysa á leið heim úr vinnu. Fjórði þátturinn er svo Spegillinn, sem er enn varinn af skattpeningunum mínum.

En mikið er þetta ömurlegt að við skulum sitja eftir með ÞRJÁR ömurlegar eighties stöðvar (Létt, Bylgjan og Mix) og tvær snargeðveikar froðu stöðvar (FM og Kiss) en enga stöð, sem spilar rokk, alvöru hip-hop eða aðra framsækna tónlist. Ég er í vinnunni þegar Poppland er á Rás 2, þannig að ég hef ekki tækifæri til að hlusta á það.

Þetta er ömurlegt ástand. Þrátt fyrir að ég eigi iPod og mikið af tónlist, þá hlusta ég mikið á útvarp. Alveg er ég viss um að þessi nýja talmálsstöð Norðurljósa mun setja Útvarp Sögu á hausinn og svo muni þeir stuttu síðar hætta með þá stöð. Ég vona bara að einhverjir (kannski Kiss, Mix liðið) taki hjá sér og stofni nýja rokkstöð. Ég trúi ekki öðru en að það sé nægilega stór markhópur fyrir Tvíhöfða og Freysa í útvarpi.

AF HVERJU GÁTU ÞEIR EKKI LOKAÐ EFF EMM? AF HVEEEEERJU?

Fleiri skoðanur á málinu hjá [Dr. Gunna](http://www.this.is/drgunni/gerast.html), [Pezus](http://www.pezus.blogspot.com/2005_01_01_pezus_archive.html#110561075441885875) og [Gulla](http://www.hi.is/~gullikr/digitalbomb/2005_01_01_archive.html#110560237620771732)

Uppáhalds borgirnar mínar

Þegar maður er veikur í fimm daga verður maður að finna sér eitthvað til dundurs. Ég ákvað að taka saman þennan lista yfir uppáhaldsborgirnar mínar.

Ég vona svo innilega að þessi listi muni breytast á næstu árum og ég finni nýjar borgir, sem heilli mig meira en þær á listanum.

  1. Chicago: Auðvitað er ég sérstaklega hrifinn af Chicago vegna þess hversu miklum tíma ég eyddi þar. En borgin er æði. Fyrir það fyrsta er hún fallegasta borg Bandaríkjanna. San Fransisco er á fallegri stað, en Chicago er fallegri borg. Fallegri byggingar, hreinni og svo framvegis. Chicago hefur allt, sem maður þarf á að halda. Bestu veitingastaðir, sem ég hef farið á, frábært næturlíf, strönd og svo framvegis. Og það, sem mestu skiptir, hún hefur æðislegasta íþróttavöll í heimi, Wrigley Field. Ég get ekki nefnt margt, sem mér hefur fundist skemmtilegra um ævina en að eyða eftirmiðdegi í sólinni á Wrigley Field, drekkandi bjór og horfandi á baseball. Það er ógleymanleg lífsreynsla.
  2. Buenos Aires: Besta næturlíf í heimi. PUNKTUR! Ég var með þremur vinum mínum í þrjár vikur í Buenos Aires og við gerðum nánast ekkert nema að djamma þar. Næturlífið er á fullu, sama hvort það er á mánudegi eða laugardegi. – Vissulega er borgin skítug, ekkert alltof heillandi á köflum, umferðin er sturlun og svo framvegis. En það er eitthvað við þessa borg, sem heillaði mig alveg uppúr skónum þegar ég var þar. Borgin hefur einhvern sjarma, sem erfitt er að lýsa.
  3. Moskva: Frábær borg. Einhver ótrúlegur kraftur og geðveiki tengd þessari blöndun á leifum kommúnismans og brjálæðis kapítalismans, sem hefur gripið borgina. Fólkið æði, stelpurnar eru í pilsum sama hvernig veðrið er, frábært næturlíf og endalaust af ferðamannastöðum til að heimsækja.
  4. Mexíkóborg: Margir, sem hafa komið til Mexíkóborgar eru ekki hrifnir. Mengunin er fáránleg, borgin er ótrúlega stór og virkar kannski ekki heillandi við fyrstu sýn. En ég varðástfanginn þegar ég bjó þar. Besti matur í heimi, án nokkurs vafa, yndislegt fólk og einstakt næturlíf. Jafnast ekkert á við það að drekka tequila og bjór fram eftir allri nótt og fá sér svo tacos á 500 manna veitingastað, sem er troðfullur klukkan 6 að morgni. Í Mexíkóborg upplifði ég í fyrsta sinn umferðaröngþveiti klukkan 4 að morgni. Það segir ansi mikið um þessa borg, bæði næturlífið og umferðina.
  5. Caracas: Svipað og með Mexíkóborg. Margir, sem hafa komið þangað fíla borgina ekki. En ég bjó þarna náttúrulega í ár og hef séð ansi margt. Sennilega fáar borgir, sem ég tengi jafn skemmtilegum minningum og Caracas. Æðisleg borg. Já, og þar býr líka fallegasta kvenfólk í heimi.
  6. Las Vegas: Af borgunum á listanum hef ég dvalið styst í Las Vegas. En borgin er ótrúleg. Það er í raun ekki hægt að lýsa henni fyrir fólki. En eftir að ég kvaddi borgina leið varla dagur án þess að mig langaði ekki aftur.
  7. Barcelona: Fallegasta borg, sem ég hef komið til. Ótrúlegur arkítektúr, frábær matur, frábært næturlíf og einstakt götulíf. Ein af þessum borgum, sem mig hefur alltaf langað til að verða eftir í.
  8. Havana: Draumur minn er að ég verði sjötugur og geti þá flutt til Havana. Þar myndi ég svo eyða eftirmiðdögunum drekkandi romm, reykjandi vindla og spilandi dominos við vini mína. Það væri indælt. Havana er æði. Það slæma við hana er hversu óheppnir Kúbverjar eru með leiðtoga, en það er líka auðvitað viðskiptabanninu að hluta til að þakka hversu sjarmerandi borgin er í dag.
  9. New York: Sú borg, sem mig langar hvað mest að búa í. Það er eitthvað yndislega heillandi við allan mannfjöldann, allar byggingarnar og alla geðveikina.
  10. New Orleans: Ef að Buenos Aires er með besta næturlíf í heimi, þá er New Orleans ekki langt undan. Ég eyddi þarna spring break með vinum mínum og því djammi mun ég seint gleyma. Áfengi er selt á götum úti einsog svaladrykkir og það eru allir í brjáluðu stuði, hvort sem það er útá götum eða inná stöðum í franska hlutanum. Ótrúlegt að þessi borg skuli vera í Bandaríkjunum, vo ótrúlega ólík öllu öðru í landinu.

Aðrar borgir, sem komu til greina: Rio de Janeiro – Brasilía, Salvador de Bahia – Brasilíu, San Fransisco – USA, St. Pétursborg – Rússland, Montreal – Kanada. Ég hef ekki komið til Asíu, Afríku og Eyjaálfu auk þess sem ég hef ekki heimsótt evrópskar borgir einsog Prag, París, Róm og Berlín.

p.s. látið mig vita ef þið lendið í vandræðum með að kommenta. einarorn (@) gmail.com – ég er nefnilega að prófa nýtt til að verjast kommenta spami.